Hópurinn í upphafi ferðar við strönd Cook Inlet. Í fjarska má sjá Mt. McKinnley.
Hópurinn í upphafi ferðar við strönd Cook Inlet. Í fjarska má sjá Mt. McKinnley.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjötíu og þrír íslenskir áhugamenn um skógrækt fóru í mikla ferð um Alaska dagana 7.-24. september síðastliðinn í því skyni að kynna sér náttúru landsins og ekki síst umhverfi þeirra helstu trjátegunda, sem notaðar eru í ræktun hér á landi. Brynjólfur Jónsson, Jón Geir Pétursson og Einar Gunnarsson, starfsmenn Skógræktarfélags Íslands, og Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður á Mógilsá greina frá því helsta sem fyrir augu bar í ferðinni.

Lögð var áhersla á að fara á þær slóðir þar sem Íslendingar hafa sótt efnivið en segja má að Alaska hafi um margra áratuga skeið verið ein mikilvægasta uppspretta trjátegunda og runna til ræktunar á Íslandi eða allt frá því að skógrækt fór að taka á sig raunverulega mynd eftir 1940. Ferðin var ekki síður alhliða náttúruskoðun í stórbrotnu landi, þar sem ferðalangar kynntust gróðurfari og framvindu gróðurs, fjölskrúðugu dýralífi, jarðfræði og jarðhræringum, sléttum og víðáttum, fjallgörðum og fljótum, jöklum og jökulhlaupum. Rétt að hafa í huga að Alaska er stórt land, um 15 sinnum stærra en Ísland, og ekki ráðrúm til að skoða nema örlítið brot af því sem það hefur upp á að bjóða.

Undirbúningur fyrir ferðina hófst fyrir um ári en verulegur skriður komst ekki á málið fyrr en í byrjun þessa árs. Heimsklúbbur Ingólfs/ Príma var fenginn til að sjá um þá þætti er sneru að ferðatilhögun, m.a. siglingu hluta hópsins frá Seward til Vancouver. Allt tókst það með miklum ágætum. Í marsmánuði var komin nokkuð skýr mynd á ferðina og Skógræktarfélag Íslands, sem undanfarin ár hefur staðið fyrir álíka ferðum, fékk að þessu sinni Félag skógareigenda til samstarfs. Fararstjórar í ferðinni voru Jón Geir Pétursson frá Skógræktarfélagi Íslands, Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá, og Sæmundur Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skjólskóga á Vestfjörðum. Þrátt fyrir hina voveiflegu atburði, hinn 11. september sl., raskaðist ferðaáætlun ekki en auðvitað var sérstakt að upplifa þessi tíðindi og allt eins áttum við von á því að eitthvað færi úrskeiðis.

Ekki er árennilegt að halda í ferð sem þessa nema hafa tryggt góð sambönd á viðkomandi slóðum eins og tókst mjög vel að þessu sinni. Ferðin var skipulögð af Bjartmari Sveinbjörnssyni, prófessor í skógarvistfræði við Háskólann í Anchorage. Tumi Traustason líffræðingur, sem býr í Anchorage og er í doktorsnámi í skógarvistfræði við háskólann, kom einnig að undirbúningi ferðarinnar. Þeir voru síðan leiðsögumenn okkar og miðluðu fróðleik um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins. Allur þeirra undirbúningur og leiðsögn var með miklum ágætum og lykill að því hversu vel ferðin heppnaðist.

Landið við sjóinn

Bandaríski fáninn hefur blakt í Alaska frá árinu 1867 þegar landið var keypt af Rússum fyrir 7,2 milljónir dollara sem svarar til 720 milljóna íslenskra króna og telst nú sjálfsagt með betri fjárfestingum sem gerðar hafa verið. Á sínum tíma voru miklar deilur um þessi landakaup og þótti mörgum kaupin hið mesta glapræði. Nafnið Alaska er upprunnið úr máli Aleút-inúítanna og þýðir "landið við sjóinn".

