Sverrir Guðmundsson hugar að blásturshljóðfæri á Tríóluverkstæðinu.
Sverrir Guðmundsson hugar að blásturshljóðfæri á Tríóluverkstæðinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sverrir Guðmundsson er eini maðurinn á Íslandi sem hefur lært þá list að gera við blásturshljóðfæri. Kristín Heiða Kristinsdóttir smeygði sér inn á Tríóluverkstæðið og rakti tónelskar garnir úr hagleiksmanninum.

Lífsmáti Sverris er óneitanlega fjölskylduvænn því hann lifir og starfar í einu og sama húsinu. Hann rekur hljóðfæraverkstæðið Tríólu í kjallaranum heima hjá sér á Grettisgötu 48 en fjölskyldan býr á efri hæðunum. En hvernig kom það til að Sverrir fór út í að læra hljóðfæraviðgerðir?

"Ég var í tónlistarnámi frá því ég man eftir mér og reyndar vorum við öll systkinin send í tónlistarskóla. Móður mína langaði að læra tónlist en þar sem hún var fædd og uppalin stóð slíkt nám ekki til boða. Í staðinn fengum við systkinin að kynnast þessum heimi. Auðvitað entumst við mislengi í þessu námi og Anna Guðný systir mín er sú eina okkar sem gerði hljóðfæraleik að ævistarfi."

Sjálfur var Sverrir í tónlistarnámi í 14 ár eða frá sex ára aldri til tvítugs. Lengst af lærði hann á óbó.

"Kristján Stephensen var óbókennari minn og hann bjargaði alltaf málunum fyrir mig ef hljóðfærið bilaði. En svo lenti ég í því að það kom sprunga í óbóið og þá þurfti að senda það til Englands í viðgerð því þá var enginn blásturshljóðfæraviðgerðamaður hérlendis. Það er í raun merkilegt að enginn skyldi hafa farið út í að læra þetta fag fyrr, því hér á landi er búið að blása í lúðra í meira en hundrað ár."

Þessi óumdeilanlega þörf fyrir hljóðfæraviðgerðarmann hérlendis sem og almennur tónlistaráhugi Sverris kveikti síðar hjá honum þá hugmynd að fara út í slíkt nám. En þar kom einnig til skrúfjárnsdellan sem hann hefur alla tíð verið haldinn.

Útvarpsvirkjun og kennaradeild

"Ég hef alltaf haft áhuga á að taka hluti í sundur og sjá hvernig þeir virka. Sem krakki reif ég allt í sundur sem hönd á festi, vekjaraklukkur og heimilistæki. Ég man vel þegar ég opnaði í fyrsta skipti útvarpstæki og heillaðist um leið af þeirri undraveröld sem þar blasti við. Upp frá því dreymdi mig um að vinna við útvarpsvirkjun og ég fór í slíkt nám í Iðnskólanum eftir grunnskóla."

Sverrir var í tónlistinni meðfram iðnnáminu en eftir tvö ár í útvarpsvirkjuninni var þetta orðið of mikið og hann varð að velja á milli.

"Ég hætti í Iðnskólanum og fór í blásarakennaradeildina í Tónlistarskólanum. Árið 1981 fórum við Sigurður Flosason á sumarnámskeið sem var skipulagt af The London Saxophone Quartet. Ég fór með óbóið og einnig baritónsaxófón sem ég spilaði mikið á á þessum árum. Saxófónninn varð fyrir hnjaski á leiðinni út og var ekki notaður á námskeiðinu en ég spjallaði aftur á móti heilmikið við viðgerðarmann sem var til taks fyrir þátttakendur á námskeiðinu. Þarna held ég að bakterían hafi í raun og veru kviknað og í framhaldi af þessari ferð fór ég að leita upplýsinga um nám í viðgerðum."

Í gegnum Önnu systur sína, sem þá var við nám í píanóleik úti í London, fann Sverrir síðan Merton Technical College þar sem hann settist á skólabekk haustið 1982.

