FLESTIR þekkja eitthvað til Tyrkjaránsins sem átti sér stað árið 1672, enda voru atburðirnir snemma og ítarlega skrásettir og sögur af atburðunum hafa lifað með þjóðinni í ýmsum myndum. En hverjir voru þessir sjóræningjar sem myrtu nær fjörutíu Íslendinga í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og hurfu suður um haf með hátt í fjórða hundrað menn, konur og börn í járnum? Hver var aðdragandi árásanna, hvernig brugðust menn við og hver urðu örlög þeirra sem herteknir voru? Þetta er meðal þeirra spurninga sem þeir Þorsteinn Helgason sagnfræðingur, Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður og Guðmundur Bjartmarsson kvikmyndatökumaður leitast við að svara í ítarlegri heimildarmynd sinni um Tyrkjaránið, sem þeir hafa unnið að um nokkurt skeið.
Þegar blaðamaður hittir þá Þorstein og Hjálmtý eru þeir nýkomnir úr tökuferð í Vestmannaeyjum. Í Eyjum fylgdu þeir og mynduðu hóp krakka í 6. bekk grunnskólans um söguslóðir Tyrkjaránsins. "Eitt af þeim sjónarhornum sem við leitumst við að draga fram í myndinni, er hvernig sagan af ránunum hefur varðveist með þjóðinni," segir Þorsteinn. "Vestmannaeyjar eru sá staður þar sem sagan hefur lifað einna sterkast, enda var allt samfélagið í herkví, árásirnar þar voru mjög hrottalegar og stóðu yfir í þrjá daga. Sagan býr í kennileitum og örnefnum um allar eyjarnar og um þær slóðir fóru skólabörnin í vor eftir að hafa lært um atburðina, og unnu síðan hópverkefni og teiknuðu myndir."
Þorsteinn hefur unnið að sagnfræðirannsóknum um Tyrkjaránið um árabil, og er handrit myndarinnar m.a. byggt á þeim fróðleik sem hann hefur safnað saman. Aðspurður segir hann það mjög krefjandi að nálgast efnið út frá svo ólíkum sjónarhornum. "Í kvikmyndinni verður maður að gæta þess að setja efnið fram á myndrænan og aðgengilegan hátt sem höfðar í senn til Íslendinga og áhorfenda á erlendum markaði," segir Þorsteinn. Hjálmtýr tekur undir þetta og bendir á að efnið hafi vakið mikinn áhuga þeirra erlendu aðlila sem þeir hafa verið í samskiptum við, enda sé um að ræða algerlega óþekktan merkisatburð í Evrópusögunni. "Fólki þykir þessi "öfuga þrælataka", þ.e. þar sem Afríkubúar herja á Evrópuþjóð, hreint stórmerkileg. En jafnvel þeir sem þekkja betur til sögunnar, s.s. fræðimenn, hafa ekki aðgang að þeim miklu samtímaheimildum sem til eru á íslensku um efnið, bæði um árásirnar sjálfar og ferlið sem á eftir fylgdi, þar sem hluti þrælanna var keyptur úr ánauð. Þessar heimildir eru hvergi annars staðar þekktar," segir hann.
"Það sem gefur þessum atburðum mikla sérstöðu er að þeir voru strax skráðir, og það mjög nákvæmlega," skýtur Þorsteinn nú inn í. "Ef litið er til Færeyja og Írlands, þar sem sams konar atburðir áttu sér stað, þá eru nánast engar ritaðar heimildir til þaðan. Þetta hefur vitanlega sett mark sitt á það hvernig sagan hefur varðveist á Íslandi. Sú sagnahefð sem spunnist hefur í kringum atburðina, m.a. í formi frásagna og kveðskapar, er mótuð af því að upphaflega hafa verið til mjög nákvæmar frásagnir af atburðunum og því hafa sagnirnar skolast tiltölulega lítið til."
