Hjördís Einarsdóttir, fyrrverandi deildarstjóri, fæddist í Flatey á Breiðafirði 8. apríl 1923. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 23. maí síðastliðinn. Hjördís var miðdóttir hjónanna Ísafoldar Einarsdóttur, f. 1895 í Háholti í Reykjavík, d. 1970, og Einars Jónassonar, skipstjóra og síðar hafnsögumanns, f. 1892 á Fossá á Barðaströnd, d. 1959. Ísafold var dóttir hjónanna Kristrúnar Gísladóttur og Einars Einarssonar, útvegsbónda frá Bollagörðum á Seltjarnarnesi. Einar, faðir Hjördísar, var sonur Petrínu Helgu Einarsdóttur og Jónasar Guðmundssonar, bónda á Fossá á Barðaströnd. Aðrar dætur þeirra Ísafoldar og Einars voru Anna, f. 1921, d. 1983, og Kristrún Castagna, f. 1927.

Hjördís giftist árið 1942 Bolla Vestarr Gunnarssyni loftskeytamanni, f. 1918, d. 1995, þau skildu. Eldri sonur þeirra er Einar Gunnar framkvæmdastjóri, f. 6. nóvember 1943, kvæntur Sigrúnu Ingólfsdóttur fjármálastjóra, f. 1947. Börn Einars Gunnars eru: Sigurður Örn, f. 1965, Þórir Björn, f. 1965, d. sama ár, Sólveig Lilja, f. 1968, Hjördís, f. 1973, Bryndís, f. 1974, og Svandís, f. 1984. Yngri sonur þeirra er Bolli Þór skrifstofustjóri, f. 24. febrúar 1947, kvæntur Höllu Lárusdóttur fulltrúa, f. 1945. Börn Bolla Þórs eru: Ólöf, f. 1964, Jóhanna, stjúpdóttir, f. 1964, Guðlaug Lilja, f. 1973, Lárus, f. 1974, og Þórunn, f. 1976. Seinni eiginmaður Hjördísar var Sigurður Jóhannsson skipstjóri, f. 1914, d. 1972. Dætur þeirra eru: 1) Sigríður, myndlistarkona og myndlistarkennari, f. 19. maí 1952. Synir hennar eru Sigurður Jökull, f. 1973, og Andri, f. 1982. 2) Ágústa Ísafold félagsráðgjafi, f. 12. janúar 1954, gift Theodóri Agnari Bjarnasyni forstjóra, f. 1952. Sonur þeirra er Unnar Freyr, f. 1976. 3) Erla ritstjóri, f. 24. nóvember 1957, gift Lauri Eivind Dammert ljósmyndara, f. 1952. Börn: Hákon, f. 1980, og Jóhann Eivind, f. 1989. Sonur Sigurðar og stjúpsonur Hjördísar er Karl Harrý bankastarfsmaður, f. 21. febrúar 1944, maki Helga Möller kennari, f. 1943, d. 1992. Dætur þeirra eru Helena Þuríður, f. 1967, og Hanna Lillý, f. 1980. Alls eru barnabörnin 14 og barnabarnabörnin 11.

Hjördís vann hjá Tryggingastofnun ríkisins frá árinu 1972 þar til hún lét af störfum vegna aldurs í árslok 1993. Hún sat í Öldrunarráði til októberloka 1997.

Útför Hjördísar fer fram frá Dómkirkjunni þriðjudaginn 5. júní og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Með dugnaði veitirðu dauðanum tjón svo djarfur ei margur var gerður. Hann hittir þig alltaf með hríf' eða prjón og hopa til baka því verður. (Lilja Björnsdóttir.)

Á augabragði

hvarf öll miskunn -

eins og rafstraumur

væri rofinn um gjörvalla náttúruna.

Til Jarðarinnar fossa

fjarlægðir geimsins

þagnarkuldi himingeimsins

yfir um horn mánans og stjörnurnar.

Ókunnugleiki

stendur eftir við hlið mér.

