Átök á fyrsta ársfundi ASÍ Á ÁRSFUNDI ASÍ á þriðjudag komu upp átök vegna kjörs manna í miðstjórn og fór allt þinghald úr skorðum vegna þess. Fundi sem hefjast átti kl.

Átök á fyrsta ársfundi ASÍ

Á ÁRSFUNDI ASÍ á þriðjudag komu upp átök vegna kjörs manna í miðstjórn og fór allt þinghald úr skorðum vegna þess. Fundi sem hefjast átti kl. 9 var tvívegis frestað og lá þinghald niðri í um tvær stundir, meðan forystumenn tókust á í bakherbergjum. Þá var Halldór Björnsson endurkjörinn varaforseti ASÍ.

Lenti á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar

MIKILL viðbúnaður var vegna sprengjuhótunar, sem rituð var með varalit á salernisspegil Boeing 747-400 þotu bandaríska flugfélagsins United Airlines á mánudag. Almannavarnir, lögregla, landhelgisgæsla og sjúkrahús voru í viðbragðsstöðu og björgunarsveitir voru kallaðar út. Engin sprengja fannst við leit og er álitið að um gabb hafi verið að ræða. Engar tafir urðu á millilandaflugi á flugvellinum af þessum sökum.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, fór fram á að taka yfir rannsókn málsins og er henni áfram haldið ytra. Að sprengjuleit lokinni var vélinni flogið aftur til Bandaríkjanna síðdegis á þriðjudag og með henni farþegarnir og áhöfn flugvélarinnar.

16 ára fangelsi fyrir manndráp

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á þriðjudag Atla Guðjón Helgason í 16 ára fangelsi fyrir að verða Einari Erni Birgissyni að bana í nóvember sl. Í dómnum segir að um ásetning hafi verð að ræða hjá Atla. Þá var Atli dæmdur til að greiða sambýliskonu og foreldrum Einars Arnar miskabætur samtals á fimmtu milljón króna.