13. október 2001 | Fólk í fréttum | 1514 orð | 1 mynd

Gísli Örn Garðarsson er leikari, handritshöfundur, leikhúseigandi, kaffihúsaeigandi og fimleikamaður

"Þráin eftir frelsinu er rík"

"Ég var um daginn að spyrja foreldra mína að því af hverju þau hefðu ekki verið duglegri við að fara með mig í leikhús og sögðu þau ástæðuna vera þá að ég hefði ekki viljað fara," segir hinn 28 ára gamli Gísli Örn.
"Ég var um daginn að spyrja foreldra mína að því af hverju þau hefðu ekki verið duglegri við að fara með mig í leikhús og sögðu þau ástæðuna vera þá að ég hefði ekki viljað fara," segir hinn 28 ára gamli Gísli Örn.
Gísli Örn Garðarsson er nýútskrifaður leikari sem þreytir nú frumraun sína í atvinnuleikhúsi í hlutverki Umba í Kristnihaldi undir Jökli í Borgarleikhúsinu þessa dagana. Jóhanna Ingvarsdóttir fór á sýninguna, mælti sér svo mót við Gísla Örn á Hverfisbarnum og forvitnaðist um öll þau mörgu járn sem eru í eldinum hjá aðalleikaranum.
HANN er inni á sviðinu allan tímann á meðan á sýningunni stendur enda mæðir mest á nýútskrifuðum nýgræðingnum í Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Laxness sem Leikfélag Reykjavíkur sýnir um þessar mundir. Hann leikur Umba, sem biskupinn sendir út af örkinni, til að kanna hvað hæft er í sögusögnum um að prestsverk séu unnin bæði seint og illa undir Jökli.

Þótt verkið hafi hlotið misjafna dóma hjá gagnrýnendum hefur Gísli Örn þótt eftirtektarverður í hlutverki sínu. Í leiklistargagnrýni, sem birtist á síðum Morgunblaðsins, segir m.a.: "Hann fór hægt og hófstillt af stað en tókst á aðdáunarverðan hátt að miðla því hvernig persónan skilur sífellt minna og minna í því sem fyrir augu ber. Sú áhersla sem lögð er á ferð Umba sem hans manndómsvígslu er vel útfærð og Gísli Örn sýndi svo ekki verður um villst að góð frammistaða hans í Nemendaleikhúsinu í fyrra var engin tilviljun."

Gísli Örn Garðarsson fæddist í Reykjavík árið 1973. Hann bjó um árabil í Noregi, varð stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1992 og lagði eftir það stund á nám í félagsfræði við Háskóla Íslands og síðar Vestur-Evrópufræði við Háskólann í Ósló. Gísli Örn útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands síðasta vor. Í Nemendaleikhúsi fór hann með hlutverk Sebastians og Stefanós í Ofviðrinu eftir William Shakespeare, fór með fjölda hlutverka í Stræti eftir Jim Cartwright og titilhlutverkið í Platonov eftir Tsjekhov í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hann fór einnig með hlutverk í kvikmyndinni Villiljós og er einn af stofnendum leikhússins Vesturport, sem var opnað við Vesturgötu 18 í vor.

Lærdómsríkt kristnihald

"Þetta ferli í Kristnihaldinu er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og mjög lærdómsríkt. Ég var lengi að venjast því að standa á sviði sem er örugglega tíu sinnum stærra en sviðið í Nemendaleikhúsinu.

Það var gaman að vinna með Bergi Þór Ingólfssyni, sem er að mínu mati ungur og upprennandi leikstjóri. Þetta er annað stykkið sem hann leikstýrir í atvinnuleikhúsi. Hann var mjög hugaður, var greinilega með hreina og ómengaða sýn og vann samkvæmt því. Sem betur fer eru skoðanir manna varðandi sýninguna mismunandi. Persónulega held ég að útkoman sé í samræmi við það sem lagt var af stað með. Það er ekki verið að sviðsetja bókina. Það er verið að sviðsetja leikgerð, byggða á bókinni og þá er það náttúrlega gefið að menn verða missáttir við útkomuna. Er það ekki bara hið besta mál?"

