13. júlí 2001 | Daglegt líf (blaðauki) | 752 orð | 4 myndir

Töfrandi

táningur

Lárus Guðjónsson er töframaðurinn Lalli. Hann hefur fengist við töfrabrögð hálfa ævina að eigin sögn þó enn sé hann ungur að árum.
Lárus Guðjónsson er töframaðurinn Lalli. Hann hefur fengist við töfrabrögð hálfa ævina að eigin sögn þó enn sé hann ungur að árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HARRY Potter var ungur að árum er hann uppgötvaði galdrahæfileika sína sem hann notar nú óspart og frægt er orðið. Sömu sögu er að segja um töframanninn Lalla, réttu nafni Lárus Guðjónsson.
HARRY Potter var ungur að árum er hann uppgötvaði galdrahæfileika sína sem hann notar nú óspart og frægt er orðið. Sömu sögu er að segja um töframanninn Lalla, réttu nafni Lárus Guðjónsson. Hann hefur þó aldrei gengið í Hogwarts-skóla galdra og seiða heldur er hann í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og hefur því lært flest sín töfrabrögð upp á eigin spýtur.

"Ég var sjö ára þegar áhugi minn á töfrabrögðum kviknaði, svo ég hef verið að galdra hálfa ævina," segir Lalli brosandi en hann varð nýverið fjórtán ára. "Bróðir minn átti galdrakassa og seinna gaf pabbi mér líka lítinn kassa sem ég á reyndar enn þá. Þannig byrjaði þetta," rifjar hann upp.

Fjölskylda Lalla hefur allar götur síðan fengið að njóta hæfileika hans á ættarmótum og í öðrum fjölskylduboðum með góðum undirtektum. Enda er ekkert skyldmenni Lalla gætt galdramætti, svo rétt eins og Harry Potter er Lalli ekki af fornri galdraætt heldur úr muggafjölskyldu!

Pétur pókus í uppáhaldi

Eftirlætistöframaður Lalla er hinn íslenski Pétur pókus. Lalli setti sig í samband við goðið á dögunum og saman hafa þeir galdrað ýmislegt.

"Pétur hefur aðstoðað mig heilmikið og kennt mér mjög margt. Svo hef ég líka fengið að koma fram með honum. Mér hefur farið mikið fram síðan ég kynntist honum," segir Lalli.

Margir töframenn sérhæfa sig í ákveðinni tegund galdra en Lalli fer um víðan völl í galdralistinni. Hann hefur aðallega verið með klúta og sjónhverfingar þeim tengdar auk spilagaldra en segist aftur á móti lítið hafa notað hugarorkuna til að brjóta skeiðar og lyfta hlutum frá jörðu.

Erfiðasta atriðið sem Lalli sýnir er hins vegar með boltum. "Það er nú kannski enginn galdur þar að baki heldur þarf maður að vera duglegur með bolta og æfa sig mjög mikið. Hver hreyfing verður að vera rétt, annars er allt ónýtt," segir hann.

Lært af bókum

Að verða góður töframaður er ekki aðeins meðfæddur hæfileiki heldur þarf að hlúa að honum og rækta í mörg ár. Lalli segir að mikill tími fari í að æfa töfrabrögðin en hann gefi sér þó einnig tíma til að spila fótbolta með vinum sínum. "Galdrarnir eru auðvitað misjafnlega erfiðir. Sumt sem lítur út fyrir að vera mjög létt er það alls ekki og svo öfugt. En þetta er samt allt frekar erfitt," játar Lalli.

Lalli segist halda að til séu skólar sem galdramenn geta sótt en hann hafi lítið kynnt sér þá enn þá. "Ég hef lært ýmislegt af bókum. En þegar maður hefur lært ákveðna tækni getur maður breytt atriðunum og bætt. En svo hef ég lært mjög mikið af Pétri."

Að kaupa galdradót

Harry Potter og galdravinir hans geta heimsótt Skástræti þar sem þeir kaupa allt það galdradót sem hugurinn girnist, allt frá fljúgandi galdrakústum af gerðinni Nimbus 2000 til bóka um hvernig temja eigi galdraskrímsli! Lalli hefur enn ekki þurft að eiga við slíkar skepnur en þarfnast eins og allir galdramenn ýmissa óvenjulegra hluta. Hann lét sér áður verslanir í Reykjavík nægja til að afla sér heppilegra galdraverkfæra en er nú farinn að leita út fyrir landsteinana.

En til hvers þarf eitthvert sérstakt galdradót? Jú, heimur töfranna er sveipaður dulúð, ekki á allra færi og þar er alls ekki allt sem sýnist. Innan hans hafa þróast ýmis tól og tæki sem aðeins galdramenn vita hvaða hlutverki gegna og hvernig eigi að nota. "Sum leyndarmálin á bak við galdrana vita bara töframennirnir," segir Lalli dularfullur á svip. "Þau fara ekkert lengra."

Lalli hefur komið fram opinberlega víða undanfarin misseri, t.d. í sjónvarpi, í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi og ásamt Pétri pókus sem ferðast um landið með Bylgjulestinni í sumar. Þá tekur Lalli einnig að sér að skemmta í barnaafmælum fyrir sanngjarnt verð og er með ýmislegt í pokahorninu sem gleður smáfólkið. Hann býr t.d. til dýr úr blöðrum, dregur kanínur upp úr töfrahöttum og lætur hluti hverfa og birtast á víxl sem fær lítil forvitin augu til að galopnast og jafnvel hár einhverra til að rísa.

"Ég er nýbyrjaður á að koma fram að einhverju ráði en ég hef mjög mikinn áhuga á þessu og ég hef alveg nóg að gera," segir Lalli og bætir við að undanfarið sé hann búinn að ná nokkuð góðum tökum á galdratækninni sem geri atriðin meira spennandi og frambærilegri.

"Það er svo gaman að koma fólki á óvart og sjá það verða furðulostið yfir einhverju bragðinu," segir Lalli með glampa í augum og brosir út í annað. "Það er skemmtilegast við það að vera töframaður."

En ætlar Lalli að leggja töfrabrögð fyrir sig í framtíðinni?

"Já, það er ætlunin. Áhuginn er alla vega fyrir hendi," segir ljóshærði töfrastrákurinn Lalli harðákveðinn að lokum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.