Dúkarúllurnar sem starfsmaður Þjóðleikhússkjallarans sýndi blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins fyrir orð Árna fóru upphaflega til Vestmannaeyja, en Árni lét senda þær til Reykjavíkur þegar fjölmiðlar fóru að fjalla um störf hans í byggingarnefnd Þjóðl
Dúkarúllurnar sem starfsmaður Þjóðleikhússkjallarans sýndi blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins fyrir orð Árna fóru upphaflega til Vestmannaeyja, en Árni lét senda þær til Reykjavíkur þegar fjölmiðlar fóru að fjalla um störf hans í byggingarnefnd Þjóðl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttir um dúk, sem Árni Johnsen keypti í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins, urðu á endanum til þess að Árni sagði af sér þingmennsku. Morgunblaðið flutti tvívegis fréttir um dúkinn sem höfðu að geyma rangar upplýsingar um hvernig í málum lá. Egill Ólafsson rekur fréttaflutnings blaðsins og annarra fjölmiðla um mál Árna Johnsen þar sem fram kemur að ítrekað er haldið röngum upplýsingum að fjölmiðlum.

MÁL Árna Johnsen var fyrst nefnt í fjölmiðlum föstudaginn 13. júlí þegar DV birti frétt um að Árni hefði tekið út byggingarefni í BYKO 2. júlí í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Blaðið sagði frá því að Árni hefði sjálfur sótt efnið og endurmerkt vörurnar. Móttakandi var upphaflega skráður Þjóðleikhúsið, en Árni óskaði eftir því að vörurnar yrðu sendar á heimili sitt í Vestmannaeyjum. Í blaðinu gefur Árni þær skýringar að um misskilning hafi verið að ræða; vörurnar hafi aldrei átt að fara til Þjóðleikhússins heldur til sín.

Þessar skýringar endurtók Árni í Morgunblaðinu í frétt sem birtist daginn eftir.

"Ég hafði reyndar áður rætt við sölumann BYKO um möguleg viðskipti fyrir Þjóðleikhúsið. En þegar ég kem að ná í pöntunina virðast hafa orðið einhver mistök og mín pöntun er merkt Þjóðleikhúsinu. Ég var ekkert að fela það að ég leiðrétti það, síðan var þetta leiðrétt gagnvart BYKO og aldrei skráð skuld á Þjóðleikhúsið heldur á mig. Það er reynt að gera það tortryggilegt að ég breytti nafninu á pöntuninni en annað var ekki hægt, því ég var að drífa þessa pöntun í flutning út í Vestmannaeyjar," er haft eftir Árna.

Sama dag og DV birti sína frétt af málinu óskaði Gísli S. Einarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, eftir stjórnsýsluúttekt á byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Frá þessu er greint í frétt Morgunblaðsins í laugardagsblaðinu. Daginn eftir var bréf Gísla til forseta Alþingis birt orðrétt í Morgunblaðinu.

Aðrir fjölmiðlar sögðu strax frá frétt DV um kaup Árna á byggingarefni í BYKO. Ítarlega var t.d. greint frá málinu í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu á föstudaginn.

Ósannindi um óðalssteina

Í hádeginu á sunnudag sagði Ríkisútvarpið frá því að í bókhaldi byggingarnefndar Þjóðleikhússins væri að finna reikning vegna óðalskantsteina frá BM-Vallá. Reikningurinn, sem hljóðaði upp á 160 þúsund krónur, var frá því í lok maí. Ekki var skráður afhendingarstaður á reikninginn, aðeins að steinarnir yrðu sóttir í verslunina. RÚV hafði eftir Rafni Gestssyni, húsverði í Þjóðleikhúsinu, að hann vissi ekki til þess að slíkur steinn hefði verið pantaður og hann væri hvergi að finna í leikhúsinu. Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri sagðist í viðtali við fréttastofuna ekki vita hvers vegna steinarnir hefðu verið pantaðir.

