12. ágúst 2001 | Sunnudagsblað | 3026 orð | 12 myndir

Vörður sögunnar

Tunnumerkin voru yfirleitt heimatilbúin, klippt úr plasti eða járni, sumir notuðu tölur, a.m.k. einn síldarverkandi lét slá sérstaka mynt.
Tunnumerkin voru yfirleitt heimatilbúin, klippt úr plasti eða járni, sumir notuðu tölur, a.m.k. einn síldarverkandi lét slá sérstaka mynt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Freyr Jóhannesson safnar peningum. Seðlum, sleginni mynt og tunnumerkjum. Hann á eitt merkasta seðla- og myntsafn landsins og einstætt safn tunnumerkja, gjaldmiðils síldaráranna. Auk safngripanna hefur Freyr viðað að sér miklum fróðleik, enda stutt á milli alvöru söfnunar og sagnfræði. Guðni Einarsson heimsótti Frey og fræddist um þrotlausa leit safnarans að vörðubrotum sögunnar.
ÉG SEGI stundum að það sé fullt starf að vera safnari," segir Freyr Jóhannesson tæknifræðingur. Hann hefur safnað frá barnæsku, fyrst frímerkjum og svo seðlum og mynt. Nú á hann eitt besta gjaldmiðlasafn landsins sem geymir seðla, myntir og tunnumerki og margt sem þeim tengist. Safn Freys er tryggilega geymt í bankahólfi en heima er hann með litljósrit af safngripunum. Freyr segir ljósritin vera fullnægjandi til þeirra rannsókna sem söfnunin krefst.

Freyr segir að kveikjan að góðu safni sé yfirleitt einstaklingur sem hefur áhuga á söfnun og góð söfn verði yfirleitt ekki til nema hjá einstaklingum. Helstu söfn okkar, Landsbókasafn og Þjóðminjasafn, hafi í raun byrjað sem einkasöfn.

Eitt af því sem geri söfnun erfiða er að hún er að hluta til sagnfræðileg rannsókn á þröngu sviði. Áhugi á sögu er því nauðsynleg forsenda þess að vel gangi. Safnarar gegna og veigamiklu hlutverki við að varðveita söguna.

"Ég hef orðað það svo að safngripir séu vörður í sögu landsins, hvort sem það er hagsaga, verslunarsaga eða listasaga," segir Freyr. "Þetta eru vörðubrot úr sögunni. Alvöru safn er ekki samsafn af alls konar dóti heldur byggist það á ákveðnu kerfi sem er aðgengilegt, skiljanlegt og hefur einhverja merkingu."

Safnari frá barnæsku

Freyr er fæddur í Haga í Aðaldal 18. ágúst 1941. Hann ólst upp norðan heiða og dvaldi þar til sautján ára aldurs. Síðan segist hann hafa verið að mestu leyti í Reykjavík, fyrir utan þrjú ár sem hann var í Kaupmannahöfn að læra tæknifræði og nokkur sumur á Austurlandi þar sem hann lærði trésmíði hjá Völundi bróður sínum á Egilsstöðum. Að tæknifræðinámi loknu starfaði Freyr hjá Almenna byggingafélaginu, síðan hjá Fasteignamatsnefnd Reykjavíkur við mat á sérhæfðum byggingum. Freyr hefur starfað hjá Almennu verkfræðistofunni frá stofnun 1971. Hann hefur aðallega fengist við matsgerðir af ýmsu tagi, meðal annars vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi í fyrra, og segir að teikniborð hafi ekki verið á skrifstofu sinni undanfarin tuttugu ár að minnsta kosti.

Freyr var ekki nema sex ára þegar hann fór að safna frímerkjum og gerði það fram yfir tvítugt. Faðir hans átti töluvert af smápeningum sem lagðir höfðu verið til hliðar í áranna rás. Sem drengur hafði Freyr gaman af að skoða peningana og velta fyrir sér mismunandi útliti þeirra, gerð og sögu. Þar á meðal voru nokkrir danskir skildingar frá 19. öld. Mest voru þetta þó verðlitlir smáaurar. "Það má segja að ég hafi byrjað að safna íslenskum seðlum árið 1962. Þá var að hverfa það sem við köllum þriðju útgáfu Landsbankans. Þetta ár komu upp í hendurnar á mér þrír 100 krónu seðlar úr þessari útgáfu, með mismunandi undirskriftum. Ég tók þá úr umferð, þótt þetta væru töluverðir peningar í þá daga."

