Beniamino d'Agostino í víngerðarhúsinu í Gravina.
Beniamino d'Agostino í víngerðarhúsinu í Gravina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VÍN frá Púglía, héraðinu á hælnum á ítalska stígvélinu, voru til skamms tíma ófáanleg hér á landi en það er nú óðum að breytast, líkt og víðast hvar annars staðar.
VÍN frá Púglía, héraðinu á hælnum á ítalska stígvélinu, voru til skamms tíma ófáanleg hér á landi en það er nú óðum að breytast, líkt og víðast hvar annars staðar. Púglía væri sjöunda mesta vínframleiðsluríki veraldar ef það væri sjálfstætt ríki en vín þaðan hafa fyrst og fremst verið ómerkileg fjöldaframleiðsla sem ekki hefur einu sinni verið sett á flöskur heldur notuð sem grunnvín í vermút, þrúguþykkni og ýmiss konar blöndur. Nú hafa hins vegar stöðugt fleiri áttað sig á möguleikum héraðs ins, gömlum grónum vínekrum, einstöku loftslagi og frábærum þrúgum á borð við Negroamaro, Aglianico og Primitivo (Zinfandel). Þekktustu ræktunarsvæði Púglíu eru í Salice Salentino og Castel del Monte og löngum var það fyrst og fremst Causino heitinn Taurino, sem hélt uppi nafni gæðavíngerðar í héraðinu. Nú fjölgar aftur á móti stöðugt framleiðendum sem leggja áherslu á nútímalega gæðaframleiðslu, jafnt aðkomumenn sem ungir heimamenn. Meðal þeirra sem fallið hafa fyrir Púglía eru þau Mark Shannon og Elvezia Sbalchiero. Kaliforníubúinn Mark, sem hafði unnið við víngerð víða um heim í tvo áratugi, kom fyrst til Púglíu árið 1997 og féll fyrir svæðinu. Elvezia er hins vegar ítölsk, frá Friuli í norðausturhluta landsins, og kynntust þau þegar þau voru bæði að vinna verkefni á Sikiley. Þau ákváðu að taka höndum saman, jafnt í einkalífinu sem í starfi, og fjárfesta í víngerð á Ítalíu. Voru þau sammála um að Púglía væri besti staðurinn til að láta drauminn rætast. Samstarf náðist við Giovanni Giannico, þekktan ólívuolíuframleiðanda er hafði byggt upp víngerðarhús en síðan uppgötvað að hann hafði meiri áhuga á olíunni en vínunum. Sameiginlega reynslu sína af jafnt víngerð sem vínsölu nýttu þau Mark og Elvi til að byggja upp draumafyrirtækið sitt. Ákveðið var í byrjun að framleiða einungis eitt rauðvín sem yrði nefnt A Mano eða "handunnið" til marks um að í það yrði lagt hjarta þeirra og sál. Vínið er unnið úr Primitivo-þrúgunni eingöngu og gerðu þau samninga við bændur, sem áttu ekrur með 70-80 ára gömlum vínvið. Fyrsta vínið kom á markað í júní 1999 og það er óhætt að segja að það hafi tekið heiminn með stormi. A Mano hefur verið valið raunvín ársins á International Wine Challenge í London, verið hampað sem bestu kaup af bandaríska tímaritinu Wine Spectator og hrósað í hástert af flestum þekktustu vínsérfræðingum heims. Nú síðast fékk 2000-árgangurinn 93 punkta í Wine Magazine og toppaði listan yfir suður-ítölsk vín. Enda ekki nema von, vínið er bæði ódýrt og yndislegt.

Þau Mark og Elvi eru að sjálfsögðu ánægð með þennan árangur en hinn öri vöxtur fyrirtækisins hefur líka kallað á dýrar fjárfestingar í tæknibúnaði og gífurlega vinnu enda um tveggja manna fyrirtæki að ræða. "Við búum þetta vín til með ástríðu," segir Mark, sem ákvað að hverfa aftur til upprunans þótt hann nýti vissulega nýjustu tækni þar sem það á við. Það var nýjung í héraðinu er þau byrjuðu að borga bændum meira fyrir góðar þrúgur en ekki síður segir Mark það hafa verið upplifun fyrir bændurna að sjá að þrúgurnar þeirra væru hráefni er hægt væri að gera vín úr er vekti athygli um allan heim. "Á þeim rúmlega tuttugu árum sem ég hef starfað við víngerð hefur maður yfirleitt upplifað að samskipti þrúgubænda og víngerðarhúsa hafa verið fremur stirð. Ég vildi breyta því." Segja má að allir hagnist á þessu, þau fá betri þrúgur og bændur nú að meðaltali þriðjungi hærra verð en fyrir þremur árum.

Vegna hinna miklu vinsælda A Mano "neyddust" Mark og Elvi til að bæta við nýrri línu sem þau kalla Promessa. "Í þeim vínum getum við endurspeglað önnur svæði og þrúgur Púglía, sem við erum mjög spennt fyrir. Við ætluðum fyrsta að gera vín úr annað hvort þrúgunni Negroamaro eða þá Sangiovese. Viðskiptavinum okkar voru send sýnishorn og þeir beðnir um að ákveða. Niðurstaðan var að þeir vildu bæði vínin."

Nú hafa þau einnig bætt við Primitivo, ekki síst vegna mikillar eftirspurnar í Svíþjóð, og Rosso Salento, blöndu úr Primitivo og Negroamaro.