Greiðslukortin að veði

"Ég og þrettán aðrir einstaklingar, sem langar að vinna saman, stofnuðum í vor leikhúsið Vesturport. Eigendurnir eru tiltölulega ungt fólk, sem langaði til að setja upp sýningar saman og samanstendur þessi hópur af fólki, sem getur klárað heila sýningu án þess að þurfa að kalla til utanaðkomandi aðila. Við duttum niður á húsnæði, ákváðum að láta slag standa og lögðum greiðslukortin að veði.

Opnun leikhússins var mjög skemmtileg. Við fengum séra Sigurð Arnarsson til að vígja húsið og fylla það góðum anda og Gunnar Eyjólfsson leikari hélt tölu sem sérstakur verndari hússins, en fyrsta verk Vesturports var Diskópakk eftir írska höfundinn Enda Walsh og var það frumsýnt í haust. Það fjallar um rótleysi tveggja unglinga og leit þeirra að ástinni. Næsta frumsýning verður um jólin, en það er nýtt verk eftir Agnar Jón Egilsson sem ber vinnuheitið "Með lykil um hálsinn". Viðtökur lofa mjög góðu um framhaldið og þar sem við borgum þetta úr eigin vasa verður okkur ekkert hent út þótt stykkin gangi ekki."

Vildi nýta fimleikana

Þegar Gísli Örn er spurður hvort hann sé kominn af leikhúsfólki, hristir hann höfuðið og segir það vera af og frá.

"Pabbi minn, Garðar Gíslason, hefur verið kennari í MK í mörg ár en var að fara í nýtt starf sem kennslustjóri Háskóla Íslands nú í haust og móðir mín, Kolbrún Högnadóttir, starfar hjá Fróða. Ætli ég hafi ekki farið tvisvar í leikhús sem barn. Ég var um daginn að spyrja foreldra mína að því af hverju þau hefðu ekki verið duglegri við að fara með mig í leikhús og sögðu þau ástæðuna vera þá að ég hefði ekki viljað fara. Ég man samt ekki beint eftir miklum þrýstingi frá foreldrunum um að fara í leikhús."

Gísli Örn á eina yngri systur, Rakel, sem nú stundar heimildamyndarnám í Ósló.

- Hvar náðir þú þá í leikhúsbakteríuna?

"Þetta er náttúrlega engin baktería, heldur endalaus vinna. Ég var að þreifa fyrir mér mjög lengi og komst aldrei að almennilegri niðurstöðu varðandi hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég var í fimleikum í langan tíma, æfði með Ármanni og var m.a. í norska, danska og íslenska landsliðinu. Sorglega staðreyndin við fimleika er hins vegar sú að það verður líklega aldrei hægt að lifa af þeim nema maður sé fæddur og uppalinn í Rússlandi. Það laumaðist því stundum að mér í hvaða fagi ég gæti nýtt fimleikana áfram eftir að hafa í fimmtán ár varið fjórum til sex tímum á dag í íþróttina. Það hvarflaði einhvern tímann að mér að líklega gæti leiklist verið leið til að brúa þetta bil. En það varð samt ekki til þess að ég fór í fagið. Ég prófaði að vera fimleikaþjálfari, en mér fannst það ekki skemmtilegt.

Þegar ég var í háskóla í Ósló, las ég auglýsingu, lítinn handskrifaðan miða á stúdentaráðstöflunni, þar sem var verið að leita að lögfræðinemendum í Stúdentaleikhús lögfræðideildar háskólans í Ósló. Félagi minn hvatti mig til að prófa, þrátt fyrir þá staðreynd að ég væri ekki í lögfræði, sem ég og gerði. Fyrsta uppfærsla mín var því innan um verðandi norska lögfræðinga og þegar talið barst að náminu, þ.e. lögfræðinni og prófunum, hugsaði ég alltaf að nú kæmist upp um mig. En svo var ekki. Eitt leiddi af öðru og áður en ég vissi af var ég búinn að leika í þremur mismunandi uppfærslum í Ósló. Það að ég skyldi fara í leiklist var því algjör tilviljun. Þegar ég sótti um hér heima var ég svo tvístígandi að ég sendi systur mína með umsóknina."