Útvarpið hafði ekki náð í Árna vegna vinnslu fréttarinnar, en í kvöldfréttum þennan sama dag er viðtal við Árna þar sem hann gefur skýringar á þessu máli. Hann sagði að steinana hefði átt að nota til að gera við stétt við austurhlið Þjóðleikhúsins. "Þetta hefur dregist nokkuð vegna þess að það átti að tengja þetta öðrum hlutum sem verið er að fjalla um í skipulagi höfuðborgarinnar."

Þegar fréttamaður spurði Árna hvar steinarnir væru niður komnir svaraði hann: "Steinarnir eru geymdir á ákveðnum brettum og eru í geymslu og eru á vísum stað."

Árni kom sér undan því að svara því hver hefði sótt steinana og sagðist ekki vita nákvæmlega hvar steinarnir væru geymdir.

Á mánudagsmorguninn kom fram í fjölmiðlum að óðalssteinar væru ekki geymdir á brettum hjá BM-Vallá heldur í stórum sekkjum og fullyrt var að búið væri að skila sekkjunum og innheimta skilagjald fyrir þá.

Í hádegisfréttum RÚV upplýsti Árni svo að steinarnir, sem keyptir voru af byggingarnefnd Þjóðleikhússins, hefðu verið fluttir á heimili hans í Reykjavík og búið væri að leggja þá í stétt við húsið. "Þegar ég pantaði steina og sótti þá var sama dag gefin út tilkynning á frestun á framkvæmdum sem hafði verið hugað að á svæði Þjóðleikhússins. Þetta átti að fylgjast að. Ég ætlaði að koma þeim í geymslu, en fékk þá þá hugmynd að nota sams konar steina og notaði þessa pöntun fyrir mig sjálfan. Ég ætlaði að panta aðra pöntun en var því miður ekki búinn að gera það þegar fjaðrafokið byrjaði."

Árni upplýsti jafnframt að hann hefði endurgreitt steinana og að hann myndi segja sig úr byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Fréttamaður RÚV spurði Árna hvort hann teldi að honum væri stætt á að sitja áfram sem þingmaður þegar upplýst væri að hann hefði sagt ósatt.

"Já, já, ég held að þetta sé nú ekki þess eðlis þetta mál. Þegar standa öll járn á manni og þá reynir maður ósjálfrátt að víkja sér undan og þetta er nú ekki alvarlegt."

"Þér finnst þetta ekki alvarlegt brot?" spurði fréttamaðurinn.

"Nei, ekki stóralvarlegt en þetta er ekki til fyrirmyndar," svaraði Árni.

Orð gegn orði um viðskiptin við BYKO

Morgunblaðið kemur ekki út á mánudögum og því birtust fréttir af viðskiptum Árna í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins ekki fyrr en í þriðjudagsblaðinu, en margt hafði þá komið fram um málið frá því að það kom fyrst upp. Blaðið var með ítarlega umfjöllun um málið í því blaði sem þakti rúmlega þrjár blaðsíður, auk fréttar á baksíðu. Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti þar miklum vonbrigðum með framgöngu Árna og sagðist telja óhjákvæmilegt að fara ofan í alla þætti sem snúa að umsýslustörfum þingmannsins á undanförnum árum. Hann sagði að Árni yrði sjálfur að meta það hvort hann hefði brugðist trausti og lagði áherslu á að samband þingmanns og kjósenda snerist bara um traust.

Stjórnendur BYKO höfðu fram að þessu ekki hafnað því fortakslaust í fjölmiðlum, að um einhvers konar mistök hefði verið að ræða þegar Árni tók út byggingarefni sem skráð var á reikning byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Í þriðjudagsblaði Morgunblaðsins sagðist Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri BYKO, hins vegar ekki vera þeirrar skoðunar að um misskilning væri að ræða eins og Árni hafði þá ítrekað haldið fram.

