10. júní 2001 | Sunnudagsblað | 2569 orð | 5 myndir

Búinn með 21 líf af 9

Horn, Hornbjarg og Hornvík.
Horn, Hornbjarg og Hornvík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enn finnast á Íslandi einstaklingar sem gustar af og hafa marga fjöruna sopið. Karl einn sem Guðmundur Guðjónsson og Árni Sæberg hittu nýverið í Hornvík á Ströndum, við rætur Hornbjargs, reyndist vera með óborganlegan feril svaðilfara að baki. Hann er sagður hafa fæðst með 9 líf eins og kettirnir, en hann sé búinn að nota 21.
Á Landsspítala lengi var, ljúfleg fannst mér vistin. Úr mér lungun ónýt skar öðlingurinn Kristinn.

Kjartan Sigmundsson er 75 ára gamall Vestfirðingur í húð og hár. Hann er fæddur í Hælavík og bjó þar til 8 ára aldurs, en fluttist þaðan síðan og bjó víða á Hornströndum næstu árin, eða til 15 ára aldurs, m.a. í Látravík. Á þessum árum var mannmargt á Hornströndum og byggð víða í víkum og fjörðum. Þetta er nú meira og minna farið í eyði og helst að erfingjar og ættingjar kynslóðar Kjartans eigi sumarhús á stangli. 15 ára gamall fór Kjartan til Reykjavíkur, vann m.a. í blikksmiðju, en síðan lá leiðin aftur vestur. Hann giftist Maríu Hallgrímsdóttur frá Dynjandi í Leirufirði í Jökulfjörðum og þau eiga saman fjögur börn sem öll eru vaxin úr grasi. Yngst er Bergrós, þá er Davíð, síðan Kristín og loks Hallgrímur, sem er trúlega eini maðurinn með því nafni hér á landi sem kallaður er Lalli. Hallgrímur er yfirlæknir á Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ og Davíð er trillukarl, en báðir voru þeir í Hornvík með föður sínum er gestina að sunnan bar að. Auk þess á Kjartan eldri son, Bjarna, frá fyrra sambandi.

Hjálmurinn góði og siglingarljósin

Sigmennskan og eggjataka eru Kjartani í blóð bornar, enda hefðu Hornstrendingar vart getað dregið fram lífið norður við Dumbshaf ef ekki hefðu verið matarkisturnar Horn- og Hælavíkjurbjarg. Þegar Kjartan var í Látravík með foreldrum sínum á unglingsárunum kom þangað herflokkur breska setuliðsins, renndi bátum upp í fjöru, kastaði þar ýmsum varningi upp í fjöru og settist að um skeið. Kjartan kom sér í vinfengi við dátana og samskiptin leiddu meðal annars af sér að Kjartan sótti egg fyrir hermennina í nærliggjandi hamra og þáði eitt og annað að launum. Meðal annars sígarettur og frá þeirri tíð gerðist Kjartan keðjureykingarmaður sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Annað sem Kjartan hreppti fyrir snúninga sína var forláta breskur herhjálmur sem hann á enn þann dag í dag, en getur varla notað vegna þess að hann er allur dældaður eftir grjótflug í Hælavíkurbjargi. Er hægt á hjálminum að telja skiptin sem Kjartan hefði stórslasast eða þaðan af verra ef hann hefði farið hjálmlaus í bjargið.

