INNAN raða Slysavarnafélagsins Landsbjargar er til skoðunar að loka einhverjum neyðarskýlum við fjallvegi og sjávarstrendur sem slysavarnadeildir og björgunarsveitir í landinu hafa í sinni umsjá.

INNAN raða Slysavarnafélagsins Landsbjargar er til skoðunar að loka einhverjum neyðarskýlum við fjallvegi og sjávarstrendur sem slysavarnadeildir og björgunarsveitir í landinu hafa í sinni umsjá. Skýlið á Öxnadalsheiði hefur þegar verið tekið niður þannig að í vetur stefnir í að ekkert neyðarskýli verði á heiðum á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Eins og kom fram í Morgunblaðinu nýlega hefur Vegagerðin sett sæluhúsið á Holtavörðuheiði á söluskrá og ætlar ekki að setja nýtt hús þar í staðinn.

Að sögn Sigrúnar A. Þorsteinsdóttur, sviðsstjóra slysavarnasviðs Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er slæm umgengni um skýlin við þjóðveginn ein ástæða þess að félagseiningarnar hafa gefist upp á að halda þeim úti. Hún segir umgengnina þó hafa batnað á allra síðustu misserum en breytt þjóðfélag hafi minnkað þörfina á sumum þessara skýla þó að mörg þeirra séu alltaf að sanna gildi sitt.

Slysavarnadeildir og björgunarsveitir hafa verið með 77 neyðarskýli víðs vegar um landið, langflest við sjávarsíðuna, og segir Sigrún ljóst að á næstu árum muni þeim fækka nokkuð. Tímarnir hafi breyst með bættum samgöngum og fjarskiptatækjum, en fyrsta slysavarnaskýlið hér á landi var sett upp árið 1904 við sjó. Síðar var svo farið að setja upp skýli á fjallvegum með auknum samgöngum á landi. Þau skýli eru um 20 talsins. Frá árinu 1998 hefur umsjón og rekstur skýlanna verið í höndum slysavarnadeilda eða björgunarsveita og er hluti af slysavörnum á þeirra svæði.

"Reyndar virðist það vera þannig að lauslegir hlutir fá ekki að vera í friði og hafa sumar félagseiningar tekið þann pólinn í hæðina að taka allt lauslegt úr skýlunum á vorin er ferðamenn fara á stjá í auknum mæli og setja það aftur inn á veturna þegar þörfin er meiri fyrir hlýjan fatnað og aðra slíka hluti. Gestabækur liggja frammi í sumum þessara skýla og sést á skrifum í þær að gestkvæmt er þar á sumrin. Umgengni flestra gesta er góð en alltaf eru einhverjir sem bera ekki virðingu fyrir þessum skýlum," segir Sigrún.

Vegagerðin áfram með fimm sæluhús

Auk sæluhússins á Holtavörðuheiði ætlar Vegagerðin sér ekki að hafa hús á nýrri leið yfir Kerlingarskarð um Vatnaheiði. Ekki stendur til að hætta með önnur sæluhús á vegum Vegagerðarinnar en þau eru á Fróðárheiði, Þorskafjarðarheiði, við Lindarsel á Mýrdalsöræfum, á Öxarfjarðarheiði og í Fagradal á milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Vegagerðin hefur átt í viðræðum við Landsímann um að bæta GSM-samband á fjallvegum og nýjum sendum verið komið upp nú þegar á sumum þeirra.