Spurning: Spurning mín fjallar um fyrirbæri sem mér er sagt að sé kallað "taugaklemma".

Spurning: Spurning mín fjallar um fyrirbæri sem mér er sagt að sé kallað "taugaklemma". Mér skilst að taugaklemma geti verið á ýmsum stöðum líkamans, en í mínu tilviki er þróunin þannig að 4 dögum eftir skurðaðgerð fann ég fyrir dofa í litla fingri og í innanverðum baugfingri vinstri handar. Þegar ég kom heim fór dofinn vaxandi (allur litli fingurinn dofinn) og kom líka í fingur hægri handar. Þó að ég reyndi að vera eitthvað á stjái heima kom það ekki í ljós fyrr en ég fór að vinna eitthvað með höndunum að máttur í fingrunum var skertur. Ég átti (og á enn) bágt með að skera matinn minn á diskinum, taka matardiskinn upp af borðinu, þrífa mig eftir ferð á salernið, skrifa (bæði með penna og á tölvu), nota strokleður, snúa lykli í smekklás, skrúfa frá (og fyrir) krana, taka upp, halda á og nota saumnál o.m.fl. Ég hef hreinlega ekki fulla tilfinningu og ekki fullan mátt í fingrunum hvað svo sem ég er að gera.

Nokkru eftir heimkomuna af sjúkrahúsinu fór ég í taugaleiðnipróf sem mér var sagt að hefði sýnt taugaklemmu í báðum olnbogum. Mér leikur því forvitni á að vita hvort þú getir frætt mig um orsakir svona fyrirbæris og hugsanlega lækningu. Eru dæmi um að svona klemma læknist eða lagist af sjálfu sér? Ef svo, á hve löngum tíma? Eru dæmi um að hægt sé að laga þetta með sérstökum æfingum? Eða er jafnvel hugsanlegt að dofinn og aflleysið geti orðið varanlegt?

Svar: Það er rétt að taugaklemma getur orðið á ýmsum stöðum líkamans og nokkrir þeirra þekktustu eru mjóhryggur eða hálsliðir (brjósklos), úlnliðsgöng og ölnargöng við olnboga. Við brjósklos í hrygg gengur hluti af liðþófa út á milli hryggjarliða og þrýstir á taug sem gengur út úr mænunni. Þetta gerist oftast í mjóhrygg eða hálshrygg með viðeigandi sjúkdómseinkennum niður í fætur eða út í handleggi. Við úlnlið liggja taugar út í hendi í sinagöngum (úlnliðsgöngum) sem stundum þrengjast og þrýsta á taugarnar. Ölnartaug gengur niður eftir handlegg, liggur í skoru sem nefnist ölnargöng fram hjá olnboga innanverðum og stjórnar vöðvum í framhandlegg, hendi og fingrum auk þess sem hún sér um húðskyn í litlafingri og baugfingri. Ef við rekum olnbogann í og fáum högg á það sem er stundum kallað vitlausa beinið erum við að fá högg á ölnartaugina og getum fengið eins og rafstuð niður í litlafingur og baugfingur. Ölnartaugin stjórnar m.a. gripvöðvum litlafingurs, baugfingurs og stundum löngutangar. Lýsing bréfritara á einkennum sínum passar því mjög vel við truflun á starfsemi ölnartaugar vegna þrýstings á ölnartaug við olnboga. Við þrýsting á taug (taugaklemmu) minnkar blóðrásin til taugarinnar og hún fær ekki súrefni og næringu og getur ekki losað sig við úrgangsefni. Við þetta verður truflun á starfsemi taugarinnar, í mislangan tíma eftir því hversu lengi þrýstingurinn stendur yfir. Ef þrýstingurinn varir í meira en 40 mínútur geta liðið margar klukkustundir þangað til eðlileg tilfinning og máttur eru komin í handlegginn og eftir margra klukkustunda taugaklemmu geta liðið margir mánuðir þar til allt er komið í eðlilegt horf. Það er einkum tvennt sem getur klemmt ölnartaug, í fyrsta lagi ef legið er á bakinu með hendur niður með síðum eða ef legið er á handleggnum og í öðru lagi ef olnboginn er krepptur mikið eins og þegar talað er í síma. Meðferð er helst fólgin í því að forðast að kreppa olnbogann og annað sem getur klemmt taugina og ef það dugir ekki er oft gripið til skurðaðgerðar. Sumum finnst gott að nota hólka, sem fást í apótekum og íþróttabúðum, en þeir hindra mikla beygju á olnboga og hægt er að fá handfrjálsan búnað á símann. Ýmislegt annað getur gert sama gagn. Skurðaðgerðir eru af ýmsum gerðum en ganga flestar út á það að færa taugina um set við olnbogann eða taka hluta af beininu sem getur þrýst á taugina. Eftir slíkar aðgerðir líða oft 4-5 mánuðir þar til grip byrjar að styrkjast en vöðvar í fingrum og húðskyn fer oft ekki að lagast fyrr en eftir 1-2 ár. Þetta getur tekið enn lengri tíma hjá þeim sem eru farnir að eldast, við þekkjum engin ráð til að flýta fyrir og í verstu tilfellunum næst ekki fullur bati. Það er því mikið í húfi að koma í veg fyrir alvarlega taugaklemmu.