Freyr fór til tæknifræðináms í Kaupmannahöfn árið 1964. Í Danmörku var ekki mikið um íslenska seðla svo hann lagði söfnun á þeim til hliðar. Safnaði í staðinn danskri mynt á Danmerkurárunum.

Fróðleikur og safngripir

Freyr kom heim frá námi 1967 og tveimur árum síðar, 1969, var Myntsafnarafélag Íslands stofnað. Freyr er einn af stofnendum þess og hefur tvívegis verið formaður. Þegar best lét voru félagsmenn 400 talsins en eru nú um 100. Félagið heldur tíu uppboðsfundi á ári, sem eru eins konar lokaður skiptimarkaður. Þar mega ekki aðrir bjóða í en félagsmenn.

Eftir stofnun félagsins segist Freyr hafa farið á fullt í söfnun seðla, myntar og minnispeninga auk ýmissa annarra íslenskra gjaldmiðla. Hann seldi frímerkjasafnið 1977 og notaði andvirðið til að stækka seðlasafnið. Eins seldi hann danska myntsafnið og safn af nýlegum minnispeningum og erlendar myntir. "Ég losaði mig við þau svið sem mér þóttu minna áhugaverð og einbeitti mér að því sem mér þótti skipta meira máli og vera miklu skemmtilegri söfnun," segir Freyr. Það er lítið til af prentuðum heimildum um íslenska gjaldmiðla. Þetta er því rannsóknarsöfnun, að sögn Freys. Hann segist bæði hafa grúskað í heimildum og eins fræðst mikið af félögum sínum í Myntsafnarafélagi Íslands, sem viti ýmislegt. Þar er ekki einungis skipst á safngripum, heldur einnig fróðleik.

"Það er sniðugast hvað til eru margar tegundir af gjaldmiðlum hér á landi," segir Freyr. "Þessir gjaldmiðlar hafa ýmist verið gefnir út af einkaaðilum eða opinberum. Það má lengi deila um hvað sé gjaldmiðill. Hvort við til dæmis skilgreinum ávísanir og víxla sem gjaldmiðla. Algeng skilgreining er að gjaldmiðill sé eitthvað sem maður notar einu sinni eða oftar sem greiðslu fyrir einhver verðmæti. Venjulega flokkum við brauð- og vörupeninga undir íslenska gjaldmiðla. Það hafa líka verið til bensínpeningar, vöruseðlar og brauðseðlar eða miðar."

Freyr segir að vörupeningar hafi verið gefnir út hér á landi á árunum 1890 til 1901 að þeir voru bannaðir. "Þeir sem gáfu þetta út, oft útgerðarmenn eða kaupmenn, greiddu laun með þessum vörupeningum sínum. Til dæmis Pétur Thorsteinsson á Bíldudal, Thomsens Magasín í Reykjavík og fleiri og fleiri."

Freyr dregur fram sýnishorn af vöruseðli frá verslun á Stokkseyri. Seðillinn er að verðgildi fimm krónur, litprentaður í Danmörku og með mynd af verslunarhúsinu. Sumar þessar verslanir létu einnig slá myntir og voru því nánast með eigin hagkerfi.

Aðrir kaupmenn voru með ávísanir, ígildi peninga, sem voru með miðum sem klipptir voru úr örkum, líkt og skömmtunarmiðar. Þessir miðar giltu sem peningar hjá versluninni sem gaf miðana út. Freyr segir að oft hafi þessar ávísanir verið afhentar sem greiðsla fyrir innlegg í fiski og landbúnaðarvörum. Eins gátu fastir viðskiptavinir fengið ávísanir út á væntanleg innlegg þegar þeir áttu ekki lengur innistæðu. Mörg bakarí gáfu út brauðpeninga, sem voru ávísanir á brauðúttektir. Þá seldi t.d. Vestmannaeyjabíó viðskiptavinum margnota mynt sem merkt var tilteknu sæti og gilti á margar sýningar.

Kaupfélagaávísanir

Ávísanaútgáfa kaupfélaganna er annað merkilegt svið, að sögn Freys. Safn hans af kaupfélagaávísunum mun vera hið stærsta sinnar tegundar. Samkvæmt upplýsingum sem Freyr hefur aflað sér gaf 31 kaupfélag út slíkar ávísanir og enn er safnið að stækka. Í fyrra fann hann tvær nýjar gerðir kaupfélagaávísana. Ávísanablokkirnar eru flestar keimlíkar, enda lunginn af þeim prentaður í Prentsmiðjunni Eddu.

