20. júní 2001 | Aðsent efni | 906 orð | 1 mynd

ESB

Evra án ESB-aðildar?

Þorsteinn Þorgeirsson
Þorsteinn Þorgeirsson
Er önnur leið fær en ESB-aðild, spyr Þorsteinn Þorgeirsson, til að Íslendingar geti tekið upp evruna?
NÝLEG reynsla okkar af efnahagsstjórn byggðri á krónunni hefur tekið af allan vafa um að upptaka evrunnar á Íslandi er þjóðþrifamál. Í grein undirritaðs í Mbl. 17. maí sl. er reifuð löng raunasaga krónunnar og þau sterku efnahagslegu rök sem mæla með því að Íslendingar losi sig við krónuna og taki upp evruna. Það er ljóst að einhliða eða tvíhliða tenging krónunnar við evruna, eða upptaka dollarsins, eru ekki heppilegir kostir vegna stofnanalegra og annarra vankanta. Umræðan um upptöku evrunnar hefur hins vegar lengi snúist um að slíkt krefjist aðildar að ESB. Í þessari grein er þeirri spurningu varpað fram hvort önnur leið en ESB-aðild sé fær til að Íslendingar geti tekið upp evruna.

Vissulega er ESB-aðild æskilegasta leiðin til að taka upp evruna. Þá fengjum við rödd við mótun peningastefnunnar. Seðlabankinn kæmist sjálfkrafa í samstarf um greiðslu- og fjármálakerfið innan ramma evrópska bankakerfisins (European System of Central Banks). Að auki hefði Ísland aðgang að sameiginlegum sjóðum sambandsins ef sú staða kæmi upp að vextir væru hækkaðir vegna þenslu á meginlandinu meðan við sigldum inn í krappa lægð. Þá kæmi sér vel að eiga völ á slíkri sveiflujöfnun.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi ESB aðild og upptöku evrunnar. Því þarf að hefja sem fyrst markvissa úttekt á hugsanlegum leiðum að þessu markmiði. Það er rétt að veigamiklir aðilar hafa lagst gegn ESB-aðild. Þeir álíta hagsmunum í sjávarútvegi betur borgið með innlendri veiðistjórn. Þar sem hlutdeild sjávarútvegs er nú komin niður fyrir 40% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar, þarf að taka meira tillit til þeirra greina sem standa undir 60% af útflutningi og eiga allt sitt undir stöðugum rekstrargrundvelli. Jafnframt telja þessir aðilar að fullveldi þjóðarinnar sé varðveitt með EES og Schengen-samningunum. Ef ekki næst fljótlega sátt um ESB-aðild er hugsanlega hægt að flýta upptöku evrunnar með því að sækja um slíkt á grundvelli núverandi Evrópusamstarfs.

Nægar stofnanalegar forsendur virðast vera fyrir því að sækja um upptöku evrunnar án beinnar ESB-aðildar. Sá grundvöllur, sem Íslendingar hafa á að byggja í þessu máli, er aðild þjóðarinnar að EES og Schengen-samningunum og það að Mónakó, sem sjálfstætt ríki, fær evruna.

Sérfræðingar í alþjóðalögum líta svo á að ekki sé raunhæft að sækja um upptöku evrunnar á grundvelli EES-samningsins þótt slíkt væri í fullu samræmi við hann. Þótt EES-samningurinn sé lifandi eða þróun háður hvað varðar þau atriðið sem hann tekur til, svo lengi sem fyrir því er pólitískur vilji, er stofnanaþáttur hans ekki lengur álitinn lifandi. Jafnvel þótt samningurinn hafi formála (preamble), sem venjulega táknar að alþjóðlegur samningur sé lifandi, er hann það ekki í raun þar eð valdið á bak við hann hefur færst frá upphaflegum viðsemjanda EFTA-ríkjanna, framkvæmdastjórn ESB, og yfir til ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Þetta hefur orðið til þess að frekari þróun á stofnanaþætti EES-samningsins hefur lagst af.

