Einar Þór Gunnlaugsson
Einar Þór Gunnlaugsson
Nýjar hugmyndir þurfa að eiga greiðan aðgang inn í menningarpólitíkina, segir Einar Þór Gunnlaugsson, án þess að til þess þurfi lagabreytingar.

Kvikmyndagerðin þarf að takast á við mál sem standa fyrir utan ramma nýs frumvarps, t.d. málefni menningarlegrar skírskotunar, listrænnar skulbindingar, einkavæðingar og alþjóðavæðingar. Einkavæðing í rekstri hefur verið tekin upp í lista- og menningargeiranum í flestum löndum Evrópu, en jafnvel Frakkar hafa beitt henni til að auka hagræðingu, og Króatar og Búlgarar til að losna við gamla pólitískt tilnefnda búrókrata. Það er heldur ekki erfitt af færa fyrir því rök að almenn alþjóðavæðing (globalisation) í kvikmyndagerð og víðar sé blekking. Ef þau rök sem notuð eru fyrir almennri alþjóðavæðingu eru notuð á hugmyndir Platós 300 árum fyrir Krist, svo ekki sé talað um kristindóminn sjálfan, þá hófst alþjóðavæðing fyrir meira en 2000 árum. Það er t.d. ekki nýtt að fyrirtæki stundi viðskipti í mörgum löndum og verði "fjölþjóðafyrirtæki" (Multi-National-Enterprises, MNE). Það er hraðinn sem hefur endurvakið þessa umræðu, en hafa þá fjölþjóðafyrirtækin, sem eru aðalmálið, tíma til að spá í hægfara samruna menningar, nema þá neyslumenningar, þegar þau eru upptekin við að lifa af samkeppnina? Hér liggja áherslurnar sjálfsagt í því hvort það er meiri áhugi á Plató eða Nestlé og Electrolux AB. Alþjóðavæðingu í kvikmyndagerð í dag, og kannski í öðrum viðskiptum, mætti kalla nútímavæðingu sem felst í að tileinka sér vinnubrögð sem hafa verið stunduð í a.m.k. 90 af 100 ára sögu kvikmyndagerðar.

Vandinn við "menningarlega skírskotun"

Stefnumörkun í menningarmálum verður stundum hálfheimspekileg og er eitt flóknasta svið nútímastjórnmála. Til dæmis skilgreiningin á menningunni sjálfri, einsog þegar tekið er fram að eitthvað þurfi að hafa skírskotun í menningu. Við getum tekið dæmi af innflytjendum. Það er t.d. ekki skýrt hvort íslensk menningarþjóð í dag sjái sig sem eitt samfélag jafnhárra einstaklinga af fleiri en einu þjóðarbroti, eða samfélag ólíkra þjóðarbrota (eitt stórt og mörg lítil). Með öðrum orðum, tekur íslensk menning við "nýjum" Íslendingum með því að hjálpa þeim að aðlagast íslenskri menningu, eða með því að hjálpa "nýjum" Íslendingum að viðhalda sinni upprunalegu menningu? Eða bregst íslensk menning kannski ekkert við? Hér þurfa hlutirnir ekki að vera ýmist í ökkla eða eyra, en ef tvö menningarverkefni sækja um styrk til íslenska ríkisins, annað er um innflytjendur en hitt er gert af innflytjendum, hvort þeirra hefur meiri skírskotun í íslenska menningu og menningarstefnu?

Hinsvegar, og það getur kallast kostur, þegar ákvæði um menningarlegt gildi Íslands er komið í alþjóðasamning geta önnur lönd eða samtök ekki gert frekari athugsemd því að vafaatriði túlkunar liggja alltaf Íslands megin. Ef við einangrum kvikmyndagerðina og afstöðu hennar gagnvart erlendri kvikmyndagerð, þá er það spurning hversu mikla varnarpólitík við ætlum að reka gagnvart alþjóðstraumum (þetta á líka við um Evróvisjónlög - þ.e.a.s. sönglög), eða hvort við ætlum að reka grípa-tækifærið-stefnu, það er að gera hluti á eins mörgum tungumálum og verða vill. Aðalmálið hlýtur að vera að inn í menningarpólitík þurfa nýjar hugmyndir að eiga greiðan aðgang án þess að til þurfi lagabreytingar.