"Í fyrra tilvikinu, sem var í maí, keypti Árni vörur fyrir um 400 þúsund krónur í nafni Þjóðleikhússins. Nokkru síðar fór hann fram á að við bakfærðum kröfuna, þar sem ekki væri komin nauðsynleg fjárveiting og af þeim sökum gæti hann ekki staðið við þetta. Þar sem varan hafði þegar verið afhent settum við kröfuna inn á sk. verslunarstjórareikning hjá okkur, eða biðreikning, sem er notaður í þeim tilvikum þegar tafir verða á fjárveitingum. Það hefur átt sér stað í mörgum tilfellum með opinbera aðila og einnig einkafyrirtæki," segir Jón Helgi.

Jón Helgi segir í fréttinni að forráðamenn BYKO hafi ekkert aðhafst frekar í málinu fyrr en í þessum mánuði, að Árni hafi aftur sótt vörur, nú fyrir ríflega eina milljón króna, og keypt á reikning Þjóðleikhússins en endurmerkt á vörubílspalli að fjölda manns ásjáandi og látið senda heim til sín til Eyja.

"Þar gekk hann alveg fram af mínu fólki og þannig varð þetta mál til. Eftir sem áður sat úttektin frá í maí áfram inni á biðreikningi í nafni Þjóðleikhússins. Þegar Árni varð síðan var við að farið var að skipta sér af þessu máli kom hann til okkar og borgaði báða reikningana og bar því við að um misskilning hefði verið að ræða."

Árni ítrekaði í viðtali við Morgunblaðið að um misskilning hefði verið að ræða. Byggingarefnið hefði ekki átt að fara inn á reikning byggingarnefndarinnar og hefði raunar aldrei gert það vegna þess að hann hefði leiðrétt mistökin þegar hann hefði uppgötvað þau. Árni viðurkenndi hins vegar í samtali við blaðið að hann hefði tekið óðalssteinana, sem byggingarnefndin borgaði fyrir, í eigin þágu. "Ég vil segja almennt um þessa steina að auðvitað var ekki rétt staðið að málum af minni hálfu. Ég verð að biðjast afsökunar og fyrirgefningar á þessu," er haft eftir Árna í blaðinu.

Hvar var dúkurinn?

Stöðugar fréttir voru í fjölmiðlum af málum Árna Johnsen. DV sagði frá því á þriðjudagsmorgun, að Árni hefði pantað þakrennur frá Vírneti hf. fyrir milligöngu BYKO í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins og í hádegisfréttum Bylgjunnar og í kvöldfréttum Stöðvar tvö var sagt frá því að Árni hefði keypt og sótt dúk, sem ýmist er nefndur þéttidúkur eða tjarnardúkur, í nafni byggingarnefndarinnar í verslunina Garðheima 2. júlí sl. Athyglin beindist fljótlega að þessum dúk sem kostaði 173 þúsund krónur.

Í frétt Stöðvar tvö sagði m.a. um þennan dúk. "Annan júlí síðastliðinn sótti Árni Johnsen tvær rúllur af tjarnardúk í verslunina Garðheima en um er að ræða sérstakan gúmmídúk sem meðal annars er notaður í að búa til tjarnir og gera við flöt þök sem leka. Eigandi Garðheima segir að dúkurinn hafi kostað 170 þúsund krónur og reikningurinn hafi verið stílaður á byggingarnefnd Þjóðleikhússins, meðal annars vegna bílastæðis og smíðaverkstæðis leikhússins."

Haft er eftir Gísla Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Garðheima, að í samtali hans við Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóra fyrr um daginn, hafi komið fram að hann kannaðist ekki við dúkinn.

Þegar upplýsingar höfðu komið fram á Bylgjunni um dúkinn óskaði fréttastjóri Morgunblaðsins eftir því við höfund þessarar greinar að hann skrifaði frétt um málið til birtingar daginn eftir. Vegna þess sem síðar gerðist þykir Morgunblaðinu rétt að rekja nokkuð nákvæmlega hvernig staðið var að fréttaöflun við vinnslu frétta um þennan dúk.

