[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afþreying fólks inni á heimilinu hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Skapti Hallgrímsson rifjar upp gamla tíma og rýnir inn í framtíðina.

Sú var tíð að húslestur tíðkaðist á íslenskum heimilum; fólk safnaðist saman í baðstofunni á kvöldin og einhver einn, iðulega húsbóndinn, las upphátt fyrir hópinn úr góðri bók.

Enn virðist það mjög algengt að fólk setjist saman eftir kvöldverð á íslenskum heimilum; nú í því skyni að hlusta og horfa, á það sem boðið er upp á í sjónvarpinu.

Breytt afþreyingarform má meðal annars þakka/kenna tæknibreytingum: þegar ekkert var sjónvarpið hlustuðu menn gjarna saman á útvarp eða lásu í bók og áður en útvarpið var fundið upp kom jafnvel fyrir að fólk settist niður og talaði saman! Það tíðkast reyndar enn, jafnvel að vinir sæki hvern annan heim og spjalli saman yfir kaffibolla og að slökkt sé á sjónvarpi. Um það geta ýmsir vitnað, en hætt er við að ýmislegt annað sé algengara.

Fjölmiðlun virðist vera mjög ríkur þáttur í afþreyingu fólks í dag; sjónvarpið hefur verið nefnt, útvarpið líka og síðan skipa tölvur af ýmsu tagi stóran sess.

Segja má að stafræn tækni ýmiss konar hafi breytt afþreyingu manna að verulegu leyti. Nefna má DVD sem rutt hefur sér til rúms upp á síðkastið. Hefðbundið myndbandstæki er líklega til á flestum heimilum; fjárfest var og er í þeim að miklu leyti í þeim tilgangi að taka efni upp úr sjónvarpi, auk þess sem lengi hefur verið hægt að leigja kvikmyndir og ýmislegt annað efni á spólum. Viðmælendur blaðsins telja DVD spilarana hins vegar aðallega notaða til að horfa á bíómyndir sem fólk kaupir, þó eitthvað sé um að þær séu leigðar.

Munurinn á DVD og venjulegum myndbandsspólum er sá að fyrrnefnda formið býður upp á þann möguleika að stökkva milli atriða; ekki þarf að spóla heldur getur viðkomandi farið hvert sem er í kvikmyndinni á svipstundu. Og gæðin eru ætíð þau sömu, alveg sama hve oft er horft á myndina. Því er öfugt farið með myndböndin, eins og allir vita væntanlega.

Í Bandaríkjunum hefur nokkurs konar stafrænt upptökutæki orðið vinsælt; það er tengt við sjónvarp og verði áhorfandinn fyrir truflun meðan hann er að horfa á eitthvað í beinni útsendingu eða bíómynd sem hann vill ekki missa af - þurfi að svara síma eða dyrjabjöllu eða bara bregða sér á salernið - getur hann látið tækið taka upp úr sjónvarpinu. Það virkar eins og tölva sem tekur efni upp á harða diskinn.

Þessi tækni mun ekki hafa verið í boði hérlendis enn en vitað er að það verður innan tíðar.

Netið

Á sínum bjuggust margir við að Netið kæmi inn í sjónvarpið; að myndlyklar yrðu gátt inn á Netið, en það hefur ekki gerst. Fólk virðist ekki vilja vafra um Netið í sjónvarpinu.

Notkun Netsins er gríðarleg og þar er á ferðinni allt öðruvísu miðill en sjónvarpið. Áhorfandi við sjónvarp er í raun einungis þolandi, sá sem er á Netinu er fremur þátttakandi. Þar nær hann sér í efni, t.d. kvikmyndir og tónlist, eða hefur samskipti við annað fólki.

Unglingar nota Netið til að mynda mikið til þess að "tala saman" eins og það er kallað - skrifast á, hefði það líklega einhvern tíma verið nefnt, þó svo bréfin berist hraðar á milli með þessu formi en í sendibréfi.

Tölvubókalestur

Fáanlegar eru tölvubækur en að sumra mati eru þær enn full þungar í vöfum á Netinu. Eru sem sagt ekki enn nægilega þægilegar til að verða mjög útbreiddar. En tölvubókum fylgja vissulega kostir: til dæmis baklýsing sem gerir það að verkum að hana er hægt að lesa í myrkri; lesandi getur til dæmis legið við hlið makans í rúminu og lesið, þó svo hinn sofi eins og steinn í myrkvuðu herbergi. Þá er hægt að stækka letrið í tölvunni og í nýjustu tölvubókunum er meira að segja hægt að glósa, sem flokkast líklega seint undir afþreyingu en gæti nýst skólafólki.

Hægt er að kaupa bækur á tölvutæku formi og ýmislegt er hægt að nálgast án endurgjalds, bæði hér heima og erlendis - prentað mál sem lýtur ekki lengur lögum um höfundarétt.

Til að mynda hefur fyrirtækið Netútgáfan sett inn á Netið margt athyglisvert, skáldsögur, smásögur og ljóð auk þess sem á heimasíðu fyrirtækisins, www.snerpa.is/net, er að finna m.a. Biblíuna og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem einmitt var auglýst eftir í Morgunblaðinu á dögunum í aðsendri grein.

Tölvuleikir

Leikjatölvur eru mjög vinsælar meðal barna og unglinga. Sú útbreiddasta er Play Station 1 frá Sony en Play Station 2, sem er nýrri og mun dýrari og fullkomnari - m.a. með innbyggðum DVD spilara - sækir á. Á þessu sviði er væntanlegt á markaðinn X-box tölva frá Microsoft. Fyrir þá yngstu hefur Nintendo 64 verið ráðandi og ný Nintendo er væntanlega á markað síðar á árinu.

Síðustu misseri hefur einnig orðið mjög vinsælt að spila leiki yfir netið í heimilistölvum; þá spilar viðkomandi leik af einhverju tagi við einhvern annan, sem getur verið staddur hvar sem er í heiminum!

Að lesa...

Foreldrar þekkja líklega flestir mætavel hve hrifin börn eru af því að láta lesa fyrir sig að kvöldlagi. Það er býsna góð afþreying fyrir þau en einnig fyrir þann sem les, líki honum efnið.

Þegar börn vaxa úr grasi og verða fluglæs sjálf er ekki svo vitlaust að hafa hlutverkaskipti. Oft er talað um að tískan fari í hringi, a.m.k. hvað varðar fatnað. Fróðlegt verður að sjá hvort húslestur verður aftur algengur hérlendis; að fjölskyldan komi sér vel fyrir í þægilegum sætum en einhver einn, jafnvel eitt barnanna, tylli sér við tölvuna, opni góða tölvubók á skjánum og lesi fyrir hina...

Því má svo auðvitað ekki gleyma að afþreying kallar ekki öll á flókinn tæknibúnað. Margir setjast enn niður og taka í spil annað slagið, púsla og föndra svo eitthvað sé nefnt. Einhverjir skrifa jafnvel sendibréf og setja það í póst með gamla laginu. Enn aðrir fara út að ganga eða hjóla og börn leika sér sem betur fer enn úti.

Frjótt ímyndunarafl er enn gulls ígildi.