8. ágúst 2001 | Landsbyggðin | 534 orð | 1 mynd

Kirkjustaður frá upphafi kirkjuskipunar á Íslandi

Minnst 150 ára afmælis Kirkjubæjarkirkju

Kirkjuhátíð var haldin í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði um helgina í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar.
Kirkjuhátíð var haldin í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði um helgina í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar.
KIRKJUBÆJARKIRKJA í Hróarstungu er 150 ára gömul um þessar mundir og er með elstu kirkjum landsins. Þar var um helgina haldin mikil kirkjuhátíð í einkar fögru veðri. Hófst hún með morgunsöng þar sem sr. Kristján Valur Ingólfsson leiddi tíðagjörð.
KIRKJUBÆJARKIRKJA í Hróarstungu er 150 ára gömul um þessar mundir og er með elstu kirkjum landsins. Þar var um helgina haldin mikil kirkjuhátíð í einkar fögru veðri. Hófst hún með morgunsöng þar sem sr. Kristján Valur Ingólfsson leiddi tíðagjörð. Í hátíðarmessu eftir hádegi predikaði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, en sr. Sigfús J. Árnason prófastur og sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir sóknarprestur þjónuðu fyrir altari. Kór Kirkjubæjar- og Sleðbrjótssókna söng og organisti var Rosemary Hewlett en hún lét einnig skíra barn sitt við hátíðarmessuna. Sóknarnefnd bauð til veglegs kirkjukaffis og hátíðardagskrár eftir messu, en hátíðinni lauk með kvöldbænum.

Kirkjunni voru færðar góðar gjafir, m.a. tvær biblíur, nýr hökull og stóla.

Kirkjubær er gömul kirkjujörð í Hróarstungu, sveitinni sem liggur á milli Jökulsár á Dal og Lagarfljóts á utanverðu Fljótsdalshéraði. Jörðin hefur verið kirkjustaður frá upphafi kirkjuskipunar á Íslandi og var prestsetur nær óslitið til 1956. Séra Jón Þorsteinsson lét reisa kirkjuna og var hún vígð á jóladag árið 1851.

Kirkjubæjarkirkja er vel byggt hús og hefur ekki þurft mikið viðhald. Hún var tjörguð að utan annað veifið allt þar til þakið var klætt bárujárni árið 1915. Bárujárn var sett á veggi árið 1929 og var hún þá einnig máluð hvít á hliðum og þakið rautt. Þá voru einnig gerðar breytingar á innviðum. Árið 1980 hófst viðgerð á Kirkjubæjarkirkju undir umsjón Harðar Ágústssonar listmálara og Þórs Magnússonar, þáverandi þjóðminjavarðar, og lauk þeirri viðgerð árið 1992 en síðan hefur viðgerð innandyra farið fram undir leiðsögn og með styrk frá húsafriðunarnefnd. Það var Snorri Guðvarðsson sem sl. vetur gerði við og málaði kirkjuna að innan, auk endurbóta á húsmunum.

Margt góðra og gamalla muna er í Kirkjubæjarkirkju og má þar nefna elsta predikunarstól landsins, en hann er talinn vera smíðaður skömmu eftir siðaskipti. Söngtafla er frá árinu 1805 og harmóníum kirkjunnar er 110 ára gamalt öndvegishljóðfæri.

Hátíðin styrkir samkennd fólksins

Í predikun sinni sagði biskup að yfirskrift samtíðar okkar væri að við hefðum allt til alls en það væri líka allt og sumt. Hann sagði hin sönnu auðæfi ekki vera það að eiga mikið heldur að þurfa lítið. Hann minnti á að trúin, vonin og kærleikurinn væru æðst gilda.

Karl biskup og sr. Jóhanna, sóknarprestur Kirkjubæjarsóknar, voru tekin tali í kirkjukaffinu og kváðust þau þakklát fyrir hið indæla veður og góða þátttöku gesta. "Ég hef heyrt talað um að hér hafi rignt eldi og brennisteini þegar kirkjan varð 100 ára," sagði sr. Jóhanna, "en svo gefur Guð okkur þetta yndislega veður í dag og ég er afskaplega þakklát fyrir það og einnig öllu því fólki sem hefur tekið þátt í að undirbúa daginn."

Biskup sagði undursamlegt að verða vitni að samstillingu og gleði í kringum hátíðina. "Þetta eru merkileg tímamót, 150 ára afmæli þessarar glæsilegu kirkju. Á sama tíma hefur verið byggð upp gömul kirkjurúst frá því um kristnitöku á Geirsstöðum hér skammt frá og það minnir okkur á hið aldagamla samhengi sem við stöndum í enn í dag."

Biskup sagði gildi kirkjuhátíðarinnar að styrkja samkennd fólks, vitund þess fyrir samhenginu sem það stendur í og þeim rótum sem samfélagið er sprottið af. "Hlutverk kirkjunnar er að þjóna samtíðinni. Tími kirkjunnar er samtíminn en ekki fortíðin, þrátt fyrir að við sækjum þangað mikla næringu, visku og gleði," sagði biskup að lokum.

Ríflega 200 manns sóttu kirkjuhátíðina í Kirkjubæ.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.