Að öxl hans

hnígur andlit mitt í tárum.

(Hannes Pétursson.) Erla Sigurðardóttir.

Hjördís Einarsdóttir, tengdamóðir mín í sautján ár, er látin. Konan mín hefur misst móður sína og börnin mín ömmu sína.

Hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Hjördís lifir í minni barna sinna og barnabarna, tengdasona og tengdadætra. Í huga mínum lifir svipmikil kona, sem þrátt fyrir mótbárur og stórar sorgir, bjó yfir óvenju mikilli lífsgleði, lifandi kímnigáfu og hafði ákveðnar hugmyndir um það þjóðfélag sem hún var virkur þátttakandi í. Henni sveið sárt þau kjör sem buðust þeim sem minna máttu sín í þjóðfélaginu. Stjórnmálaskoðanir hennar og viðbrögð við atburðum líðandi stundar báru vitni um sterka réttlætiskennd. Úr ýmsum áttum hef ég heyrt að þessi félagslega réttlætiskennd hafi verið leiðarljós í farsælu starfi hennar. Sá vitnisburður er okkur huggun í sorginni.

Hjördís var hugrökk og ósérhlífin kona og kom það ekki síst í ljós í baráttu hennar við þann sjúkdóm sem hún glímdi við undanfarin tvö ár. "Ég hef það fínt," fullvissaði hún mig um í hvert sinn sem við hringdum frá Danmörku. Stolt hennar og styrkur komu í veg fyrir að hún léti undan ásókn sjúkdómsins.

Með dugnaði veitirðu dauðanum tjón

svo djarfur ei margur var gerður.

Hann hittir þig alltaf með hríf' eða prjón

og hopa til baka því verður.

(Lilja Björnsdóttir.)

Þessi vísa lýsir ágætlega tengdamóður minni sem þrjóskaðist við að ljúka við hæl á sokk á eitt barnabarnabarnanna síðasta kvöldið sem hún var við fulla meðvitund. Dauðinn hopaði þangað til tengdamóður minni sjálfri þóknaðist að gefa upp öndina á fallegri vornóttu með börnin sín öll, tengdabörn og nokkur barnabörn í kringum sig. Þrátt fyrir að við fjölskyldan byggjum í öðru landi heimsótti Hjördís okkur oft og hringdi. Hún fylgdist með líðan barnabarna sinna og naut samvistanna við drengina. Hún bakaði með þeim bessastaðakökur um jólin og sagði þeim frá viðureign langafa síns við vestfirska drauga svo augu barnanna stóðu á stilkum. Gjafmildi hennar var mikil, ekki aðeins í gjöfum en einnig í anda. Ég upplifi nú sorg og söknuð hjá börnum okkar og frændsystkinum þeirra. Minning hennar mun ætíð lifa hjá þessu unga fólki sem á framtíðina fyrir sér. Hjördís var ómetanlegur vinur fjölskyldu minnar. Hún heimsótti Finnland nokkrum sinnum og tók á móti ættingjum mínum hér. Móðir mín talar alltaf um Hjördísi sem sterka konu sem kynnti hana fyrir Íslandi og Íslendingum. Sú mynd sem ætt mín hefur af landi og þjóð mun alltaf bera merki um persónuleika tengdamóður minnar, gestrisni hennar og viðmót. Hún hafði gaman af sænskum titli sínum, svärmor, með öllum túlkunarmöguleikum þess orðs. Tengdasonurinn var alltaf velkominn og lambalærið stóð á borðum. En það var líka mikilvægt að við kæmum vel fram við börnin hennar. Hún átti það til að kalla mig á eintal þegar henni ofbauð umgengni mín, fannst henni þá of nærri dóttur hennar gengið.

Það er með miklum söknuði að við kveðjum Hjördísi en samtímis gleðjumst við yfir því að hafa notið þeirra forréttinda að kynnast henni. Minning hennar lifir.

Lauri Eivind Dammert.

