Háey í Mývatni. Bláfjall í baksýn. Myndin fengin að láni úr ritinu Landið þitt, Ísland.
Háey í Mývatni. Bláfjall í baksýn. Myndin fengin að láni úr ritinu Landið þitt, Ísland.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Himneskt sælubros færðist yfir andlit hins finnska forseta, segir Leifur Sveinsson. Hann hafði fundið það, sem hann leitaði að.

I

Það er 6. desember, þjóðhátíðardagur Finna, og Finnlandsvinafélagið Suomi efnir til fagnaðar, þar sem sýnd er kvikmynd af heimsókn forseta Finnlands til Íslands árið 1957. Eins og í öðrum heimsóknum þjóðhöfðingja var dagskráin nokkuð stíf, en þó átti hann þess kost að eiga frí í hálfan dag í heimsókn sinni í Mývatnssveit 18. ágúst 1957. Valdi Kekkonen forseti að hitta "en typisk islandsk bonde" og var bón hans vel tekið. Fór fylgdarliðið með hann til Sigfúsar Hallgrímssonar bónda og organista í Vogum og var þar vel fagnað. Mælti Sigfús bæði á skandinavísku og ensku, spurði hvort forseti vildi heldur heyra í kvartett, oktett eða 16 manna blönduðum kór, en Kekkonen afþakkaði þetta allt með þeim orðum, að þessi fjölhæfi maður væri hinn ágætasti í viðkynningu, en þetta væri bara enginn venjulegur bóndi. Var þá haldið til Jóabræðra á Geiteyjarströnd, en þeir voru þá þegar þjóðsagnapersónur í lifanda lífi. Þeir hétu Sigurður, Jón og Jóhannes, ýmist nefndir Jókar eða Jóabræður. Þeim er nú tilkynnt, hver sé kominn í heimsókn og þeir beðnir um að heilsa upp á stórmennið. Svo ganga þeir nú út úr húsi sínu í réttri aldursröð, Siggi fyrstur, Jón svo, en Jói síðastur. Gengur Siggi fyrir Kekkonen, skekur hönd hans að mývetnskum sið og segir: "Svo þú ert frá Finnlandi, kallinn." Himneskt sælubros færðist yfir andlit hins finnska forseta. Hann hafði fundið það, sem hann leitaði að. Kvikmyndaatriði þetta var svo frábært, að ég man ekki eftir öðru, sem tekur því fram. Vonandi er þessi filma til ennþá, en kvikmyndin mun hafa verið tekin á 16 mm filmu. (Urho Kekkonen 1900-1986, forseti Finnlands 1956-1982.)

II

En hverjir voru Jókar og hver voru kynni mín af þeim?

Þeir bræður urðu fljótt vinir mínir á Mývatnsárunum 1936-1941. Ég útvegaði þeim á hverju vori "Mývatnsspæni" og vargskýlur úr Sportvöruhúsi Reykjavíkur. Fór ég ávallt á bát með þessar vörur, því þá gat ég haft spón minn úti í landhelgi þeirra báðar leiðir. Fór ekki hjá því, að ég setti í eina og eina bröndu á þennan hátt. Fyrstu sumur mín í sveitinni bjuggu þeir í gamla bænum, en árið 1937 ráðast þeir í að byggja myndarlegt steinhús. Ráðskona þeirra hét Sigríður Daníelsdóttir (1890-1979), sköruleg ekkja, barnmörg. Ég kom einu sinni í gamla bæinn og þóttu mér göngin ansi löng og torratað um þau.

III

Eitt sinn fórum við Þórhallur Hallgrímsson, húsbóndi minn í Vogum, til spónveiða suður í Flóa. Veðrið versnaði skyndilega og ég ekki nógu vel búinn að mati Þórhallar, svo hann biður Jóka að taka mig með sér til lands en þeir voru um það bil að hætta veiðum. Fór ég yfir í bát þeirra og var þegar haldið til lands. Jókar buðu mér í mat og er sú máltíð mér mjög eftirminnileg. Greinilegt var, að í eftirrétt átti að vera skyr með bláberjum, því tvær skálar voru þegar komnar á borðið með þessum glæsilegu veitingum. Aðalrétturinn, sem reyndist vera hangiketskássa, var ekki kominn á borðið, svo bræður, sem voru svangir af vatninu, tóku upp sjálfskeiðunga sína og fengu sér eitt og eitt bláber með því að stinga hnífsoddinum í þau. Nú var komið að hangiketskássunni og tókum við allir vel til matar okkar, en síðan var komið að skyrinu góða með bláberjunum. Þá mátti glöggt sjá, hver var í forystu á þessu heimili, því Siggi, sem var elstur þeirra bræðra, teygði sig upp í bita og tók þaðan hornspón einn, hinn ágætasta grip. Borðaði hann síðan skyrið með spæninum, en við hinir urðum að láta okkur nægja skeiðar. Að máltíð lokinni sleikti Siggi spóninn vandlega, pússaði hann síðan á olnboga jakka síns og setti síðan upp á bitann aftur. Ég hefi snætt í Versölum í boði utanríkisráðherra Frakka og hjá fleiri stórmennum, en engin máltíð kemst í hálfkvisti við þá, er ég neytti hjá Jókum sumarið 1940.