Morgunblaðið ræddi í upphafi við Gísla Sigurðsson, framkvæmdastjóra Garðheima, sem staðfesti það sem áður hafði komið fram í frétt Bylgjunnar að Árni Johnsen alþingismaður hefði í byrjun þessa mánaðar keypt þéttidúk í Garðheimum í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Hann sagði að Árni hefði sjálfur sótt dúkinn og kvaðst aðspurður ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að dúkurinn hefði farið til Þjóðleikhússins.

Morgunblaðið hringdi því næst í Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóra sem tilkynnti í upphafi samtalsins að þar sem Ríkisendurskoðun hefði hafið rannsókn á störfum byggingarnefndar Þjóðleikhússins ætti hann erfitt með að tjá sig mikið um málið. Ríkisendurskoðandi hefði mælst til þess að málsaðilar, sem ættu eftir að upplýsa stofnunina um sína hlið málsins, tjáðu sig ekki við fjölmiðla um málið. Stefán kvaðst þó geta staðfest að um það hefði verið rætt að gera við eystri hlið Þjóðleikhússins en lekið hefur inn á smíðaverkstæði leikhússins frá bílastæði. Um það hefði verið rætt að nota dúk við þessa viðgerð, en það hefði verið gert áður með góðum árangri. Þessar framkvæmdir væru hins vegar ekki hafnar og kvaðst Stefán ekki vita hvar þessi dúkur væri niður kominn.

Morgunblaðið náði um kvöldmatarleyti samband við Árna Johnsen sem sagði eins og Stefán að fyrirhugað væri að fara í þessar viðgerðir og stefnt hefði verið að því að verkið yrði unnið í sumar. Þess vegna hefði dúkurinn verið keyptur, en framkvæmdir hefðu tafist.

Árni var spurður hvar dúkinn væri að finna. "Dúkurinn er í Þjóðleikhúsinu eða í geymslu í húsi úti í bæ. Ég held að húsvörður leikhússins ætti að geta bent á hvar dúkurinn er," svaraði Árni.

Vegna þessara orða Árna hafði Morgunblaðið, við lokafrágang fréttarinnar, samband við Rafn Gestsson, húsvörð Þjóðleikhússins, til að freista þess að fá þetta mál á hreint.

Samtalið var ekki tekið upp á segulband, en Rafn staðfesti við blaðið að hann vissi hvar dúkinn væri að finna og sagði að hann væri í geymslu á vegum leikhússins. Þegar hann var spurður hvort hann teldi að dúkurinn yrði notaður í viðgerðir á leikhúsinu svaraði hann því til að hann teldi engar líkur á öðru en að það yrði gert. Í lok samtalsins ítrekaði Rafn aðspurður, að dúkurinn væri ekki hjá Árna.

Frétt um dúkinn birtist síðan á blaðsíðu 12 í fyrradag og auk þess birtist tilvísun í fréttina á baksíðu.

Fullyrt að fréttin væri röng

Morguninn eftir hafði fréttamaður Stöðvar tvö samband við Morgunblaðið, en Stöð tvö og Bylgjan höfðu fyrst greint frá viðskiptum Árna með dúkinn. Hann sagði að þar sem Morgunblaðið hefði með frétt sinni borið brigður á að ásakanir í garð Árna um sviksemi í sambandi við viðskipti hans með dúkinn ættu við rök að styðjast hefði fréttamaðurinn óskað eftir því við þjóðleikhússtjóra að fá að mynda dúkinn. Þjóðleikhússtjóri hefði sagt að það væri ekki hægt því að dúkurinn væri hvorki í húsinu né í geymslum á vegum hússins. Frétt Morgunblaðsins væri því röng. Um sama leyti birtist viðtal við Stefán á fréttavefnum Vísi.is þar sem hann segir: ,,Ég talaði við húsvörðinn í morgun og hann segir þetta ekki rétt eftir sér haft því hann hafi hvorki fengið né séð þennan dúk og hafi eingöngu orð Árna Johnsen fyrir því að þessi dúkur sé í geymslu úti í bæ. Þannig að það er erfitt fyrir okkur að veita aðgang að dúknum."