"Í skólanum var kennt mjög almennt viðgerðarnám, bæði fyrir tré- og málmblásturshljóðfæri sem og strengjahljóðfæri, bæði fiðlur og gítara. Einnig þurftum við að læra um pípuorgel og geta gert grein fyrir mismunandi tækni við að tengja hljómborðið við orgelpípurnar. Viðgerðarnámið var tveggja ára nám en ég bætti við mig þriðja árinu sem var í hljóðfærasmíði."

Sverrir kom heim að loknu þriggja ára námi og beið ekki boðanna heldur opnaði Tríólu strax því hann vissi að verkefnin voru næg.

"Erla Björk Jónasdóttir hafði þá opnað fiðluverkstæði hér heima og ég var mjög ánægður með það því þá gat ég einbeitt mér að blásturshljóðfærunum og veitti ekkert af tímanum til þess. Sem betur fer hef ég ekki þurft að sjá einn um allar tegundir hljóðfæra, það hefði ekki verið vinnandi vegur. Í dag eru tvö fiðluverkstæði hér í Reykjavík og einn gítarsmiður. Auk þess hafa píanóviðgerðarmenn alltaf verið þó nokkrir."

En þó hljóðfæraviðgerðir séu óneitanlega vandasamt handverk, er þá ekki nauðsynlegt að hafa lært á hljóðfæri til að geta sinnt starfinu vel?

"Vissulega er æskilegt að viðkomandi hafi lært á hljóðfæri og þekki þau vandamál sem geta komið upp á hverju hljóðfæri. Mér finnst ég geta hjálpað fólki meira með sérhæfð vandamál þeirra hljóðfæra sem ég hef sjálfur lært að spila á.

En þegar ég fór á sínum tíma í inntökuprófið í skólanum í Englandi þá var ekkert spurt um hljóðfærakunnáttu. Þeir litu eingöngu á þetta sem handverk. Á inntökuprófinu þurfti ég fyrst og fremst að sýna að ég kynni að beita verkfærum og smíða eftir teikningu."

Tannlæknatól og hnetubrjótur

Þeir sem koma við í Tríólu og horfa inn fyrir afgreiðsluborðið sjá fljótt hversu mikla nákvæmnisvinnu hljóðfæraviðgerðarmaðurinn innir af hendi. Þar úir og grúir af agnarsmáum varahlutum og verkfærum. Sverrir bendir mér á skrúfur úr sundurteknu óbói sem eru nánast ósýnilegar.

"Vissulega gengur ekki að vera skjálfhentur við þetta starf," segir hann á meðan hann handfjatlar hlutina varfærnislega. Sum áhöldin eru mjög sérhæfð en önnur eru almenn verkfæri. Hann sýnir mér gamla töng sem hann segist oftast taka upp af verkfærunum sínum.

"Þessa keypti ég í járnvöruverslun Kaupfélagsins á Vopnafirði þegar ég var 12 ára gamall. Þá var ég í sveit á Bustarfelli. Þetta var mín aðaltöng á bernskuárunum þegar ég var að tína tannhjólin úr vekjaraklukkunum. Hún hefur reynst mér best í viðgerðarstarfinu af öllum verkfærunum. Ég nota hana mest þó ég eigi auðvitað líka sérhannaðar tangir sem ég hef pantað eftir vörulistum."

Sverrir hefur viðað að sér allskonar tólum og tækjum sem hann hefur fundið not fyrir í faginu. Má þar m.a nefna tannlæknaáhöld, hnetubrjót, rennibekk, læknatöng og hringbursta í ótal stærðum.

"Þetta er spurning um hugmyndaflug og að laga verkfæri að því sem maður er að gera. Ég kaupi stundum skrýtin verkfæri sem ég finn á ferðum mínum í útlöndum," segir hann og grefur upp flugbeitta flísatöng sem hann keypti á götumarkaði í Danmörku á 10 danskar krónur og er algjört skaðræðisáhald.

Ýmislegt annað áhugavert leynist í Tríóluhillunum. Þar eru ýmis hljóðfæri sem bíða eftir varahlut eða einfaldlega eftir að gert verði við þau. Og hann dregur fram fornfálegan kornett frá 1840.