IV

Sigurleifur var maður nefndur Vagnsson (1897-1950), aðstoðarmaður í atvinnudeild Háskóla Íslands. Hann hitti ég á Geiteyjarströnd um 1939 og stóð hann þar á hlaðinu hjá Jókum við vinnuborð eitt mikið, sem stóð á búkkum. Þar slægði hann og aldursgreindi silung og þótti mér fróðlegt að fylgjast með honum við þetta verk. Dóttir hans Erna (f. 1922) var um tíma með honum í för. Þótt Jókar væru líklegast hreinir sveinar, þá fór ekki svo, að brúnin lyftist á þeim, er þeir litu þetta ljósa man augum. Erna giftist síðar Árna Ársælssyni lækni (1922-1993), sem lengi var yfirlæknir á sjúkrahúsinu á Húsavík, en sjálf varð hún kunn leikkona. Best man ég eftir henni í hinu frábæra leikriti "Djúpt liggja rætur", sem sýnt var í Iðnó 1952. Hún býr nú í Reykjavík.

V

Helgi Þorsteinsson frá Skörðum í Reykjahverfi keypti Geiteyjarströnd árið 1784 og bjuggu afkomendur hans í beinan karllegg á jörðinni allt fram á 7. tug síðustu aldar, þegar Jókar hættu búskap á hálflendunni, háaldraðir og barnlausir. Faðir þeirra hét Jóhannes Sigurðsson (1855-1934) fæddur á Geiteyjarströnd, en móðir þeirra Guðrún Jóhannesdóttir (1852-1931) fædd á Krákárbakka. Þau hófu búskap á Geiteyjarströnd árið 1880. Synir þeirra: 1) Sigurður Jóhannesson, fæddur 2. mars 1881, dáinn 23. mars1966. Búfræðingur frá Hólum 1907 í tíð Sigurðar skolastjóra Sigurðssonar frá Draflastöðum.

2) Jón Jóhannesson var fæddur 12. febrúar 1884, dáinn 10. janúar 1966. 3) Jóhannes Jóhannesson var fæddur 21. febrúar 1888, dáinn 25. janúar 1969. Eftir lát Guðrúnar, móður þeirra, árið 1931 var um skeið ráðskona hjá þeim feðgum Sigrún Sigurjónsdóttir (1885-1983), systir Fjalla-Bensa. Þannig er jörðinni lýst í "Byggðir og bú" 1963: "Jörðin er fremur landlítil. Landið mest grýtt land og hraun. Graslendisræma er meðfram vatninu, en allmikill skógur í austasta hluta landsins. Þar eru Dimmuborgir, allhrikalegar hraunmyndanir, sem ferðamenn skoða. Jörðin á Háey í Mývatni og tvo góða varphólma, Krókhólma og Landhólma. Jörðin var um langan aldur mesta veiðijörð við Mývatn, meðan engar hömlur voru á riðsilungsveiði, og hitasilungur veiddist oft á sumrin á dráttum við landið. Enn er þar góð aðstaða til veiðiskapar." Margir hafa furðað sig á því, að jörðin heiti Geiteyjarströnd, en eigi ekki Geitey á Mývatni. Sú skýring hefur lengi lifað meðal Mývetninga, að ekkja ein hafi búið á Geiteyjarströnd fyrr á öldum og sent eftir Reykjahlíðarpresti til að láta hann veita sér síðasta sakramenti. Gerir prestur bón hennar og var einn með henni, er hún tók síðasta andvarpið. Kemur síðan út úr kamersi ekkju og er spurður um líðan: "Ekki skildi hún laklega við, gaf Reykjahlíðarkirkju Geitey rétt áður en hún skildi við." Þá varð til orðtak, sem ennþá heyrist í Mývatnssveit: "Gefur hún ennþá, heillin."

---

Hinn 4. apríl 1876 eru Skútustaðir gerðir að prestsetri og frá 1880 heitir prestakallið Skútustaðaprestakall.

