Eiríkur Pálsson, bóndi á Kraga á Rangárvöllum, og kona hans Þuríður Magnúsdóttir á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Ein mynda Hans Malmbergs á sýningunni Ísland 1951.
Eiríkur Pálsson, bóndi á Kraga á Rangárvöllum, og kona hans Þuríður Magnúsdóttir á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Ein mynda Hans Malmbergs á sýningunni Ísland 1951.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir nokkrum árum lánaði einn vinur minn mér frekar litla og látlausa bók sem heitir Island og utan á henni er mynd af síldarkös.

Fyrir nokkrum árum lánaði einn vinur minn mér frekar litla og látlausa bók sem heitir Island og utan á henni er mynd af síldarkös. Þessi bók tók mig það sterkum tökum að ég hef þrjóskast við að skila henni; geri það þegar búið er að finna fyrir mig eintak á sænskri fornsölu. Þetta er engin venjuleg Íslandsbók. Hún kom út fyrir sléttum fimmtíu árum og í henni eru, auk inngangstexta eftir Helga P. Briem, svart/hvítar ljósmyndir eftir sænskan mann sem var einungis 23 ára gamall og hét Hans Malmberg. Þetta er merkilegt bókverk, fallega prentað, og í myndunum birtist einstakt þversnið, ljúfsárt og heillandi, af þeirri deiglu sem íslenskt samfélag eftirstríðsáranna var.

Malmberg var þá þegar búinn að marka spor í sænskri samtímaljósmyndun og vekja athygli fyrir hæfileika sína með myndavélina og í ljósmyndafréttamennsku. Og hann átti eftir að styrkja sig í sessi í sænskri ljósmyndasögu; myndaði mörg stórmenni heimsins sem og óþekkta einstaklinga, styrjaldir sem daglegt líf. En Malmberg varð líka einn af þessum góðu tengdasonum Íslands. Árið 1950 kvæntist hann Margréti Guðmundsdóttur og víða í Íslandsmyndunum glittir í hana og fjölskyldu hennar. Malmberg myndaði fyrst á Íslandi árið 1947 og mikið árin þar á eftir.

Íslandsbók Malmbergs stæði ein og sér undir nokkrum greinum og rík ástæða til að minna á hana nú þegar hálf öld er liðin frá útkomunni, enda hætt við að hún sé að mestu gleymd. En myndirnar í þessu klassíska bókverki hafa síðustu vikurnar birst Íslendingum að nýju, þar sem þær hanga ásamt mörgum öðrum myndum sem Hans Malmberg tók hér á landi, í Hafnarborg í Hafnarfirði.

Inga Lára Baldvinsdóttir, deildarstjóri myndadeildar Þjóðminjasafns, fékk Íslandsfilmur Malmbergs lánaðar hjá fjölskyldu hans í Svíþjóð og síðustu misserin hafa þau Ívar Brynjólfsson, ljósmyndari og starfsmaður safnsins, valið myndirnar og Ívar síðan stækkað þær upp. Afraksturinn er heillandi sýning af horfnu skeiði Íslandssögunnar, sýning sem fólk ætti að streyma á, því hún er sannkallaður merkisviðburður. Í þessum vönduðu myndum birtist heimur þar sem "... hamingjan stjórnaði heiminum/ og réttlætið sigraði að lokum", svo vitnað sé í ljóð Einars Más Guðmundssonar, Vorkvöld í Reykjavík.

Börnin hlaupa um götur Reykjavíkur, það er baksað í heyskap, kýr standa í Vatnsmýrinni og fólk bíður rólegt eftir flugi í bragga sem er skemmtilega skreyttur fyrirheitum um fjarlæga heima. Við erum vitni að mótum tveggja tíma; við Tungufljótsbrú eru bændurnir á Bergstöðum og Drumboddsstöðum komnir til móts við rútuna með einfalda hestvagna sína, á þeim mjólkurbrúsar og trétöskur. Á sama tíma sitja piltar á ríkisbúinu á Bessastöðum og fylgjast með mjaltavélum vinna störfin. Við sjáum hvar dráttarvél er ýtt inn í flugvél sem síðan flýgur yfir sólbjörtu landinu; á Siglufirði hangir uppburðarlítill ungur piltur yfir stúlkum sem salta síld og stúlka rogast heim með mjólkurbrúsa. Malmberg kom víða við. Myndasyrpa hans frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er einstök, af fólkinu sem leikur taflmenn, af fullum vörubílspalli af kampakátum þjóðhátíðargestum, þar á meðal Sverri Haraldssyni málara og Sigfúsi Daðasyni skáldi. Kristmundur Sæmundsson í Draumbæ gáir til veðurs og léttir skýjaflókar eins og þyrlast í kringum hann. Og svo eru það landslagsmyndirnar sem Ívar og Inga Lára hafa valið; heillandi í ferköntuðu formi ljósmyndarans, ekki síst serían af bíl í landslagi: á Möðrudalsöræfum, við Mývatn, á Geysissvæðinu.

Við opnun sýningarinnar mátti sjá fólk sem klökknaði í návist þessa horfna heims, heims sem er alls ekki svo gamall en samt undarlega fjarri okkur í dag. Og það hendir mig líka þegar ég fer yfir þessar myndir, að ég spyr sjálfan mig hvers vegna maður heillist svona af þeim og fyllist trega, yfir heiminum sem þær sýna.

