Þotuhreiðrið risið við Leifsstöð HÖGGMYND Magnúsar Tómassonar, Þotuhreiðrið, hefur nú verið sett upp við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Þotuhreiðrið risið við Leifsstöð

HÖGGMYND Magnúsar Tómassonar, Þotuhreiðrið, hefur nú verið sett upp við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Er Þotuhreiðrið annað tveggja listaverka, sem hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við flugstöðina, en hitt verkið, Regnboginn eftir Rúrí, verður væntanlega sett upp snemma í janúar.

Magnús Tómasson sagði við Morgunblaðið að hann væri mjög ánægður með verkið í sinni endanlegu mynd og tekist hefði framúrskarandi til með útfærslu og uppsetningu verksins.

Þotuhreiðrið er risastórt egg úr ryðfríu stáli sem goggur brýst út úr. Eggið situr á steinhrúgu sem rís upp úr tjörn á lóð flugstöðvarinnar. Eggið er um 5,6 metrar að hæð og 4,2 metrar á breidd og vegur á sjötta tonn. Steinhrúgan er um 14 metrar í þvermál og tjörnin er um 1.800 fermetrar. Listaverkið allt er um 9 metrar á hæð.

Fyrirtækið Orri hf. sá um smíðina á egginu en T.V. verktakar hlóðu steinhrúguna og gengu frá tjörninni. Að sögn Magnúsar Tómassonar er endanlegur kostnaður við verkið ekki ljós, en hann yrði þó innan við 30 milljóna króna fjárveitingu sem veitt var til verksins.

Morgunblaðið/RAX

Þotuhreiðrið eftir Magnús Tómasson er nú risið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.