Hluti af sýningunni Djásn og dýrðleg sjöl í Handverk og hönnun.
Hluti af sýningunni Djásn og dýrðleg sjöl í Handverk og hönnun.
Til 8. júlí. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 12-17.
ÍSLENSK fata- og skartgripahönnun stendur með blóma um þessar mundir og hvarvetna spretta upp sérverslanir með ólíkum klæðnaði og djásnum. Göngutúr upp Laugaveginn leiðir í ljós að minnsta kosti fimm nýjar verslanir með skínandi fallegum fatnaði og skartgripum.

Það er sannkallað gleðiefni að hönnun skuli vera farin að sækja í sig veðrið sem raun ber vitni, og reyndar furðulegt að jafnmiklir fatakerar og Íslendingar skuli ekki fyrir löngu hafa hellt sér út í þessa tegund listiðnar. Þá minnkar með auknum hönnunaráhuga óraunhæfur þrýstingur á hreina myndlist. Til skamms tíma þurftu hönnuðir að koma sér á framfæri sem hverjir aðrir ópraktískir myndlistarmenn án þess að fá sómasamlegt tækifæri til að skerpa á sérkennum sínum. Afleiðingin var oftar en ekki misskilinn hrærigrautur myndlistar og hönnunar sem fékk bágt í báðum herbúðum.

Á sýningunni Djásn og dýrðleg sjöl, í hinum frábæru húsakynnum Handverks og hönnunar, eru hvorki meira né minna en 54 munir, af öllum tegundum og gerðum. Það sem gleður augað er sá svífandi léttleiki og útsjónarsemi sem hvarvetna blasir við. Efniviði er teflt saman með nýstárlegum hætti þannig að þunn sjöl og þykkir treflar renna saman í eitt.

Eins eru skartgripir gerðir úr efniviði sem til skamms tíma hefði þótt óhugsandi sem djásn. En það er ekki einungis nýr efniviður á borð við plast sem setur svip á sýninguna í Aðalstræti 12. Hefðbundið hráefni á borð við kýrhorn verður með réttri verkun að skínandi armbandi og hálfdýrmætir steinar frá norðurhjara veraldar nýtast í fágaðar brjóstnælur.

Svo sem á fyrri sýningum í Handverki og hönnun ríkir mikil og sterk bjartsýni, sem lýsir sér í áræði og útsjónarsemi sýnenda. Á burt er allt hið þunglamalega og staðnaða dót sem til skamms tíma fyllti túristamarkaði, án þess að nokkur Íslendingur fengist til að bera varninginn á sjálfs sín kroppi. Ferðamönnum var litið kringum sig án þess að sjá nokkurn heimamann íklæðast þeim þjóðlegu flíkum sem að þeim var haldið sem hefðbundnum íslenskum klæðnaði.

Með þeirri miklu endurreisn sem óneitanlega er hafin í íslenskri fata- og skartgripahönnun er markhópurinn greinilega við sjálf, en jafnframt gestir sem kunna að meta frumlega handíð. Svo virðist sem í fyrsta sinn sé að koma á markað íslensk hönnun sem Íslendingar sjálfir kunna að meta, en það er hvorki meira né minna en frumforsenda þess að við getum verið stolt af okkar eigin smekkvísi og verkkunnáttu.

Halldór Björn Runólfsson