Gísli Örn segist ekki hafa mótað sér neina skoðun á því hvers konar hlutverk henti sér best. Spennandi sé að prófa sem fjölbreyttust hlutverk og jafnvel víðar en á Íslandi. Hann telur sig til að mynda eiga góða möguleika í Noregi þar sem hann talaði norsku eins og innfæddur. "Það var jú þar sem ballið byrjaði."

Hverfisbarinn er félagsmiðstöð

Þótt Gísli Örn slái nú í gegn sem leikari og reki sitt eigið leikhús ásamt fleirum, er hann með ýmislegt fleira á prjónunum.

"Ég reyni alltaf að nýta tímann vel. Við félagarnir höfum oft verið að tala um að gaman væri að eiga kaffihús svo við ákváðum í sumar að standsetja okkar eigið kaffihús sem við gáfum nafnið Hverfisbarinn og er við Hverfisgötu, skáhallt gegnt Þjóðleikhúsinu. Við eigum það nokkur saman, ég og konan mín, Nína Dögg Filippusdóttir, sem útskrifaðist með mér í vor og er nú að leika í Englabörnum hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu, Björn Hlynur Haraldsson sem einnig er bekkjarbróðir okkar og er líka að leika í Englabörnum og Guðjón Hauksson."

Sérstakur rekstraraðili sér um reksturinn enda segist Gísli Örn engan sérstakan áhuga hafa á því. Aðspurður hvort menn verði ríkir á því að eiga bar, svarar hann því til að enn þá sé tómahljóð í vösunum og yfirdrátturinn jafnhár og endranær.

"Það er allt í lagi. Við gerðum þetta svo sem ekkert með einhver gróðamarkmið í huga þótt vissulega væri gaman að prófa að vera moldríkur. Hverfisbarinn er fín félagsmiðstöð."

Tvö kvikmynda- handrit í vinnslu

Hugmyndir eru uppi um að Vesturportið geri kvikmynd í fullri lengd á næstunni. Hún heitir "Adolf" og skrifaði Gísli Örn sjálfur handritið. "Söguþráðurinn er um fertugan menntaskólakennara sem í upphafi myndarinnar er að raka á sig hanakamb. Hann hefur gengið með hina hreinu hugsjón anarkismans í maganum í 20 ár og ákveður að láta til skarar skríða áður en það verður of seint," segir Gísli Örn.

Auk þess er hann höfundur að kvikmyndahandriti sem ber yfirskriftina "Ósló, Reykjavík og Trópíaneyjarnar".

"Ég fékk handritsstyrk frá norska kvikmyndasjóðnum og því er þetta allt enn í þróun. Myndin gerist í Ósló og fjallar um íslenska stúlku, sem búsett hefur verið þar í tvö ár og eignast norskan kærasta. Einn góðan veðurdag kemur íslenski kærastinn síðan óvænt í heimsókn."

Leikarinn í uppáhaldi

Það fer að líða að kveðjustund á Hverfisbarnum og ég sit uppi með þá staðreynd að Gísli Örn er ekki bara leikari. Hann er í fjölmörgum öðrum hlutverkum.

"Hlutverk leikarans stendur þó upp úr. Það er engin spurning. Aftur á móti er ég voðalega flinkur í að nota dauðan tíma, sem til fellur hjá sjálfum mér, í annað. Það er ákveðin gjöf eða kannski ókostur."

Hann segist heldur ekki finna fyrir þeirri grimmu samkeppni, sem margir tali um í leikhúsheiminum. "Í skólanum var okkur innprentað að stemmningin í bekknum endurspeglaði frammistöðu okkar sem heildar og ég held að ég geti fullyrt að þeir átta einstaklingar, sem útskrifuðust í vor, hafi verið mjög samheldnir og árgangurinn því komið sterkur út. Ef menn velja það að eyða púðrinu í að agnúast hver út í annan verður námið ekki eins uppbyggjandi og því er ætlað að vera. Á hinn bóginn eru laun leikara algjört grín. Það er einkennilegt að þurfa að vinna eins og geðsjúklingur eftir fjögurra ára háskólanám og fá svo lægri laun en starfsfólkið á Hverfisbarnum. En þetta valdi maður. Því er ekki að neita."

join@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.