Félagar í Falun Gong leggja mikla stund á hugleiðslu og líkamsæfingar ýmiss konar. Er hreyfingin bönnuð í Kína og þar er meðal annars reynt að brjóta hana á bak aftur með því að loka félagsmenn inni á geðveikrahælum.
Félagar í Falun Gong leggja mikla stund á hugleiðslu og líkamsæfingar ýmiss konar. Er hreyfingin bönnuð í Kína og þar er meðal annars reynt að brjóta hana á bak aftur með því að loka félagsmenn inni á geðveikrahælum.
SÍÐAST þegar Jiang Zemin, forseti Kína, tók þátt í Ráðstefnunni um velsæld í heiminum í Hong Kong veitti Gerald Levin, forstjóri Time-Warner-samsteypunnar, honum verðlaun sem kennd eru við Abraham Lincoln.
SÍÐAST þegar Jiang Zemin, forseti Kína, tók þátt í Ráðstefnunni um velsæld í heiminum í Hong Kong veitti Gerald Levin, forstjóri Time-Warner-samsteypunnar, honum verðlaun sem kennd eru við Abraham Lincoln. Jiang forseti mætti nýlega aftur á þessa alheimsráðstefnu leiðtoga í viðskiptaheiminum en sem betur fer var sams konar friðþæging ekki endurtekin. Á sama tíma og Jiang brýtur niður Falun Gong-hreyfinguna með handtökum eða dæmir félaga hennar til vistar á geðveikrarhælum, er erfitt fyrir vestræna leiðtoga að lofa Jiang þótt þeir séu hallir undir Kína.

Kjarninn í baráttunni gegn Falun Gong-hreyfingunni hefur verið að fjarlægja marga félaga hennar með valdi og koma þeim fyrir á geðveikrahælum. Utan Kína hafa stuðningsmenn Falun Gong skrásett yfir hundrað slík tilfelli. Áætlað er að fjöldi þeirra sem fái "meðferð" af þessu tagi sé um sex hundruð. Þrír þeirra sem komið var fyrir á geðveikrahælum hafa að sögn þessara heimilda dáið vegna slæmrar meðferðar.

Fyrir utan Kína eru "Friðar- og heilsubúðirnar" á Ankang-eyjaklasanum ekki vel þekktar. Búðirnar, sem eru rúmlega tuttugu talsins, heyra undir ráðuneyti fyrir öryggi almennings en reksturinn er í höndum héraðsskrifstofa á hverjum stað. Pólitískir andófsmenn og aðrir sem eru flokkaðir með svipuðum hætti eru skoðaðir af rannsóknargeðlæknum ríkisins. Hin svokallaða sjúkdómsgreining hljóðar oft á þá leið að þessir einstaklingar séu "erfiðustu og hættulegustu" geðveiku glæpamennirnir og eiga þeir yfir höfði sér vistun á þessum leynilegu stofnunum.

Rannsóknargeðlækningar Kínverja hafa gengið í gegnum mörg stig. Á sjötta áratuginum voru sovésk áhrif ríkjandi (þau einkenndust af vafasömum, klínískum aðferðum þar sem ákveðinn pólitískur- eða trúarlegur skoðanamunur var skilgreindur sem sérstakt afbrigði af "hættulegum" geðsjúkdómi. Á tímum Menningarbyltingarinnar (1966-'76) þegar almennri sálfræði var hafnað og "rétt", pólitísk hugmyndafræði var samsömuð andlegu heilbrigði, voru allt að 50%-70% glæpamanna á svæðinu í kringum Shanghai í haldi vegna glæpa sem voru "pólitískir í eðli sínu".

Á níunda áratuginum varð geðræn þvingun aftur almennari eins og á árunum fyrir Menningarbyltinguna. Til að byrja með hófst tíundi áratugurinn með því að það dró úr beitingu geðlækninga sem styðja áttu pólitískan rétttrúnað. En frá og með blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar hefur einstökum andófsmönnum og öðrum sem ekki játa rétta trú aftur verið komið fyrir á sérstökum geðsjúkrahúsum án samþykkis þeirra og í ótilgreindan tíma.