"Sígaretturnar, já, þær voru heldur betur fengur eða hitt þó heldur. Seinna, þegar við félagarnir lágum í bjarginu lifðum við á svörtu kaffi, sígarettum og stöku svartfuglseggi. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér. Ég reykti mikið, en hætti fyrir tuttugu árum. Samt er ég nýstiginn upp úr erfiðri skurðaðgerð þar sem læknar á Landsspítalanum skáru burtu væna sneið af lungum mínum. Ég var kominn með alvarlega lungnaþembu. Ég á nokkuð í land að ná einhverjum styrk, verð enn mjög móður, en ég ætla að vera á ferðinni í sumar og ná upp þrekinu," segir Kjartan. Það fer slíkum sögum af reykingunum á sínum tíma, að eitt sinn, eftir einstaklega erfiða ferð í Hornvíkina að vori til í illvirðri og ágjöf, hafi einu siglingarljósin í báti Kjartans á heimleiðinni verið sígarettuglóðin. En Kjartan telur ekki víst að rétt sé að geta þess, því nú teljist það til brota á landslögum að segja eitthvað jákvætt um tóbaksreykingar.

"Ég var ansi illa farinn þegar ég fór í rannsóknina og lognaðist út af á borðinu hjá þeim hér á Ísafirði. Ég frétti síðar að ég hefði verið fluttur með hraði til Reykjavíkur og ég var frekar ruglaður þegar ég komst aftur til meðvitundar, því ég þekkti ekki eitt einasta andlit og hafði ekki hugmynd um það hvar ég var. Datt fyrst í hug hvort ég hefði verið svo lengi í roti að það væri komin ný kynslóð starfsfólks á Fjórðungssjúkrahúsið. En svo kom þarna fólk sem leiddi mig í allan sannleika. Fyrst var ég í alls konar rannsóknum sem miðuðu að því að athuga hvort ég væri tækur í aðgerðina, hún ku ekki vera gerð á fólki yfir sjötugt, en þeir fundu út að ég myndi líklega þola hana, sögðu ástandið á mér ekki geta versnað og þeir hefðu engan drepið enn. Svo skáru þeir stórar skemmdar sneiðar úr lungunum, voru að búa til pláss fyrir það sem enn var heillegt. Síðan fór ég á Reykjalund í endurhæfingu og í þetta allt saman fóru átta mánuðir. Ég verð að segja, að allt það fólk sem annaðist mig er eftirminnilegt og þrátt fyrir veikindin leið mér vel í umönnun þess. Sérstaklega er ég þakklátur Kristni skurðlækni á Landspítala, en ég barði saman smávísu um hlut hans. Hún er svona:

Á Landsspítala lengi var,

ljúfleg fannst mér vistin.

Úr mér lungun ónýt skar

öðlingurinn Kristinn.

En ég missti af eggjatímanum í fyrra út af þessu tilstandi, í fyrsta skipti í 50 ár og leið ekkert vel út af því."

Kjartan segir að lífsmynstrið hafi breyst nokkuð við komu breska hersins og karlarnir á Ströndum hafi flestir farið að vinna fyrir þá. "Þeir fengu gott kaup, en það var lítið um brennivín á Ströndum og karlarnir töldu að þessir erlendu menn hlytu að hafa nóg af slíku í fórum sínum. Þeir gengu á hermennina og sníktu viskí, en þeir bresku svöruðu um hæl, "no whiskey", sem karlarnir túlkuðu sem "nóg viskí". Af þessu spannst misskilningur sem erfiðlega gekk að leiðrétta," rifjar Kjartan upp.