"Ég fann aldurinn út eftir letrinu sem grafið er á hann. Ég á hann ekki sjálfur en eigandinn fann hann uppi á háalofti hjá sér og kom með hann hingað til að selja hann. Ég var búinn að finna safnara sem vildi kaupa hann en verðið var víst ekki ásættanlegt. Eigandinn hefur ekki enn látið sjá sig til að vitja hans." Í beinu framhaldi af því spyr ég hvort öll hljóðfæri sem komi til viðgerðar séu sótt. Hefur eigandi aldrei dáið frá hljóðfæri í viðgerð og hafa framliðnir aldrei vitjað hljóðfæris?

"Nei, ekki svo ég viti til," segir Sverrir hinn rólegasti eftir þó nokkra umhugsun.

"En stundum hefur verið komið með hljóðfæri látinna einstaklinga til mín."

Neyðarhringing frá Bessastöðum

Þegar eitthvað kemur upp á með hljóðfæri erlendra blásara sem hingað koma í tónleikaferð, hefur Sverrir stundum þurft að bjarga málum. Kúbverjarnir öldnu í Buena Vista komu til Íslands á dögunum og reyndist laskaður saxófónn í farteskinu.

"Þetta var á sunnudegi og þau voru nýlent og sátu heima á Bessastöðum og drukku veigar í boði forsetans. Jóel Pálsson saxófónleikari var með þeim og hringdi þaðan í mig og sagðist vera með neyðartilfelli sem ég yrði að bjarga sem allra fyrst. Einn saxófónninn hafði skekkst í flutningunum og þeir þurftu að mæta í hljóðprufu næsta dag. Jóel tók hljóðfærið í sína vörslu og kom sjálfur með það hingað til mín, þannig að ég hitti því miður ekki meistarana sjálfa en auðvitað er gaman að geta bjargað málum."

Sverrir man eftir öðru svipuðu atviki sem átti sér stað fyrir mörgum árum þegar Fats Domino kom til landsins með Big Band til að spila á Broadway.

"Ég var að kenna í Tónmenntaskólanum þennan dag og þegar ég hafði lokið kennslunni þá beið mín ákaflega ábúðarmikill maður fyrir utan skólann. Þetta reyndist vera allsherjar reddari frá Broadway og hann kvaðst vera með bilaðan baritónsaxófón frá meisturunum í skottinu á bílnum sínum og engan tíma mætti missa. Ég yrði að hefja viðgerð strax. Hann ók mér rakleitt heim á verkstæði og lá við að hann sæti yfir mér á meðan ég gerði við hljóðfærið. Síðan var brennt upp á Hótel Sögu þar sem hljóðfæraleikarinn beið. Þetta slapp allt fyrir horn en var mikill hasar og mátti ekki tæpara standa því tónleikarnir voru um kvöldið og ég hafði verið að kenna til kl. 18:00."

Sverrir segir það skipta atvinnumenn miklu máli að spila á sitt eigið hljóðfæri þegar þeir komi fram, enda sé hljóðfærið orðið hluti af þeim sjálfum. Aðeins í algerri neyð grípi þeir til annarra hljóðfæra.

Helgarverkstæði úti á landsbyggðinni

Sverrir hefur stundum farið í helgarferðir út á land og sett upp verkstæði í tónlistarskólum þar.

"Þannig kemst ég yfir margfalt fleiri hljóðfæri viðkomandi skóla á stuttum tíma, við losnum við áhættuna sem fylgir flutningum á hljóðfærunum og ef ég kem á staðinn yfir helgi þá missa krakkarnir heldur ekki úr spilatíma eða æfingu."

Sverrir hefur greinilega nóg að sýsla við biluð blásturshljóðfæri en þar á ofan hefur tónlistarkennsla verið hliðargrein hjá honum meðfram viðgerðarstarfinu allt þar til fyrir tveimur árum að hann hætti að kenna.

"Ég hafði bara svo mikið að gera og álagið var mest á báðum stöðum á sama tíma. Hins vegar var tilbreytingin við verkstæðissetuna mjög góð og ég sakna kennslunnar."

Hann segir að sérstaklega á haustin óski hann þess vissulega að fleiri kynnu fagið. En hefur ekki hvarflað að honum að taka til sín nema og hefur enginn sóst eftir því að koma í læri til hans?