Í upphafi ferðar lá leið hópsins til stærstu og einu raunverulegu borgarinnar í landinu; Anchorage. Þar búa um 260 þúsund manns, tæplega helmingur íbúa Alaska.

Árið 1964 reið þar yfir einn mesti jarðskjálfti sem mælst hefur á byggðu bóli, 9,2 á Richter, og gjöreyddi borginni. Margir létu lífið. Allar byggingar eru byggðar eftir þann skjálfta. Síðar varð gífurleg uppbygging í kjölfar olíuvinnslunnar við Norðuríshafið og lagningar á 1.200 km olíuleiðslu til Valdes. Sérstaklega var þessi uppbygging umfangsmikil á áttunda áratugnum þegar þangað flykktust olíuleitar- og verktakafyrirtæki og íbúatalan þrefaldaðist á 10 árum. Borgin ber merki þessarar hröðu uppbyggingar en í meginatriðum er hún engin undantekning frá öðrum borgum Bandaríkjanna þar sem gilda lögmál stóru bílanna. Stórir jeppar eru yfirgnæfandi á breiðgötunum sem liggja frá vestri til austurs og aðrar frá norðri til suðurs. Þrátt fyrir þetta er vel skipulagt kerfi göngustíga og hjólreiðabrauta sem tengja falleg útivistarsvæði víðsvegar um borgina allt út að strönd fjarðarins Cook Inlet. Eftir nokkur kynni fer Anchorage að verða aðlaðandi staður enda fjallasýn mikil og trágróður bæjarins skartar fögrum haustlitum.

Matanutska-dalur

Landslag er stórbrotið og á margan hátt má finna hliðstæður og sambærileg einkenni og á Íslandi. Eldvirkni er mikil, jarðskjálftar tíðir og hafa jöklar og ár frá örófi alda haft mótandi áhrif á landið. Hinir endalausu náttúruskógar í Alaska, þar sem mannshöndin kemur hvergi nærri, er sú heildarmynd sem blasir hvarvetna við. Skógarhögg og nýting á þann hátt sem við þekkjum frá Skandinavíu eða Evrópu heyra til undantekninga.

Þegar ekið er upp Matanutska-dalinn, og höfuðborgin er að baki, er margt sem kemur kunnuglega fyrir sjónir; sorfnar hæðir og lág fjöll en þar fyrir ofan háir tindóttir fjallgarðar á báða bóga þar sem ísnum, með ofurþunga sínum, hefur ekki tekist að klóra sig verulega í jarðskorpuna. Undan jöklum renna mórauð jökulfljót, ekki ósvipuð og við þekkjum frá Íslandi, sem stöðugt færa fram efni sem verður fíngerðara eftir því sem fjær dregur upptökum. Þannig er innsti hluti fjarðarins Cook Inlet, þar sem borgin Ancorage liggur, mótaður af framburði ánna, marflatar eyrar en auk þess fíngerður áfoksjarðvegur eða löss, sem í fyrndinni hefur borist þangað.

Trjátegundir sem einkennandi eru í dalnum eru hvítgreni, sem er ríkjandi, og svartgreni sem heldur sig í mýrum, aðlagað hárri vatnsstöðu og á þar ekki í samkeppni við aðrar tegundir. Einnig er alaskaösp og elritegundir ásamt pappírsbjörk áberandi, sérstaklega við árnar og þar sem röskun hefur orðið með einum eða öðrum hætti. Samfelldar víðáttur af dauðum hvítgreniskógi stinga í augun og er barkarbjallan aðalmeinvætturinn. Við urðum varir við þetta fyrirbæri víðar í ferðinni og hefur þessi óværa komið mönnum verulega á óvart. Þegar lengra dró inn í landið bar miklu minna á þessu. Ýmsar tilgátur og mikil umræða hefur verið í gangi bæði um orsakir og hvernig eigi að bregðast við þessum faraldri. Virðist að hér geti verið um eðlilegar skýringar að ræða og þær helstar að hvítgreniskógurinn sé á þessu svæði orðinn háaldraður og fyrir vikið eru trén viðkvæmari, ónæmiskerfið skert og minni mótstaða gagnvart aðsteðjandi óvinum. Menn hafa einnig leitt líkur að því að í nágrenni mannabyggða hafi skógareldar verið slökktir í miklum mæli og þar með loku verið skotið fyrir náttúrlega endurnýjun. Einnig hefur verið nefnt að hækkandi hitastig (Global warming) sé að raska jafnvægi náttúrunnar. Þá gæti einnig verið um eðlilegar sveiflur að ræða því sögur munu vera til um mikinn trjádauða þegar hvalfangarar voru að koma til Alaska á síðari hluta nítjándu aldar. Hugsanlegt er að sveiflurnar séu stærri nú en áður af fyrrgreindum ástæðum.

