13. júlí 2001 | Bréf til blaðsins | 324 orð

Blóðtappi og flugferðir

MYNDUN blóðtappa í bláæðum í neðri hluta líkamans er ekki óvanalegur vandi eftir skurðaðgerð og þá meira í bláæðum fóta en annars staðar.
MYNDUN blóðtappa í bláæðum í neðri hluta líkamans er ekki óvanalegur vandi eftir skurðaðgerð og þá meira í bláæðum fóta en annars staðar.

Þessir blóðtappar eru segar sem myndast í bláæðum og valda storknun og stíflu í æðunum, þegar blóðstreymi er hægt, eins og hætt er við að sé fyrir hendi, þegar hreyfing er lítil. Þetta er sameiginlegt með ástandi blóðstreymis í fótum á löngum flugferðum og kyrrstöðu eftir langar skurðaðgerðir.

Ýmsar ráðstafanir eru gerðar á sjúkrahúsum vegna skurðsjúklinga, en lítið er gert fyrir flugfarþega. Forvarnir eru áhrifamestar.

Er ekki kominn tími til að huga að þessu?

Það er auðvelt.

Hverjir fá helst blóðtappa?

1.Þeir sem hafa áður fengið bláæðabólgu.

2.Fólk sem er með bjúg á fótum.

3.Þeir sem eru of feitir og þungir.

4.Auk þess margir, sem virðast alveg heilbrigðir. Nú eru flugferðir á lengri leiðum oft 5-7 klst. auk alls biðtímans frá flugvöllum og til enn fjarlægra landa oft 12-14 klst. Það er því von að margir séu í mikilli hættu.

Helstu einkenni um bláæðabólgu eru eymsli og verkur í kálfa eða læri og bjúgur á fótum. Stundum losnar blóðtappinn og siglir þá upp eftir bláæðunum og stoppar lífshættulega í lungnaæðum með mjög alvarlegum afleiðingum, sem krefjast strax meðferðar á sjúkrahúsi.

Forvarnir eru bestar

Hvað geta farþegar gert til að hindra þennan gang mála.

Það þarf að auka hraða á rennsli blóðs í bláæðum með því að:

1.Hreyfa fætur og kreppa vöðva af og til meðan á flugferð stendur. Það er hægt að gera sitjandi í sæti sínu og pumpa með því að stíga fast í fætur en lyfta ristum upp á milli.

2.Djúp öndun eykur líka blóðrennsli í bláæðum. Gott er að anda djúpt nokkrum sinnum af og til.

3.Þá er gott að standa upp og hreyfa sig með góðum fótahreyfingum.

4.Þeir sem hafa bjúg á fótum og merki um þrengsli í bláæðum ættu að vera í teygjusokkum eða með teygjubindi til stuðnings.

Aðalatriði er að gera sér grein fyrir áhættunni og varast afleiðingar, þá er áhættan lítil.

Góða ferð - Góða heimkomu.

PÁLL GÍSLASON

læknir.

Frá Páli Gíslasyni:

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.