Það er hins vegar A Mano, sem stendur hjarta þeirra næst, enda segja þau reginmun á vínunum. Það vín sé að öllu leyti þeirra eigið en Promessa meira blanda úr vínum héraðsins. Þegar ég heimsótti Púglíu í vetur leyfðu þau Mark og Elvi mér að smakka tunnusýni af nýjasta listaverkinu, Prima Mano, frábæru víni þar sem meiri eik er notuð og blæbrigði Primitivo verða þar af leiðandi meira Kaliforníu "Zinfandelsk".

Það er hins vegar þekktasta vínfyrirtæki Ítalíu, Antinori, sem ráðist hefur í hvað mestu fjárfestingarnar í Púglíu síðastliðin ár. Fyrirtæki Antinori, Vigneti del Sud, á ekrur annars vegar í Castel del Monte og hins vegar skammt suður af Brindisi þar sem hann ræktar vín á mörg hundruð hekturum, sem seld eru undir nafninu Tormaresca. Þetta endurspeglar mikla trú Ítala sjálfra á þessu héraði og að menn eru að uppgötva að ekki þarf alltaf að fara langt út fyrir landsteinana til að finna framandi og spennandi svæði.

Heimamenn er líka að finna í hópi þeirra sem eru að koma Púglíu á kortið. Ágætt dæmi er Agostino-fjölskyldan sem rekur fyrirtækið Botromagno í bænum Gravina, við landamærin að Basilicata í austurhluta Púglíu. Það var hinn ungi Beniamino d'Agostino sem átti frumkvæði að því árið 1991 að fjölskyldan fór út í vínrækt. Hann var nýútskrifaður úr lögfræði er hann áttaði sig á því að hann hafði meiri áhuga á víngerð en lögum og sannfærði föður sinn um að taka þátt í því að fjárfesta í víngerð. Fyrir valinu varð vínsamlagið í Gravina, en bændur þar höfðu komist að þeirri niðurstöðu að best væri að koma rekstrinum í hendur annarra. Beniamino d'Agostino og fjölskylda hans hafa vægast sagt gert stórkostlega hluti og eru þau nú að byggja upp hátæknivædda sextán hundruð fermetra víngerð í Gravina.

Maður þarf ekki að eyða löngum tíma með honum til að finna að þarna er eldhugi sem ætlar sér stóra hluti. Uppistaða framleiðslunnar er hvítvínið Gravina, eitt hið besta frá Púglía, sem unnið er úr þrúgun Greco og Malvasia. Rauðvínið Pier delle Vigne er hins vegar ekkert til að skammast sín fyrir en þar er það þrúgan Aglinaico, sem leikur aðalhlutverkið. "Ég er sannfærður um að Aglianico geti orðið að okkar Brunello. Þessi þrúga þarf í það minnsta kosti fjögur ár til að sýna sitt besta andlit. Hún er hins vegar ekki í tísku sem stendur, framleiðendur hafa ekki fjármagn til að gera nógu góð vín og yfirleitt fara þrúgurnar því í blöndur vínsamlaganna."

A Mano 2000 , sneisafullt af rauðum og svörtum berjum, kirsuberjum, lakkrís, plómum, kryddi og jafnvel appelsínuberki. Yndislegt vín í alla staði, maður fellur fyrir því frá fyrstu kynnum og líkar stöðugt betur við það eftir því sem maður bragðar það oftar. Stórkostlega góð kaup á einungis 1.190 krónur á sérlista.

Promessa Sangiovese 1999 , vanilla, fjólur, dökk þroskuð ber. Í munni milliþungt, með nokkurri sýru og biti.

Promessa Negroamaro 1999 , dökkt og kryddað, örlítið brennt með miklu leðri. Hinn mikli karakter Negroamaro kemur vel í ljós, heitt og suðrænt vín með miklum sjarma. Mjög bragðmikið og spennandi, mýkist eftir því sem það er lengur í glasi og verður þykkara og sætara.

Tormaresca Chardonnay 1999 , opinn og einstaklega aðlaðandi ávöxtur. Sætur sítrus og hitabeltisávextir, ananas og vanilla. Þykkt en ferskt bragð með góðri lengd. Vín sem er á engan hátt eftirbátur ljúffengra Nýjaheimsvína, hvorki í ilm, bragði né verði.

Tormaresca Rosso 1999 , soðinn þungur ávöxtur, sultaður, maukuð rauð epli, heitt og kryddað. Í munni þétt. Ekki mjög einkennamikið í fyrstu, þarf smátíma til að opna sig. Einfalt vín en ágætt.

Gravina di Puglia 1999 , ferskt, nútímalegt og rómatískt vín. Í ilmi sumarblóm og þurrkaðar apríkósur, hressandi sýra og þægileg bragðuppbygging. Heillandi vín með mikinn karakter, sem hentar jafnt sem svalandi sumarlegur fordrykkur sem vín með grilluðum fiskréttum eða krydduðum austurlenskum mat.

Pier delle Vigne 1994 , vínið er farið að sýna þónokkurn þroska. Ávöxtur þurrkaður og rúsínulegur, þónokkurt krydd. Það er þó enn lifandi með sýru og þokkalegri þyngd. Sýnir vel karakter Aglianico-þrúgunnar þótt hér sé hún blönduð Montepulciano.

Steingrímur Sigurgeirsson