7. júní 2001 | Minningargreinar | 1945 orð | 1 mynd

ÞÓRÐUR VIGFÚSSON

Þórður Vigfússon fæddist í Ólafsvík, Snæfellsnesi, 20. mars 1919. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 16. maí síðastliðinn. Foreldrar hans, ættaðir af Snæfellsnesi: Þóra Egilsdóttir, fædd 5.4. 1874, dáin 2.l2. 1963, og Vigfús Eyjólfsson sjómaður, fæddur 20.5. 1874, dáinn 22.11. 1938. Systkini Þórðar voru sjö og eru öll látin.

Þórður kvæntist 13.11. 1943 eftirlifandi eiginkonu sinni Sigríði Þóru Eiríksdóttur, f. 26.12. 1921. Foreldrar hennar voru Ingigerður Þorsteinsdóttir, f. 2.8. 1894, d. 13.7. 1968, ættuð úr Rangárvallasýslu, og Eiríkur Þorsteinsson, f. 10.7. 1893, d. 2.2. 1963, ættaður úr Austur-Skaftafellssýslu. Börn Þórðar og Sigríðar eru: 1) Eiríkur Ingi, f. 26.8. 1943, d. 30.4. 1948. 2) Stúlka Þórðardóttir, f. 21.9. 1944, d. 6.11. 1944. 3) Jóhanna Vigdís myndlistarmaður, f. 24.10. 1946. Maki hennar Jón Reykdal myndlistarmaður, f. 14.1. 1945. Börn þeirra: Nanna Huld grafískur hönnuður, f. 30.7. 1971. Maki hennar Magnús Eðvald Björnsson, eðlis- og tölvunarfræðingur, f. 22.4. 1972. Þeirra barn Magnús Eðvald, f. 25.1. 2001. Hadda Fjóla myndlistarmaður, f. 2.1. 1974. Maki hennar Snorri Einarsson læknir, f. 10.8. 1973. Þeirra börn: Hjalti, f. 10.3. 1998, Lilja, f. 30.10. 1999, Hlín nemi, f. 30.7. 1985. 4) Eiríka Inga Þórðardóttir, f. 3.3. 1948. Dóttir hennar Sigríður Þóra Magnúsdóttir (Kristinssonar), f. 24.3. 1965 innkaupastjóri. Maki hennar Einar Viðar Gunnlaugsson sölumaður, f. 10.8. 1966. Barn þeirra: Birkir Einarsson, f. 24.11. 1989. Fyrir á Sigríður Þóra soninn Frey Alexandersson (Alexanderssonar) menntaskólanema, f. 18.11. 1982. Maki 1) Guðni Guðmundsson, f. 1.4. 1947, þau skildu. Börn þeirra: Heiðar Már verkstjóri Morgunblaðinu, f. 2.9.1969. Maki hans Þórdís Bjarnleifsdóttir nemi, f. 8.3. 1971. Börn þeirra: Bjarnleifur Smári, f. 1.7. 1988, Matthías Már, f. 31.10. 1995, Álfheiður Björk, 18.6. 1998, Elfa Björk, f. 30.5. 1971. Maki hennar Einar Farestveit lögfræðingur, f. 5.10. 1970. Börn þeirra: Arthur Knut, 6.10. 1995, Jóhann Karl, 15.6. 2000. Þórður Ingi verkamaður, f. 26.9. 1975, sambýliskona hans Ásdís Erla Helgudóttir, f. 22.4. 1974. Barn þeirra: Eiríkur Ingi, f. 17.1997. Maki 2) Úlvar Páll Mörk, f. 1.3. 1949, d. 27.1. 1985. Barn þeirra: Karen Sesselja, f. 22.5. 1984. 5) Þorbjörg Þórðardóttir veflistarkona, f. 1.7. 1949. Maki hennar Þórður Hall myndlistarmaður, 8.10. 1949. Börn þeirra: Sölvi matreiðslumeistari/nemi í Tækniskólanum, f. 28.9.1974, sambýliskona hans Guðríður Kristín Þórðardóttir hjúkrunarfræðinemi, f. 26.12. 1977. Daði margmiðlunarnemi, 3.9. 1979. Arnaldur menntaskólanemi, 3.3. 1982. 6) Drengur Þórðarson, f. 6.5. 1955, d. 6.5. 1955.

