Kristnir menn minnast þess á hvítasunnu er heilagur andi kom yfir lærisveinana í Jerúsalem og þeir fylltust þeim krafti sem fylgt hefur kristinni kirkju til dagsins í dag. Á hvítasunnudag rættist fyrirheit sem Jesús hafði gefið lærisveinum sínum.
Kristnir menn minnast þess á hvítasunnu er heilagur andi kom yfir lærisveinana í Jerúsalem og þeir fylltust þeim krafti sem fylgt hefur kristinni kirkju til dagsins í dag.

Á hvítasunnudag rættist fyrirheit sem Jesús hafði gefið lærisveinum sínum. Meðan hann dvaldi með þeim sagðist hann mundi fara burt að búa þeim stað. Þeir áttu þó ekki að óttast, heldur trúa. Jesús sagðist ekki skilja þá eftir munaðarlausa, heldur myndi faðirinn á himnum gefa þeim annan hjálpara, anda sannleikans. Jesús sagði að andinn heilagi mundi kenna lærisveinunum og minna þá á það sem hann hafði kennt þeim.

Kirkja Krists miðar stofndag sinn við hvítasunnudag. Þetta samfélag heilags anda hefur teygt anga sína um allan heim undir merki krossins. Margt hefur drifið á daga kirkjunnar í aldanna rás. Hún hefur þó alltaf átt og á enn fyrirheitið um nærveru andans, nærveru Guðs sjálfs.

Oft hefur því verið haldið fram að trúin sé orðin úrelt. Eins að hún samrýmist ekki nútímaþekkingu og skynsemi. Nýjasta hefti vikuritsins Time er helgað umfjöllun um gagnvirka tækni, sem er ofarlega á baugi þessa dagana. Gerð er grein fyrir hinni öru þróun á þessu sviði og virðist tækninni lítil takmörk sett. Hún snertir flest svið daglegs lífs í hinum tæknivædda heimi, jafnt viðskipti, afþreyingu og tómstundaiðju, félagslíf og mannleg samskipti, stjórnmál, heilbrigðiskerfi og trúariðkun. Blaðamenn Time greina frá mörgum nýjungum sem unnið er að á sviði gagnvirkni. Til dæmis tækni sem á að gera kleift að stjórna tölvustýrðum búnaði, eins og gervilimum eða vélmennum, með hugsunum eða heilaboðum, án þess að til þurfi lyklaborð eða músarbendil.

Íslendingar þekkja vel kosti gagnvirkrar tækni. Þjóð okkar er í fremstu röð hvað varðar farsímanotkun og netvæðingu, gagnvirk tækni er orðin undirstaða umsvifamikils atvinnurekstrar. Tölvupóstur, spjallrásir og smáskilaboð hafa rækilega afsannað að Íslendingar séu pennalatir. Fólk fer á Netið til að afla sér upplýsinga og afþreyingar - en einnig til að iðka trú sína, eftir því sem fram kemur í Time.

Þar er sagt frá Steven Waldman, sem stofnaði Beliefnet (átrúnaðarnet), fjölsótt vefsetur um trúarbrögð. Waldman, sem var áður einn af ritstjórum tímaritsins US News and World Report, segist hafa veitt því athygli að þegar umfjöllun um trúarbrögð var slegið upp á forsíðu seldust þau tölublöð vel. Þó voru engin tímarit sem fjölluðu sérstaklega um trúarbrögð á hinum almenna blaðamarkaði.

Í Time segir ennfremur að könnun á vegum Barna Research Associates árið 1998 hafi leitt í ljós að 12% fullorðinna höfðu notað Netið í trúarlegum tilgangi og að einn af hverjum sex táningum töldu að þeir myndu fullnægja trúarþörf sinni í gegnum Netið innan næstu fimm ára. Þetta sýnir að trúarþörf manna er vissulega til staðar á tækniöld og að sumir reyna að svala henni á Netinu.

Trúin er gagnvirk í eðli sínu. Þar eigast við hinn trúaði og sá sem hann tilbiður. En gagnvirkri tölvutækni eru takmörk sett þegar að trúariðkun kemur. Seta við skjáinn kemur tæplega í stað lifandi samfélags. Þó eru til lönd í heiminum, þar sem tölvuskjárinn er eini snertiflöturinn við tiltekinn átrúnað.

Í hirðisbréfi sínu, Í birtu náðarinnar, fjallar Karl Sigurbjörnsson biskup m.a. um kirkjuna og nútímann: "Meginverkefni kristinnar kirkju á nýrri öld er að veita leiðsögn í andlegum efnum, að laða og beina för fólks til samfélags við lifandi Guð. Það gerist ekki með orðum, yfirlýsingum og boðmiðlun að ofan. Kirkjan verður að vera opin fyrir samtali og skoðanaskiptum í einlægni. Til þess þarf hún að finna leiðir til að mæta fólki þar sem það er, umfram allt þeim ungu. Og þjóðkirkjan verður að móta á vettvangi safnaða sinna nærsamfélag þar sem náðin er veruleiki, trúin og vonin og kærleikurinn eru ekki mynd á vegg heldur lifað líf."

Morgunblaðið óskar lesendum sínum gleðiríkrar og slysalausrar hvítasunnuhátíðar.