Mig langar með þessum orðum að kveðja tengdamóður mína Hjördísi Einarsdóttir, sem lést eftir harða baráttu við erfiðan sjúkdóm á líknardeild Landspítalans þann 23. maí sl.

Það sem einkenndi Hjördísi að mínu mati var ákaflega sterk réttlætiskennd og einlægur áhugi hennar á öðru fólki. Það má segja að verðmætir eiginleikar Hjördísar hafi lagt hornsteininn að gæfu lífs míns, þar sem hún ól upp, mótaði og var fyrirmynd dóttur sinnar, eiginkonu minnar.

Hjördís var eldhugi í stjórnmálum sem þó einkenndist af víðsýni og næmni. Stjórnmálaskoðanir hennar voru skarpar og ótvíræðar og var hún ákafur talsmaður fyrir jafnrétti þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu. Persónueiginleikar Hjördísar voru þannig að hún naut mikillar virðingar jafnt meðal skoðanabræðra sem og annarra.

Viðleitni hennar til að hlúa að börnunum sínum var meðal annars að sameina fjölskylduna á heimili sínu, gjarnan með glæsilegum matarboðum. En þar var ætíð vettvangur til að skiptast opinskátt á skoðunum um stjórnmál, fjölskyldumál, og annað sem efst var á baugi. Hjördís var ávallt óhrædd að láta skoðanir sínar í ljós, en virti mismunandi áherslur hjá börnum sínum.

Hjördís var glæsileg kona, metnaðarfull og stolt. Metnaðurinn fólst m.a. í ósk um velgengni barna hennar og skipti hana miklu máli að hvetja börnin til menntunar og ábyrgðar. Hefur það góða veganesti ótvírætt skilað sér í verðugum samfélagsþegnum, sem hún var ákaflega stolt af.

Líf Hjördísar var ekki alltaf auðvelt og mætti hún margs konar mótlæti á lífsleiðinni. Með óbilandi dugnaði og vilja tókst henni að komast heil í gegnum flestar þær raunir.

Eftir erfiðan skilnað við fyrri eiginmanninn, hlutaðist faðir Hjördísar til um, að hún réði sig sem þerna á m/s Gullfoss, sem þá átti að sigla í 6 mánuð á milli Frakklands og Casa Blanca í Norður-Afríku. Til þess að gera þetta framkvæmanlegt tóku foreldrar hennar elsta soninn í fóstur á meðan á siglingunum stóð og móðir fyrrverandi eiginmanns tók að sér að hafa yngri soninn í þessa mánuði. Þegar Hjördís sneri heim aftur hafði föðurfólkið tengst honum svo mikið að Hjördís lét undan þrábeiðni þeirra um að hafa hann áfram - ákvörðun sem olli henni ómældum sársauka.

Hjördís var mikil heimskona og hún ferðaðist mikið. Hún hafði næmt eyra fyrir erlendum tungumálum og var þar sífellt að bæta við sig kunnáttu. Var hún alltaf opin fyrir að kynnast og setja sig inn í allt það sem var framandi og óþekkt. Menning annarra þjóða þótti henni forvitnileg og spennandi. Og var hún til æviloka upptekin af verðmæti fjölbreytileikans. Áhugi á menningu og listum var henni í blóð borið og var tónlist og söngur henni einkar hugleikin. En allt frá barnæsku var tónlist og söngur stór hluti af lífi hennar. Það má segja að gjafmildi hafi verið hennar einkenni - hugsað í víðtækri merkingu. En hún leitaðist við að uppfylla óskir annara með gleði og næmni.

Hjördís barðist hetjulega við illvígan sjúkdóm og ætlaði seint að láta í minni pokann. Hún naut ómetanlegrar ummönnunar starfsfólks heimahlynningar krabbameinsfélagsins og í lokin Líknardeildar Landspítalans - einstök aðhlynning - einnig fyrir fjölskylduna sem við erum ákaflega þakklát fyrir.

