Hörður Ingimarsson
Hörður Ingimarsson
Hvað er það sem stýrir því, spyr Hörður Ingimarsson, að ekkert fé er til stórframkvæmda við vegi en liggur á lausu til jarðgangagerðar?

SUMARIÐ 1948 var opnaður vegur um Lágheiði frá Ólafsfirði í Fljót. Langþráðum draumi Ólafsfirðinga var náð með vegslóðanum, vegasamband komið við fjörðinn.

Árinu seinna, þ.e. 1949, segir Ásgrímur Hartmannsson, lengi bæjarstjóri á Ólafsfirði, svo: "Fullyrða má að betur lægi vegurinn á Lágheiði ef farið hefði verið eftir tillögum Guðmundar á Þrasastöðum og annarra þeirra manna er meðskapaða áttu athyglisgáfu, lífsreynslu og haldgóða þekkingu varðandi landslag það er vegurinn var lagður um. Þegar við nú förum Lágheiði að vetrarlagi og sjáum hversu vegurinn er einkennilega óheppilega lagður ef forðast á snjóalög og sjáum fyrir okkur vegastæði það er Guðmundur og aðrir hafa bent okkur á þá hljótum við að gera kröfu til þess að í framtíðinni verði verkfræðingar skyldaðir til þess að taka til greina tillögur þeirra er þekkja landið..." (Heimild: Hundrað ár í Horninu).

Vanræktur vegur

Fyrstu árin eftir að Lágheiðin var opnuð til umferðar 1948 var ekið yfir óbrúaðar ár og læki. Eftir 1960 var vegurinn nokkurn veginn kominn í það horf sem verið hefur síðan. Viðhald vegarins í Fljótum, Lágheiði og niður undir Ólafsfjarðarkaupstað var í algjöru lágmarki. Fyrir gat komið að vegurinn væri lokaður vegna bleytu í 2-3 mánuði á ári til viðbótar lokunum vegna snjóa. Hugmyndir að Múlavegi komu fyrst til alvarlegrar skoðunar árið 1950. Byrjað var að ryðja veg 1953. Ári seinna komu fram fyrstu hugmyndir um jarðgöng um Múlakollu. Múlavegur var formlega opnaður 1966 og jarðgöng 1991. Allt þetta varð til þess að Lágheiðarvegur lá óbættur hjá garði og samgöngubætur um heiðina ekki á dagskrá. Enn á ný er ætlunin að ýta Lágheiðinni til hliðar, mörgum til mikillar undrunar.

Lágheiðarhópurinn

Síðla árs 1994 var myndaður "starfshópur" um veglagningu á Lágheiði og vegagerðinni falið að stýra hópnum og bera ábyrgð á endanlegum tillögum. Það sérkennilega við þennan starfshóp var að verkefnið var fyrst og fremst að koma í veg fyrir veglagningu um Lágheiðina enda vilji þáverandi samgönguráðherra að koma í veg fyrir veglagninguna. Jarðgöng skyldu það vera, sama hver kostnaðurinn yrði. Lágheiðarhópurinn gaf út niðurstöður sínar í nóv. 1999. Héðinsfjarðarleið var valin, þ.e. jarðgöng til Siglufjarðar. Til að létta á sálinni lagði starfshópurinn til að vegur um Lágheiði yrði endurbyggður sem góður sumarvegur. Jafnframt lögð áhersla á að vegir í byggð sitt hvorum megin heiðarinnar yrðu sem allra fyrst endurbyggðir sem góðir heilsársvegir.

Milli þessara tveggja bæja eru 10 km á gamla vegslóðanum. Lágheiðarhópurinn leggur til að þarna verði sumarvegur til framtíðar. Vegagerðin hefur gert frumhönnun að heilsársvegi úr Stíflu í Fljótum að sýslumörkum á Lágheiði við slysavarnarskýlið. Þetta er hönnun í anda 50 ára gamalla sjónarmiða. Vegur sem yrði greiðfær mestan hluta ársins í venjulegu árferði. Frá slysavarnarskýlinu og norður að Reykjum í Ólafsfirði eru milli 4 og 5 km. Vegagerð er auðveld á hólum og hæðum og leiðin festir lítið snjó þar sem hæst stendur. Kosturinn við Lágheiðina sem fjallveg er hversu stutt hún er. Aðeins um 2 km eru hærra en 300 m.y.s. og fara hæst í 390 m.y.s., skv. hönnunarteikningum Vegagerðarinnar. Til viðmiðunar skal nefnt að Holtavörðuheiðin er 407 m.y.s. og Öxnadalsheiði 540 m.y.s.