Þegar við færum okkur ofar í dalinn og erum komin í 7-800 m hæð erum við komin yfir skógarmörk og tekur þá við elrikjarr og þar ofar fjalldrapi, öllu hærri en sá íslenski getur orðið, eða um 1-1,3 m á hæð.

Að fjallabaki

Að kvöldi var gist í litlum bæ, Glennallen, og um nóttina urðum við vör við að þyrlur voru á sveimi yfir og við bæinn. Veiðitímabilið var hafið og okkur var tjáð að fyrsta fórnarlamb voðaskots hefði fallið í valinn. Bjartmar tjáði okkur að það væri ábyrgðarhluti að fara með okkur á þetta ófriðarsvæði. Hér ku oft ganga mikið á, enda skipta veiðimenn þúsundum, og þrátt fyrir mjög strangar veiðireglur er árviss mannskaði en þó mismikill eftir árum.

Um morguninn var jörð hrímuð en sól í heiði svo það bráði fljótt. Hér vorum við komin í allt annað veðurkerfi þar sem úrkoma er afar lítil og meginlandsloftslag með fimbulkulda að vetri, en hlýtt á sumrum. Endalausar merkur af hvítgreniskógi teygja sig í átt að fjallgörðunum í fjarska, svo langt sem augað eygir. Það sem kom kannski Íslendingum hvað mest á óvart var hve skógurinn vex lítið og hægt. Tilsýndar er hann gisinn og óhrjálegur. Meginástæðan er sú að hér er sífreri í jörðu og hringrás næringarefna mjög hæg. Fléttur og mosalag hægja enn frekar á umsetningu þeirra takmörkuðu næringarefna sem fyrirfinnast. Trén hallast sitt á hvað vegna mismunandi þiðnunar. Heimamenn lýsa þessu fyrirbæri og kalla "drukkinn skóg" (drunken forest). Tekur skógurinn á sig svo miklar kynjamyndir að engu er líkt. Einn þátttakenda lýsti honum þannig: "Maður er eins og dvergur eða ljósálfur í skollafingurs-engi." Ekið var framhjá Kopará (Copper river) en hún á hér upptök og fellur síðan í Prince William-flóa austan við Cordova en við árósa hennar hefur miklu verið safnað af efni í alaskaösp og víði.

Við gerðum tilraun til þess að komast að ánni en þurftum frá að hverfa, vegna þess að bílstjórinn (heimamaður fæddur og uppalinn) lagði ekki í að fara inn í þorp frumbyggja, þar sem við hefðum komist að ánni. Frumbyggjarnir munu vera orðnir býsna þreyttir á ágangi ferðamanna og ekki síst mannfræðinga sem sífellt eru að rannsaka þessa fáu frumbyggja sem eftir eru.

