23. júní 2001 | Akureyri og nágrenni | 196 orð | 1 mynd

Andlát

Valgerður Hrólfsdóttir

VALGERÐUR Hrólfsdóttir bæjarfulltrúi lést á Akureyri á fimmtudag, 21. júní. Valgerður fæddist í Reykjavík 15. janúar árið 1945, dóttir hjónanna Margrétar Hjaltadóttur og Hrólfs Jónssonar trésmiðs.
VALGERÐUR Hrólfsdóttir bæjarfulltrúi lést á Akureyri á fimmtudag, 21. júní.

Valgerður fæddist í Reykjavík 15. janúar árið 1945, dóttir hjónanna Margrétar Hjaltadóttur og Hrólfs Jónssonar trésmiðs.

Hún lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1964 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1967. Valgerður starfaði lengst af við kennslu, m.a. um árabil við Árbæjarskóla í Reykjavík og Lundarskóla á Akureyri. Hún starfaði einnig á Fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra í nokkur ár, en nú síðast var hún forstöðumaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar á Akureyri.

Valgerður starfaði á yngri árum með KFUK og tók þátt í kristilegu skólastarfi. Þá var hún í sóknarnefnd Akureyrarkirkju og sá um árabil um samverustundir aldraðra í kirkjunni.

Valgerður hefur setið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn Akureyrar, en þátttaka hennar í sveitarstjórnarmálum hófst árið 1987 er hún tók sæti í félagsmálaráði. Hún sat í ýmsum nefndum og ráðum á síðustu tveimur kjörtímabilum, var m.a. í hafnarstjórn, menningarmálanefnd, skólanefnd og þá var hún í stjórn Eyþings, framkvæmdanefnd fyrir reynslusveitarfélagið Akureyri, Leikhúsráði og stjórnum Minjasafnsins og Listasafnsins.

Á síðasta kjörtímabili sat hún einnig í bæjarráði, auk þess að eiga sæti í ýmsum nefndum. Þá var hún formaður stjórnar veitustofnana, átti sæti í héraðsnefnd Eyjafjarðar og héraðsráði.

Eftirlifandi eiginmaður Valgerðar er Kristinn Eyjólfsson læknir. Þau eignuðust þrjá syni.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.