[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Nú þegar fjöldi færeyskra danskvæða er til á prenti - og hefur þar með verið forðað frá glötun - og þegar færeyskur dans er stiginn af lífi og sál niðri á bryggju á sumarkvöldum veltir maður því fyrir sér hvort færeysku danshefðinni sé borgið. Færeyski hringdansinn (eða keðjudansinn) er svo mikið meira en kvæðið sjálft. Hann er samfélagsleg athöfn þar sem saman fer frásögn, söngur og taktfastar hreyfingar allra sem taka þátt."

LAUGARDAGSKVÖLDIÐ 9. júní stóð "Hafnar dansfélag" fyrir bryggjuballi niðri við höfnina vestan megin við Þinganesið, í miðbæ Þórshafnar. Dansa átti færeyskan hringdans fram eftir kvöldi en síðan yrði stiginn nútímalegri paradans fram á nóttina, en slíkur dans er kallaður "enskur dansur" í Færeyjum.

Víða í Færeyjum hafa verið stofnaðir dansklúbbar þar sem fólk dansar færeyskan hringdans í þeim tilgangi kannski fyrst og fremst að skemmta sér í nánu samfélagi við aðra. Allir sem tekið hafa þátt í þessari færeysku hefð vita að það getur verið ólýsanlega skemmtilegt að upplifa galdur dansins þegar best tekst til. En dansfélögin hafa að sjálfsögðu einnig það að markmiði að viðhalda þessum forna sið og að miðla kvæðunum á lifandi hátt til næstu kynslóða. Þótt öll þekkt danskvæði séu til á prenti í dag og því öllum aðgengileg er besta leiðin til að læra að njóta þeirra í gegnum virka þátttöku í dansinum.

"Færeyingar hafa haldið lífi í danskvæðahefðinni og danskvæðahefðin hefur haldið lífi í Færeyingum," segir í formála að nýlegri útgáfu á færeyskum danskvæðum. Ekki ber að efast um sannleiksgildi þessara orða, að minnsta kosti er víst að það er mikið til danskvæðahefðinni í Færeyjum að þakka að færeyskt tungumál hélt velli þrátt fyrir harða aðsókn dönskunnar allt frá miðri sextándu öld fram á þá nítjándu. Við siðaskiptin um miðja sextándu öld varð danska ráðandi tungumál í Færeyjum í opinberri trúariðkun sem og allri stjórnsýslu. Þetta hafði í för með sér að færeyskt ritmál lagðist af: Kirkjurnar fengu danskar biblíur og sálmabækur, auk þess sem prestarnir voru flestir danskir. Á veraldlegum valdastólum sátu Danir í meirihluta ekki síður en í hinum geistlegu hægindum og lög og reglugerðir voru færðar til bókar á tungumáli herraþjóðarinnar. Áhrif þessarar dönskuvæðingar voru að sjálfsögðu margvísleg, auk útrýmingarinnar á færeysku ritmáli má nefna að fjöldi danskra tökuorða skaut rótum í færeysku talmáli þótt nýju orðin hafi yfirleitt lagað sig að færeyska beygingarkerfinu.

En almenningur hélt tryggð við færeyskuna í daglegu tali og þótt Færeyingum væri uppálagt að syngja sálmana í kirkjunni á dönsku þá gerðu þeir það með sínu nefi, bæði hvað varðar framburð og laglínur. Sama má segja um danskvæðin, þótt ýmis dönsk kvæði og vísur hafi átt vinsældum að fagna og flotið með þegar Færeyingar gerðu sér dagamun og dönsuðu hringdans þá var danski textinn yfirleitt lagaður að færeyskunni og minnti framburðurinn fremur á norska tungu en danska. Og ætíð var frumsaminn færeyskur kveðskapurinn í hávegum hafður.

"Glymur dansur í höll, dans sláið í hring"

Vitað er að danskvæðahefðin í Færeyjum nær óslitið aftur að minnsta kosti um sex til sjö alda skeið. Eins og Íslendingar búa Færeyingar að ríkulegri munnlegri sagna- og kvæðahefð og eru elstu uppskriftir slíks efnis frá fyrri hluta sautjándu aldar. En því miður er lítið til af heimildum um danskvæðin fyrr en á átjándu öld þegar farið var að skrá þau skipulega niður. Eina elstu heimildina um færeyskan dans er reyndar að finna í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara. Jón segir frá því þegar hann lenti í gleðskap miklum hjá lögmanninum Mikael í Lambhaga ásamt mönnum af aðmírálaskipinu sem hann var munstraður á: "Þar var gleði höfð á margan hátt með hljóðfærum margs konar og upp á færeyska vísu dans og hringbrot með söng og kvæðum." Þetta var árið 1616 og harma margir að Jóni skyldi ekki hugkvæmast að nefna undir hvaða kvæðum dansinn var stiginn. Óskandi hefði verið að hann hefði sýnt sömu nákvæmni og þegar hann, beint á undan frásögninni af dansinum, telur upp þær vín- og bjórtegundir sem hafðar voru á borðum í veislunni: "...sem var mjöður með þrennu móti, vín margháttað, Hamborgaröl, lýbískt öl, Rostockaröl, Þrándheimsöl, Kaupinhafnaröl með tvennu móti, engelskt öl með þrennu móti, sem var all [e. ale], strangbýr [e. strongbeer], og skipsöl."

Elstu uppskriftir af færeyskum kvæðum sem vitað er um eru frá árinu 1639, þá fékk fornfræðingurinn Ole Worm sendar uppskriftir af tólf kvæðum (að því talið er) til Kaupmannahafnar. Þessi handrit urðu eldinum mikla 1728 að bráð, en að minnsta kosti fimm af þessum tólf kvæðum eru ennþá þekkt (ekki er vitað hvaða sjö önnur kvæði um var að ræða). Af kvæðunum fimm úr þessari elstu þekktu uppskrift eru tvö sem byggja á efni úr íslenskum rómönsum (frumsömdum riddarasögum): Berrings vísa, sem byggð er á atriði úr Bærings sögu, og Koralds kvæði, sem byggt er á Konráðs sögu keisarasonar. Þessi tvö kvæði eru að mörgu leyti frábrugðin hefðbundnum færeyskum kvæðum. Þannig er Berrings vísa samsett af löngum erindum (9 línur) og án viðlags og þegar Koralds kvæði er skoðað nánar kemur í ljós að hér er líklega upphaflega um íslenska rímu að ræða, en sú ríma er þó glötuð í sínu upphaflega formi.

Á tímabilinu 1770-1870 var skipulega staðið að því að safna og skrifa niður kvæði og vísur um allar Færeyjar. Á grundvelli þess efnis sem þá var safnað varð til geysimikið kvæðahandrit, Corpus Carminum Færoensium, sem Svend Grundtvig og Jörgen Bloch ritstýrðu. Þetta verk inniheldur um 70 þúsund kvæðaerindi og vísur og af því getur maður ímyndað sér hversu sterk danskvæðahefðin var í Færeyjum á átjándu og nítjándu öld þegar íbúar eyjanna voru aðeins um fimm þúsund talsins.

Einn af upphafsmönnum kvæðauppskriftanna var Jens Christian Svabo (1746-1824) sem á árunum 1781 og 82 ferðast um Færeyjar til að safna efni til náttúrulýsingar og safnaði hann kvæðum í leiðinni. Kvæðauppskriftir Svabos vöktu áhuga fárra fræðimanna á átjándu öld. Þær lágu og rykféllu á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn þar til ungur fræðimaður að nafni Rasmus Rask fékk góðfúslegt leyfi til að kíkja í þetta þykka handrit; hann vantaði heimildir til að nota í kafla um færeyskt mál í bók sem hann var að skrifa um íslenskt mál (1811). Rask hreifst af handriti Svabos, hann gerði sér grein fyrir því að þarna væri um fjársjóð að ræða, en þrátt fyrir tilraunir hans að koma þessum efnivið á framfæri við fræðimenn þá leiddu þær aðeins til þess að ein vísa úr handriti Svabos komst á prent í sænsku vísnasafni sem gefið var út 1814. Þetta var eina kvæðauppskrift Svabos sem komst á prent meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en 1939 að kvæðauppskriftir Svabos voru gefnar út, en það var fræðimaðurinn og skáldið Christian Matras (1900-1988) sem þar var að verki. Christian Matras sá einnig um útgáfu á kvæðunum úr Corpus Carminum Færoensium (ásamt N. Djurhuus) og komu þau út í sex bindum á árunum 1941-1972 undir heitinu Föroya kvæði.

"Grani bar gullið av heiði. Brá hann sínum brandi av reiði..."

Árið 1817 kom maður að nafni Hans Christian Lyngbye til Færeyja í þeim erindagjörðum að rannsaka þörunga. Þegar ekki viðraði til þörungarannsókna stytti Lyngbye sér stundir við að skrifa upp eftir gamla fólkinu ýmis kvæði sem það kunni. Á meðal kvæðanna sem hann skrifaði upp var fjöldi erinda úr svonefndu Sjúrðar kvæði sem honum fundust afar áhugaverð og skemmtileg. Þegar hann kom til baka til Kaupmannahafnar sýndi hann prófessor P.E. Müller þessi kvæði, en Müller sá strax að þarna var komin sagan af Sigurði Fáfnisbana í óvenjulegu kvæðaformi. Þar sem Lyngbye hafði ekki skrifað upp allt kvæðið í heild sinni, lét Müller nú þau boð út ganga til Færeyja að skrifa skyldi upp öll þau erindi úr Sjúrðar kvæði sem karlar og kerlingar geymdu í minni sínu. Boð þetta bar heilladrjúgan ávöxt bæði fyrir prófessorinn og fyrir færeyskar bókmenntir því nú fór söfnun kvæða fyrst í gang fyrir alvöru. Hafin var skipuleg skráning leikra og lærðra manna um allar eyjar og til urðu stór handrit sem kennd eru við byggðarlögin: Sandeyjarbók, Fugleyjarbók, Koltursbók o.s.frv.

Þeir félagar Lyngbye og Müller gáfu út bókina Færöiske Qvæder om Sigurd Fofnersbane og hans Æt, árið 1822. Verkið - sem er fyrsta útgefna færeyska bókin - vakti talsverða athygli innan fræðimannasamfélagsins víða um heim, ekki síst fyrir merkan inngang Müllers þar sem hann gerði grein fyrir efnivið kvæðisins og sérstakri úrvinnslu þess á sagnaarfi sem þekktur var víða á Norðurlöndum og í Evrópu. Müller taldi sig geta sýnt fram á að Sjúrðar kvæði væri ekki aðeins sprottið af þekktum heimildum svo sem Völsunga sögu og Þiðriks sögu, heldur var hann viss um að kvæðinu til grundvallar lægju Eddukvæði sem nú eru glötuð. Sjúrðar kvæði segir í löngu máli frá hetjudáðum Sigurðar Fáfnisbana; frá ævintýraríku lífi hans og harmrænum dauðdaga. Kvæðið segir einnig frá lífi og örlögum Brynhildar Buðladóttur, Guðrúnar Gjúkadóttur og Högna, svo fátt eitt sé nefnt. Kvæðið er í fjórum meginhlutum eða þáttum og er í heild yfir sex hundruð erindi. Þættirnir heita Regin smiður, Brynhildar táttur, Högna táttur og Aldrias táttur.

Við útgáfu Lyngbyes og Müllers á Sjúrðar kvæði urðu ákveðin vatnaskil í sögu færeysku kvæðanna. Segja má að við prentun þessarar fyrstu færeysku bókar hafi hin "munnlega hefð" verið úr sögunni; það er að segja hún umbreyttist í "bókmenntir" með því að það verk sem Svabo, Lyngbye og fleiri byrjuðu á hófst nú fyrir alvöru í kjölfar útgáfunnar og smám saman komast allur hinn munnlegi arfur á prent og í dag eru til á prenti á þriðja hundrað kvæðabálkar.

"Glaðir ríða Noregis menn til hildarting"

Kvæðin sem er að finna í safnverkinu Föroya kvæði eru fjölbreytt að efni og gerð. Þau elstu eru frá miðöldum og hafa varðveist í munnlegri geymd mann fram af manni, en þau yngstu eru frá nítjándu öld og eru höfundar þeirra þekktir. Má til dæmis nefna skáldið Jens Christian Djurhuus (1773-1853) sem orti kvæði sem enn í dag eru geysivinsæl. Hann orti meðal annars kvæðið Orminn langa sem er í 85 erindum og byggist á Ólafs sögu helga. Þá orti hann einnig kvæði út frá efni Færeyinga sögu.

En hvernig er hefðbundið færeyskt danskvæði? Það er frásagnarkvæði; kvæði sem segir sögu í mörgum erindum. Oft hefst kvæðið á því að forsöngvarinn syngur nokkurs konar inngangsvers, þar sem hann snýr sér að viðstöddum og spyr hvort þeir vilji hlýða á frásögn hans. Þannig hefst til að mynda Ormurinn langi:

Viljið tær hoyra kvæði mítt,

viljið tær orðum trúgva,

um hann Ólav Tryggvason,

hagar skal ríman snúgva.

Yfirleitt er um tveggja eða fjögurra lína erindi að ræða með viðlagi sem sungið er milli allra erinda. Viðlagið getur verið það sama frá einu kvæði til annars, jafnvel er um að ræða ljóðræn stef sem þekkt eru víða á Norðurlöndum. Dæmi um slíkt viðlag er: "Leikum fagurt á foldum / eingin treður dansin undir moldum." Einnig getur verið um að ræða viðlag sem tilheyrir aðeins einu kvæði og tengist kvæðaefninu. Hér má nefna viðlagið við Sjúrðar kvæði:

Grani bar gullið av heiði.

Brá hann sínum brandi av reiði.

Sjúrður vann av orminum.

Grani bar gullið av heiði.

Færeyskt danskvæði getur verið allt frá því að vera samsett örfáum erindum upp í mörg hundruð erindi. Ein ástæðan fyrir lengd margra kvæðanna er fjöldi endurtekninga, sama erindið er kannski endurtekið með smávægilegri breytingu frá einu erindi til annars.

Efnislega má skipta færeysku kvæðunum niður í sex flokka: Náttúrukvæði, helgikvæði, söguleg kvæði, riddarakvæði, kappakvæði og skemmtikvæði. Algengt er að efni kvæðanna sé byggt á þekktum heimildum, eins og til að mynda Íslendingasögum eða riddara- og fornaldarsögum. Til að mynda eru til kvæði sem ort eru út frá efni Njáls sögu, Laxdæla sögu og Fóstbræðra sögu.Tveir kappar standa upp úr sem vinsælustu kvæðahetjurnar, það er títtnefndur Sjúrður eða Sigurður Fáfnisbani og hinn er sjálfur keisarinn Karla-Magnús. Af sögulegum persónum hefur Ólafur konungur Tryggvason líklega vinninginn enda er hann þjóðardýrlingur Færeyinga, hetjan sem þeir kenna þjóðhátíð sína við: Ólafsvökuna.

Ballið á bryggjunni...

Nú þegar fjöldi færeyskra danskvæða er til á prenti - og hefur þar með verið forðað frá glötun - og þegar færeyskur dans er stiginn af lífi og sál niðri á bryggju á sumarkvöldum veltir maður því fyrir sér hvort færeysku danshefðinni sé borgið. Færeyski hringdansinn (eða keðjudansinn) er svo mikið meira en kvæðið sjálft. Hann er samfélagsleg athöfn þar sem saman fer frásögn, söngur og taktfastar hreyfingar allra sem taka þátt. Yfirleitt er einn forsöngvari sem kveður kvæðið - segir frá - en allir taka undir í viðlaginu. Danssporin eru einföld: fjögur spor til vinstri og síðan tvö til hægri (eða tvö skref til vinstri og eitt til hægri), og hægt og hægt mjakast hringurinn áfram sólarganginn. Hart er stigið niður á áhersluatkvæðum frásagnarinnar en létt á áherslulausum. Sérstakur kraftur er settur í hreyfingarnar þegar það á við, t.d. þegar verið er að lýsa miklum hetjudáðum eða sterkum tilfinningum. Við fyrstu sýn gæti dansinn virkað leiðigjarn á utanaðkomandi; einföld spor síendurtekin hring eftir hring... En galdur dansins er ekki síst fólginn í þessum einfaldleika og endurtekningunni; það er eitthvert seiðmagn í hvoru tveggja sem nær fljótlega tökum á hverjum þeim sem gefur sig dansinum á vald.

Fyrr á öldum var hringdansinn nær aðeins iðkaður á tímabilinu frá jólum og fram að lönguföstu sem hófst á öskudegi sex vikum fyrir páska. Þetta tímabil gat því náð fram í byrjun febrúar þegar það var styst, en allt fram í mars þegar lengst var. Einnig var dansinn stiginn við hátíðleg tækifæri eins og til að mynda við brúðkaup og síðan að sjálfsögðu á Ólafsvöku. Nú á dögum dansa Færeyingar hringdans á öllum tímum ársins eins og bryggjuballið í byrjun júní er gott dæmi um.

Undirrituð brá sér með fjölskylduna niður á bryggju fyrst um níuleytið og þá var dansinn að hefjast en hringurinn ekki mannmargur. Fyrst var dansað við kvæðið um dætur Þorkels (Torkils dötur) en það er í flokki helgikvæða og segir morði á saklausri jómfrú og undrum og stórmerkjum sem fylgja í kjölfarið. Þegar öll 52 erindin höfðu verið sungin var tími kominn til að hátta börnin, en að því loknu var haldið aftur niður á bryggju þar sem danskeðjan hafði margfaldast (ekki lengur hægt að tala um hring) og söngurinn eflst að sama skapi. Það var verið að dansa við Guðbrands kvæði þar sem texti viðlagsins er kunnuglegur: "Fuglin í fjöruni, / hann eitur Má; / silkibleikt er hövur hans / og kembt hevur hann hár. / Fuglinn í fjöruni. Guðbrands kvæði er höfundarverk Jens Chr. Djurhuus og segir frá átökum á milli Ólafs helga og Guðbrands í Guðbrandsdal sem var síðasti maðurinn sem Ólafur helgi kristnaði, og hafði hann þá kristnað Noreg allan, segir í kvæðinu! Að loknum 35 erindum Guðbrands kvæðis var strax byrjað að kveða Orminn langa og færðist þá mikið fjör í leikinn, enda menn orðnir heitir og örir af dansinum, margir hafa dansað óslitið í tvær til þrjár klukkustundir. Það glumdi í trépallinum sem dansað var á og magnaður söngurinn steig upp af bryggjunni og barst yfir allan bæinn í sumarstillunni: "Glymur dansur í höll, dans sláið í ring! Glaðir ríða Noregis menn til hildarting."

EFTIR SOFFÍU AUÐI BIRGISDÓTTUR

Höfundur er bókmenntafræðingur og sótti í júni námskeið í færeysku og færeyskum bókmenntum við Fróðskaparsetrið í Þórshöfn.