Þrisvar sinnum þurfti að greiða atkvæði um tillögu um sölu RÚV þar sem mjótt var á munum. Eftir þriðju atkvæðagreiðslu úrskurðaði fundarstjóri að tillagan hefði verið felld með sjónarmun.
Þrisvar sinnum þurfti að greiða atkvæði um tillögu um sölu RÚV þar sem mjótt var á munum. Eftir þriðju atkvæðagreiðslu úrskurðaði fundarstjóri að tillagan hefði verið felld með sjónarmun.
34. landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk á sunnudag. Meðal þess sem landsfundur leggur áherslu á er að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins, skattleysismörk verði hækkuð, orkugeirinn markaðsvæddur og fæðingarorlof lengt í 12 mánuði og gert að fullu millifæranlegt milli foreldra.

FJÖLDI ályktana var samþykktur á 34. landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem um 1.200 manns sóttu og lauk á sunnudag í Laugardalshöllinni.

Ályktun um að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins var samþykkt með miklum meirihluta á sunnudag. Pétur H. Blöndal alþingismaður lagði ásamt öðrum landsfundarfulltrúum fram breytingartillögu um að hlutafé Ríkisútvarpsins yrði selt, en útvarpsráð starfaði áfram og byði verkefni Ríkisútvarpsins út til allra fjölmiðla. Þrisvar þurfti að greiða atkvæði um tillögu Péturs með handauppréttingu þar sem mjótt var á munum. Að lokinni þriðju atkvæðagreiðslu sagði Halldór Blöndal fundarstjóri að tillagan hefði verið felld með sjónarmun. Landsfundur telur einnig að skylduáskrift að fjölmiðlum skuli þegar í stað afnumin og hlutverk ríkisins á þessum markaði endurskoðað.

Mikill hiti var í mönnum þegar menningarmálin voru rædd. Ungir Heimdellingar komu með ýmsar róttækar hugmyndir inn á fund í menningarmálanefnd, eins og að afnema alla styrki til menningartengdrar starfsemi. Þeir gagnrýndu Ásthildi Sturludóttur, formann nefndarinnar, og sögðu málið ekki hafa fengið neina efnislega meðferð í nefndinni og að reynt hefði verið að kæfa það. Sátt náðist með því að skipa sáttanefnd.

Í ályktun um skattamál er lögð áhersla á hækkun skattleysismarka. Sérstakur tekjuskattur á einstaklinga verði þegar á næsta ári lækkaður úr 7% í 4% og síðan afnuminn árið 2003. Fyrstu skref verði jafnframt tekin til að lækka staðgreiðslu einstaklinga úr 38,8% í 35%. Tekjuskattur á fyrirtæki verði lækkaður úr 30% í 10%, en þegar hafði verið tilkynnt að þetta hlutfall færi niður í 18%. Þá er lagt til að verðbólgureikningsskil verði afnumin og fyrirtækjum sem hafa tekjur í erlendri mynt verði heimilað uppgjör í erlendum gjaldmiðli. Dregið verði úr tekjutengingu barnabóta og skerðing vaxtabóta verði lækkuð úr 6% í 5% af tekjum.

Í efnahagsmálum er lögð megináhersla á að greiða niður skuldir ríkissjóðs, lækka tekjuskatta einstaklinga og fyrirtækja enn frekar, afnema sérstakan tekjuskatt, einfalda skattkerfið og leggja af skatta og gjöld sem skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Einnig að draga úr öllum höftum á innflutning og afnema tolla og vörugjöld. Sömuleiðis afnema allar hömlur á fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum og lágmarka opinber afskipti af atvinnulífinu.

12 mánaða fæðingarorlof millifæranlegt milli foreldra

Umræður um jafnréttismálin snerust m.a. um nýsamþykkt lög um fæðingarorlof mæðra og feðra. Mikill meirihluti fundarmanna samþykkti breytingartillögu um að endurskoða þyrfti ýmis ákvæði laganna, þannig að réttur foreldra til töku fæðingarorlofs verði að fullu millifæranlegur, "svo fæðingarorlofið nýtist eins og hverri fjölskyldu kemur best". Þorsteinn Davíðsson, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og Illugi Gunnarsson lögðu tillöguna fram. Geir H. Haarde fjármálaráðherra var meðal þeirra sem samþykktu breytingartillöguna, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður meðal þeirra sem greiddu atkvæði á móti.

Þá var samþykkt ályktun um fjölskyldumál þar sem hvatt er til að stefnt verði að 12 mánaða fæðingarorlofi. Tillaga um að setningin um 12 mánaða fæðingarorlofið yrði tekin út var felld með þorra atkvæða. Þetta er í fyrsta skipti sem landsfundur flokksins ályktar um svo langt fæðingarorlof.

Sömuleiðis var samþykkt að leggja beri Kvikmyndaskoðun ríkisins niður. Þá er lagt til að nýsamþykktum tóbaksvarnarlögum verði breytt "svo að tjáningarfrelsi almennings og réttur fólks til að ráða yfir fasteignum sínum verði virtur", eins og segir í ályktun fundarins.

Þá telur landsfundur að endurskoða þurfi ákvæði laga um dómstóla sem fjalla um skipun Hæstaréttar í einstökum málum, þannig að tryggt sé að sjö dómarar skipi dómstólinn í sérstaklega mikilsverðum málum er varða túlkun á stjórnarskránni. Einnig að breyta þurfi ákvæðum um deildaskiptingu réttarins þannig að seta dómara í einstökum málum fari ekki eftir starfsaldri þeirra, heldur séu þeir valdir eftir hlutkesti.

Markaðsvæðing orkugeirans fyrirhuguð

Landsfundur lýsti einörðum stuðningi við áform um uppbyggingu nýrrar stóriðju á Austurlandi og við Hvalfjörð og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir sem henni tengjast. Í ályktun um orkumál er lögð áhersla á framhald þeirrar uppbyggingar á sviði orkumála og orkufrekrar starfsemi. Einnig lýsir fundurinn ánægju með fyrirhugaða markaðsvæðingu í orkumálum. Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi lagði fram breytingartillögu við ályktunina sem var kolfelld. Ólafur lagði m.a. til að tryggt verði við fyrirhugaða einkavæðingu í orkumálum að orkulindir í eigu almennings færist ekki í hendur einkaaðila.

Í heilbrigðismálum var lögð áhersla á eflingu einkarekinnar heilsugæslu og hvetur fundurinn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki að sér ráðuneyti heilbrigðismála.

Þá telur landsfundur að ríkið eigi að draga sig úr öllum verslunarrekstri. Því skuli ÁTVR lagt niður þegar í stað og áfengi selt eftir reglum sem Alþingi setur.

Íbúðalán miðist við kaupverð íbúðar

Einnig var samþykkt að leggja áherslu á að afnema tekjutengingu lífeyrisgreiðslna almannatrygginga til þeirra sem hafa náð 67 ára aldri. Í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar eigi sérhver einstaklingur rétt á tilteknum eftirlaunum á mánuði, sem ekki verða skert með neinum hætti. Lagt er til að fram fari heildarendurskoðun laga um almannatryggingar á kjörtímabilinu, auk þess sem skattalöggjöfin verði samtímis endurskoðuð.

Landsfundur telur að íbúðalán eigi að miða við kaupverð íbúðar og einnig að stuðlað skuli að virkum, frjálsum sparnaði ungs fólks til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði, t.d. með því að innlegg á sparnaðarreikning verði frádráttarbært frá skatti.