,,Það er mjög klaufalega frá þessu sagt hjá Morgunblaðinu í morgun því það er haft eftir húsverðinum að dúkurinn sé í vörslu Þjóðleikhússins. Þetta stangast algjörlega á við það sem ég segi í sama blaði. Þetta kemur út í Morgunblaðinu eins og húsvörðurinn viti hvar dúkurinn er og að dúkurinn sé í einhverri geymslu á vegum leikhússins, en það er ekki tilfellið," segir þjóðleikhússtjóri.

Þarna voru komnar fram ásakanir um rangan fréttaflutning Morgunblaðsins og leitaðist blaðið strax við að varpa ljósi á málið með því að hafa samband við Rafn Gestsson húsvörð. Hann sagði strax að hann mætti ekki tjá sig um málið við fjölmiðla. Hann hefði fengið ákúrur frá sínum yfirmanni vegna þess sem haft var eftir honum í Morgunblaðinu. Þegar spurt var hvort eitthvað hefði verið rangt haft eftir honum í fréttinni kvaðst hann ekki kannast við að hann hefði sagt að geymslan væri "á vegum leikhússins". Blaðamaður Morgunblaðsins kvaðst telja að hann hefði sagt þetta en gat ekki sannað það vegna þess að samtalið hafði ekki verið tekið upp á segulband. Rafn tjáði blaðamanni aðspurður að hann vissi hvar dúkurinn væri. Þegar hann var spurður hvort geymslan væri "á vegum Árna" ítrekaði hann það sem hann hafði áður sagt að hann hefði fengið fyrirmæli um að tjá sig ekki við fjölmiðla. Samtalinu lauk því án þess að ljóst væri hvar dúkinn væri að finna.

Þar sem fram hafði komið fyrr um morguninn að Stefán Baldursson gat ekki bent á dúkinn ákvað Morgunblaðið að hafa samband við Árna Johnsen og kanna hvort hann gæti skýrt þetta mál. Þegar náðist í Árna var honum bent á að fram hefðu komið ásakanir um að Morgunblaðið væri með rangan fréttaflutning af máli sem tengdist honum og var hann spurður hvort hann gæti bent á dúkinn. Fram kom í samtalinu að Morgunblaðinu vildi fá að taka mynd af dúknum þannig að ekkert færi á milli mála. Árni sagði að það ætti að vera hægt og kvaðst hringja aftur fljótlega.

Nokkrum mínútum síðar hringdi hann og sagði að Daníel Helgason, sem starfað hefur hjá Forum ehf., rekstraraðila Þjóðleikhúskjallarans, væri tilbúinn að sýna dúkinn. Hann gaf upp símanúmer Daníels og varð að samkomulagi milli blaðamanns Morgunblaðsins og hans að hittast við geymslu Þjóðleikhúskjallarans uppi í Gufunesi kl. 13:30 þar sem dúkinn væri að finna.

Blaðamaður og ljósmyndari fóru upp í Gufunes á umsömdum tíma. Daníel opnaði geymsluna og var tekin mynd af margumræddum dúk. Daníel upplýsti þar að dúkurinn hefði verið þar í 7-10 daga. Hann sagði að hann hefði þurft að rýma dót úr Þjóðleikhúskjallaranum og "...Rabbi [húsvörður Þjóðleikhússins] bað mig að kippa dúknum með."