Þróun samstarfs EFTA-EES og ESB-ríkjanna hefur haldið áfram utan EES-samningsins. Íslendingar og Norðmenn hafa gert veigamikinn samning við ESB um rétt fólks innan EES-svæðisins til að ferðast um það án vegabréfaskoðunar. Schengen-samningurinn er því í fullu samræmi við ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vinnuafls á svæðinu sem tryggir virkni hins innri markaðar. Schengen-samstarfið gengur jafnframt mun lengra en EES-samningurinn frá stofnanalegu sjónarhorni, með því að veita EFTA-EES-ríkjunum rétt til að sitja reglulega fundi fastafulltrúaráðs ESB (COREPER) og taka þannig þátt í mótun samstarfsins.

Á sama hátt myndi evran efla virkni hins innri markaðar hvað varðar fjórfrelsið - flæði vöru, þjónustu, vinnuafls og fjármagns innan EES-svæðisins. Um leið myndi samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja, sem tilvist krónunnar skekkir mikið, lagast til muna. Upptaka evrunnar yrði í fullu samræmi við anda EES-samningsins sem leggur ríka áherslu á að samkeppnisskilyrði séu jöfn innan svæðisins. Þannig væri hægt að sækja fundi ESB varðandi mótun peningastefnunnar þótt flestar ákvarðanirnar yrðu teknar áður en Íslendingar og hugsanlega Norðmenn sætu fundina.

Þar sem Mónakó hefur verið í myntbandalagi við Frakka síðan 1925 var tekið fram í Maastricht-sáttmálanum að það, Vatíkanið og San Marínó fengju evruna um leið og umlykjandi ESB-þjóðríki. Samt hefur upptaka evrunnar þar fordæmisgildi vegna þess að eins og Ísland er það sjálfstætt ríki utan ESB. Að auki fær Mónakó að slá evrumynt með mynd af Rainer fursta sem verður gjaldgeng um gervallt evrusvæðið. Það ætti því að vera hægt að slá evrumynt prýdda Jóni Sigurðssyni hérlendis.

Vegna olíu- og fiskveiðihagsmuna sinna hafa Norðmenn tvisvar hafnað aðild að ESB. Vegna þess að Norðmenn eiga fullt eins mikið undir viðskiptum við ESB-ríkin og Íslendingar hafa norsk stjórnvöld borið upp erindi á efstu valdstigum um samstarf Noregs og ESB varðandi tengingu norsku krónunnar við evruna til að öðlast þann stöðugleika sem mun fylgja evrunni. ESB hefur hins vegar ekki ljáð máls á beinni tengingu. Hugsanlega eru Norðmenn reiðubúnir að ganga til samstarfs við okkur um upptöku evrunnar á grundvelli tvíhliða samnings.

Tíminn til að kanna þetta mál er núna, þegar slakt gengi krónunnar og ofurháir krónuvextir eru að kaffæra atvinnulífið. Að auki hefur evran fengið byr undir báða vængi í Svíþjóð og Bretlandi. Breski Íhaldsflokkurinn gerði "björgum breska pundinu" að meginstefnu sinni í nýafstöðnum þingkosningum. Afhroð flokksins í kosningunum hefur styrkt umboð Verkamannaflokksins til að taka upp evruna að gefnu samþykki þjóðinnar. Raddir um upptöku evrunnar hafa einnig gerst háværar í Svíþjóð eftir nýlegt hrun sænsku krónunnar á gjaldeyrismörkuðum.

Það er löngu tímabært að íslensk stjórnvöld leiti allra leiða að fá evruna. Þar sem ESB-aðild virðist ekki vera á dagskrá þarf að skoða þessa leið. Ef ESB-ríkin ljá máls á að hefja viðræður um þetta þarf að fara að undirbúa samningsmarkmiðin. Ef um semst er síðan hægt að leggja evrusamning í dóm þjóðarinnar.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.