Þórður var síðustu árin starfsmaður Reykjavíkurborgar í viðhaldsdeild bygginga borgarinnar.

Jarðarför Þórðar Vigfússonar hefur farið fram í kyrrþey, 23. maí síðastliðinn, frá Grafarvogskirkju.

Nú finn ég angan löngu bleikra blóma, borgina hrundu sé við himin ljóma, og heyri aftur fagra, forna hljóma, finn um mig yl úr brjósti þínu streyma. Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma. Minning þín opnar gamla töfraheima. Blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu. Brosin þín mig að betri manni gjörðu. Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur. Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur. (Davíð Stefánsson.)

Þórður var fæddur í Ólafsvík yngstur af átta systkinum. Það var mikil fátækt í Ólafsvík á þessum árum og fór hann ungur að vinna bæði á sjó og landi, allt sem hann vann sér inn var lagt inn í kaupfélagið og rann til heimilisins.Hann fór að heiman 19 ára, stundaði sjómennsku frá Suðurnesjum, en vann svo við smíðar í Reykjavík.

Árið 1942 kynntist hann eftirlifandi konu sinni Sigríði Eiríksdóttur og giftu þau sig 13. nóvember 1943.

Á stríðsárunum var mikil húsnæðisekla í Reykjavík og þau hjón komin með barn og bjuggu við mikil þrengsli, en hjartarými, hjá tengdaforeldrum Þórðar á Hverfisgötunni. Þegar herinn fór, fengu þau bragga sem Þórður einangraði og lagfærði eins og hans var von og vísa.

Nýlega hitt ég vinkonu þeirra hjóna sem sagði mér frá því þegar hún og systur hennar urðu húsnæðislausar og voru komnar með búslóðina út á götu í rigningu og áttu í ekkert hús að venda. Þá birtust Þórður og Sigga sem buðu þeim umsvifalaust húsaskjól í bragganum þar sem þær bjuggu í tæpt ár í góðu yfirlæti. Þórður ætlaði ekki að búa lengi í bragga.

Hann sótti um lóð en var tilkynnt að hann væri best geymdur í sinni sveit. Það var ekki líkt Þórði að gefast upp fyrir svona sjónarmiðum, og eftir nokkurt þref fékk hann lóð við Langholtsveg. Grunn hússins, sem síðan varð stórfjölskylduhús, gróf hann með handafli einu saman. Tengdaforeldrar Þórðar fluttu einnig í húsið, í fyrsta sinn í eigið húsnæði.

Þórður og Sigga voru hamingjusamt par, en fengu að upplifa sorgina ef til vill í meira mæli en hollt getur talist. Kornung misstu þau stúlkubarn sitt í vöggu og síðan sólargeislann sinn Eirík Inga úr botnlangabólgu. Þessi áföll hafa fylgt tengdaforeldrum mínum alla tíð og markað djúp spor. Á þessum tíma voru ekki til nein samtök um sorg og sorgarviðbrögð og er ekki ólíklegt að Þórður hafi reynt að deyfa sorgina með mikilli vinnu.

Stærsta gæfa hans í lífinu var hún Sigga, en þau voru mjög náin og stóðu saman í blíðu og stríðu.