Tala innfæddir um að kjarnafjölskyldan á þessum slóðum sé eiginmaður, eiginkona, eitt barn og mannfræðingur. Við höfðum ríkan skilning á þessu vandamáli og stefnan var tekin í norðurátt meðfram olíuleiðslunni sem er mikið mannvirki og liggur yfir dali og reginfjöll. Við Paxon er sveigt út af þjóðveginum og ekið á malarvegi eftir Denali Higway. Farið er hægt yfir og liggur leið okkar ýmist yfir eða undir skógarmörkum. Hér eru eftirsóttar veiðilendur, hvort sem um er að ræða fisk- eða skotveiði, enda liggja hér slóðar allvíða þar sem hægt er að fara um á fjórhjólum sem eru algengustu farartækin á þessum slóðum utan malarveganna. Á þessu svæði er að finna mikið af mannvistarleifum og eru, að sögn, elstu leifar sem fundist hafa um menn í Alaska. Eins og áður sagði lá leið okkar yfir eða undir skógarmörkum og gafst gott tækifæri til að hlusta á Bjartmar fjalla um rannsóknir sem hann hefur lagt áherslu á síðastliðin ár, en þær fjalla m.a. um hvaða þættir það eru sem ráða og hafa áhrif á skógarmörk. Hvítgreniskógurinn er mjög gisinn hér á stórum svæðum og þegar dregur nær Denalí sést vel að skógarmörk í norðurhluta dalsins, sem snýr móti suðri, eru mun hærra í hlíðum fjallanna en mörk skógarins sunnan til og undirstrikar að það er margt sem hefur áhrif á skógarmörk. Malarvegurinn sem við ökum þennan dag (Denali Highway) er lokaður frá miðjum október fram í maí. Bjartmar segir okkur að oft tefli menn í tvísýnu og stundum með skelfilegum afleiðingum. Fyrir ári var eskimóafjölskylda, afi og amma og tvö barnabörn, hér á ferð. Þau festu bifreið sína í skafli og létu vélina ganga þar til bifreiðin varð bensínlaus. Þá gengu þau af stað en í vitlausa átt því að þeim yfirsást að húsaskjól var skammt frá. Þau fundust svo nokkrum dögum síðar látin í vegkantinum. Hér getur orðið 40 til 60 stiga frost og þarf ekki að spyrja að leikslokum fyrir þá sem ekki kunna að bjarga sér eða eru illa búnir.

Denalí-þjóðgarðurinn

Þessi frægasti þjóðgarður Alaska skartaði sínu fegusta og stóð fyllilega undir væntingum. Farið var eldsnemma með vagni á vegum garðsins ásamt leiðsögumanni. Veðrið var svalt en heiðskírt og við á ferð á besta tíma ársins þegar straumur ferðamanna er lítill, enda komið að lokun garðsins.

Strangar reglur gilda hér um alla umferð manna í þeim tilgangi að varðveita náttúru og dýralíf. Það var sannarlega margt sem þátttakendur upplifðu þennan dag og fyrir marga var þetta hápunktur ferðarinnar. Haustlitir í gróðri voru í algleymi. Fjölbreytt og stórbrotið landslag fléttaðist hér saman í óendanlegum tilbrigðum. Af dýralífi bar fyrir sjónir elgi á beit í morgunsárið, sléttuúlfur sást og grábirni sáum við oftar en einu sinni. Á þessum tíma eru þeir í óðaönn að háma í sig bláber í þeim tilgangi að safna forða fyrir veturinn. Þá mátti sjá snæhvíta fjallasauði hátt í hlíðum, rauðref, hreindýr, jarðíkorna og erni, allt á sama degi.

Á endastöð blasti við tindur Denalí, eða Mt. McKinley, í 30 km fjarlægð, tær og bjartur. Í þessum leiðangri var það ekki markmiðið að komast á efsta tindinn heldur að kynnast náttúru garðsins í návígi. Það sem vakti helst athygli okkar, hvað varðaði gróðurfarið, voru fjölmargar tegundir víðis í ótal afbrigðum haustlita, m.a. alaskavíðir sem ekki er síst státlegur hér við skógarmörk í 600 m hæð. Reyndar rákumst við alls staðar á alaskavíðinn, en þessar mörgu víðitegundir, sem hér eru og brydda skógarmörk, voru sífelld uppspretta umræðna og vangaveltna, þar sem þátttakendur voru stöðugt að tegundagreina það sem fyrir sjónir bar ellegar að spá og spekúlera. Þetta er reyndar sá þáttur sem utanaðkomandi aðilum reynist erfitt að skilja en innvígðum áhugamönnum um ræktun þykir hið skemmtilegasta verkefni. Kannski má líkja þessu við það að leysa krossgátu.