Nýja kvikmyndafrumvarpið gefur tilefni til að ætla að kerfið opnist. Og þá snýst málið um stjórnun og stefnumörkun frekar en lög, en þegar fram í sækir bera íslensk menningarverkefni sjálfsagt þess merki hvernig til hefur tekist og hvort lögð hefur verið áhersla á ytri ímynd lands, sögu og þjóðar eða innri veruleika hennar.

Önnur mál

En þessi mál eru í deiglunni víða, einsog aðkoma ríkisins að leiklistarmálum, tónlist og tónlistarútflutningi, listamannalaunum og almennum áherslum á menningararfleið eða nútímalist. Það er ekki óalgengt að hvorki opinberir starfsmenn í þessum geira né listamenn sjálfir viti hverju er farið eftir hverju sinni. Kvikmyndagerð hefur að þessu leyti verið í sömu tvístígandi stöðu og flestar listgreinar á Íslandi, vegna þess að heildstæð lista- og menningarstefna er óljós, sem er ekkert íslenskt sérfyrirbæri. Þörfin á einum sjálfstæðum stað fyrir allan þennan málaflokk utan ráðuneytis er líka orðin aðkallandi því kerfið sjálft er ekki í stakk búið til að sinna nauðsynlegri stefnumótun og endurnýjun, sem gerir bæði starfsfólki hins opinbera og skjólstæðingum þess erfiðara fyrir. Listaráð Íslands gæti verið sá vettvangur stefnumótunar þar sem hugmyndir um menningarlegar skírskotanir eru skilgreindar, og auk þess vettvangur þar sem heildstæð fjármálastefna fyrir listir er mótuð í samvinnu við yfirvöld. Umræða um menningarstarf og listgreinar myndi vonandi verða markvissari með þannig hagræðingu. Öll opinber lista- og menningarstarfsemi heyrði meira og minna undir listaráð sem væri undir menntamálaráðuneyti. Þarna væri listaráð ráðgefandi í stefnumótun fyrir stjórnvöld og í peningamálum fyrir sjálfstæða aðila í listum, þarna væri Nýlistasafn, Þýðingasjóður, Óperan, stjórn bókasafna, listamannalaun, Eiríkstaðarnefnd, leiklistarráð, Örnefnastofnun, o.s.frv. o.s.frv. Listaráð myndi hafa erlenda lista- og menningarsjóði sem Ísland á aðild að á sínum snærum.

Sé litið til baka þá liggur ákveðin skýring í því að umræðan hefur verið á einslitu plani, sem aftur má skýra með löngu kaldastríði þar sem tilraunum til hreinskiptinnar umræðu var oft tekið sem árás á pólitísk gildi sem áttu rætur í öðrum veruleika en við búum við.

Hugsanlega voru það pólitískrar rætur, utan kvikmyndagerðar, sem ollu því að ný kvikmyndalög voru ekki samþykkt 1990, og í kjölfarið fylgdu sjö mögur ár. En nýtt frumvarp um kvikmyndamál þarf Alþingi að samþykkja, og jafnvel "opna" meira, ekki aðeins vegna þess að það er kominn tími á ný lög, heldur til að reyna það kerfi sem hér er stungið uppá sem fordæmisgildandi fyrir aðrar greinar og vera þannig liður í að endurskoða allt opinbert styrkjafyrirkomulag ríkisins frá grunni. En umræða um markaðsvæðingu, einkavæðingu og alþjóðavæðingu í lista- og menningarmálum almennt fer fram á breiðari vettvangi.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður í London.