Ég kveð Hjördísi með einlægum söknuði og þakklæti og bið að Guð og aðrar góðar vættir megi gæta hennar.

Theodór A. Bjarnason.

Elsku amma, nú er baráttunni lokið og þú kvaddir þennan heim með sömu reisn og einkenndi líf þitt. Þú lést aldrei deigan síga og hélst verndarhendi yfir okkur öllum. Á meðan þú varst sterk gátum við verið það líka. Þú varst falleg og glæsileg kona sem hafði mikla útgeislun. Persónuleiki þinn einkenndist af virðuleika og styrk og þú hafðir lag á því að gleðja aðra.

"Kóngabrjóstsykur, græni hringurinn, eplakakan, flamenco, flóðhestaballett, indíanafjaðrir, droppalys, prakkarastrik, kátína, hlátur og lífsgleði." Þetta er aðeins brot af því sem kemur upp í hugann þegar við sitjum hér saman systurnar og minnumst þín. En það sem stendur upp úr er að þú varst amman okkar. Hvert sem þú komst varstu hrókur alls fagnaðar. Frásagnir þínar voru líflegar og skemmtilegar og við höfðum alltaf jafn gaman af að hlusta á þig, jafnvel þó að við hefðum heyrt sumar sögurnar oft áður.

Þú lifðir stórmerkilegu lífi, ferðaðist um heiminn og varst opin fyrir nýjum tækifærum til að auðga líf þitt og annarra. Við erum stoltar af því að hvar sem við komum og hvern sem við hittum naust þú mikillar aðdáunar og virðingar. Þú varst framúrskarandi myndarleg hvort sem það sneri að heimili þínu eða handavinnu, enda lagðir þú metnað þinn í allt sem þú komst að. Þrátt fyrir annasamt líf áttirðu alltaf tíma fyrir okkur. Þú lagðir mikla áherslu á að við fyndum okkar farveg í lífinu, menntuðum okkur, ferðuðumst um heiminn, létum drauma okkar rætast og værum sáttar við líf okkar.

Söknuðurinn er sár en við erum þakklátar fyrir að hafa eitthvað af þér í okkur öllum. Þú hafðir lag á að láta okkur finna að við værum einstakar. Þú varst stolt af okkur og lagðir mikla áherslu á að við værum það líka. Eða eins og þú sagðir: "Ef maður hrósar sér ekki sjálfur þá gerir það enginn."

Sólveig Lilja, Hjördís, Bryndís og Svandís Dóra Einarsdætur.

Núna þegar þú ástkær amma okkar ert farin höfum við staldrað við og íhugað þann tíma sem við höfum átt saman og þær minningar sem við höfum um þig. Undanfarna viku höfum við reynt að hugga okkur með því að láta hugann reika og rifja upp allar þær ánægjustundir á Spáni, Danmörku og hér á landi sem við áttum með þér. Það var alltaf ákveðin upplyfting að koma í heimsókn til þín vegna þess að við gátum alltaf búist við hlýju og skemmtilegum sögum. Það er mjög erfitt að sættast við þá staðreynd að þú sért farin og það sé ekki lengur hægt að koma við í Safamýrinni eins og áður. Frekari orð eru óþörf þar sem minningin um þig og það sem þú gafst okkur og kenndir mun lifa og hjálpa okkur að takast á við ókomna tíma.

Andri og Sigurður Jökull.

Það er ekki erfitt að kalla fram í hugann minninguna er ég, ung og feimin menntaskólastúlkan, var kynnt fyrir henni Hjördísi Einarsdóttur á Brávallagötunni fyrir hartnær fjörtíu árum. Hún var afar glæsileg og hafði yfirbragð heimskonunnar, enda var hún bæði sigld og vel menntuð. En er þarna var komið var hún hin sterka sjómannskona sem annaðist heimili og barnauppeldi af miklum myndugleik. Ekki var laust við að hjartsláttur minn yrði hraðari á þessu merka augnabliki, en mér til halds og trausts var glæsilegur sonur hennar. Hjartsláttur þessi átti síðan eftir að breytast í áratuga vináttu, þrátt fyrir að ýmislegt færi á annan veg en í upphafi var ætlað.