Vegagerðin hefur almennt kostnaðarreiknað hvern lagðan km á um 25 milljónir króna. Tilboð hafa hinsvegar verið á bilinu 16-20 millj. króna á km. Vandaður vel lagður vetrarvegur frá Þrasastöðum að Reykjum kostar því varla meira en 250-300 milljónir króna á verðlaginu í dag.

Þetta kalla ýmsir frammámenn þjóðarinnar fjárfestingarslys ef vegurinn yrði byggður. En þegar þessir sömu menn hafa liðlega tuttugufaldað þessa nefndu upphæð til jarðgangagerðar fara þeir að vaxa af skilningi og þjóðhollustu. Þeir þekkjast af verkum sínum, þjóðarleiðtogarnir, sbr. skrifstofur Alþingis við Austurstræti og þjóðmenningarhús við Hverfisgötu. Umframkostnaður við húsin nemur rösklega andvirði vegar um Lágheiði.

Tvíbreið eða einbreið göng?

Kynning fór fram 2. og 3. maí sl. á Siglufirði og í Ólafsfirði á valkostum jarðganga milli þessara nefndu staða. Einbreið göng sögð kosta 4,4 milljarða, breidd 5 m og hæð umferðarrýmis 4,6 m með útskotum á 160 m millibili. Af gögnum mátti ráða að tvíbreið göng væru ekki á dagskrá en kostnaðarauki við tvíbreið göng er um 20% og verður því 5,3 milljarðar. Þær gengisbreytingar sem orðið hafa í þessum mánuði og frá því að kostnaðaráætlanir voru gerðar eru ekki lægri en 15%. Svo tvíbreið göng kosta ekki undir 6,1 milljarði króna. Einbreið göng "spara" um milljarð. Einn þriðji af þeirri upphæð dugar í sjálfa Lágheiðina. Það hlýtur að vera gott að eiga vísan krók fyrir kelduna fyrir háfermisbíla, olíubíla og aðra stórflutninga, að ekki sé nú talað um hugsanleg óhöpp sem verða og teppa jarðgöng um lengri eða skemmri tíma.

Hver ræður ferðinni?

Í tillögu til þingsályktunar um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000-2004 er gert ráð fyrir tvíbreiðum göngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Sömuleiðis milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Það gætir því ósamræmis milli framlagðra tillagna Vegagerðarinnar og samþykkta Alþingis um nefnd jarðgöng. Fyrir 6 milljarða má leggja varanlega góða vegi allt að 300 km á lengd en slíkar framkvæmdir eru hvergi á dagskrá og koma ekki til álita hjá yfirvöldum samgöngumála. Hvað er það sem stýrir því að ekkert fé er til stórframkvæmda við vegi en liggur á lausu til jarðgangagerðar?

Það er margt sem mælir með því að leggja veg um Lágheiði án tafar. Það væri skynsamlegt skref til að venja Siglfirðinga, Ólafsfirðinga og Dalvíkinga á að vinna saman í sameinuðu sveitarfélagi sem fyrrverandi samgönguráðherra gerir að veigamiklum rökum fyrir gangagerðinni. Það verður ekki þrautalaust að reka það nýja sveitarfélag með sveitarstjórann miðsvæðis í Ólafsfirði og útibússtjórana til endanna. Þá er betra að engin mistök verði með legu jarðganganna um Héðinsfjörð sem fara þvert um tvö virkjuð jarðhitasvæði. Í Ólafsfirði í landi Ósbrekku sem er í miðju virkjunarsvæðinu og á 500 m svæði í Skútudal á virkjunarsvæði Hitaveitu Siglufjarðar. Fram til þessa hefur verið forðast að tala og skrifa á opinberum vettvangi um þessa veigamiklu áhættuþætti við jarðgangagerðina. Gerð Lágheiðarvegar gefur svigrúm til vandaðs undirbúnings að jarðgangagerð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og getur komið í veg fyrir afdrifarík stórmistök á tveim hitaveitukerfum.

Höfundur er fv. bæjarfulltrúi á Sauðárkróki.