Margt fleira væri hægt að segja um þennan fræga garð, m.a. er jarðfræði Denalí áhugaverð og einstök en ekki verður því viðkomið í þessu stutta yfirliti. Margt er hægt að læra af Bandaríkjamönnum, m.a. er hér til mikillar fyrirmyndar, hve haganlega og smekklega þeir hafa komið fyrir upplýsinga- og fræðsluskiltum. Minningar frá Denalí eiga áreiðanlega eftir að ylja mörgum í framtíðinni.

Kenai-skaginn og nágrenni

Frá Anchorage lá leiðin til suðurs og austurs um fjörðinn "Turnagain Arm" ("Viðsnúningshandlegginn"). Nafngiftina fékk fjörðurinn í könnunarleiðangri Cooks skipstjóra árið 1778 þegar honum varð ljóst að Cook-fjörður (Cook Inlet) væri fjörður en ekki sund til norðvesturs inn á Norður-Atlantshaf. Strax og komið var suður fyrir Anchorage að mynni Turnagain Arm tókum við eftir breytingum á gróðurfari sem fóru saman við breytta veðráttu. Í stað bjartviðris og sólar innan við mynnið tók við hvassviðri og rigning. Gróðurinn, og þá einkum skógurinn, fór einnig að bera hafrænni "regnskógarsvip". Þallir, marþöll og fjallaþöll, fóru að verða meira áberandi sem skógartré og grenitrén fóru að líkjast meir sitkagreni en hvítgreni. Gróðurfar fjallshlíðanna virtist einnig mótað í ríkum mæli af snjóþyngslum og snjóflóðum á vetrum. Við skíðastaðinn Girdwood, innarlega í Turnagain Arm, fórum við með kláfi upp í 760 m hæð og fengum þar tækifæri til að skoða skógarmörkin í návígi. Þar myndar fjallaþöllin skógarmörk og efst við trjámörkin myndar hún sígræna kjarrkræðu ásamt sitkaelri.

Efst í skíðabrekkunum í Girdwood gat að líta eina dæmið úr allri þessari ferð um jarðvegsrof í Alaska. Þar var um að ræða lítils háttar dílarof á stóru svæði í brattri skíðabrekku. Þar virtist nærtækasta skýringin sú að trjágróðri við skógarmörkin var haldið niðri af mannshöndinni til þess að auðvelda ferðir skíðamanna, en trjáþekjan veitir yfirborði jarðvegs öflugri vernd en annar gróður. Nær hvergi virðist að finna dæmi um uppblástur eða jarðvegsrof í Alaska, en á Íslandi fer eyðimerkurmyndun fram á 40% landsins. Ekki virðist skýringarinnar á þessum mun milli landanna vera að leita í mun á loftslagi, vindafari eða eðliseiginleikum jarðvegs á Íslandi og suðurhluta Alaska. Í skógi eða kjarri vöxnum fjöllum Alaska er veðurfar t.d. víða kaldara, vaxtartíminn styttri og úrkoma ýmist meiri eða minni en á láglendi Íslands. Í vegköntum sáum við dæmi um þykk öskulög frá nálægum eldfjöllum, svo ekki var eldfjöllum á Íslandi einum að kenna um aukna rofhættu. Fjölbreytt fána beitardýra nýtir sér skóga og fjallshlíðar Alaska til beitar, m.a. villt sauðfé. Eina sem hægt var að einangra sem skýringarþátt er margfalt meiri gróska og tegundafjölbreytni lífríkisins í Alaska; alls staðar þar sem röskun verður á gróðurfari á sér fljótlega og sjálfkrafa stað landnám trjá- og runnategunda. Þeirra á meðal eru margar tegundir sem vinna köfnunarefni úr lofti og auka hratt frjósemi jarðvegs, auk þess að vernda hann gegn rofi. Með því móti klæðast grjót- og aurskriður innan fárra ára sjálfsáðu elrikjarri, síðan nemur alaskavíðir og alaskaösp land og skyggir út elrið, og þannig koll af kolli uns landið er aftur þakið greni- og þallarskógi.

