Ragnheiður Torfadóttir rektor óskar Þórólfi Nielsen, Dux Scholae, til hamingju með árangurinn.
Ragnheiður Torfadóttir rektor óskar Þórólfi Nielsen, Dux Scholae, til hamingju með árangurinn.
MENNTASKÓLANUM í Reykjavík var slitið í 155. sinn í gær og fór athöfnin fram í Háskólabíói þar sem mikið fjölmenni var samankomið. Alls brautskráðist 191 stúdent, 15 úr fornmáladeild, 55 úr nýmáladeild, 32 úr eðlisfræðideild og 89 úr náttúrufræðideild.

MENNTASKÓLANUM í Reykjavík var slitið í 155. sinn í gær og fór athöfnin fram í Háskólabíói þar sem mikið fjölmenni var samankomið.

Alls brautskráðist 191 stúdent, 15 úr fornmáladeild, 55 úr nýmáladeild, 32 úr eðlisfræðideild og 89 úr náttúrufræðideild.

Ragnheiður Torfadóttir, sem gegnt hefur starfi rektors við MR frá árinu 1995, lætur af störfum 1. ágúst nk. og tekur Yngvi Pétursson, konrektor skólans, við af henni.

Í ræðu sinni minntist Ragnheiður meðal annars á tvo af fyrstu kennurum skólans, þá Sveinbjörn Egilsson og Björn Gunnlaugsson, og sagði að þeir væru öllum í MR nærtækt dæmi um menn sem hefðu verið boðberar menningar og vísinda. Þeir hefðu rutt yngri mönnum braut og væru þeim leiðarljós. Við nýstúdenta sagði hún jafnframt: "Hvar sem leiðin liggur hafið þið alltaf frelsi til að brjóta heilann, efast, spyrja spurninga og leita svara" og vísaði þar til orða franska heimspekingsins Decartes.

Í kveðjuorðum sínum sagði Ragnheiður: "Það má með sanni segja að Menntaskólinn, antiqua mater alma, hafi mig unga alið. Ég kom í skólann 15 ára og hef aðeins verið fjarri honum tvisvar sinnum tvö ár. Starfsferillinn hófst þegar ég var rektorsritari á morgunvakt veturinn eftir að ég varð stúdent. Þá var mitt fyrsta verk á morgnana að ganga í allar stofur, taka manntal og hringja í þá nemendur sem voru ekki komnir. Þá um veturinn fékk ég kveðju frá strákunum í 5.X. Á kortinu stóð: "Til morgunsólar Menntaskólans" og kveðjan hófst á vísuorðunum: Þig ætíð vermi vorsól heit og verndi hér í skóla. Mér finnst, þegar allt er á litið, að þeim hafi orðið að ósk sinni." Þá þakkaði hún kennurum, vinum og félögum á kennarastofunni og öllu samstarfsfólki sem hefði gert veruna í skólanum ánægjulega. "Ég þakka ekki síst öllum nemendum mínum. Ég þakka skólanum og óska honum bjartra daga um ókomin ár og aldir," sagði Ragnheiður og að því búnu risu allir úr sætum og klöppuðu.

Í MR er til siðs að elsti kennarinn kveðji fráfarandi rektor á skólaslitum og kom það í hlut Eiríks Haraldssonar. Hann lætur einnig af störfum við skólann en hann var ráðinn til MR haustið 1956.

Fram kom í skýrslu skólans sem rektor lagði fram að henni þætti sárt að sjá hvernig tíminn hefði fengið að leika gömlu húsin án þess að bætt hefði verið úr með viðhaldi og endurgerð sem þeim hæfði. "Þetta á sérstaklega við um skólahúsið, sem geymir ekki aðeins sögu Lærða skólans og Menntaskólans, heldur einnig sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, þar sem það hýsti endurreist Alþingi sumurin 1845-79 og þjóðfundinn 1851."

Afmælissöngur fyrir dúx skólans

Dux Scholae Menntaskólans í Reykjavík að þessu sinni er Þórólfur Nielsen með ágætiseinkunnina 9,36 en semidux varð Svanur Pétursson með ágætiseinkunina 9,27.

Þórólfur varð tvítugur í gær og sungu hátíðargestir afmælissönginn fyrir hann. "Það er rosalega gaman að vera dúx og skemmtilegt að brautskráningin er á sjálfum afmælisdeginum. Þetta gerist varla betra." Hann segir að mikla vinnu, aga og skipulag þurfi til að svo vel gangi í námi en þó hefur það ekki bitnað á félagsstarfi. "Ég hef haft einna mest að gera í ár á þessum fjórum árum en ég hef verið að æfa handbolta nokkrum sinnum í viku með Stjörnunni."

Aðspurður sagðist hann ætla að starfa í sumar hjá Landsvirkjun við sogstöðvar og vinna að aðhaldi í kringum virkjanirnar en þetta er fimmta sumarið sem Þórólfur starfar þar. "Í haust mun ég svo hefja nám í læknisfræði og það verður svaka álag en ég hef góðan undirbúning, bæði úr MR og svo úr Flataskóla og Garðaskóla," en hann segir að það hafi verið einstakt að vera í MR og þar ríki mjög góður andi.

Hæsta einkunn frá upphafi

Að venju fengu fjölmargir stúdentar viðurkenningu og voru bóka- og peningaverðlaun afhent af því tilefni.

Alls fengu tíu stúdentar ágætiseinkunn og tíu remanentar, en það eru nemendur í 3., 4. og 5. bekk. Hæstu einkunn remanenta hlaut Eyvindur Ari Pálsson 4. M, 9,92. Það er hæsta einkunn sem gefin hefur verið við skólann.

Þá voru embættismönnum við skólann sem brautskráðust veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu skólans.