Því fer fjarri að líf Hjördísar hafi alltaf verið dans á rósum og mætti nefna þar margt, en einna þungbærast tel ég að hafi verið er sjómannskonan mátti sjá á eftir eiginmanni sínum, heiðursdrengnum Sigurði Jóhannssyni skipstjóra, en hann lést langt um aldur fram. Hún hefur verið mér og mínum nálæg alla þessa áratugi, bæði í gleði og sorg og væri hægt að telja upp margvíslega eðliskosti þessarar öðlingskonu, því hún var ekki bara glæsileg heldur líka skarpgreind, hafði einstaka frásagnargáfu og skopskyn og trygglynd var hún svo af bar. Hygg ég að margir taki undir það, bæði vandamenn og vandalausir.

Á þessu fagra maíkvöldi er ég set þessar línur á blað er sól að hníga í sæ yfir Snæfellsjökli og margt rennur í gegnum hugann en ljúfsárastar eru minningarnr um hvíta kolla og tvö börn. Annað hefur hvílt í kirkjugarðinum milli foreldra Hjördísar en hitt lifir og ber með stolti nafn drengsins góða, afa Sigga. Hefði Hjördísar ekki notið við á þessum erfiða tíma er líklegt að sagan hefði orðið önnur. Hin fagra sýn sköpunarverksins, er ber við vesturhimininn á þessu kvöldi minnir einhvern veginn á hana. Hún er sterk og gefur kraft.

Ég og fjölskylda mín kveðjum ömmu Hjördísi með tilvitnun í gersemi úr Heilagri ritningu og eiginmaður minn, Rolf, hugsar heim til Íslands yfir Atlantsála og harmar að geta ekki fylgt góðri vinkonu sinni. Við biðjum huggunarríkan Guð að styrkja ástvini hennar alla.

Hvar sem þú deyr, þar dey ég,

og þar vil ég vera grafin.

Hvað sem Drottinn lætur fram

við mig koma, þá skal dauðinn

einn aðskilja mig og þig.

(Rt. 1.17) Birna Þórisdóttir.

Sárljúfur djass berst til mín inn um opinn glugga. Ég horfi yfir Virkisgröfina gömlu við Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Sólarlagið gyllir spegilslétt vatnið og næturgali æfir strokur í grænu beykitré. Það er vor.

Hugur minn er heima á Íslandi, því Hjördís Einarsdóttir er látin. Hún var vinur móður minnar, allt frá því að þær hittust fyrst í 11 ára bekk í Miðbæjarbarnaskólanum í Reykjavík. Þaðan í frá skildi leiðir þeirra aldrei, enda þótt lífið hagaði því þannig að þær voru misnálægt hvor annarri. Það er lán að eiga vináttu í 67 ár, vináttu sem aldrei bar á skugga í ólgusjó lífsins.

Hjördís var ein glæsilegasta kona sinnar samtíðar. Hún var skemmtileg, sterk, með afbrigðum greind og "elegant". En hún var líka miklu meira, hún var mikil manneskja, gjafmild og hjartahlý. Hún fæddist í Flatey á Breiðafirði í stormi og hraglanda en kvaddi þennan heim í Reykjavík aðfaranótt 23. maí á fagurri vornótt, þegar himinn og haf runnu saman í blátært rökkur. Líklega er þetta táknrænt fyrir líf hennar. Hún lifði því lifandi, þorði að fara ótroðnar slóðir og uppskar styrk og víðsýni þess sem hefur víða ratað. Þegar móðir mín varð ekkja færði Hjördís sig nær. Hin síðari ár hefur varla liðið sú vika að þær ræddust ekki við. Eitt besta sumarfrí sem móðir mín hefur notið var með Hjördísi og Erlu dóttur hennar og Inga bróður mínum suður á Spáni fyrir margt löngu. Þá var hlegið og glaðst yfir lífinu og tilverunni. Slíkt ber að þakka.

