1. september 2001 | Aðsent efni | 802 orð | 1 mynd

Vextir

Í fjötrum árangurslausrar vaxtastefnu?

Már Wolfgang Mixa
Már Wolfgang Mixa
Vaxtabætur verði afnumdar hið fyrsta, segir Már Wolfgang Mixa, til að skapa rými til vaxtalækkana.

FYRIRTÆKI hafa verið að birta afkomutölur þessar vikurnar en segja má að gengistap, þ.e. gjaldfæring skulda vegna veikingar krónunnar, sé rauður þráður í þessum afkomutölum.

Þegar fyrirtæki hafa tekið erlend lán til að fjármagna innlenda sölu hefur ástæðan því miður verið sú að núverandi hátt vaxtastig veikir samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum sínum. Því fylgir ávallt áhætta og má segja að gengistöpin í dag séu afleiðing slíkra aðgerða, sem til skemmri tíma veittu ódýrt fjármagn.

Áhrif vaxta á rekstrarniðurstöðu

Vaxtastig hefur aukist jafnt og þétt hér á landi undanfarin ár. "Áhættulaus" íslensk ríkisskuldabréf eru nú með um tvöfalt hærri ávöxtunarkröfu en sambærileg bréf í Bandaríkjunum og evruríkjum, þar sem vextir hafa verið að lækka á sama tímabili. Þetta er slæmt fyrir rekstur fyrirtækja því aukinn vaxtakostnaður bítur hægt og sígandi hagnað þeirra og til að bæta gráu ofan á svart eykur ávöxtunarkröfu gerða til hlutabréfa, hann. Staðan í dag og þróun undanfarin ár er afar svipuð því vaxtaástandi sem ríkti í Bandaríkjunum.

Annað grafið sýnir hvernig hagnaður fyrirtækja í Bandaríkjunnum, sem hlutfall af veltu, náði lágmarki um 1985 í kjölfar vaxtaástands sem svipar mjög til stöðunnar í dag og þróun undanfarinna ára hérlendis. Lækki vextir hér á landi ekki næstu misserin eru líkur á því að hagnaður fyrirtækja á Íslandi valdi áfram vonbrigðum vegna óyfirstíganlegs fjármagnskostnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá þjóðhagsstofnun var hagnaður fyrirtækja af vergri landsframleiðslu aðeins um 3,5% árin 1994 til 1997 og, eins og grafið sýnir, er samanburðurinn við bandarísk fyrirtæki verðugt umhugsunarefni.

Vextir og fjárfestingamöguleikar

Fyrir u.þ.b. tveimur árum skrifaði ég grein, sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins, þar sem ávöxtunarkröfur ríkisbréfa og hlutabréfa voru bornar saman. Niðurstaða greinarinnar var að íslensk hlutabréf væru ofmetin gagnvart skuldabréfum allt að 50%. Eðlilega ráku sumir upp stór augu enda mikil bjartsýni þá í gangi varðandi framtíðina og vextir virtust vera aukaatriði. Var m.a. bent á sjávarútveg sem vænlegan fjárfestingarkost! Tölurnar tala sínu máli í dag um þá ávöxtun sem íslensk hlutabréf hafa veitt síðan greinin var birt, og er ekki fjarri lagi að skuldabréf hafi veitt ávöxtun umfram hlutabréfum eins og ofmatið á hlutabréf gaf til kynna á þessu tímabili.

Menn hafa keppst við að útskýra af hverju afkoman hefur ekki verið betri í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að íslensk hlutabréf voru gróflega ofmetin í mörg ár. Óraunhæfar væntingar um að gríðarleg hagnaðaraukning væri handan hornsins réðu ríkjum, í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að vaxtalegt umhverfi íslenskra fyrirtækja gerir þeim það nánast ógerlegt að skila hagnaði, hvað þá ásættanlegri arðsemi. Líklegt má teljast að verði ekki breyting á núverandi vaxtastefnu muni gengi íslenskra hlutabréfa halda áfram að lækka.

Sala ríkisfyrirtækja

Á næstkomandi mánuðum ráðgerir ríkið að selja stóran hluta af eignum sínum í Landsbanka Íslands og Landssímanum til erlendra fjárfesta. Almenn bjartsýni hefur ríkt um söluna og hækkuðu t.d. hlutabréf Landsbankans tímabundið um rúmlega 10% í kjölfar tilkynningar um slík söluáform.

Núverandi vaxtastig hérlendis á hins vegar eftir að verða þrándur í götu þeirra söluáforma. Miðað við óbreytt ástand þess hljóta skuldabréf í dag að vera ótvírætt betri fjárfestingarkostur en hlutabréf. Það vekur því athygli að þrátt fyrir öfluga kynningu á íslenskum ríkisskuldabréfum á erlendri grundu hefur áhugi þaðan látið á sér standa. Ástæðan er fyrst og fremst sú að flökt krónunnar gerir fjárfestingar á Íslandi fyrir erlenda aðila, jafnvel í ríkisskuldabréfum, áhættusama.

Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnina. Ef íslensk ríkisskuldabréf hafa vakið takmarkaðan áhuga erlendra fjárfesta, hver getur áhugi þeirra hugsanlega verið á innlendum fyrirtækjum? Flökt krónunnar og hátt vaxtastig hér á landi gerir það að verkum að erlendir aðilar hafa litla ástæðu til þess að sýna áhuga á þeim útboðum sem framundan eru, nema ef gengi hlutabréfanna sé mun lægra en það er í dag.

Nýlegar hækkanir á þaki húsbréfalána eykur enn frekar á þenslu í landinu. Þessar hækkanir draga tennurnar úr mætti hás vaxtastigs því hér á landi, eins og ég hef áður komið inn á, er fólk verðlaunað fyrir að skulda með vaxtabótum og skipta háir vextir því minna máli. Það mætti því segja hvað sölu ríkisfyrirtækja varðar að þar sé stjórnkerfið að skjóta sig í fótinn. Aukin ásókn í húsnæðislán og þ.a.l. auknar vaxtabætur gera háa vexti árangurslausa að stórum hluta, og vinna því ekki sem aðhald á þenslu. Með háu vaxtastigi heldur krónan til lengri tíma áfram að veikjast sem eykur arðsemiskröfu erlendra aðila á íslenskum fjárfestingum og leiðir því til kröfu um lægra markaðsvirði.

Því ber að leggja drög að því að vaxtabætur verði afnumdar hið fyrsta til að skapa rými til vaxtalækkana. Þá fyrst verður grundvöllur lagður fyrir eðlilega arðsemi fyrirtækja hér á landi. Aðeins þannig verða íslensk fyrirtæki, sem ekki byggja á stoðum úrvinnslu náttúrulegra auðlinda, að vænlegum fjárfestingarkosti á erlendri grundu. Í núverandi vaxtaumhverfi er hins vegar hætt við að mikil vonbrigði eigi eftir að eiga sér stað með sölu ríkisfyrirtækja til erlendra fjárfesta.

Höfundur er fjármálafræðingur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.