12. október 2001 | Aðsent efni | 872 orð | 1 mynd

Gigt

Hryggikt - ættlægur sjúkdómur

Árni Jón Geirsson
Árni Jón Geirsson
Hryggikt er sjúkdómur ungs fólks, segir Árni Jón Geirsson, einkennin byrja yfirleitt á unglingsárum eða snemma á þriðja áratug ævinnar.
HRYGGIKT (ankylosing spondylitis) er bólgusjúkdómur sem leggst á hrygginn og miðlæga liði líkamans. Ekki er með vissu vitað um tíðni hryggiktar en talið er að 0,1-0,5% þjóðarinnar geti verið með sjúkdóminn. Hér áður var talið að sjúkdómurinn væri allt að tíu sinnum algengari meðal karla en kvenna, en nú er ljóst að munurinn er nær því að vera þrefaldur. Hjá konum er sjúkdómurinn yfirleitt vægari með óljósari einkennum og því gengur að jafnaði verr að greina sjúkdóminn hjá þeim en körlum. Greiningartöf, þ.e. sá tími sem líður frá upphafi einkenna til greiningar, er að jafnaði þrjú ár meðal karla en tíu ár hjá konum.

Orsakir hryggiktar

Um 1950 tóku menn eftir því að hryggikt er ættlægur sjúkdómur. Upphaflega var talið að um ríkjandi erfðir væri að ræða með mismikilli tjáningu. Árið 1973 sýndu menn fram á tengsl vefjaflokksins HLA-B27 við hryggikt. Talið er að u.þ.b. 95% þeirra sem eru með hryggikt hafi þennan vefjaflokk. Með tvíburarannsóknum hefur verið sýnt fram á að annar erfðaþáttur en HLA-B27 ræður jafnmiklu um það hvort menn fá sjúkdóminn, jafnframt að óþekktir umhverfisþættir hafa áhrif. Þannig er ekki hægt að spá fyrir með vissu um hættu afkomenda hryggiktarsjúklinga á að fá sjúkdóminn, en ljóst er að erfðirnar eru margþátta og flóknari en talið var í upphafi.

Einkenni hryggiktar

Hryggikt er sjúkdómur ungs fólks, einkennin byrja yfirleitt á unglingsárum eða snemma á þriðja áratug ævinnar. Fyrstu einkennin eru oftast langvinnir mjóbaksverkir og verkir í rasskinnum yfir spjaldliðum, með leiðni niður aftanverð læri. Verkirnir geta truflað nætursvefn, þeir eru verstir á morgnana þar sem stirðnun við hvíld er eitt aðaleinkenni sjúkdómsins. Annað aðaleinkenni bakverkja með hryggikt er að verkirnir lagast við áreynslu og æfingar. Sjúkdómurinn getur þróast mishratt, í vægu formi er hann bundinn við spjaldliði og mjóbak. Stirðnun getur þá orðið í spjaldliðunum og lendhryggnum ef ekkert að gert, en sjúkdómurinn þróast þá ekki frekar. Í sinni verstu mynd getur sjúkdómurinn valdið verkjum og stirðleika frá allri hryggjarsúlunni og bólguvirknin verið stöðug. Allt að 20% sjúklinganna fá liðbólgur sem fyrstu einkenni hryggiktar. Útlimaliðir, einkum liðir neðri útlima, bólgna. Liðbólgur eru algengari í konum en körlum með hryggikt. Óalgengt er að sjúkdómurinn byrji með bólgum í liðum við bringubein og í liðum á milli rifja og hryggjar, þó geta bólgur í þessum miðlægu liðum líkamans gefið einkenni þegar líða tekur á sjúkdóminn. Stirðleiki í þessum liðum verður til þess að brjóstkassaþan minnkar. Einkenni utan liða eru algeng, þannig er verulega aukin tíðni á langvinnum bólgum í blöðruhálskirtli meðal karla. Um 30% sjúklinganna fá lithimnubólgu í annað eða bæði augu. Skert hreyfigeta í hryggnum verður er fram líður eitt aðaleinkenni hryggiktar, fyrst neðst, en síðan getur stirðleikinn teygt sig ofar í hrygginn og jafnvel náð til hálshryggjarins. Stundum festist hálshryggurinn í beygju og eiga sjúklingarnir þá mjög erfitt með að líta upp, en beina augum þess í stað til jarðar. Sjúklingarnir geta átt erfitt með að beygja sig eftir hlutum, snúa sér, hreyfa höfuðið og finna góða stellingu í rúminu, svo eitthvað sé nefnt. Þótt bakverkir séu mjög algengir eru stöðugir bakverkir hjá ungu fólki sjaldgæfir og ættu að vekja grunsemdir um hryggikt.

Meingerð hryggiktar

Í upphafi sjúkdómsins verður bólga í festum liðbanda og liðpoka við bein, þetta verður einkum í spjaldliðum og við festur liðþófa og liðbanda á liðbol hryggjarins. Þegar á líður verður beinnýmyndun við þessar festur, þannig að liðbönd og liðpokar beingerast og stirðna. Yfirbrúandi beinbryggjur myndast á milli hryggjarbola og spjaldliðirnir geta vaxið saman og beingerst. Þessar breytingar sjást vel á röntgenmyndum og eru oft grundvöllur að greiningu sjúkdómsins.

Horfur

Horfurnar eru venjulega góðar. Í flestum tilvikum segja fyrstu árin til um framhaldið. Ef sjúkdómurinn er slæmur kemur það fljótt í ljós, með miklum bakverkjum, vaxandi stirðleika og liðbólgum í útlimaliðum, 10-20% sjúklinganna fá illvígan sjúkdóm. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn þó mildur, svarar vel meðferð og hefur ekki áhrif á starfsgetu.

Meðferð hryggiktar

Í flestum tilvikum þurfa sjúklingarnir ekki að breyta lífsvenjum sínum þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm og oft og tíðum langvinnar þrautir. Markmið meðferðarinnar er að koma í veg fyrir stirðnun og minnka verki og bólgu. Mikilvægt er að gott samstarf og náin samvinna skapist á milli sjúklings, læknis og sjúkraþjálfara. Sjúklingar með hryggikt þurfa á reglubundinni sjúkraþjálfun að halda og er það mikilvægur þáttur meðferðarinnar.

Bólgueyðandi giktarlyf eru notuð til að draga úr verkjum, bólgu og stirðleika. Þessi lyf duga oft ein og sér til að gera sjúklingana einkennalausa og færa um að stunda æfingar af kappi. Talið er að þessi lyf hafi ekki áhrif á gang sjúkdómsins, tefji t.d. ekki fyrir liðskemmdum og nýmyndun beins. Ef ljóst er að ofangreind meðferð hrífur ekki eru notuð kröftugri lyf. Salazopyrin er það lyf sem mest reynsla er af og sýna rannsóknir að þetta lyf getur dregið úr virkni sjúkdómsins og tafið fyrir skemmdum af völdum hans. Methotrexate er annað lyf sem einnig er notað ef í ljós kemur að hefðbundin meðferð dugar ekki.

Gefa þarf hryggiktarsjúklingum ýmis ráð og benda þeim á þætti í daglegu lífi sem betur mega fara, svo sem að nota réttan kodda, fá næga hvíld, gæta að vinnuaðstöðu og stunda reglubundnar æfingar. Ekki er talið að mataræði hafi áhrif á gang sjúkdómsins. Meginmarkmiðið er að koma í veg fyrir að hryggurinn stirðni í óheppilegri stöðu.

Höfundur er sérfræðingur í lyflækningum og gigtarsjúkdómum við gigtardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.