Hjördís reyndist mér dyggur vinur og ráðgjafi þegar ég þurfti að leita upplýsinga og stuðnings vegna fötlunar sonar míns í völundarhúsi Tryggingastofnunar ríkisins. Hún starfaði þar lengst af eftir að hún missti síðari mann sinn, Sigurð Jóhannsson skipstjóra, og var þar öllum hnútum kunnug. Mér er minnisstætt fyrsta skiptið sem ég leitaði til Hjördísar á þeim vettvangi. Hún tók mér eins og höfðingja, leiddi mig til sætis á skrifstofu sinni, sýndi mér stolt myndir af börnum og barnabörnum, spurði um mína hagi og sonar míns og leysti svo vanda minn án þess að ég tæki eftir því. Skömmu síðar fór sonur minn að fá falleg föt sem Hákon, barnabarn Hjördísar, var rétt vaxinn upp úr. Síðasta samtal okkar Hjördísar var í síma fyrir skömmu. Hún var langt leidd af sjúkdómi sínum, en hvergi buguð. Hún vonaðist til að verða við útskrift Hákonar hér í Kaupmannahöfn í vor. Hún hafði enn margt á prjónunum sem var ógert. Röddin hafði misst nokkurn þrótt, en húmor og lífsgleði settu mark sitt á samtalið. Ég hafði sent henni nokkrar myndir af Benedikt, syni mínum, og hún sagðist mundu setja þær í albúmið með myndum af barnabörnunum.

Hjördís kvaddi lífið í miðju verki. Hún átti svo ótal margt eftir ógert.

Börnin hennar, tengdabörn og barnabörn voru henni styrkur og gleði. Þetta líf, sem reiddi henni þung högg sem hún bar af sér í hljóði, var henni samt fyrst og síðast uppspretta gleði, vonar og skondinna sagna. Sólin er hnigin til viðar við Virkisgarðinn. Næturgalinn hefur náð sér á strik en nágranninn hefur lagt frá sér saxófóninn og er genginn til náðar. Hjördís hefði notið þessa kvölds í borginni þar sem hún dvaldi svo oft, ung ástfangin kona með Sigga sínum, og síðar með dætrum sínum og barnabörnum.

Hún hefði dúkað hér borð, borið fram allt hið besta, stjórnað yngri kynslóðinni léttilega og sent alla heim, brosandi, metta og með góðar gjafir. Þannig var Hjördís á góðri stund.

Við móðir mín vottum börnum hennar, barnabörnum og tengdabörnum okkar dýpstu samúð. Móðir mín þakkar ævivináttu. Blessuð sé minningin um Hjördísi Einarsdóttur.

Steinunn og Dóra S. Bjarnason.