"Nei, ekki hefur það komist á neitt alvarlegt stig, en ég hef svo sem heyrt það sagt hér inni að gaman væri að læra fagið. Ég gæti vel hugsað mér að kenna þetta því óneitanlega er erfitt að vera einn, sérstaklega á haustin þegar sólarhringurinn dugar mér ekki til að sinna öllu því sem kemur inn á borð til mín. Þá getur biðtíminn farið upp í nokkrar vikur og þegar þannig stendur á þyrfti ég að geta vísað á aðra. Þegar skólarnir byrja er ekki óalgengt að nemendur hafi lítið æft sig allt sumarið og daginn fyrir fyrsta spilatímann kemur í ljós að ekki virkar allt sem skyldi. Þá hefur fólk engan annan valkost en að bíða eftir því að ég hafi tíma til að sinna þessu öllu saman."

Sverrir segir skólahljóðfærin þarfnast mestra viðgerða og hann hefur lagt sig fram við að reka áróður fyrir bættri umgengni nemenda við hljóðfærin sín.

"Ég hef hug á að koma upplýsingum um þessi mál til hljóðfærakennara og einnig til foreldra barna í hljóðfæranámi. Ég sé allt of oft dæmi um vanhirðu sem leiðir af sér bilanir. Krakkarnir gleyma að smyrja og þrífa hljóðfærin reglulega og ég fæ ósjaldan til mín flautur sem hafa verið lagðar á stól og fyrir vikið lent undir þungum rassi og annað í þeim dúr. Það er hægt að koma í veg fyrir margar bilanir með fyrirbyggjandi viðhaldi. Þetta er eitthvað sem þarf að venja sig á rétt eins og að bursta í sér tennurnar eða fara reglulega með bílinn sinn í smurningu. Næsta verkefni í þessari deild er að setja verkstæðið upp á landsmóti skólalúðrasveita sem verður í Keflavík um hvítasunnuhelgina."

Gott að hitta starfsfélaga

Síðan í ársbyrjun 1998 hefur Sverrir verið meðlimur í samtökum blásturshljóðfæraviðgerðarmanna í Bandaríkjunum (NAPBIRT).

"Þetta var mikil uppgötvun og léttir fyrir mig því vissulega fylgir því einangrun að vera einn í faginu hér heima. Ég hef tvisvar farið á ráðstefnu hjá þeim og var þar í félagsskap 300 annarra sem fást við sömu iðju og ég. Það skiptir máli að geta deilt því sem maður er að gera með kollegum og auðvitað lærum við hver af öðrum. Á þinginu sem ég sótti í fyrra var sérstök fimm daga ferð skipulögð fyrir okkur útlendingana í félaginu. Það var fámennur en góður hópur. Auk mín voru Norðmenn, Ástralar, Nýsjálendingar og Kanadamenn. Þetta var frábær ferð og við heimsóttum m.a. hljóðfæraverksmiðjur og stór verkstæði þar sem allt að 30 viðgerðarmenn voru að störfum."

Með sanni má segja að fjölskyldan á Grettisgötu 48 lifi og hrærist í tónamáli. Sverrir gerir við hljóðfæri og stillir tóna dagana langa í kjallaranum og spilar auk þess af og til með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Og börnin hans þau Rebekka og Sverrir Páll eru bæði í tónlistarnámi og æfa sig á efri hæðum hússins.

"Dóttir mín hafði orð á því þegar kom að því að velja hvaða hljóðfæri hún vildi læra á, að hagkvæmast væri að velja sér blásturshljóðfæri því þá gæti hún bara hlaupið niður í kjallara til mín ef eitthvað bilaði. Hún valdi blokkflautuna en Sverrir Páll spilar á píanó."

Og til að kóróna allt saman þá var grunnurinn að þessari tónelsku fjölskyldu lagður í Mótettukór Hallgrímskirkju.

"Leiðir okkar Guðbjargar konu minnar lágu fyrst saman í kórnum og við syngjum reyndar ennþá saman þar," segir Sverrir að lokum með kankvísan glampa í augum.