Þórður var sjálfmenntaður og sjálfstætt starfandi múrari og smiður og vann lengi við múrverk. Hann naut vinnunnar og var aldrei eins ánægður og þegar hann var að byggja eða breyta, hvort sem það var fyrir sjálfan sig eða aðra. Hann naut þess að vera einn að verki. Hann var alltaf boðinn og búinn að rétta vinum og ættingjum hjálparhönd, og þegar við Jóhanna keyptum okkar fyrsta fokhelda hús var hann mættur með hamarinn og múrskeiðina og stoppaði ekki fyrr en við vorum flutt inn.

Þessa vinnu vann hann að venjulegum vinnudegi loknum og langt fram á kvöld og um helgar. Hann bjó yfir alveg óvenjulegu vinnuþreki og hafði einnig gott vinnulag, átti gott með að vinna verk einn þar sem maður hefði haldið að þyrfti marga til. Síðustu tvo áratugina vann hann hjá Reykjavíkurborg við múrverk og að viðhaldi ýmissa bygginga. Þegar hann lét af störfum vegna aldurs var ekki sest í helgan stein og slappað af. Segja má að Þórður hafi þá gengið í endurnýjun lífdaga, því hann fór að byggja sér stóran sumarbústað við Þingvallavatn.

Þar átti hann örugglega sínar bestu stundir, orkan var ótrúleg. Hann reif sig upp fyrir sólarupprás og vann inn í sumarnóttina. Ófáar voru þær stundirnar þegar hann lagðist út og mátti ekki vera að því að eyða tíma í bílferðir. Við Þingvallavatn hafa börnin og barnabörnin átt góðar stundir. Þórður var alla starfsævi heilsuhraustur, beinvaxinn og bar sig vel. Fyrir tveimur árum fór heilsunni að hraka og síðustu ellefu mánuði dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þar sem mjög vel var hugsað um hann.. Allan tímann vék Sigga ekki frá honum slík var tryggð hennar og sýndi hún aðdáunarverðan styrk og dugnað því Þórður var mjög veikur þessa síðustu mánuði.

Ég kveð tengdaföður minn með virðingu og þökk fyrir góðar samverustundir.

Jón Reykdal.

Tengdafaðir minn er fallinn frá. Ég kynntist Þórði Vigfússyni fyrir u.þ.b. 15.árum. Kannski ekki vel í fyrstu, annahvort var það vinnan sem tafði okkar kynni eða Þórður varð að kynnast fólki á sínum hraða.

Mér fannst þessi vinnusami maður frekar lokaður í fyrstu, en ég átti eftir að kynnast hvaða gull af manni Þórður hafði að bera. Bestu stundir sem við fjölskyldan áttum með þeim hjónum, Þórði og Sigríði, var í Þórðarkoti þar sem tengdafaðir minn tók mig oft í læri í smíðum, það var einstakt að vinna með Þórði, ég hafði ekkert vit á smíðum og vildi gera allt sem einfaldast en þessi aldni heiðursmaður sem hafði byggt 14 hús og 5 sumarbústaði ætlaði nú ekki að láta einhvern unganóreyndan tengdason sinn segja sér fyrir verkum.

Urðu oft úr grátbroslegar minningar sem við rifjuðum oft upp í seinni tíð.

Sögustundin sem til varð á kvöldin þegar þú opnaðir fyrir allar gáttir, um hvernig var að alast upp fyrr á öldinni, allt var þetta einskakt, einkum fyrir borgarbarn eins og mig.

Ekki get ég skilið við þessar minningar án þess að minnast á frasann sem varð til í Þórðarkoti fyrir nokkrum árum þegar við Þórður vorum búnir að vinna í nokkra daga og í hvert sinn sem ég sagði "jæja Þórður minn, er ekki kominn kaffitími?"

fékk ég alltaf sama svarið; "finnst þér þú verðskulda það?" Þeir aðilar sem heyrðu þennan frasa í seinni tíð spurðu mig oft hvort

einhver leiðindi væru á milli okkar en því var auðvitað fljótt svarað neitandi. Þórður var kannski ekki allra, en þeir sem kynntust honum geta vitnað um aðeinlægni og húmor átti hann nóg til af. Elsku besti vinur minn, þetta verða að vera mín síðustu orð til þín í bili. Þökkum við fjölskyldan alla hlýjuna og góðviljann í okkar garð. Minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Megi góður Guð varðveita þig. Ég mun biðja elsku Guð að blessa og styrkja Sigríði og alla fjölskylduna á þessum erfiðu tímum.