Freyr safnar líka ýmsum öðrum gögnum frá kaupfélögunum. Hann dregur upp reikning frá Kaupfélagi Þingeyinga fyrir byggingarvörum. Á reikninginn er stimplað: Greitt með ávísun. Það merkti í raun reikningsviðskipti, því kaupandinn var að kaupa út á væntanlegt innlegg. "Þetta voru vaxtalaus lán, en þeir sem staðgreiddu fengu 5-10% afslátt. Þessar ávísanir eru merkilegur hluti af verslunarsögunni," segir Freyr.

Íslenskir seðlar

Fyrstu raunveruleg kynni Íslendinga af peningaseðlum voru þegar svokallaður Kúrant-seðlar komu hingað til lands í lok 18. aldar. Seðlarnir voru gefnir út af Kurantbanken í Kaupmannahöfn og voru fyrstu seðlarnir sem hann sendi frá sér með íslenskri áletrun frá 1777.

Að sögn Freys voru Íslendingar ekkert hrifnir af seðlum og vildu heldur fá mynt, peninga slegna úr silfri eða gulli. Myntin þótti traustari, enda jafn mikils virði og málmurinn sem í henni var. Þá var hún og gjaldgeng í viðskiptum við kaupmenn annarra landa.

Eftir gjaldþrot danska ríkisins, í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna, var stofnaður nýr banki í Kaupmannahöfn, Rigsbanken. Hann gaf út seðil 1815 sem var með íslenskum texta á bakhlið, líkt og Kúrant-seðlarnir, en sérstaklega ætlaður til nota hér á landi. Oft er litið svo á að þar sé kominn fyrsti íslenski peningaseðillinn. Af þessum seðli eru til færri en tíu eintök í heiminum og eru fjögur þeirra hér á landi. Seðlabankinn á tvo, Verslunarbankinn átti einn og Freyr á einn seðil.

Fjárhagur Íslands og Danmerkur var aðskilinn 1. apríl 1871 og landssjóður varð til. Landsstjórninni var gefin heimild 1885 til að gefa út íslenska peningaseðla í nafni landssjóðs fyrir allt að hálfri milljón króna. Það skyldi verða fyrsta starfsfé Landsbanka Íslands. Fyrstu íslensku peningaseðlarnir eftir þessa breytingu voru prentaðir í Danmörku 1886. Gefnir voru út 5, 10 og 50 krónu seðlar. Heimild landssjóðs til seðlaútgáfu var síðar aukin upp í 750 þúsund krónur. Verðmæti fyrstu íslensku seðlanna var töluvert annað en sömu krónutölur nútímans gefa til kynna. Freyr segir að undir lok 19. aldar og fram á þá 20. hafi ein króna samsvarað nálægt 1.000 krónum í dag. Til dæmis var tímakaup verkamanns árið 1908 um 25 aurar. Gömlu seðlarnir hafi því ekki verið neinir smáaurar og haft mikla kaupgetu.

Freyr segir að íslensku seðlarnir hafi verið áþekkir dönskum peningaseðlum að stærð. "Allir landssjóðsseðlarnir voru teiknaðir af dönskum listamönnum. Íslensku seðlarnir eru allir með mynd af Danakonungi, en Danir gáfu sjálfir aldrei út seðil með mynd af sínum kóngi."

Íslandsbanki var stofnaður 1904 og fékk rétt til 30 ára að gefa út gulltryggða seðla. Freyr segir að Íslandsbanki hafi fengið miklu rýmri heimildir til seðlaútgáfu en landssjóður/Landsbankinn og reynst ákaflega þarft fyrirtæki. Með tilkomu Íslandsbanka komust peningar í umferð svo um munaði og peningaöld hófst fyrir alvöru hér á landi.

Ákveðin tímamót urðu með 2. seðlaröð Íslandsbanka sem kom út árið 1920. Ísland var nú fullvalda ríki og í stað dönsku kónganna voru seðlarnir skreyttir með myndum úr náttúru Íslands, Heklu og Geysi. Frey þykja þessir Íslandsbankaseðlar, sem prentaðir voru í Leipzig í Þýskalandi, fallegastir íslenskra peningaseðla. Hönnunin glæsileg og prentunin vönduð.

