Unnar Stefánsson
Unnar Stefánsson
Unnar Stefánsson fæddist í Neskaupstað 20. apríl 1934. Hann fluttist til Hveragerðis á öðru ári og ólst þar upp. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1954 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1959. Sama haust hóf hann störf hjá Bjargráðasjóði og nokkur síðar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar sem hann hefur starfað síðan. Unnar er kvæntur Maríu Ólafsdóttur, handrita- og prófarkalesara hjá DV. Þau eiga þrjú börn.
Unnar Stefánsson fæddist í Neskaupstað 20. apríl 1934. Hann fluttist til Hveragerðis á öðru ári og ólst þar upp. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1954 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1959. Sama haust hóf hann störf hjá Bjargráðasjóði og nokkur síðar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar sem hann hefur starfað síðan. Unnar er kvæntur Maríu Ólafsdóttur, handrita- og prófarkalesara hjá DV. Þau eiga þrjú börn.

Sveitarstjórnarmál, tímarit Sambands íslenskra sveitarfélaga, var stofnað 1941 og er því 60 ára í þessari viku. Unnar Stefánsson er ritstjóri Sveitarstjórnarmála. Hann var spurður hver væri staða tímaritsins nú?

"Tímaritið er fyrst og fremst málgagn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna almennt. Það flytur jöfnum höndum fréttir og efni frá stjórn Sambandsins og kynnir stefnu þessu. Ennfremur segir í tímaritinu frá framkvæmdum innan sveitarfélaganna og fluttar fréttir þaðan, kynntir eru reglulega nýráðnir bæjar- og sveitarstjórar og aðrir embættismenn. Á hinn bóginn miðlar tímaritið efni til sveitarfélaganna, kynnir nýmæli í lögum og reglugerðum og það sem efst er á baugi og sveitarfélögin varðar, svo og framkvæmdir innan sveitarfélaganna svo sem nýja skóla og leikskóla og fleira. Áberandi efni hefur undanfarin ár verið umfjöllun um sameiningu sveitarfélaganna og stjórnsýsla almennt. Einnig hefur mikið verið fjallað um umhverfismál."

-Hver var aðdragandinn að stofnun Sveitarstjórnarmála?

"Jónas Guðmundsson, sem þá var eftirlitsmaður sveitarstjórnarmála og hafði áður verið bæjarfulltrúi í Neskaupstað hóf útgáfu tímaritsins á eigin kostnað árið 1941. Áður hafði hann kynnt sér útgáfu slíkra tímarita á Norðurlöndum. Í hinu nýja tímariti var hvatt til stofnunar hagsmunasamtaka sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga var stofnað 1945. Það var hins vegar ekki fyrr en tveimur árum síðar sem Sambandið yfirtók útgáfu tímaritsins Sveitarstjórnarmál af Jónasi, sem þá var formaður Sambandsins. Hann var áfram ritstjóri Sveitarstjórnarmála."

-Var þetta "kall tímans" á þeim tíma?

"Já. Í kjölfar lýðveldisstofnunar 1944 kom fram hreyfing um nýja stjórnarskrá og aukið forræði landshlutanna sem m.a. endurspeglaðist í stofnun fjórðungssambanda á Austfjörðum, Norðurlandi og á Vestfjörðum. Jónas Guðmundsson og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu áherslu á að efla sveitarfélögin og færa þeim aukið vald og verkefni frá ríkinu. Þá voru miklir fólksflutningar frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og mönnum stóð ógn af þeim og fjármagnstilfærslum sem þeir höfðu í för með sér. Menn töldu að svarið væri öflugri sveitarfélög - þau gætu veitt viðnám við þessari þróun."

-Var tímaritinu mikið beitt í þessu sambandi?

"Já, þar birtust margar merkar greinar eftir menn eins og Jónas Guðmundsson, Karl Kristjánsson og fleiri um nauðsyn þess að efla sveitarfélögin. "Það er löng leið til keisarans" sagði í frægri grein eftir Karl."

-Hvert er umfang tímaritsins núna?

"Sveitarstjórnarmál kemur til allra aðalmanna og varamanna í bæjarstjórnum í kaupstöðum og til aðalmanna í hreppsnefndum. Auk þess kaupa það fjölmargar stofnanir sem koma að verkefnum sveitarfélaga."

-Hvað er upplag þess stórt?

"Það hefur mest verið nokkuð yfir 3000 eintök, en kaupendum hefur nokkuð fækkað að undanförnu vegna sameiningar sveitarfélaganna, þá fækkar sveitarstjórnarmönnum. Við berjumst fyrir sameiningu sveitarfélaga en sú stefna leiðir til fækkunar kaupenda tímaritsins - þannig er sú þversögn. Tímaritið er yfirleitt 64 síður og kemur út fimm til sex sinnum á ári. Í tilefni afmælisins er tímaritið heldur stærra en venjulega þetta árið."

-Hver eru helstu baráttumálin núna?

"Það eru áframhaldandi umbætur á stjórnsýslu sveitarfélaganna og efling þeirra með sameiningu, svo þau séu betur í stakk búin að taka við auknum verkefnum frá ríkinu. Stefnt er að yfirfærslu ýmissa verkefna frá ríki til sveitarfélaga, svo sem málefnum fatlaðra og aldraðra og jafnvel löggæslu. Til þess að sveitarfélögin hafi burði til þess að leysa þessi verkefni þurfa þau að vera stærri og fjárhagslega sterkari."

-Ráða sveitarfélögin við þessi verkefni í náinni framtíð?

"Sveitarfélögin hafa fengið dýrmæta reynsla af yfirfærslu grunnskólans, sem sumir höfðu vantrú á. Nú sjáum við að hún hefur leyst úr læðingi kraft og metnað til þess að sinna þessu verkefni með sóma og þannig má ætla að áfram verði þótt sumar aðgerðir verði sársaukafullar í bili, t.d. fækkun skóla."

-Hver er framtíðarsýn Sveitarstjórnarmála?

"Ég vona að í Sveitarstjórnarmálum hafi sést spegilmynd af þeirri þróun sem varð á ofanverðri 20. öld, svo sem með lagningu hitaveitna, malbikun gatna og gjörbreyttu útliti bæjanna sem við kölluðum svörtu byltinguna og grænu byltinguna. Ég vona að nýja öldin færi okkur hliðstæð verkefni.