Allar manneskjur eru margbrotnar en Hjördís Einarsdóttir var óvenju margbrotin og óvenju samsett kona. Það er dálítið skrýtið að hafa nafnið hennar yfir í svona hátíðlegum stellingum, Hjördís Einarsdóttir, því í mínum huga hefur hún alltaf verið Hjödda mamma hennar Erlu. Hin mamman í tvíeykinu okkar sem hefur varað í yfir 30 ár, mamman sem hefur fylgt mér eins og mín eigin mamma. Áhrifavaldur sem hefur mótað lífið, búið til farveg sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Lífið hennar var svo margrætt og fjölbreytilegt, svo óendanlega leyndardómsfullt og kynngimagnað. Hún var háreist og glæsileg húsmóðir og eiginkona í Goðheimunum þegar ég sá hana fyrst. Um það bil að koma þremur dætrum til manns, eins og það heitir svo fallega. Sigga nýkomin úr ferðalagi í Túnis, Systa skiptinemi í Ameríku og Erla að sigla inn í unglingsárin. En þá var líka svo geysilega margt að baki, margir kaflar lífsins liðnir í aldanna skaut. Líf mæðranna var okkur óendanleg uppspretta, hvert smáatriði krufið og hver atburður mátaður. Hvernig leið henni þá, hvað hugsaði hún þá? Sameiginlegt hugðarefni okkar Hjöddu var Húsmæðraskólatíminn á Ísafirði þar sem hún og Mæja móðursystir mín lærðu kvenlegar dyggðir. Það eru bara nokkrar vikur síðan hún rifjaði upp tvær albestu sögurnar af þeim, skellihlæjandi með sinni lifandi frásagnargleði og smitandi hlátri. Af tillitssemi við orðspor Húsmæðraskólanna munu þær ekki hafðar eftir, en í mínum huga er þetta besta staðfesting þess að kvennamenning þessa lands er full af gáska og húmor. Annar kapítuli í lífinu hennar var HE-tríóið sem við vinkonurnar lifðum okkur inn í með hjálp minninga og frásagna. HE-tríóið stofnaði Hjödda með vinkonum sínum sem allar höfðu upphafsstafina HE, þrjár glæsipíur sem tóku sig saman og tróðu upp á Borginni með söng. Ekkert smá sem það heillaði, glæsileiki og heimsborgaramenning, ungar og framsæknar konur sem fannst lífið vera til að lifa því.

Á Goðheimaárunum voru bræðurnir Einar og Bolli, báðir af fyrra hjónabandi, löngu uppkomnir, fjarlægir en þó til staðar í heildarmyndinni. Hjödda var tvígift, eins og mamma mín, með öllu sem því fylgir af flóknum fjölskyldutengslum, skilnaði og raski í tilveruna. En hver hefur sagt að tilveran eigi að vera án truflana? Siglingin á Gullfossi var líka krufin, þegar unga skipsþernan og dökkbrýndur skipstjórinn fóru að renna hýru auga hvort til annars. Okkur varð ekki skotaskuld úr því að setja okkur ást þeirra og rómantík fyrir hugskotsstjónir. Við endurupplifðum hughrifin - sem hljóta að hafa verið sérlega sterk á sjónum - og sættumst á þá túlkun að til að játast lífinu þurfi kjark og áhættu. En það ástríka, já ástríka hjónaband varaði því miður allt of stutt. Hjödda var rétt eldri en við erum núna þegar hún varð ekkja. Og Safamýrin varð það móðurskip sem Goðheimarnir höfðu verið áður. Þá tók við kapítulinn Tryggingastofnun, sem Hjödda leysti með afbrigðum vel af hendi. Norrænir fundir, fulltrúi Íslands, trúnaðarstörf, álitsgerðir, úrlausnir erfiðra mála - ekkert var henni ofvaxið. Síðustu árin í Safamýrinni voru friðsæl og notaleg, starfsævin að baki, vettlingar og sokkar prjónaðir á margar kynslóðir afkomenda. Að eldast með reisn gerði hún vel, eins og annað.

Einhvern tíma var í tísku að tala um að samband mæðra og dætra væri flókið og sérstakt - einnig það krufðum við vinkonurnar. Í mínum huga er það ekki gamaldags klisja heldur heilmikill vísdómur. Ég leyfi mér að fullyrða að þegar best lætur séu mæður áttavitar. Þær eru fyrirmyndir og varnaðarvíti, kjölfesta og blórabögglar. Það er hægt að sækja orku og hvatningu í líf þeirra, baða sig í afrekum þeirra og læra af reynslu þeirra. En til þess að varðveita þetta samhengi kynslóðanna þurfa þær að gefa af sér og bjóða upp á samsömun og aðgreiningu. Þær verða að vera örlátar, hlýjar og sterkar. Þannig kona var Hjördís Einarsdóttir sem hér er kvödd með þakklæti og söknuði.

Þorgerður Einarsdóttir.

Steinunn og Dóra S. Bjarnason.