Landsbankanum var fengið hlutverk seðlabanka með lögum árin 1927 og 1928. Það sem kallað er 2. seðlaröð bankans var prentað í Englandi hjá Bradbury, Wilkinson & Co. Þeir seðlar komu í umferð á árunum 1934 til 1944 þegar út kom 500 krónu seðill. Þeir voru svo verðmætir að til er skrá yfir þá einstaklinga sem fengu fyrstu 500 kr. seðlana í hendur árið 1944. "Þetta þykir bara fyndið í dag," segir Freyr.

Bradbury, Wilkinson & Co. prentuðu alla íslenska seðla upp frá þessu til 1980 að fyrirtækið varð gjaldþrota. Þá tók Thomas De La Rue í Englandi við íslenskri seðlaprentun. Freyr segir að í kjölfar gjaldþrotsins hafi komi á markað í London sýnishorn úr prentsmiðju Bradbury, Wilkinson & Co. af íslenskum seðlum. Þar er að finna ýmis afbrigði sem eftirsótt eru af söfnurum.

Kóngur á einum seðli

Aðspurður segist Freyr ekki eiga sér neinn eftirlætisseðil. Þó hafi hann alltaf gaman af 50 króna seðli með mynd af Friðriki 8. sem fór í umferð 25. júlí 1907 ásamt 5 og 10 krónu seðlum í sömu seríu. "Þetta er mjög fallegur seðill og eini íslenski seðillinn sem ber mynd Friðriks 8.," segir Freyr. Mynd af Kristjáni konungi 9. prýðir hins vegar 5 og 10 krónu seðlana, en hann dó 1906. Freyr segir það sérstakt að gefa út seðlasyrpu með myndum af tveimur konungum.

Friðrik 8. kom til Íslands 1907 og vakti konungskoman mikla athygli. Freyr segir að fjöldi minjagripa hafi verið gerður af þessu tilefni og þeir útaf fyrir sig séu söfnunar virði. Þar má nefna platta, póstkort, veggspjöld, kaffistell, silfur, postulín og minnispening.

Frey þykir gaman að grúska. Safna þekkingu úr ýmsum áttum og skrá. Honum hefur orðið mikið ágengt í þeim efnum. Gott dæmi um það eru rannsóknir Freys á seðlaútgáfu gamla Íslandsbanka.

Í Útvegsbankanum voru til handfærðar skrár úr fórum Íslandsbanka þar sem öll seðlaútgáfa bankans árin 1904-1920 var skráð, búnt fyrir búnt. Hver seðill var áritaður eða áprentaður með eiginhandarundirskrift bankastjóra og með áritun eins starfsmanns sem hafði prókúru til seðlaáritunar. Þannig voru allir seðlar í útgáfunum 1904 og 1919 með handskrifuðum undirskriftum. Árið 1920 var farið að prenta áritun bankastjórans en hin var handrituð. Í skránum voru númer seðlanna, hverjir árituðu hvert búnt, hvenær seðlarnir fóru í umferð og eins hvenær þeir voru kallaði inn. Alls eru seðlarnir um milljón talsins. Freyr vann við það í nokkar vikur, ásamt starfsmanni Útvegsbankans, að taka þessar upplýsingar saman og tölvuskrá. Gerðar voru þrjá bækur með sundurliðuðum upplýsingum um seðlaútgáfuna og á Freyr eina, Seðlabankinn aðra og sú þriðja er í vörslu Íslandsbanka. Til eru meira en 50 mismunandi áritanir á 50 og 100 krónuseðla Íslandsbanka. Freyr á ekki allar útgáfur þeirra og segir líklega ómögulegt að ná slíku safni saman.

Freyr tekur til dæmis tvo 5 krónu seðla úr safni sínu. Þeir eru úr sömu útgáfu Íslandsbanka 1904, annar er númer 810, undirritaður af Emil Schou bankastjóra og Sighvati Bjarnasyni bankastjóra. Það var sjaldgæft að tveir bankastjórar árituðu seðla. Venjan var að einn bankastjóri áritaði ásamt starfsmanni sem hafði prókúru til seðlaáritunar. Samkvæmt bókum bankans fór þessi seðill í umferð 7. júní 1904. Hinn er númer 39943, áritaður af sömu mönnum og fór í umferð 11. október sama ár. Þá höfðu verið áritaðir meira en 39 þúsund peningaseðlar af þessu verðgildi einu á fjórum mánuðum. Freyr segir að engin dæmi séu um að danskur bankastjóri Íslandsbanka hafi ritað nafn sitt fyrir aftan nafn íslenska áritarans, hvort sem það var bankastjóri eða annar starfsmaður.