Alþjóðlegur viðburður
Í heimildarmyndinni er einnig leitast við að varpa ljósi á það sögulega samhengi sem Tyrkjaránið var sprottið úr. "Þetta voru ófriðartímar í Evrópu, en átökin sem fylgdu í kjölfar siðaskiptanna náðu hámarki í þrjátíu ára stríðinu 1618-48," segir Þorsteinn. "Það eru til dæmis bein tengsl milli þess þegar Márar voru hraktir frá Spáni og þeirra ránsferða sem þeir síðar fór til að hefna sín á Evrópumönnum. Sjórán voru mikið stunduð á þessum tíma, og eftir að Márar voru hraktir frá Spáni, komu þeir sér fyrir í borginni Sallé og efldu þar sjórán. Mikil sjóránastarfsemi byggðist almennt upp í kringum Miðjarðarhafið og komu ránsmennirnir sem herjuðu á Ísland frá þessum slóðum, þ.e. að segja fyrrnefndri Sallé og Algeirsborg í Norður-Afríku."Þorsteinn bendir einnig á að ef uppruni og þjóðerni sjóránsmannanna eru skoðað, kemur í ljós að þar voru í raun ekki nema að litlu leyti Tyrkir á ferð í nútímamerkingu þess orðs, heldur fjölþjóðlegur hópur. Algeirsborg heyrði reyndar undir Tyrkjaveldi, en hafði víðtæka sjálfsstjórn. Íbúaflóra sjóránsborganna samanstóð af tyrkneskum hermönnum, sem flestir voru Evrópumenn að uppruna, berbum og aröbum, gyðingum, Márum frá Spáni, þrælum frá Súdan og Evrópu, evrópskum kaupmönnum og trúskiptingum frá kristnum löndum sem meðtekið höfðu íslamskan sið. "Heitið Tyrkir var notað um alla þessa hópa þar sem múslimar voru yfirleitt kallaðir Tyrkir á þessum tíma," segir Þorsteinn. Í gegnum rannsóknarvinnu fyrir heimildarmyndina komust þeir félagar m.a. að því hver leiddi sjórán Sallé-búa á Grindavík. Sá hét Múrat Reis og var hollenskur að uppruna. "Í heimildarmyndinni fjöllum við um sögu þessa manns og bakgrunn, þar sem hann varpar ljósi á margar hliðar á þessum viðburðum og vekur spurningar um sekt og sakleysi. Hann var Evrópumaður sem lent hafði í þrældómi en síðar komist til valda og mannaforráða. Allar heimildir um Reis bera þess vitni að hann hafi verið mikill öðlingsmaður og mjög virtur á sínum heimaslóðum," bendir Þorsteinn á.
En hvernig fara menn að því að segja söguna af Tyrkjaráninu í mynd? Hjálmtýr verður fyrri til svars og bendir á að kvikmyndagerðarmaðurinn standi frammi fyrir margvíslegum spurningum um hvernig túlka eigi frásögnina í mynd. Eftir að hafa velt fyrir sér ýmsum möguleikum og metið þá með hliðsjón af kostnaði, trúverðugleika og áhrifamætti, hafi þeir ákveðið að leggja áherslu á samtímamyndefni af ýmsu tagi, efni sem varðveitt hefur söguna í einhverri mynd. "Á Íslandi liggur myndefnið að nokkru leyti í kirkjulistinni en ekki síst í sögustöðum sem eru lýsandi í sjálfum sér, í örnefnum, þjóðsögum og frásögnum staðarfólks. Síðan nýttum við okkur mikið af þeim samtímalýsingum sem er að finna í evrópskri myndlistarhefð frá þessum tíma." Meðal þeirra landa sem þeir félagar hafa sótt sér myndefni til eru Holland, Austurríki, Tékkland, Danmörk, Ítalía, Spánn og Marokkó. "Myndlistarhefðin í Evrópu er mjög auðug af lýsingum á ófriði og áþján en einnig daglegu lífi og gleðiefnum, og erum við búnir að vera að þræða söfnin í þessum löndum. Það var misjafnlega mikið verk að fá aðgang að gersemum safnanna. Oftast tóku menn erindi þó vel og fylltust áhuga þegar þeir heyrðu um áform okkar," segir Hjálmtýr. Í Marokkó fundu þeir félagar kastala Murat Reis og ýmsar minjar frá þrælaversluninni á þessum tíma.