SUMARÁÆTLUN Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs hefur tekið gildi. Í kjölfar fjölgunar á farþegum verður ferðum fjölgað frá því sem tíðkast hefur í sumaráætlun fyrri ára. Herjólfur fer frá Vestmannaeyjum kl. 8.15 og frá Þorlákshöfn kl. 12.00 alla daga.
SUMARÁÆTLUN Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs hefur tekið gildi. Í kjölfar fjölgunar á farþegum verður ferðum fjölgað frá því sem tíðkast hefur í sumaráætlun fyrri ára. Herjólfur fer frá Vestmannaeyjum kl. 8.15 og frá Þorlákshöfn kl. 12.00 alla daga. Fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga eru aukaferðir kl. 15.30 frá Vestmannaeyjum og kl. 19.00 frá Þorlákshöfn. Frá 11. júní til 3. september bætast við aukaferðir á mánudögum á sama tíma. Breyting verður á áætlun vegna þjóðhátíðar Vestmannaeyinga um verslunarmannahelgina.

Nýjar reglugerðir um farþegaflutninga með ferjum gera ráð fyrir að skrá verði alla farþega með nafni. Farþegar eru hvattir til að staðfesta pantanir í síðasta lagi daginn fyrir brottför til að komast hjá biðröðum en margar helgar í sumar eru þétt bókaðar ekki hvað síst fyrir bíla. Einnig er ráðlegt að kaupa miða fram og til baka og fá brottfararspjöld afhent þá. Farþegum er bent á að upplýsingar er að finna á herjolfur.is. Ferð með Herjólfi tekur tæpar þrjár klst. Ýmislegt ber fyrir augu á leiðinni og ekki er óalgengt að farþegar fái óvænta hvalaskoðunarferð í kaupbæti. Um borð í Herjólfi er veitingaaðstaða auk þess sem mögulegt er að leigja svefnrými.