Annar fágætur Íslandsbankaseðill í eigu Freys er forvitnilegur fyrir þá sök að hann árita feðgarnir Sighvatur Bjarnason bankastjóri og sonur hans Bjarni, síðar bankastjóri í Vestmannaeyjum. Þegar þessi seðill fór í umferð, 27. september 1906, var Bjarni hins vegar ekki nema 15 ára gamall, en hann var fæddur 22. júlí 1891. "Bjarni hefur örugglega ekki haft prókúru. Þetta er ein af þessum ráðgátum. Líklegasta skýringin er sú að Sighvatur hafi einfaldlega lofað stráknum að árita. Ég held að Bjarni hafi verið sendill í bankanum á þessum tíma og haft lítið að gera," segir Freyr.

Freyr safnar meiru úr fórum Íslandsbanka en seðlum. Hann á safn víxla með mismunandi áprentuðum hausum, gömul bréfsefni og ávísanahefti og blöð með merkjum hinna ýmsu útibúa gamla Íslandsbanka. "Það er um að gera að ná öllu sviðinu, öllu sem er í kringum bankann."

Seinskrifandi landstjóri

Freyr er spurður hvort það sé einhver einn seðill í safni hans sem sé sérstaklega fágætur og eftirsóttur. Það er ekkert hik á honum þegar hann seilist í möppu og flettir upp ljósriti af 50 króna seðli frá landssjóði sem áritaður er af Hannesi Hafstein ráðherra og Tryggva Gunnarssyni bankastjóra.

Freyr segir að Magnús Stephensen landstjóri hafi áritað seðla landssjóðs framan af. "Þegar seðlafjöldinn var kominn í 30 eða 40 þúsund gafst Magnús upp á að skrifa sjálfur og var áritun hans prentuð á 5 og 10 krónu seðlana eftir það. Hann skrifaði þó áfram á alla 50 krónu seðla. Gárungar segja að það hafi háð peningakerfi landsins hvað Magnús Stephensen var seinn að skrifa. Það komust ekki miklir peningar í umferð í hans tíð!"

Freyr á gott safn af íslenskri mynt, en þykir hún lítið fyrir augað. Ekkert á við seðlana sem honum þykja yfirleitt vera mjög fallegir. Ein tegund gjaldmiðla í safni Freys verður seint lofuð fyrir fegurð en er þó stórmerkileg. Það eru tunnumerkin.

"Þau voru verðmætisávísanir og því gjaldmiðlar. Þau flokkast undir einkagjaldmiðla. Það er mikil stúdía í kringum þau, mjög merkileg," segir Freyr. "Þessi gjaldmiðill var notaður á síldarplönum. Strákarnir sem sóttu fullar tunnur til söltunarstúlknanna settu merki í stígvélin þeirra fyrir hverja tunnu sem þær söltuðu. Það voru viss merki fyrir saltsíld og önnur fyrir kryddsíld, merki fyrir heiltunnu og annað fyrir hálftunnu. Þegar törninni lauk mættu stúlkurnar hjá verkstjóranum og helltu úr stígvélunum. Launin voru svo gerð upp eftir því hvað merki hverrar voru mörg. Ég hef aldrei heyrt að neinn hafi misnotað það að þessir peningar voru frumstæðir."

Freyr á nú tunnumerki frá um 300 söltunarstöðvum víða um land. Merkin eru yfirleitt heimatilbúin. Sum klippt úr plasti, önnur úr smurolíudunkum, spilapeningar, íslensk mynt sem búið er að slá í upphafsstafi, aðrir notuðu einfaldlega tölur úr kaupfélaginu, einn síldarverkandi sagaði hausa af húslyklum. Merkin eru kringlótt, þríhyrnd, ferhyrnd og sexköntuð.

"Þeir voru flottir á því á Akureyri," segir Freyr og dregur upp tunnupeninga frá Ottó A. Tulinius síldarverkanda. Hann hefur látið slá sérstaka látúnsmynt í útlöndum og er hún skreytt mynd af síld.

