SJÓÐIR Háskóla Íslands, eða svonefnt sjóðasafn hans, hagnaðist um ríflega þrjár milljónir króna milli áranna 1998 og 1999 og eign sjóðasafnsins í árslok 1999 nam alls um 15,7 milljónum króna.
SJÓÐIR Háskóla Íslands, eða svonefnt sjóðasafn hans, hagnaðist um ríflega þrjár milljónir króna milli áranna 1998 og 1999 og eign sjóðasafnsins í árslok 1999 nam alls um 15,7 milljónum króna. Hrein eign sjóða í vörslu Háskóla Íslands nam samtals um einum milljarði króna í árslok 1999, að því er fram kemur í árbók Háskólans fyrir árið 2000 sem er nýkomin út. Stærstu sjóðir í vörslu Háskóla Íslands eru Sáttmálasjóður með hreina eign upp á 162 milljónir króna, Háskólasjóður sem á 116 milljónir og Menningar- og framfarasjóður Ludvigs Storr sem á 144 milljónir.

Stærsti einstaki sjóðurinn er þó Háskólasjóður hf. Eimskipafélags Íslands. Hann er í tveimur hlutum og sá hluti sem Háskóli Íslands varðveitir átti í lok ársins 1999 11,5 milljónir en í vörslu Eimskipafélagsins voru 196 milljónir.

Páll Skúlason, rektor Háskólans, segir að flestir sjóðanna í sjóðasafninu séu minningarsjóðir og ætlað að styrkja og efla vísindastörf á tilteknum fræðasviðum. Hann segir að hver og einn sjóður lúti stofnskrá og kjörinni stjórn og sé undir eftirliti dómsmálaráðuneytisins. Ekkert fé fari úr þeim í rekstur Háskólans, heldur nýtist það fremur einstaklingum og framþróun í vísindum í einstökum fræðigreinum.

"Það er Háskólanum vitanlega mikill styrkur að hafa slíka sjóði að bakhjarli og finnan þann hlýhug sem liggur þeim að baki," sagði Páll og bætti við að í skoðun væru hugmyndir um endurskoðun stjórna sjóðanna með tilliti til breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði, svo þeir haldi áfram að eflast.

"Í flestum tilfellum er fé veitt úr þessum sjóðum af árlegum vaxtatekjum," segir Páll. "Höfuðstóllinn er aldrei skertur og beinlínis eru ákvæði um að Háskólanum beri að ávaxta féð svo það rýrni ekki."

Endurskoðun á fyrirkomulagi Háskólasjóðsins

Athygli vekur að í vörslu Eimskipafélags Íslands eru nálega 196 milljónir kr. sem eru hluti af s.k. Háskólasjóði Eimskipafélagsins. Sá sjóður er m.a. stór hluthafi í Eimskipafélaginu, á 5,5% hlutafjár.

Páll segir að viðræður hafi staðið yfir milli Háskólans og Eimskips um endurskoðun á fyrirkomulagi því sem ríkt hefur um eignarhald og vörslu sjóðsins. Forráðamenn Eimskips hafi unnið að mótun tillagna í því sambandi. Hann segir þau mál öll enn á vinnslustigi, en bendir þó að Háskólinn fái reglulega framlög úr sjóðnum, t.d. fimmtán milljónir kr. fyrir skemmstu til uppbyggingar á þráðlausum tölvunetum innan skólans.

"Við höfum fjallað um málefni Háskólasjóðsins við forráðamenn Eimskipafélagsins og segja má að ákveðin endurskoðun sé í gangi þótt þeirri vinnu sé ekki lokið," sagði Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands.