Álmur sem stendur við Túngötu 6 var valinn tré ársins 1999 af Skógræktarfélagi Íslands. Ingibjörg Sólrún lofaði að verja hann hnjaski.
Álmur sem stendur við Túngötu 6 var valinn tré ársins 1999 af Skógræktarfélagi Íslands. Ingibjörg Sólrún lofaði að verja hann hnjaski.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið á Túngötu 6 í Reykjavík hýsti menningarheimili þar sem tónlist og garðrækt voru í hávegum. Pétur Pétursson þulur rekur sögu hússins og örlög trjágarðsins.

ÞAÐ vekur furðu margra að þrátt fyrir háværar og langvarandi umræður um smíði tónlistarhallar skuli enginn minnast á nauðsyn þess að haldin sé í heiðri minning þeirra manna og kvenna, sem stilltu strengi sína, léku af fingrum fram, blésu í sönglúðra eða hófu upp raust sína á vængjum söngsins, að efla tónlistarlíf hins fámenna höfuðstaðar. Í miðbæ Reykjavíkur, sjálfu hjarta höfuðstaðarins, stóðu hús sem allt frá seinni hluta nítjándu aldar og fram á fjórða áratug 20. aldarinnar hýstu forystusveit íslensks tónlistarlífs og áttu ríkan þátt í hljómlist og söngmennt sem iðkuð var hér í bæ. Auk þess að iðka hljómlist höfðu margir í hópi tónlistarmanna og fjölskyldur þeirra meðfædda löngun til þess að prýða og fegra umhverfi sitt og kostuðu kapps um að rækta hvers kyns blómjurtir og trjágróður, sem hægt væri að verja næðingum vetrarins og hretviðrum vorsins.

Sjálfsagt geta vinir skógræktar nefnt fjölda dæma um þroskamikið og öflugt starf í ræktunarmálum. Engin tíðindi eru þó skráð er greina frá umhyggju skógræktarmanna né áhyggjum sem þeir beri í brjósti um dapurleg örlög trjágróðurs þess, er spratt í garði Magnúsar Einarssonar dýralæknis og eiginkonu hans Ástu Einarsson, sem var nafnkunnur píanóleikari og hljómlistarkona.

Þegar hin öfluga girðing er umlukti gróðurreitinn fagra var jöfnuð við jörðu opnaðist bifreiðum óhindruð leið að gróskumiklum trjám er breiddu laufkrónur sínar og sendu "skógarilminn gegnum svefninn" til íbúanna í næsta nágrenni.

Svo var helst að sjá að ökumenn bifreiðanna, forstjórar og flibbamenn af kontórum í grenndinni, teldu sér skylt að níðast á trjánum með því að aka án tillits með hörku á trjábolina og særa trén með þeim hætti og svifta þau gróðurmagni. Þannig féllu trén, hvert af öðru og garðurinn varð ekki nema svipur hjá sjón. Rík ástæða hefði verið til þess að forvígismenn skógræktar hefðu spyrnt við fæti og bannað þvílíkt athæfi. Sá sem átti heiðurinn að skipulagi garðsins og gróðri öllum var forgöngumaður trjáræktar, Agnar Fransisco Kofoed-Hansen, skógræktarstjóri. Hann var nágranni Magnúsar á Túngötunni og sótti plöntur í garð Einars Helgasonar í Gróðrarstöðinni til þess að þær næðu þroska í garðinum við Túngötu 6.

Hinn 30. nóvember 1999 stóð Skógræktarfélag Íslands fyrir athöfn sem fram fór í garðinum við Túngötu 6. Þar var álmur, sem Magnús Einarsson og Ásta kona hans höfðu látið gróðursetja, valinn tré ársins. Við hátíðlega athöfn veitti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri viðurkenningu fyrir hönd Reykjavíkurborgar, en borgin er eigandi lóðarinnar. Í ljósi þeirra atburða sem gerst höfðu í garðinum og með örlög trjánna í huga, sem fallið höfðu fyrir tilverknað bílaþrjóta, þótti mörgum sem nokkurrar kaldhæðni gætti í ummælum formanns Skógræktarfélagsins er hann lét eftirfarandi orð falla: "Álmurinn er eitt af mestu djásnum Reykjavíkur. Hann breiðir umfangsmikla krónu sína í allar áttir og hefur á undanförnum árum notið þess frelsis að fá að vaxa án þrengsla af byggingum eða öðrum trjám." Með þessum orðum sínum virðist formaður Skógræktarfélagsins lofa aðferð þeirra sem felldu tré þau sem breiddu út laufkrónur sínar við hlið álmsins. Þau voru felld til þess að álmurinn fengi "Lebensraum" - vaxtarfrelsi, rétt eins og þau væru af óæðra kynstofni.

Magnús Finnsson, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, hefir góðfúslega látið í té markverðar upplýsingar um íbúa hússins við Túngötu 6. Hann er dóttursonur Magnúsar dýralæknis, sonur hjónanna Finns Einarssonar bóksala og bókara, sem einnig var kennari í Verslunarskóla Íslands. Greinarhöfundur minnist Finns jafnan sem eins glaðværasta og viðmótsbesta viðskiptavinar í Útvegsbanka Íslands á fjórða áratugnum. Guðrún Einarsson er fríð og háttvís kona, fróð og frásagnargóð enda margs að minnast frá einu helsta menningarheimili í hjarta Reykjavíkur. Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld var afabróðir hennar. Tíður gestur í Túngötu. Í næsta nágrenni bjuggu frændur hennar, Emil Thoroddsen og Þorvaldur. Skammt frá Jón Halldórsson söngstjóri og Pétur borgarstjóri. Eigi fjarri börn Indriða Einarssonar og Mörtu, náin skyldmenni. Allt ómaði af söng og hljómlist. Og ekki má gleyma gróðurmoldinni og blómskrúðinu sem jafnan hefir fylgt þessum ættmennum.

Í sjálfsævisögu sinni segir Þórður Sveinbjörnsson frá því er Kirstine Cathrine Knudsen kemur til hans sem ráðskona í Nes við Seltjörn. Þá er hann saddur lífdaga, eftir að börn fyrri konu hans, og þeirra eigin dóu eitt af öðru. En Kirstine Cathrine kemur eins og frelsandi engill inn í líf hans, allmiklu yngri en hann og hann kvænist henni. Í ævisögunni er hann að útskýra fyrir lesandanum tilurð sonarins Lárusar Edvards og segir af einskærri tillitssemi: "Varð mér þá helzt til aðstoðar stúlka ein, Kirsten Cathrine, dóttir kaupmanns sál. Lauritz Knudsens; hún var orðlögð af gáfum og öllum ferðugleika, en hafði eignazt son fyrir fáum árum, með kærasta sem yfirgaf hana."

Túngata 6. Þangað fluttust Kirstine Cathrine Sveinbjörnsson og Þórður Sveinbjörnsson utan af Nesi árið 1850. Þau keyptu hús, sem stóð í lóðinni og stóð það til 1875, er það var rifið til þess að rýma fyrir núverandi húsi, sem Lárus Edvard Sveinbjörnsson reisti. Amma Ásta er því fædd í húsinu, en hún fæddist 5. desember 1877. Túngata 6 er enn í upprunalegu horfi a.m.k. utan dyra, nema hvað aðalinngangur hússins var um háar tröppur, sem voru við suðurgafl hússins. Innganginum var síðar breytt, þegar umferð jókst um götuna. Nýlega (um 1985) var húsinu breytt í upprunalegt horf.

Lárus Edvard Sveinbjörnsson kvæntist Jörgine Margrethe Sigríði Thorgrímsen (25.4. 1849-6.12. 1915), sem fædd var á Eyrarbakka. Hún var dóttir Guðmundar Geirs Jörgens Kristjáns Thorgrímsen (7.6. 1821-2.3. 1895), faktors við einokunarverzlun danakonungs þar, en verzlunin var rekin af Lefolii og var þvíjafnan kölluð Lefoliiverzlunin. Faktorsfrúin var Sylvía Níelsdóttir (20.7. 1819-20.6. 1904)

Ásta Sigríður Sveinbjörnsson Einarsson fæddist 5. desember 1877 í Túngötu 6 og ólst þar upp og bjó raunar í húsinu með stuttu hléi mestallan sinn búskap. Hún stundaði píanókennslu og var einnig mikilvirkur undirleikari á tónleikum í Reykjavík. Hún var einnig organleikari Oddfellowstúkunnar Rebekku nr. 1 í áratugi en bæði hún og Magnús maður hennar voru mjög virk í Oddfellow-reglunni, I.O.O.F.

Ásta lærði ung að leika á píanó hjá frú Melsted og ung stúlka hélt hún til Edinborgar og dvaldist um eins árs skeið hjá föðurbróður sínum Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáldi. Þá dvaldist hún oft í Húsinu á Eyrarbakka, þar sem tónlistin var í hávegum höfð. Ásta lék einnig undir í árdögum kvikmynda í Reykjavík og var á orði haft, hve vel hún lét hljómana falla að kvikmyndinni, sem verið var að sýna.

Amma Ásta naut þess að skauta á Tjörninni í Reykjavík ásamt öðru ungu fólki í Reykjavík. Hún var skautadrottning Reykjavíkur nokkur ár í röð og einhverju sinni, þegar skáldið Hannes Hafstein (langafi Péturs), sem var í dómnefnd, afhenti henni fyrstu verðlaun fyrir skautahlaup, sem voru ljóðabók hans með eiginhandaráritun, sagði hann af lítillæti: "Þér hafið mikið hlaup, en lítið kaup." Þessi bók varð eldinum að bráð í Glasgowbrunanum svo sem og urmull teikninga ömmu Ástu, en hún var mjög drátthög og hafði m.a. teiknað myndir af rómverskum keisurum, sem þóttu einkar vel gerðar.

Á Tjörninni hitti hún nýútskrifaðan dýralækni. Þó að hann hafi þótt fremur klaufskur á skautum og ýtti sér ávallt áfram með öðrum skautanum, felldi skautadrottningin fljótlega hug til hans og þau urðu ástfangin. Í upphafi fór þó þessi ástleitni fremur dult og einhverju sinni fékk dýralæknirinn góðan vin sinn, Magnús frá Arabæ, til þess að sækja hana á dansleik. Þegar hún kom heim af dansleiknum um kvöldið, spurði Lárus faðir hennar hana hver hefði fylgt henni heim af ballinu og þá svaraði amma Ásta: "Auðvitað hann Magnús" - en hver Magnúsinn það var, fylgdi ekki sögunni.

Árið 1904 voru Ásta Sigríður og móðir hennar Jörgína meðal 46 kvenna, sem stofnuðu Kvenfélagið Hringinn. Tilgangur félagsins var að hjálpa þurfandi konum eftir veikindi. Í dag er Hringurinn helzta styrktarfélag Barnaspítala Hringsins og hefur safnað fé fyrir allt frá sængum og sængurfatnaði til háþróaðra lækningatækja af nýjustu gerð. Barnaspítali Hringsins er í dag meðal bezt búnu barnaspítala í Vestur-Evrópu.

Eftir að Ásta Sigríður varð ekkja og seldi Túngötuhúsið, 1936, hafði hún aðallega atvinnu af því að kenna á píanó. Margir þekktir einstaklingar voru nemendur hennar og má þar m.a. nefna Guðrúnu Á. Símonar söngkonu, Clausen-bræður og bræðurna Pétur flugvallarstjóra og Jónas stýrimann Guðmundssyni.

Ásta Einarsson lézt 27. marz 1959.

Eftir að Jörgine Thorgrímsen Sveinbjörnsson fór utan til Kaupmannahafnar, þar sem hún lézt, seldi Lárus Edvard Sveinbjörnsson tengdasyni sínum Magnúsi Einarssyni dýralækni húsið í Túngötu 6. Bjó hann síðan hjá dóttur sinni Ástu Sigríði og Magnúsi, unz hann lézt 7. janúar 1910. Ásta og Magnús eignuðust húsið skömmu eftir aldamótin. Þau hófu hins vegar búskap í fyrsta og eina fjölbýlishúsi Reykjavíkur í þá daga, stórhýsinu Glasgow, sem stóð á lóð sem afmarkaðist af Glasgowstræti, Fischersundi og Vesturgötu. Það hús brann árið 1902 og misstu þá ungu hjónin allar eigur sínar. Var þá Lárus Einarsson (5.6. 1902-14.8. 1969) nýfæddur og hljóp Ásta með hann heim í föðurhús, eigi alllangt frá og var barnið umvafið sæng. Sögð hefur verið sú saga, að í fátinu hafi þau sízt skilið í því hve drengurinn litli grét mikið, en þegar sængin var tekin utan af honum í Túngötu 6, kom í ljós, að í fátinu höfðu fæturnir snúið upp en höfuðið niður inni í sænginni, þegar hlaupið var með hann um Grjótaþorpið. Grunur lék á að um íkveikju hafi verið að ræða, er Glasgow brann, en það sannaðist aldrei. Ásta og Magnús voru í fastasvefni, er eldurinn kom upp og ætluðu ekki að vakna við barsmíðar fólks, sem reyndi að vekja þau, en loks tókst það og mátti ekki tæpara standa, við lá að þau brynnu inni.

Magnús og Ásta fengu síðan inni í húsi sem enn stendur og heitir Laugvegur 12. Þar bjuggu þau næstu árin eða þar til þau keyptu Túngötu 6 af Lárusi Edvard. Á Laugavegi 12 er Guðrún Einarsson (22.5. 1905), Dysta, fædd, en yngri börnin, Helga (23.3. 1912) og Birgir (24.12. 1914- 30.11. 1994) eru bæði fædd í Túngötu 6.

Guðrún Einarsson hefur lýst húsaskipan í Túngötu 6 á þessa leið:

"Á fyrstu hæð voru þrjár samliggjandi stofur, stór forstofa og stigi upp úr svokallaðri millistofu og þar undir stiganum var fatahengi barnanna. Frammi við innganginn voru tvær forstofur ytri og innri og þar var fatahengi bæði fyrir konur og karla. Dyr voru úr forstofu inn í kontór húsbóndans og inn af honum var svokallaður "gamli kontór", þar sem dýralæknirinn geymdi bóluefni. Á þessari hæð var einnig barnastofa og búr inn af stóru eldhúsi, sem var í vestanverðu húsinu. Í búrinu var rekki fyrir leirtau og diska og skápur, sem í var geymt kaffi og te.

Rétt við eldhúsið var skúr í portinu svokallaða, þar var sérstakur stóll fyrir karla og kerlingar sem komu til þess að fá í svanginn. Dysta minnist t.d. Dabba í Nesi, mjólkurpósts, sem gjarnan kom utan af Seltjarnarnesi og settist í þennan stól og fékk mat. Væri hann allsgáður fékk hann líka snafs, en aldrei ef hann var drukkinn. Hann þræddi gjarnan heimili þeirra borgara, sem hann átti von á brjóstbirtu hjá og Túngata 6 var með seinustu húsunum er hann lagði af stað út á Nes. Var hann þá oft orðinn æði puntaður og ragnaði yfir því að fá ekki snafs, áður en hann lagði af stað heim á leið. Dabbi þessi var fjósamaður hjá Kristínu í Nesi.

Uppi á kvistinum var svefnherbergi þeirra hjóna Ástu og Magnúsar. Síðar var svokallað suðurherbergi þar sem krakkarnir sváfu og norðurherbergið var fyrir stúlkurnar, sem jafnan voru þrjár, eldhússtúlka, svokölluð innistúlka og síðan stúlka, sem gætti Lárusar yngra Sveinbjörnssonar, Lilla. Magnús lét og setja vatnssalerni á efri hæð hússins, en fyrir daga þess var notazt við kamra.

Norðan við húsið var pakkhús. Lárus Sveinbjörnsson átti Akurey, sem er allstór eyja vestur af Selsvör. Þangað var á vorin jafnan farið til eggjatekju og þar fékk heimilið í Túngötu 6 einnig dún, en talsvert æðarvarp var í eynni. Einnig fékkst lundi úr Akurey, sem gjarnan var reittur og hengdur upp til þurrkunar í pakkhúsinu. Voru stúlkurnar látnar reita lundann eða hamfletta.

Fyrst þegar Ásta og Magnús fluttust í Túngötu 6 var lóðin aðeins tún með rifsberjarunnum. Magnús lét síðan gera skrúðgarð framan og austan við húsið og var garðyrkjumaðurinn, sem það annaðist danskur og hét Kofoed-Hansen. Enn stendur stórt og mikið tré á lóðinni framan við húsið, sem er síðasta merkið um að þar hafi eitt sinn verið fallegur garður. Nú er lóðin bílastæði.

Guðrún Einarsson hefur skrifað niður fyrir dótturdóttur sína, Ragnheiði Ástu Sigurðardóttur, lýsingu á jólum á æskuheimili hennar í Túngötu 6. Þar segir:

"Eftir að við höfðum borðað rjúpur og möndlurís fórum við inn á pabbakontór eins og við kölluðum það, prúðbúin og biðum eftir Guðmundi móðurbróður mínum, töntu Lóu og Stellu. Þau voru alltaf hjá okkur á aðfangadagskvöldi. Þegar þau voru komin, opnaði pabbi dyrnar inn í miðstofuna, þar sem mamma settist við flygilinn og spilaði "Heims um ból" og við sungum. Jólatréð var í borðstofunni og við dönsuðum í kringum það og fengum svo gjafir og jólagott, sem hékk í pokum á jólatrénu. Þetta var mikil hátíð.

Á jóladaginn fórum við með pabba og mömmu í kirkju, Dómkirkjuna. Annan jóladag var svo tekið í spil og seinna um kvöldið fengum við súkkulaði og kökur."

Magnúsi Einarsson dýralækni er þannig lýst af samtímamanni:

"Magnús var gervilegur maður, fríður sýnum, óvenju hárprúður, ríflegur meðalmaður að vexti, réttvaxinn, léttur í hreyfingum og vasklegur á velli og hélst vaxtar- og göngulag óbreytt til æviloka."

Páll Agnar Pálsson yfirdýralæknir hefur skrifað ritgerð um Magnús Einarsson. Þar segir m.a.:

"Magnús Einarsson var fæddur 16. apríl 1870, sonur hjónanna Guðrúnar Helgu Jónsdóttur (1840-1918) og manns hennar Einars Gíslasonar (1838-1887), bónda á Höskuldsstöðum í Breiðdal, hreppstjóra og alþingismanns. Magnús fór í Lærða skólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1891. Magnús var ágætur námsmaður og mjög vinsæll af skólafélögum sínum eins og fram kemur m.a. í sjálfsævisögu séra Friðriks Friðrikssonar. Hann var jafnvígur á allar námsgreinar, en sérstaklega var hann latínulærður og mæltur á latneska tungu fram á efri ár, sem var orðið á fárra færi.

Að loknu stúdentsprófi hélt Magnús til Kaupmannahafnar, hóf að nema lögfræði og tók heimspekipróf við háskólann þar, en sneri síðan að dýralæknisnámi við Dýralækna- og landbúnaðarskólann og lauk þar prófi með góðri einkunn vorið 1896.

Varðveist hafa prófúrlausnir Magnúsar við lokapróf og bera þær merki vandvirkni, skipulegrar og glöggrar lýsingar á sjúklingi og meðferð þeirri sem hann hlaut.

Um haustið 1896 var Magnús skipaður dýralæknir í Suður- og Vesturamtinu og gegndi því starfi til æviloka.

Það var fyrir atbeina Magnúsar, að C.O. Jensen hóf rannsóknir á hentugu bóluefni gegn bráðapestinni. Í þrettán ár er Magnús sístarfandi að leiðbeiningum og gagnasöfnun um árangur af þessu tilraunabóluefni, og sleppti raunar aldrei hendi af þessu þýðingarmikla máli alla starfsævi sína, enda naut hann almennrar viðurkenningar fyrir þau störf svo sem maklegt var."

Magnús stóð ávallt gegn innflutningi lifandi húsdýra. Um þann þátt hans segir Páll Agnar í áður tilvitnaðri ritgerð:

"Þegar Magnús Einarsson hóf störf hér á landi voru í gildi lög frá 17. mars 1882 sem bönnuðu að flytja til Íslands útlent kvikfé, en sérstaka undanþágu mátti þó gera með stjórnarleyfi.

Strax og Magnús tók til starfa fór hann að vinna að því að herða lagaákvæði um bann við innflutningi dýra til landsins. Að hans frumkvæði fengust samþykkt lög 10. nóvember 1905 og síðar 9. júlí 1909. Með lögum þessum var fjölgað þeim tegundum alidýra, sem mátti ekki flytja til landsins. Þannig mátti ekki flytja inn nautgripi, sauðfénað, hesta, svín, geitur eða hunda og stóð svo alla embættistíð Magnúsar.

Þrátt fyrir að stjórnvöld gætu veitt undanþágu til innflutnings léði Magnús aldrei máls á slíkum innflutningi, þó að hart væri eftir leitað.

Það mun hafa verið haustið 1909, sem Magnús sendir stjórn Búnaðarfélags Íslands ítarlega greinargerð fyrir afstöðu sinni varðandi innflutning sauðfjár til Íslands, en þá hafði Hallgrímur Þorbergsson og fleiri sótt fast að flytja fé af ensku kyni til landsins. Er þessa glöggu greinargerð að finna í tímaritinu Frey, 3. hefti, 6. árgangi, bls. 33-34.

En við mörg tækifæri síðar þurfti Magnús að gera grein fyrir afstöðu sinni varðandi þetta mál og hvikaði aldrei frá meginstefnu sinni, eða eins og Sigurður búnaðarmálastjóri orðaði það "Magnús Einarsson stóð alltaf bjargfastur gegn innflutningi húsdýra til landsins".

Magnús Einarsson dýralæknir datt á hjóli sínu á Hverfisgötu í septembermánuði 1927 og lenti með höðið á rennusteini. Hann hlaut slæmt höfuðhögg og lézt 2. október í kvistherberginu í Túngötu 6. "Látið mig vera," voru síðustu orð hans, er hann var borinn upp í rúm sitt stórslasaður. Ásta Einarsson bjó síðan í húsinu fram til ársins 1936 er hún seldi það. Hún fluttist þá í Suðurgötu 16 í hús Katrínar og Guðmundar Magnússonar, prófessors og læknis við Landakotsspítala. Þar bjó hún unz hún fluttist í Tjarnargötu 39, hús Ragnheiðar Jónsdóttur skólastýru Kvennaskólans. Hún brá búi er hún fluttist úr Tjarnargötunni og fluttist þá á heimili dóttur sinnar og tengdasonar, Guðrúnar og Finns M. Einarssonar á Hávallagötu 41.

Eftir að Ásta fluttist til Guðrúnar dóttur sinnar og Finns Einarssonar eiginmanns hennar, hélt hún áfram kennslu, enn um sinn.

Örn Clausen man vel píanótíma þeirra bræðra. Einkum er honum minnisstæður Vals Chopins No. 64. Örn segist hafa verið slakur í nótnalestri og kaus fremur að spila eftir eyranu. Rak hann þá oft í vörðurnar og fataðist í valsinum. Varð þá jafnan að byrja á nýjan leik. Örn hélt að frú Ásta vissi ekki um ástæðuna fyrir "kúnstpásunni". Síðar frétti hann að kennarinn hafði sagt frá hljómlistartíðindum þessum í kaffiboði heldri kvenna.