Frá Girdwood lá leiðin um botn Turnagain-fjarðar inn á Kenai-skagann. Í botni fjarðarins gat að líta ummerki eftir jarðskjálftana 1964. Meðal annars hafði flóðbylgja eytt byggð í þorpinu Portage og land hafði sigið niður fyrir sjávarmál á allstóru svæði. Stóðu þar enn uppi dauð tré með rætur í söltum sjó, 37 árum seinna. Landslag og gróðurfar á Kenai-skaga er fjöllótt, stórbrotið og fjölbreytt eftir því, á landsvæði sem samsvarar um fjórðungi af flatarmáli Íslands. Þarna eru skil milli hafrænna og landrænna loftslagsbelta, sem endurspeglast í miklum mun milli staða í tegundasamsetningu skógarins.

Fljótlega eftir að ekið var inn á norðanverðan Kenai-skaga breyttist ásýnd greniskógarins. Á stuttum tíma urðu krónur trjánna mjórri og fíngerðari, barrnálar styttri, könglar minni; allt til marks um að hvítgreni væri tekið við af sitkagreni. En einnig blasti við augum stór svæði "vaxin" dauðum grenitrjám, sem drepin höfðu verið af barkarbjöllutegund þeirri sem fyrr var nefnd. Skógardauða af völdum barkarbjöllunnar fór fyrst að verða vart fyrir um tuttugu árum, og var hún í upphafi bundin við takmörkuð svæði inni á miðjum Kenai-skaga, þau svæði sem vaxin eru s.k. "sitkabastarði" sem er náttúrleg blendingstegund sitkagrenis og hvítgrenis. Skýringuna mátti að hluta rekja til þess sem fyrr var nefnt, að skógar voru orðnir gamlir og "komnir á aldur". En einnig var skýringin talin sú að loftslag á svæðum sitkabastarðsins hentaði vel fyrir barkarbjölluna; hæfilega hlýtt á sumrin og ekki of kalt á veturna. Síðasta áratug hafa vetur verið óvenju mildir á útbreiðslusvæði hvítgrenis í sunnanverðu Alaska, og er það talin vera helsta skýringin á "barkarbjölluplágu" sem geisað hefur á mestöllu því svæði sem við fórum um og sem vaxið er hvítgreni.

Nytjar af dauðum skógi

Í Soldotna, fjögur þúsund manna bæjarfélagi á norðanverðum Kenai-skaga, hittum við Wade W. Wahrenbrock. Wade starfar að skógrækt fyrir náttúruauðlindadeild Alaskaríkis á þessum slóðum. Kynnti hann fyrir okkur í fyrirlestri og vettvangsferðum næstu tvo daga hinar margvíslegu afleiðingar barkarbjölluplágunnar fyrir mannlíf og lífríkið á norðanverðum Kenai-skaga, og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því augnamiði að draga úr þeirri eldhættu sem stafar af þúsundum ferkílómetra af dauðum og skrælnuðum greniskógi. Reynt er að höggva dauðan skóg þar sem það er talið hagkvæmt og nýta viðinn í kurl sem selt er til Japans og þar nýtt til pappírsgerðar. Að höggi loknu er reynt að rækta, með gróðursetningu, sáningu og sjálfsáningu, blandaðan lauf- og barrskóg. Skógareldar hafa verið náttúrlegur þáttur í endurnýjun skóga á þessum slóðum undanfarin árþúsund, og hefur sums staðar verið reynt að líkja eftir þessu ferli með því að brenna skóga undir stýrðum kringumstæðum. Þetta vopn hefur þó reynst tvíbent, og hafa slíkir skógareldar af "fagmannavöldum" sloppið út í nærliggjandi svæði og stundum valdið miklu tjóni.

