Ein af leirstyttum Guðrúnar Veru Hjartardóttur.
Ein af leirstyttum Guðrúnar Veru Hjartardóttur.
Opið fim.-sun. frá kl. 14-18. Til 9. sept.

TENGSL manns og náttúru eru umfjöllunarefni Guðrúnar Veru Hjartardóttur. Á sýningunni eru þrjú verk, allt leirstyttur af kynlausum litlum mannverum sem hafa orðið fyrir líkamlegum áhrifum úr dýra- eða jurtaríkinu.

Í aðalrými gallerísins er verkið Rætur. Rætur er manneskja sem liggur á hliðinni á upphækkuðum palli sem smíðaður hefur verið undir hana, með hönd undir kinn og horfir upp til áhorfandans. Veran minnir dálítið á hafmeyju í útliti nema í stað sporðs eru rætur. Því má ímynda sér að veran hljóti einhvern tímann að hafa verið föst ofan í jörðinni en hafi síðan verið rifin upp með rótum og komið fyrir í ókunnugu umhverfi. Orðatiltækin að rífa upp með rótum og að fara frá rótum sínum eiga við það þegar maður fjarlægist uppruna sinn og þarf koma sér fyrir á nýjum stað. Þessi vera á enn eftir að skjóta rótum á nýjan leik og horfir á áhorfandann eins og hún sé að búa sig undir komandi átök, uppgefin eftir það sem á undan er gengið. Hún liggur á gólfinu berskjölduð en samt merkilega róleg miðað við aðstæður. Staðsetning verksins í rýminu og frágangur er til fyrirmyndar.

Í forsal gallerísins sem jafnframt er skrifstofa þess eru tvö verk til viðbótar eftir Guðrúnu Veru; Bak og Vöxtur. Bak er vera sem krýpur upprétt með lokuð augun. Svo virðist sem laufgróður sé farinn að spretta undir húðinni á henni eins og hann ætli sér að hertaka líkamann.

Þriðja verk sýningarinnar er verkið Vöxtur sem er strax á vinstri hönd þegar gengið er inn í galleríið. Þó að Bak og Rætur veki vissulega með manni ákveðna óhugnaðarkennd gengur Vöxtur lengra og er gróteskara. Manneskjan liggur á grúfu, hryggurinn hefur opnast og upp hafa sprottið hryggbein eða annars konar útvöxtur. Maður sér blóð sem gefur tilfinninguna fyrir því að vöxturinn hafi nýlega átt sér stað, en þrátt fyrir þessa umbreytingu er veran róleg og yfirveguð, rétt eins og hinar verurnar á sýningunni.

Gaman hefði verið að sjá Bak og Vöxt í stærra rými, því verkin njóta sín ekki jafn vel á sýningunni og Rætur.

Í viðtölum við listamanninn segist hann undanfarið hafa ræktað sinn innri mann og má sjá áhrif þess í yfirbragði verkanna. Guðrún nær að halda jafnvægi á milli þess óhugnanlega og þess saklausa og býr til heim sem hreyfir við áhorfandanum.

Þóroddur Bjarnason