Dempararnir liggja lárétt ofan á afturstellinu og eru tengdir hjólörmunum með koltrefjastyrktum léttmálmsörmum. Vinstra megin er verkfærakistan.
Dempararnir liggja lárétt ofan á afturstellinu og eru tengdir hjólörmunum með koltrefjastyrktum léttmálmsörmum. Vinstra megin er verkfærakistan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
V10-VÉLIN í Carrera GT, sem sýndur var á sportbílasýningunni í Laugardalshöll í síðustu viku, er alveg ný hönnun frá grunni. Vélin er að öllu leyti þróuð hjá keppnisdeild Porsche í Zuffenhausen.
V10-VÉLIN í Carrera GT, sem sýndur var á sportbílasýningunni í Laugardalshöll í síðustu viku, er alveg ný hönnun frá grunni. Vélin er að öllu leyti þróuð hjá keppnisdeild Porsche í Zuffenhausen. Á milli raða strokkanna er 68° horn og slagrýmið er 5,5 lítrar. Hámarksafl er 558 hö og hámarkstog 600 Nm. Hámarkssnúningshraði er 8.200 sn./mín. Á hverju brunahólfi eru fjórir ventlar og soggrein sem veitir mismunandi miklu lofti inn í brunahólfin eftir snúningshraða og álagi. Með því móti er hraði loftstreymis alltaf sá ákjósanlegasti til að sem bestum bruna verði náð við mismunandi aðstæður. Einnig er vélin með breytilegum opnunartíma ventla.

Árangurinn er gríðarlegt afl á öllu snúningssviði vélarinnar en um leið lágmarksmengun í útblæstri og bensínnýtni eins og best verður á kosið.

Léttmálmsblanda í vélarblokk

Vélarblokkin er úr léttmálmsblöndu sem þolir mjög hátt hitastig og er á meðal léttustu véla miðað við afl enda hefur hún verið bönnuð í Formula 1 keppninni. Stimpilstangir eru úr títaníum. Styrkur þess og lítill þungi tryggir mjúkan gang og langa endingu þrátt fyrir mikið álag. Smurkerfi vélarinnar er lokað hringrásarkerfi. Það tryggir stöðuga og jafna smurningu við allar aðstæður og þar sem engin olíupanna er á vélinni verður fyrirferð hennar minni. Á meðal kosta þessa smurkerfis er að mikið miðflóttaafl, eins og myndast þegar ekið er á miklum hraða hring eftir hring á kappakstursbraut, hefur engin áhrif á smurningu núningsflata. Hreyfanlegir hlutir eins og stimpilstangir sulla heldur ekki í olíu sem eykur aflið um a.m.k. 15 hestöfl.

Þá eru gerðar sérstakar ráðstafanir í vélarrými vegna pústflækjanna báðum megin á vélinni, sem verða rauðglóandi þegar ekið er undir fullu álagi. Sérstök einangrun kemur í veg fyrir að pústkerfið hiti upp ökumanns- og farþegarými.

Sérstaklega hönnuð kúpling

Til að miðla svo gríðarlegu afli frá vél til drifs er Carrera GT, sem er afturhjóladrifinn, búinn sérstaklega hannaðri kúplingu (kúplingsdiskur úr hefðbundnum efnum myndi aldrei þola álagið) og fyrirferðarlitlum, beinskiptum 6 gíra kassa. Hvort tveggja er með minna þvermál en gengur og gerist en það hjálpar til að lækka þyngdarpunkt bílsins sem er óvenju lágt yfir jörðu. Fyrir bragðið er hægt að aka þessum Porsche Carrera GT hraðar í kröppum beygjum.

Það gefur augaleið að enginn venjulegur undirvagn ræður við vélarafl af þessari stærðargráðu og því hefur Porsche ekki lagt minni áherslu á þá tækni sem gerir kleift að nýta vélaraflið til hins ýtrasta. Undirvagninn, þ.e. botnplatan, hjólfestingar og bremsubúnaður, er byggður á Porsche GT1 - bílnum sem vann Le Mans kappaksturinn með eftirminnilegum hætti.

Carrera GT er eini sportbíllinn, ætlaður fyrir venjulega notkun, sem búinn er sambærilegri fjöðrunartækni og Formula 1 keppnisbíll. Fjöðrunin er stillanleg á öllum 4 hjólum þannig að bílinn má setja upp á mismunandi hátt fyrir mismunandi keppni. Léttmálmsfelgurnar eru smíðaðar eins léttar og hægt er. Þær eru 19 tommur að framan og 20 að aftan og gera m.a. kleift að hafa bremsudiska úr keramísku efni sem eru 380 mm að þvermáli. Kostir keramísku diskanna eru léttleiki og þeir endast 300 þúsund km. Til að stöðva diskana eru dælur með 8 stimplum að framan en 4 að aftan. Léttmálmsfelgurnar eru með holum rimum, en þá tækni hefur Porsche þróað til að minnka enn meir fjaðrandi vigt hjólanna. Það vekur einnig athygli að dempararnir, sem eru með gormum utan á að aftan, liggja lárétt ofan á afturstellinu og eru tengdir hjólörmunum með koltrefjastyrktum léttmálmsörmum. Með þessu móti minnkar fjaðrandi vigt hjólanna. Því minni sem fjaðrandi þyngd hjóls er því lengur og betur liggur það á veginum. Annað atriði sem vekur athygli er verkfærakista vinstra megin í vélarrýminu en í henni eru einhver vönduðustu verkfæri sem sést hafa í bíl.

Þessi öflugi bíll vegur 1.250 kg. Hámarkshraðinn er yfir 330 km/klst. Hann er innan við 4 sekúndur að ná 100 km hraða og innan við 10 sekúndur að ná 200 km hraða. Þessar tölur sýna jafnframt hvers vegna bremsukerfið er jafn öflugt og raun ber vitni. Það stöðvar bílinn á hvaða hraða sem er við allar aðstæður og á tíma sem fæstir aðrir bílar geta státað af. Fæstir hafa líklega hugleitt að til þess að stöðva svona bíl á örfáum sekúndum á 130 km hraða þarf bremsukerfið að skila 2.600-2.800 hestöflum.