Þegar hér var komið sögu lá fyrir að dúkurinn var í geymslu sem tengdist Þjóðleikhúsinu og starfsmaður Þjóðleikhúskjallarans hafði fullyrt að hann hefði verið þar í 7-10 daga. Morgunblaðið taldi því ekki forsendu fyrir því að rengja frásögn Árna Johnsen og birtist frétt og mynd á fréttavefnum mbl.is um málið. Þar sem Rafn Gestsson og Stefán Baldursson vildu ekki veita fjölmiðlum frekari upplýsingar um málið taldi blaðamaður Morgunblaðsins að yfirlýsingar þeirra mætti skýra með því að Morgunblaðið hefði sagt að dúkurinn væri í geymslu "á vegum leikhússins", en hið rétta væri að dúkurinn hefði verið í geymslu "á vegum Þjóðleikhúskjallarans." Þess má geta að Stefán Baldursson hafði áður lagt áherslu á það við blaðamann Morgunblaðsins að ekki mætti rugla saman Þjóðleikhúsinu og byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Hann hafði m.a. sent athugasemd til blaðsins á þriðjudaginn til að árétta þetta, en í frétt um útgjöld byggingarnefndar var talað um Þjóðleikhúsið þegar með réttu var átt við byggingarnefnd Þjóðleikhússins.

Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt þar sem annars vegar voru raktar þær upplýsingar, sem blaðið taldi á þeim tíma réttar um dúkinn en hins vegar þau sjónarmið sem Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri hafði lýst í samtölum við útvarpsstöðvar fyrr um daginn. Með þessu vildi blaðið gefa lesendum færi á að lesa orðrétt þá gagnrýni sem fram hafði komið á fréttaflutning blaðsins af dúknum.

Árni baðst afsökunar á að hafa veitt rangar upplýsingar

Um kl. 9:30 í gærmorgun fékk Morgunblaðið ábendingu um að dúkurinn, sem nú lá í geymslu í Gufunesi, hefði einungis verið þar í tvo daga og að hann hefði fyrr í mánuðinum verið sendur til Vestmannaeyja. Morgunblaðið hafði þegar í stað samband við Árna Johnsen til að fá skýringar á þessu. Árni kvaðst í fyrstu ekki kannast við þetta. Þegar á hann var gengið kvaðst hann þurfa að athuga málið, en hringdi nokkru seinna og viðurkenndi að fyrri fullyrðingar hans um dúkinn hefðu verið rangar. Hann hefði sent dúkinn frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Þegar hann var spurður hvaða dag þetta hefði verið svaraði hann að þetta hefði verið sl. þriðjudag. Síðdegis í gær hafði Árni Johnsen svo samband við Morgunblaðið og baðst afsökunar á framferði sínu.

Í frétt DV um málið í gær segir: "Þéttidúkur sem Árni Johnsen alþingismaður keypti í versluninni Garðheimum í byrjun júlí á nafni Þjóðleikhússins var sendur til Vestmannaeyja þann 11. júlí. Sendandi var Árni Johnsen en að auki sendi hann bretti af húsgögnum og steinaplötu.

Dúkurinn, sem valdið hefur miklu uppnámi og deilum, var síðan sendur til baka frá Vestmannaeyjum í fyrradag. Það var Flutningaþjónusta Magnúsar sem tók að sér að flytja dúkinn ásamt húsgögnunum til baka frá Eyjum. Á vöruflutningamiðstöðinni Flytjanda varð uppi fótur og fit þegar starfsmenn uppgötvuðu að þarna var um að ræða dúkinn sem Morgunblaðið hafði upplýst að sé í geymslu Þjóðleikhússins. "

DV tók viðtal við sendibílstjórann sem flutti dúkinn og staðfesti hann að hann hefði flutt dúkinn í Gufunes sl. þriðjudag. Hann sagði jafnframt að Árni hefði hringt í sig og sagt sér hvert ætti að flytja dúkinn.

Daníel Helgason staðfesti síðan með yfirlýsingu til fjölmiðla, sem birt er í heild í Morgunblaðinu, að hann hefði logið að blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.