"Við hjónin fórum hringferð um landið og komum á Breiðdalsvík. Ég mundi að mig vantaði tunnumerki þaðan og fór í frystihúsið. Ég hitti þar röskleikakonu sem var verkstjóri og spurði hvort hún ætti handa mér tunnumerki. Þetta var eftir hádegi og pökkun að hefjast. Hún bað mig að bíða meðan hún væri að koma vinnslunni af stað. Svo fór hún úr svuntunni og við fylgdum henni niður að höfn. Hún gekk rakleitt inn í horn í ljóslausum skúr. Þar teygði hún sig upp í hillu og sótti kassa. Í honum voru þessi merki," segir Freyr og handleikur tunnumerkin frá Breiðdalsvík. "Hún rétti mér merkin og ég spurði hvort ég mætti borga henni fyrir ómakið. "Nei, alls ekki," svaraði konan. "Mér þykir vænt um að einhver skuli safna þessu og varðveita." Ef fleiri væru sama sinnis og þessi kona á Breiðdalsvík væri meira til af góðum safngripum. Það hafa margir skilning á nauðsyn þess að halda þessum vörðubrotum sögunnar til haga," segir Freyr.

Í tengslum við tunnumerkin hefur Freyr einnig safnað myndum og póstkortum frá síldarárunum og upplýsingum um síldarsöltun hér á landi á árunum 1920 til 1991. Hann er með tölur yfir heildarsöltun áranna 1920-28 og sundurliðaðar tölur frá 1929-1991. Þó vantar hann enn nánari upplýsingar um árin 1931-50. Saga tunnumerkjanna spannar aðeins 90 ár og Frey þykir hún ótrúleg að mörgu leyti. Ekki eru nema um 10 ár síðan sögunni lauk, en merkin eru mörg farin forgörðum. Freyr segir það rannsóknarefni að skoða þróun tunnumerkjanna í áranna rás, athuga útbreiðslu þeirra og sögu. Hann segist vanta fleiri tunnumerki. Frey reiknast til að notuð hafi verið 600 til 1.000 mismunandi tunnumerki hér á landi í þessi 90 ár. Þau kunna því að leynast víðar en á Breiðdalsvík.

Þekkingin ratar á prent

Afrakstur rannsóknarvinnu Freys og félaga hans í seðla- og myntsöfnun hefur að hluta ratað á prent. Freyr er höfundur 3. myntrits Seðlabanka og Þjóðminjasafns ásamt Antoni Holt. Ritið fjallar um opinbera gjaldmiðla í 220 ár, útgáfu og auðkenni íslenskra seðla og myntar á árunum 1778-1997. Ráðgert er að endurútgefa þetta hefti og nú með litmyndum af seðlunum. Um þessar mundir vinnur Freyr ásamt Antoni Holt að frágangi fjórða myntritsins.

"Það fjallar um ýmsar tegundir gjaldmiðla sem hafa verið notaðir hérlendis af innlendum eða erlendum aðilum," segir Freyr. "Um er að ræða vörupeninga, brauðpeninga og brauðmiða, vöruseðla og vöruávísanir kaupfélaga og einkaaðila, gjaldmiðla sem Bandaríkjaher eða klúbbar innan hans hafa gefið út og notað innan herstöðva sinna hérlendis, spilapeninga, bensínpeninga og bíópeninga frá Vestmannaeyjabíói o.s.frv. Flestir greiðslumiðlar sem fjallað er um eiga það sammerkt að þeir tengdust inneignar- og útlánsverslun og á það bæði við um kaupfélögin og kaupmenn af öllum stærðargráðum. Þessir gjaldmiðlar voru sjaldnast ótraustari en opinberar útgáfur, í þeim skilningi að útgefendur seðla og peninga voru oft á tíðum sterkefnaðir og áttu miklar eignir, þannig að ýmsar einkaútgáfur voru baktryggðar með bæði fasteignum og vörulagerum."

Það er ljóst að enginn endir er fyrirsjáanlegur á erli Freys, þessum verði sögunnar, við söfnun og varðveislu vörðubrota sögunnar. Eins við söfnun þekkingar sem ella kynni að fara forgörðum. Af stuttu samtali er ljóst að víða liggja safngripir og sögubrot - og það er ábyggilega fullt starf að vera safnari.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.