Heppnisskot í Hornvík

Það er erfitt fyrir nútíma Íslending að setja sig inn í lífsmynstur hreinræktaðra Hornstrendinga. Fuglabjörgin, víkurnar og hörð en jafnframt blíð náttúran eru í æðum þeirra með blóðinu. Eitt sem nútíma Íslendingurinn á erfitt með að skilja er að ísbirnir eru samofnir lífinu á Horntröndum og þeir gátu troðið upp fyrirvaralaust ef hafís var nærri. Hann þurfti ekki að vera landfastur, því dæmi voru um að birnir syntu 40 sjómílur og gengu á land, gjarnan glorsoltnir. Amma Kjartans var dag einn að vetri til að mjólka úti í fjósi þegar hún heyrði þrusk á þakinu. Skyndilega brast þakið og ísbjarnarlöpp steig í gegn. "Björninn hrundi nú ekki alla leið sem betur fer og sagan er þannig að amma lifði þessa raun af, en mér þykir líklegt að hún hafi ekki lokið við mjaltirnar í þetta skipti," segir Kjartan, sem sjálfur hefur skotið ísbjörn í Hornvík. Þetta var 19. júní 1963, en Kjartan var þá við fjórða mann í Hornvík. Hann segir að viðtal hafi verið við einn félaga hans, Stíg Stígsson, í Tímanum sáluga 26. júní það ár þar sem hann lýsti atburðinum og óskaði Kjartan eftir því að birt yrði eitthvað úr viðtalinu til að þessu yrði trúað. Í Tímanum stendur m.a. - Það var laust fyrir klukkan fimm á miðvikudagsmorguninn að við komum inn á leguna í Hornvík. Leiðindaveður var, þoka og súld. Er við komum inn á leguna sáum við dýr á ferli í landi og gerðum við okkur þegar ljóst að þar væri bjarndýr á ferð. Er dýrið sá okkur tók það á rás út eftir bökkunum og flýttum við okkur í land og eltum það. Eftir nokkurn spöl beygði dýrið niður í fjöru og við komumst upp fyrir það. Við læddumst að því þar til við vorum í um fimmtíu metra fjarlægð. Þá hleypti Kjartan af riffli sínum og dýrið féll. Þá skutum við hinir til vonar og vara, en dýrið hreyfði sig lítið."

Hvernig byssur voruð þið með?

"Við vorum með þrjá 22 kalibera riffla, kíkislausa, eins og Norðmenn kalla eldhúsriffla, og eina haglabyssu. Það var auðvitað tóm vitleysa að skjóta á björninn með svona smábyssum. Menn eru ekkert að hugsa við svona kringumstæður. Það var einhver örlítill snöggur blettur við eyrað á dýrinu og ég hitti akkúrat þar. Ef þetta hefði hæft dýrið bara einhvers staðar þá var ekki nema 50 metra sprettur í okkur og spurning hvort hefði þá verið meira vit að puðra á dýrið eða reyna að forða sér á hlaupum. Hvort heldur hefði orðið er ég hræddur um að útkoman hefði aðeins orðið ein, enda birnir gríðarlega snöggir. Pabbi og afi sáu þá ná refum í tveimur til þremur stökkum. Þetta var bara della í okkur, en við vorum bara svo helvíti spenntir sjáðu til, komnir á bjarndýraveiðar!

Við fláðum dýrið eins og rollu. Þetta var birna, mjög stór, vel á fjórða hundrað kíló og maginn tómur. Hún hefur því verið banhungruð. Það var svo grínast með það, þótt ekki þætti öllum það jafnfyndið, að daginn áður hafði verið í Hornvík stór hópur skáta með frekar þéttvaxinn foringja í fylkingarbrjósti.

Hjartað var stórt og kjötmikið og við höfðum haft einhverjar spurnir af því að menn yrðu sterkir af því að éta bjarndýrshjarta. Ég steikti það því á stálplötu og svo átum við það."

Og urðuð þið sterkir?

"Þetta var nú bara frekar óspennandi matur og líklega hefði ég átt að krydda það eitthvað."

Lengi eftir var hluti af beinagrind bjarnarins í fjörunni fyrir neðan Hornbæina og voru framfæturnir furðu líkir mannshandleggjum. Á meðan beinin lágu þarna var gjarnan sagt við ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, að þeir skyldu vara sig, því þannig færi fyrir mörgum ferðalöngum á þessum slóðum.

Nokkrum árum síðar var kunningi þeirra einn staddur í Fljótavík og var að snudda við slysavarnarskýlið. Varð honum þá litið um öxl og brá í brún er hann sá bjarndýr standa skammt þar frá. Maðurinn stökk í ofboði inn í skýlið og sendi boð um umsátur til Ísafjarðar. En áður en hjálp barst, róaði maðurinn sig niður, renndi riffli út um glugga og skaut dýrið.