Gott dæmi um þetta er Xue Jifeng sem barist hefur fyrir réttindum sem snúa að atvinnumálum almennings. Hann var tekinn höndum af lögreglunni í Zhengzhou, höfuðborg Henan-héraðs, í desember 1999 vegna þess að hann reyndi að komast í samband við aðra baráttumenn fyrir réttindum almennings. Hann var þvingaður til innlagnar á Borgargeðsjúkrahúsið í Xinxiang þar sem hann dvaldi til júlí árið 2000. Að sögn var geðlyfjum þvingað ofan í Xue og hann dvaldi í herbergi með raunverulega geðveikum einstaklingum sem héldu vöku fyrir honum á næturnar en öngruðu hann á daginn.

Öðrum baráttumanni fyrir réttindum tengdum atvinnumálum, Cao Maobing, var nýlega komið fyrir á geðsjúkrahúsi í Jiangsu-héraði af lögreglunni. Hann var handtekinn eftir að hafa komið gagnrýni á framfæri í gegnum erlenda blaðamenn og hefur síðan þá verið gefin lyf og einnig hefur hann verið þvingaður í raflostsmeðferð. Að sögn forstöðumanns sjúkrahússins var það skoðun hóps sérfræðinga að Cao væri haldinn "ofsóknarkennd".

Til hvers að grípa til svo flókinna og kostnaðarsamra aðgerða gegn pólitískum/trúarlegum andstæðingum þegar einfaldari aðferðir til að taka þá úr umferð, t.a.m. aftökur og fangelsun, eru handhægar til notkunar fyrir slíka einræðisherra? Ein skýring er sú að eftir valdatíð Maós í Kína, svipað og gerðist í Sovétríkjunum eftir dauða Stalíns, hættu umbótasinnar að taka pólitíska andstæðinga af lífi þar sem þeim var annt um að draga úr "ódæðisverkum" að hætti fyrri tíma.

En þar sem handtöku fylgdi ekki lengur aftaka, heldur löng fangelsisvist, áttu andófsmenn nú kost á sæmilegu tækifæri til að losna úr fangelsisvistinni eða vinnubúðunum. Eftir dauða Maós og Stalíns fór net andófsmanna því stækkandi í Sovétríkjunum og Kína. Í hinni pólitísku "þíðu" sem tók við gerði þessi þróun ekkert annað en að flækja málin að óþörfu fyrir þeim valdhöfum sem tóku við af þessum einræðisherrum. Því var nauðsynlegt að taka upp þróaðri aðferðir við að auka hræðslu meðal almennings og fátt er vænlegra gegn andófi en hræða menn með hugsanlegri vist á hæli fyrir geðsjúka glæpamenn.

Umheimurinn er ekki algerlega varnarlaus gagnvart þessari misnotkun Kínverja á geðlækningum. Árið 1983 leiddi langvarandi herferð Samtaka vestrænna geðlækna og alþjóðlegra mannréttindasamtaka til þess að Heildarsamtök sovéskra geðlækna og taugasálfræðinga dró sig út úr Heimssambandi geðlækna. Það gerðu þau til að forðast brottrekstur þaðan. Samtökunum var ekki hleypt aftur inn í heimssambandið fyrr en árið 1989, ekki fyrr en eftir mörg ár af perestojku og tímabil þar sem vestrænar sendinefnir innan geðlækninga fengu beinan aðgang að sovéskum stofnunum í rannsóknargeðlækningum.

Fyrsta skrefið í þessari baráttu ætti að vera krafa Heimssambands geðlækna og annarra fagstofnana í einstökum löndum að fá beinan aðgang að Ankang-búðunum og öðrum stöðum þar sem geðrænni þvingun er beitt samfara fangelsun. Stofnanir sem vinna að geðlækningum heimafyrir sem og alþjóðlegar stofnanir ættu einnig að hvetja ríkisstjórnir Vesturlanda og Evrópusambandsins til að setja geðræna þvingun í pólitískum tilgangi á formlegar dagskrár þeirra ráðstefna sem helgaðar eru mannréttindum en grundvallaratriði í samskiptum Kína og Vesturlanda snúast einmitt um mannréttindi.

eftir Robin Munro

Robin Munro er heiðursfélagi innan rannsóknarsviðs Lagadeildar og Miðstöðvar fyrir kínversk fræði sem heyrir undir Stofnun fyrir austræn og afrísk fræði (SOAS) við University of London.