Næsta dag var haldið með Wade suður með vesturstönd Kenai-skaga að bænum Homer, með viðkomu á fjölmörgum áhugaverðum stöðum. Til austurs á leiðinni blasti viðurstyggð barkarbjöllueyðileggingarinnar á hvítgreniskóginum hvarvetna við, en til vesturs blasti við sandorpin ströndin, vaxin elrikjarri niður að sjávarmáli. Þegar komið var suður til Homer vorum við "úti við svalan sæinn", í útsynningi og kalsarigningu, og aftur komin í "strandskóg", vaxinn sitkagreni. Áberandi var hve mjög dró úr tíðni dauðra trjáa um leið og sitkagreni tók við af hvítgreninu. Er talið að það sé vegna þess að barkarbjallan þrífst illa í þeirri svölu sumarveðráttu sem fer saman við vaxtarsvæði sitkagrenisins á þessum slóðum.

Næsta dag lá leið okkar austur um innanverðan Kenai-skagann gegnum Chugach-þjóðskóginn og að lokum til Seward, þar sem leiðir skildu með þeim sem hugðust halda í siglingu með strandferðaskipi og þeirra sem vildu fast land undir fótum. Leiðsögumaður okkar þennan dag var Warren Oja, finnskættaður skógfræðingur sem starfar hjá skógrækt alríkisstjórnarinnar. Hann lýsti fyrir okkur aðgerðaáætlun sem ætlað er að draga úr neikvæðum afleiðingum barkarbjölluplágunnar í þessum hluta þjóðskógarins. Aðgerðaáætlunin er unnin í samráði við fjölmarga aðila, s.s. heimamenn, frjáls félagasamtök, sérfræðinga og hvern þann sem skoðun vill hafa á áætluninni. Á þessum slóðum liggja hagræn verðmæti skógarins einkum í útivistargildi svæðisins, og því miðar áætlunin einkum að því að stuðla að bættri ásýnd, meiri nýtingu til útivistar, auknu dýralífi og laxveiði, fremur en að ræktun timburskóga. Á leiðinni var okkur m.a. sýnt svæði meðfram vinsælli gönguleið, þar sem dauður greniskógur hafði verið höggvinn og reynt var að endurnýja hann sem opinn blandskóg. Á öðrum stað, nálægt Moose Pass, var okkur sýnt svæði þar sem reynt hafði verið að tendra eld á takmörkuðu svæði í júnímánuði, til þess að hreinsa það svæði af 40 m háum, dauðum sitkabastarðsskógi. Eldurinn hafði hins vegar sloppið út fyrir eldlínuna, læst sig í stórt svæði umhverfis og tók margar vikur fyrir 600 manna vinnuflokk að ráða niðurlögum eldsins.

Strandsigling um "Jökulfirði"

Hluti hópsins, 28 manns, fór í strandsiglingu frá bænum Seward suður með strönd Alaska með breska strandferðaskipinu "Sea Princess". Fyrsta daginn var siglt um College-fjörðinn, á austurströnd Prince Williams-flóa til þess að skoða "sambýli jökla og skóga". Siglt var m.a. framhjá Pakenham-tanga, þar sem Hákon Bjarnason og Vigfús Jakobsson söfnuðu sitkagrenifræi haustið 1945. Þeir félagar fylgdu skógarhöggsmönnum og söfnuðu könglum af felldum trjám og mátti enn sjá ummerki um skógarhögg fyrri tíðar í hlíðum ofan við tangann, þótt nú séu rjóðrin á ný orðin þéttvaxin ungum greniskógi. Á þessum slóðum ganga ótal skriðjöklar í sjó fram, flestir kenndir við bandaríska háskóla. Þeirra stærstur er Columbia-jökullinn, en við botn College-fjarðar er að finna Harvard-jökul og Yale-jökul. Jöklar á þessum slóðum hafa mjög verið að hopa undanfarna öld og sumir standa nú tugum kílómetra innar í fjörðum en fyrir einni öld. Gafst þar gott tækifæri, þrátt fyrir súld og þoku, til að sjá úr fjarlægð náttúrlega gróðurframvindu á þessum slóðum, hvernig jökulurð breytist á fáum árutugum í þéttvaxinn skóg. Við botn fjarðarins sáum við hvernig ísbjörgin hrundu úr enda Harvard-jökulsins, með nánast stöðugum öldugangi af völdum flóðbylgna frá fallandi björgum.