Brimgarðar og tanngarðar

Kapparnir eru auðvitað með hjálma í bjarginu, en það dugði þó ekki í einu tilviki, Kjartan rotaðist er einn hnullungurinn skall á hausnum á honum. Og daginn áður en gestirnir að sunnan flutu á land í Hornvík höfðu þeir feðgar lent í þeirri raun að gúmbáturinn rak utan í klett í fjörunni undir bjarginu. Rifnaði eitt hólfið og lak loftið úr. Litlu munaði að annað hólf rifnaði og hefðu þá þeir félagar komist upp í fjöru undir Hornbjargi, en ekki út í bátinn sem lá við stjóra nokkru utar. Þar hefðu þeir mátt dúsa þar til leit hefði verið gerð. Svona munar stundum litlu að illa fari, en menn hafa oftast haft heppnina með sér. Eitt af nokkrum skiptum sem Kjartan var hætt kominn, þá var ólga í sjónum og slöngubáturinn að freista þess að ná honum við annan mann af skeri í fjörunni. Þegar rétt þótti að stökkva, kom ólag og aðeins félagi Kjartans komst um borð, en Kjartan fór í sjóinn og leið nokkur stund uns félagar hans urðu hans varir aftur og voru menn farnir að óttast það versta. "Þeir voru eitthvað smeykir um mig, en ég var bara niðri hjá fiskunum að spjalla við þá, hafði náð taki á þaradjöfli sem slitnaði í næsta útsogi. En á næstu báru komst ég upp og þeir veiddu mig um borð. Ég varð fyrir því að tapa öðrum gómnum af fölsku tönnunum mínum í þessum atgangi og eftir þetta töluðu félagar mínir aldrei um annað en að fara með bátinn inn fyrir tanngarðinn í staðinn fyrir að fara inn fyrir brimgarðinn. Svona gerðu þeir grín að manni hálfdauðum þarna, en það er allt í lagi."

Það hefur þá alltaf allt bjargast einhvern veginn? Aldrei þurft að flytja slasaðan mann heim til Ísafjarðar?

"Aldrei slasaðan, en einu sinni dáinn mann," svarar Kjartan og brosið hverfur. "Það var vinur okkar Sigurður Magnússon. Hann féll fram af brún. Fallið var ekki hátt, en hann lenti illa. Faðir eins okkar sem stundar bjargið hvað mest fórst líka í Hornbjargi fyrir mörgum árum."

Já, það er stutt í alvöruna hjá þessum lundarléttu sigmönnum. Þeir henda gaman að uppákomum og svaðilförum, en hafa einnig upplifað dökku hliðarnar. Sá er flutti gestina að sunnan í Hornvíkina, Kristján Lyngmó, aldin kempa á Ísafirði , sagði sögur af sjálfum sér og öðrum er siglt var "norður", eins og Hornvíkurmenn segja og hann hafði einmitt hætt öllu eggjasigi eftir að hans besti vinur fórst í bjarginu.

Eins og ráða má af þessum sögum, sem eru einungis hluti af heildarmyndinni, þá hefur Kjartan nokkrum sinnum verið ógnar nærri dauða sínum. Aldrei þó eins og þegar hann skaut sjálfan sig í bakið...og það af þó nokkru færi.

Hér kemur ótrúlegasta sagan af þeim öllum og hún er þess eðlis að margir munu varla leggja trúnað á hana. En hún er eins og veiðisögurnar, þær sönnu taka mögnuðustu lygasögunum fram.

