Spilafíkillinn, geisladiskur Svenna Björgvins & Co. Sveinn Björgvinsson syngur og raddar og leikur ennfremur á gítara, bassa og trommur.
Spilafíkillinn, geisladiskur Svenna Björgvins & Co. Sveinn Björgvinsson syngur og raddar og leikur ennfremur á gítara, bassa og trommur. Hans helstu aðstoðarmenn eru Tómas Malmberg (söngur), Rúnar Júlíusson (söngur), Guðmundur Hermannsson (söngur) og Gunnella Hólmarsdóttir (söngur). Einnig koma við sögu Ásgeir Hólm (saxófónn), Ágúst Ingvarsson ("Conga"-tromma), Margrét Sigurðardóttir (raddir), Þórir Baldursson (Hammond), Júlíus Guðmundsson (trommur) og Skarphéðinn Hjartarson (hljómborð). Lög og textar eru eftir Svenna nema texti við "Ef ég segi eins og er" (Kristján Hreinsson) og "Þú trausta bjarg" (Matthias Henriksen). Upptökustjórn var í höndum Svenna og Rúnars Júlíussonar. 41,56 mínútur.

MANNAKORN sungu um Nillabar hérna um árið og fönguðu þar reykmettaða barstemmningu hinnar alíslensku úthverfiskrár. Einhvern veginn þannig er myndin sem kemur upp í hugann þegar hlustað er á Spilafíkilinn og hann handfjatlaður. Hér er um að ræða látlausa afurð; grandleysislegt og stælalaust alþýðupopp, gert af manni á miðjum aldri sem virðist eins einlægur í því sem hann er að gera og hann er langt frá því að vera móðins. Nei, framsækni eða nýsköpun er það ekki; öllu heldur þriggja gripa rokk/popplög um hversdagsævintýr hins venjulega Íslendings, vonir hans og vonbrigði. Textar fjalla því um mál eins og baráttu við spilafíkn og alkóhól; ástina og hryggbrot henni tengd og almenna eftirsjá eftir saklausari tímum.

Lagasmíðarnar eru allt frá því að vera flatneskjulegar og hallærislegar upp í að vera grípandi gersemar. Þó er platan á heildina litið skemmtilega heilsteypt. Öll lögin hafa eitthvað við sig, þótt lítið sé í sumum tilfellum, og allt eru þetta þriggja gripa slagarar, einfaldir og beint að efninu.

Platan byrjar vel. Brimklóarlegt titillagið er örugglega sungið af Rúnari Júlíussyni og þótt maður hafi svo sem heyrt þetta þúsund sinnum áður gildir það einu þar sem hér er vel að verki staðið. Af öðrum hápunktum má nefna "Í nótt", eina lagið sem sungið er af Svenna sjálfum, einlægt og flott og hefði hann mátt gera meira af því og "Rósanna", með hinu frábæra risi "Í nótt dönsum við". "Eftirsjá" og "Þú trausta bjarg" eru angurblíð og dramatísk og sérstaklega er "Ef ég væri yngri" vel heppnað; stórgott píanó-búggí sem minnir óneitanlega á lagið "The Boy With the Arab Strap" með skosku sveitinni Belle & Sebastian.

Sum lögin hér eru æði þungarokksleg og þá í þessum sígilda Rainbow-stíl. Þeim hættir til að verða nokkuð hjákátleg. Söngraddir eru líka oft nokkuð slakar; bæði for- og bakraddir. Sérstaklega líður "Ef ég segi eins og er" fyrir þetta.

Hljóðfæraleikur er að heita má hnökralaus; vel að verki staðið þar sem Svenni sér að mestöllu leyti um hann sjálfur. Öll hljóðvinnsla er til fyrirmyndar og trúi ég að þeir feðgar, Rúnar og Guðmundur, hafi mest þar um að segja.

Umslagið er í stíl við sumt af innihaldinu; vammlaust en hallærislegt. Spilafíkillinn er þó fyrst og síðast sakleysislegt og sómakært verk sem vex í áliti með hverri spilun.

Arnar Eggert Thoroddsen