Í Glacier-bay eða "Jökulflóa" hefur hop jökla orðið hvað örast á þessum slóðum. Þar sem fyrir tveimur öldum reis 1 km þykkur jökulsporður við mynni flóans eru nú um 100 km að jökulsporðinum við botn flóans. Eftir hop jökulsins á gróðurframvindan sér stað með eftirfarandi hætti: fyrst nema þörungar ("lágplöntuskán"), mosar og fléttur land á jökulurðinni, síðan jöklasóleyin, sem bindur köfnunarefni og býr í haginn fyrir annan gróður, s.s. sigurskúf, melgresi og elftingu. Eftir 30-40 ár nemur sitkaölur landið, vinnur enn meira köfnunarefni og býr í haginn fyrir fleiri trjátegundir. Alaskaösp og víðitegundir ná fótfestu innan um sitkaelrikjarrið og keppa það smám saman út. Sitkagreni nær síðan að skjóta rótum í skugga lauftrjánna, og þallartegundir í skugga sitkagrenis. Eftir u.þ.b. 200 ár er landið orðið að þallarskógi, sem orðið getur allt að 600 ára gamall, ef ekki kemur til endurtekin framrás skriðjökla.

Siglt um tempraða regnskóginn

Frá Skagway var siglt suður á bóginn næstu daga, með viðkomu í strandbæjunum Juneau og Ketchikan. Hvarvetna blasti við skógi vaxin strönd allt niður í fjöru, jafnvel á útskerjum frammi fyrir opnu úthafi. Þótti okkur ótrúlegt annað en að rætur sitkagrenisins á þessum skerjum stæðu í saltpækli á háflæði. Skógar á þessum slóðum geta orðið fjörgamlir og hávaxnir. Vegna stöðugrar þoku og úrkomu er lítil hætta á skógareldum á þessum slóðum, og því eru megindánarorsakir trjánna innbyrðis samkeppni eða elli. Þegar gömlum sitkagreni- eða þallartrjám fer að hnigna vegna aldurs getur einnig komið fyrir að þau falli undan vindi, og gerist endurnýjun skóganna því helst með þeim hætti að trjáfræ spírar á fúnum bolum eða rótstubbum gamalla trjáa. Athygli vakti hinn fjölbreytti undirgróður sem alls staðar var að finna í skugga gamalla og þéttvaxinna barrskóga á þessum slóðum. Fyrir utan urmul af runnategundum og blómplöntum var einnig að finna afar fjölbreytta mosa- og fléttuflóru, ýmist í skógarbotninum eða sem ásætugróður á trjánum.

Þeir þjóðflokkar indíána sem búa á þessum slóðum lifðu til skamms tíma á veiðum og söfnun, en menning þeirra virðist hafa staðið á háu stigi vegna þess hve aðföng matvæla voru auðveld. Helstu minjar um fyrri búsetu þeirra eru útskornar öndvegissúlur, sem reistar voru í margvíslegum tilgangi, t.d. sem bautasteinar eða til þess að rekja ættarsögur. Indíánarnir byggðu einnig reisulega skála sem minna mjög á skála vestnorrænna manna, svo sem Kirkjubæjarstofu í Færeyjum eða Auðunarstofu á Hólum. Ferðinni með skipinu Sea Princess lauk í Vancouver-borg í Kanada en þaðan var haldið með flugi til Íslands 23. september.