Kjartan var ásamt Trausta bróður sínum á ferð í fjörunni í Hornvík, þegar þeir komu auga á svartfugl. Fjaran var þarna grýtt og "menn gleyma sér í taugatitringi og veiðiæsingi," eins og Kjartan orðar það. Þeir hlupu af stað, Kjartan á undan, en það var hált á steinum í fjörunni og Kjartan flaug á hausinn. Hann vissi ekki fyrr en hann skall á bakið og rak hnakkann af krafti í stein. Byssan flaug eitthvað upp í loft og lenti með glamri í fjörunni að baki. Kjartan settist upp nokkrum andartökum seinna, eitthvað vankaður eftir fallið og höfuðhöggið, en í sömu andrá rann byssan til að baki honum og skot hljóp úr öðru hlaupinu. Þetta var tvíhleypa og Kjartan fékk þarna hleðsluna í bakið af nokkurra metra færi. Það var ekkert annað en að Kjartan var drifinn í bátinn og siglt í ofboði til Ísafjarðar með hann sárþjáðan og hálfmeðvitundar- og blóðlausan. Hann lá svo lengi á skurðarborðinu á Ísafirði þar sem höglin voru tínd úr bakinu. Sum þeirra voru hættulega nærri hryggjarsúlunni og taugum sem þar liggja. Svo nærri, að Kjartan gengur enn með slatta af höglum í bakinu og kallar þau "ágætis ballest." Hann segir jafnframt, að það sé eins gott fyrir Trausta að hann skyldi lifa af, því líklega hefði verið erfitt fyrir hann að fá menn til að trúa því að hann hefði skotið sjálfan sig í bakið af færi.

Líka nærri dauður á rækjunni

Það væri hægt að halda áfram á sömu braut, en efnið má ekki verða einsleitt. Kjartan gerðist frumkvöðull í sveit sinni er hann kom aftur vestur eftir árin í Reykjavík. Hann keypti bát sem lá á hafsbotni, Reyni, náði honum á þurrt og gerði hann síðan út á rækju. Hann var með rækjuútgerð og vinnslu í allmörg ár. Það var alltaf hættuleg útgerð, því rækjubátarnir voru litlir og veður oft válynd í Djúpinu þar sem veiðiskapurinn fór fram. Stærri bátar fórust, en Kjartani tókst alltaf að stýra í var. Einu sinni í svo rækilegt var, að hann vaknaði morguninn eftir, liggjandi á gólfinu, við að tófa gaggaði rétt við bátinn. Þetta var í ónefndum firði og það var svo gríðarlega stórstreymt að það þornaði undir bátnum á meðan Kjartan svaf um nóttina. Báturinn hallaði að sjálfsögðu við það og Kjartan valt úr kojunni.

En þótt það tækist alltaf að sigla í var eða sleppa til hafnar undan óveðrum, tókst Kjartani einu sinni að komast í hann krappan. Hann var þá við annan mann að hífa rækjutrollið og þeir félagar teygðu sig báðir út yfir borðstokkinn og studdust við toghlerana, sem losnuðu út. Það skipti engum togum, að báðir sviptust útbyrðis og báturinn á ferð. Gestirnir að sunnan fengu aldrei þessa sögu botnaða, en karlinn sat ljóslifandi við hlið þeirra á meðan hún var sögð og glotti að öllu saman og mátti af því marka að félaginn hafði einnig bjargast.

Milli fimmtugs og dauða

Kjartan Sigmundsson er orðinn roskinn. "Milli fimmtugs og dauða," eins og hann orðar það. Heilsan hefur bilað, en hann gerir sér vonir um að hressast eftir aðgerðina. Það er honum mikilsvert að það gangi eftir, því "betra sé að fara en að hengslast um heilsulaus." Mánuðina átta sem hann barðist fyrir heilsu sinni sá hann margt á sjúkrastofnunum sem honum þótti bæði hryllilegt og sorglegt í senn. Mannlega neyð þar sem heilsan var brostin. Hann er ákveðinn í að ná aftur þeim styrk sem völ er á og njóta efri áranna. Og fara sem oftast og dvelja sem lengst í Hornvík á Ströndum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.