VI

Í viðtali, sem Gísli Sigurðsson, þá ritstjóri Vikunnar, átti við Jóka 13. september 1962 segir m.a. um þá bræður: "Þetta voru barnslegir og einlægir, gamlir menn. Þeir kvöddu mig með virktum og þökkuðu kærlega fyrir heimsóknina." Þetta var á ævikvöldi þeirra, þeir 74, 79 og 81 árs. Í minningargrein, er ég reit um vin minn Stefán Jónasson (1919-2000) 31. ágúst í fyrra í Mbl. stendur m.a.: "Snemma á stríðsárunum ákveða þeir bræður Stebbi og Nóni að halda til Reykjavíkur í atvinnuleit, því þar hafði frést um næga vinnu, en lítil verkefni fyrir þá í Vogum. Þá var að leita til Jókabræðra á Strönd (Jóhannesarsona á Geiteyjarströnd), því þeir voru þeir einu menn í sveitinni, sem áttu peninga. Þeir bera upp erindið og segjast þurfa farareyri til Reykjavíkur. Siggi á Strönd, sem hafði alla forystu á hendi fyrir þá Jókabræður, "fór í gamla kistilinn" og tók fram þá seðla, sem um var beðið, en bætti við: "Þurfið þið ekki meira?" Jókar voru engum líkir, ógleymanlegir öllum, sem þeim kynntust." Jókar geymdu peningana sína aðallega í kistli, því þeir höfðu slæma reynslu af því að geyma þá á bókum, áttu t.d. innlánsbók í Kaupfélagi Þingeyinga, en töpuðu megninu af innstæðu sinni, er K.Þ. riðaði til falls einu sinni sem oftar. Hólmfríður Pétursdóttir í Víðihlíð í Mývatnssveit hefur hlúð að minningu frænda sinna, Jóka, m.a. með því að setja upp hundrað ára gamlan vefstól Sigga á Strönd í Mývatnssafni á Skútustöðum. Þar naut hún aðstoðar Oddnýjar Magnúsdóttur á Húsavík. Einnig hefur Hólmfríður haldið til haga dagbókum Sigurðar, og verður fróðlegt að lesa sögu þessa einstæða heimilis, þegar sagnfræðingar hafa unnið úr þeim heimildum.

VII

Mér þótti vænt um Jókabræður, þeir tóku öllum gestum af jafnmikilli einlægni og höfðingsskap, hvort sem það var drengur af nágrannabænum í Vogum, eða forseti Finnlands. Erindi þeirra í þessa jarðvist var að verða náunga sínum að liði, en miklast ekki af seðlabúntum í fornum kistli. Þetta voru að vísu sérstæðir menn, þjóðsagnapersónur í lifanda lífi, en þeir settu mikinn svip á Mývatnssveit á fyrri helmingi síðustu aldar og minningin um þá mun lengi lifa, því þar sem góðir menn fara, þar eru Guðs vegir.

Heimildir:

1) Ættir Þingeyinga I-IX, Sögunefnd

og Héraðsnefnd Þingeyinga, 1969-2000.

Indriði Indriðason og Brynjar Halldórsson

sáu um útgáfuna.

2) Byggðir og bú, Búnaðarsamband Suður-

Þingeyinga 1963, POB, Akureyri.

3) Byggðir og bú, Suður-Þingeyinga, 1985.

Útg. B.S.S.Þ. 1986, Oddi, Reykjavík.

4) Hólastaður, Bændaskólinn 75 ára eftir

Gunnlaug Björnsson, Bókaútgáfan Norðri

1957, Prentsmiðjan Edda, Reykjavík.

5) Læknar á Íslandi I., A-G, ritstjóri Gunn

laugur Haraldsson, Þjóðsaga ehf. árið

2000.

6) Saga Húsavíkur I. bindi, aðalhöfundur

og safnari Karl Kristjánsson. Útg. Húsa

víkurkaupstaður 1981, Prentun Guðjón Ó.

7) Prestatal og prófasta á Íslandi I-III. eftir Svein Nielsson með viðaukum og breyt-

ingum eftir dr. Hannes Þorsteinsson.

Björn Magnússon sá um útgáfuna. Hið ís-

lenska bókmenntafélag, Reykjavík 1950,

Ísafoldarprentsmiðja.

8) Vikan 13. sept. 1962.

9) Morgunblaðið 31. ágúst 2000.

10) Morgunblaðið 30. maí 2001.

11) Íslenska alfræðiorðabókin,

H-O, bls. 258, Örn og Örlygur, 1990.

Höfundur er lögfræðingur í Reykjavík.