Ljósmyndalega má segja að styrkur Malmbergs liggi í einfaldleikanum og því hversu auðveldlega hann segir sögu með stökum myndum. Hann er uppalinn á gullöld ljósmyndatímaritanna, tímum sem fréttaljósmyndara dagsins í dag dreymir um að hafa lifað, þegar fólk þyrsti í myndir frá öðrum löndum, ólíkum samfélögum; lífinu sem var verið að lifa annars staðar. Malmberg nær vel að flétta saman umhverfinu og fólkinu; myndirnar eru einskonar mannfræðirannsókn. Skoðun á þjóðháttum. Og það er einmitt einn helsti styrkur ljósmynda; ef þær eru nægilega vandaðar til að lifa á annað borð, þá geta þær verið hrífandi heimild um tímann sem var. Ég held þannig að fyrir fimmtíu árum hafi fólk engan veginn gert sér grein fyrir því hvað þetta voru góðar og merkar ljósmyndir. Einmitt líklega vegna þess hvað þær eru látlausar og hversdagslegar; sýna lífið eins og því var lifað í hversdagsleikanum. Sneiðar úr lífi sem okkur þykir svo mikils um vert að njóta í dag en voru of hversdagslegar þegar þær voru nýjar. Þessi blinda á gæði myndanna birtist í umsögnum um bókina hér á landi þegar hún kom út. Skúli Skúlason, ritstjóri Fálkans, segir myndirnar "lifandi og sannar" og segir þær hafa verulegt gildi sem vitnisburð um þjóðina. En hann virðist ekki sáttur við ætlunarverk ljósmyndarans með bókinni, að sýna fólkið og heim þess, hann vill fá meiri rómantík, meira landslag: "...hins vegar finnst mér að margt vanti þarna af myndum af íslensku landslagi og sérkennilegum eða sögufrægum stöðum. T.d. finnst mér hlutur Þingvalla mjög fyrir borð borinn..."

Fjöll fara ekki, þau má mynda á sama hátt eftir fimmtíu ár, en mannlífið breytist og það hratt. Þessvegna er nauðsynleg að skrá athafnir manna og menninguna á filmur, áhrifamiklar myndir eru mikilvægar heimildir. Ég er ekki viss um að íslenskur ljósmyndari hefði getað búið til heimildarverk eins og það sem Hans Malmberg skóp hér fyrir fimmtíu árum. Sá sem lifir og hrærist innan samfélags er venjulega sleginn blindu á marga þætti þess sem aðkomumenn sjá ferskum augum. Ljósmyndari búsettur í Reykjavík dagsins í dag á erfitt með að finna áhugavert myndefni á götum borgarinnar en þarf ekki annað en aka til Þorlákshafnar til að sjá urmul áhugaverðra staða og uppákomur sem hann hefur áhuga á að mynda. Svo ekki sé minnst á að fara til fjarlægra landa; staðreyndin er sú að oft þarf aðkomumenn til að búa til áhugaverðustu heimildirnar um lifandi mannlíf hversdagsleikans.

Það þarf ekki að þýða að menn séu ófærir um að skapa sterkar heimildir í ljósmyndum á sinni heimaslóð. Nærtækt dæmi er hin frábæra sýning á Parísarmyndum Henri Cartier-Bressons sem Akureyringar og Reykvíkingar fengu að njóta á síðustu mánuðum.

Þegar verið er að velta fyrir sér þeim ómetanlegu heimildum sem snjallar ljósmyndir eru; heimildir um staði, þróun byggða og mannlífs, má spyrja hvernig staðið sé að slíkri heimildaöflun hér á landi. Er nokkurs staðar snjall ljósmyndari í starfi hjá hinu opinbera, borg eða ríki, við að taka á kerfisbundinn hátt persónulegar ljósmyndir sem er ætlað að sýna þróun mála og hvernig ásýnd umhverfisins er á hverjum tíma? Mér er kunnugt um það að borgir erlendis hafa iðulega slíka menn á sínum snærum, gjarnan í sambandi við opinber ljósmynda- og heimildasöfn. Eitt dæmi er borg í Þýskalandi þar sem maður fer á nokkurra ára fresti á nákvæmlega sömu staðina innan borgarinnar, á sömu götuhornin, í sömu stofnanirnar, sömu verslanirnar, og tekur myndir. Með tímanum fást þannig ómetanlegar heimildir; hús rísa, önnur hverfa, ásýnd hluta og fólks breytist. Það er nauðsynlegt að samfélög hyggi að slíkri skráningu sögunnar, það er ekki nægilegt að treysta þar á einstaklinga sem eru einungis að mynda fyrir sjálfa sig, eða á myndasöfn fjölmiðlanna, því ljósmyndarar fjölmiðlanna beina jú einkum augum að fólki og beita ekki vísindalegum aðferðum við að skrásetja breytingar á ásýnd umhverfisins.

Við getum ímyndað okkur hverskonar fjársjóð við ættum hefði slíku verklagi verið beitt í Reykjavík síðustu fimmtíu árin. Við gætum þá farið á sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag og skoðað myndröð skarpra og vandaðra mynda, sem væri teknar ofan úr Bankastræti - svo kunnuglegur staður sé tekinn fyrir - og horft á Lækjartorg breyta um svip. Og ef farið er nær okkur í tíma, skyldi hafa verið haft fyrir því að skrásetja breytinguna á Grafarholtinu? Ef ekki, þá hefði verið mikilvægt fyrir framtíðina að eiga myndir af holtinu óbyggðu, síðan með skurðum og vegaframkvæmdum, loks með þessum stóru byggingum sem hafa risið á síðustu misserum. Eftir fimmtíu ár gætu þetta verið ómetanlegar heimildir, og sem slíkar mikil verðmæti. Verðmæti eins og fólk upplifir sem fer á sýningu á myndum Hans Malmbergs í Hafnarborg.

Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is