Guð blessi þig.

Einar Viðar

Gunnlaugsson.

Við kvöddum þig og sólin skein, sumarið var komið og bjartir tímar fram undan.

Þrautum þínum er lokið og í heimi eilífðar er alltaf bjart, eins og á þeim stað sem þú skapaðir í hjarta okkar allra.

Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,

borgina hrundu sé við himin ljóma,

og heyri aftur fagra, forna hljóma,

finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma. Minning þín opnar gamla töfraheima.

Blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu.

Brjóst þitt mér ennþá hvíld

og gleði veldur.

Þú varst mitt blóm, mín borg, mín

harpa og eldur.

(Davíð Stefánsson.)

Elsku afi, ég hef svo margt að þakka þér, ef við byrjum á uppeldinu. Þið tókuð mig að ykkur þegar ég fæddist og frá þeim degi eða þar til ég fór að búa sjálf bjó ég hjá ykkur ömmu, betra uppeldi er ekki hægt að fá. Ástin var mikil og þó að þú værir mikið frá vegna vinnu voru fastir siðir sem alltaf héldu.

Þú kysstir ömmu alltaf bless og góða nótt, þegar þú komst úr vinnu föðmuðust þið, ást ykkar var dásamleg og endurspeglar hún ykkur bæði, það var yndislegt að alast upp á þennan hátt.

Matmálstímar voru alltaf fastir punktar. Ég ólst upp við að fá heitan mat í hádeginu og þegar drengirnir mínir komu svangir úr skóla og leikskóla gáfu þið þeim þessi forréttindi líka. Það var mikið öryggi í því og hafði mikið uppeldislegt gildi fyrir þá að geta leitað til ykkar ömmu eftir skóla alla daga. Ég lærði margt, þú kenndir mér rétt vinnubrögð, þegar ég gerði hlutina ekki rétt sagðir þú "þú gerir þér þetta of erfitt " og kenndir mér að gera hlutinn rétt. Það var gaman að vinna með þér í sumarbústaðnum í þau fáu skipti sem það var hægt vegna þess að ef ég sagði við þig að ég ætlaði að gera þetta eða hitt fórstu yfirleitt á undan og kláraðir verkið til að koma mér á óvart. Við áttum margar yndislegar stundir í Þórðarkoti, sátum eftir langan dag og spjölluðum um gamla tíma og hvað okkur langaði að gera.

Þú vaknaðir alltaf manna fyrstur og byrjaðir að vinna, þú kunnir ekki að slaka á, sagðir að það væri nægur tími til þess síðar.

Ef þú situr ekki núna í sólstól með góða bók, lífsbókina þína, og slakar á ert þú eflaust að laga eitthvað sem bilað hefur eða að byggja nýtt. Þannig varst þú alltaf kominn ef eitthvað var bilað eða einhver var að fara að byggja, þú gast allt.

Það verður skrítið að fara í Þórðarkot og horfa á verkin þín, það síðasta sem þú byggðir, þú byrjaðir að byggja þennan sælureit þegar þú varst 71 árs gamall, þvílkur dugnaður. Birkir mun standa einn við birkitréð þetta sumar á fyrstu mynd sumarsins.

Sagan af afa, Birki og birkitrénu er búin, en Birkir og birkið standa áfram og minningin lifir.

Elsku afi, ég lofa að hugsa um ömmu og gefa henni auka faðm og koss fyrir þig.

Guð blessi þig.

Sigríður Þóra

(Sigga Þóra).

Jón Reykdal.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.