UMMÆLIN sem Hlynur Freyr Vigfússon, varaformaður Félags Íslenskra þjóðernissinna, var ákærður fyrir birtust undir millifyrirsögninni "Afríkunegri og Íslendingur" Þar sagði m.a.
UMMÆLIN sem Hlynur Freyr Vigfússon, varaformaður Félags Íslenskra þjóðernissinna, var ákærður fyrir birtust undir millifyrirsögninni "Afríkunegri og Íslendingur" Þar sagði m.a.: "Það þarf engan snilling eða erfðafræðivísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi." Viðtalið við hann birtist í helgarblaði DV 17. febrúar sl. Skömmu síðar var hann fyrir beiðni ríkissaksóknara boðaður í skýrslutöku hjá lögreglunni í Reykjavík og í kjölfar þess var gefin út ákæra á hendur honum.

Ákært var fyrir brot gegn 233. gr a almennra hegningar laga en hún hljóðar svo: "Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum."

Ekki eru fordæmi hér á landi fyrir beitingu þessarar greinar en dómar hafa fallið á Norðurlöndunum og víðar vegna brota gegn sambærilegum ákvæðum.

Við aðalmeðferð málsins bar Páll Ásgeir Ásgeirsson, blaðamaður á DV, vitni auk Hlyns Freys. Sá síðarnefndi staðfesti að rétt hefði verið eftir honum haft í viðtalinu og gerði ekki athugasemdir við orðalagið. Þá óskaði hann hvorki ekki eftir því að orð sín væru dregin til baka né sagðist hann iðrast ummæla sinna og kvaðst hann hafa heimildir fyrir þeim.

Verjandi Hlyns Freys krafðist þess að hann yrði sýknaður og taldi m.a. að ummæli hans væru ekki sambærileg orðalagi sem hefði verið refsað fyrir á Norðurlöndunum.

Þá hefði hann m.a. mótað þessar skoðanir þegar hann horfði á dönsku heimildarmyndina "Heimsálfan sem svaf yfir sig" sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu og fjallaði um Afríku.

Þá taldi verjandi að ekki gæti verið refsivert að nota orðið "negri". Hlynur Freyr hefði rétt til tjáningarfrelsis og hefði ekki farið út fyrir þann rétt sinn. Þá hefði blaðamaður átt frumkvæði að viðtalinu en Hlynur Freyr einungis svarað spurningum.

Rangar og niðrandi alhæfingar

Í niðurstöðum dómsins sem Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp, segir að þegar lagt væri mat á hvort ummælin í viðtalinu væru refsiverð yrði að skoða þau í ljósi þess að Hlynur Freyr er varaformaður Félags íslenskra þjóðernissinna sem hefur það að markmiði, samkvæmt framburði hans fyrir dómi, að reyna að vernda Ísland fyrir plágum sem hafa gengið yfir önnur Evrópulönd í formi innflutnings á láglaunavinnuafli. Í viðtalinu hafi hann lýst því að markmið félagsins sé að stöðva innflutning á fólki af öðrum uppruna en evrópskum og þar er lýst skoðunum um yfirburði hvíta kynstofnsins og nauðsyn þess að vernda hann.

"Hin kærðu ummæli ákærða eru röng og niðrandi alhæfing. Hann stillir upp sem andstæðum svörtum lötum Afríkubúum og hraustum hvítum Íslendingum og lætur að því liggja að um eðlislægan mun sé að ræða. Orð hans lýsa því kynþáttafordómum. Þau eru einnig háðsk og fávísleg í garð þeirra fjölmörgu einstaklinga sem byggja Afríku, og svartra kynþátta almennt," segir í dómnum. Alkunna sé að ensku orðin "negro" og "nigger" tengjast sögulega þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu. Sökum þess hafi blökkumenn beggja vegna Atlantshafsins farið fram á að vera ekki ávarpaðir með þessum orðum og tengja notkun þeirra kynþáttahatri. Orðið "negri" sé bein þýðing á þessum orðum og hafi því niðrandi blæ. "Íslenska sem önnur tungumál gerir okkur kleift að orða hugsanir okkar á ýmsa vegu og við vekjum ólík hughrif með þeim orðum sem við veljum. Ummælin "afríkunegri með prik í hendinni" og þau að Afríkubúar "nenni ekki að berja af sér flugurnar" eru niðrandi og bera háð og róg í garð svartra manna," segir í dómnum.

Virðing fyrir mannlegri reisn

Dómurinn taldi háttsemi hans ekki verndaða af stjórnarskrárbundnu tjáningafrelsi samkvæmt 73. grein stjórnarskrárinnar né af 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu enda væri tjáningarfrelsið ekki skilyrðislaust. Takmörkun á því fælist m.a. í að menn yrðu að ábyrgjast framsetningu skoðana sinna fyrir dómi og því mætti setja ákveðnar skorður til verndar ákveðnum gildum m.a. vegna réttinda eða mannorðs annara. Í mannréttindasáttmálanum væri áréttað að ekkert ákvæði hans yrði túlkað á þann veg að þau heimili að öðrum réttindum yrði eytt eða takmörkuð. "Virðing fyrir mannlegri reisn allra manna jafnt er sá grundvöllur sem alþjóðlegir mannréttindasáttmálar og stjórnarskrár lýðræðisríkja byggja á og vernda og þeirri vernd verður ekki vikið til hliðar með vísan til tjáningarfrelsisákvæðisins."

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði viðhafði ummæli sín sem forsvarsmaður og talsmaður Félags íslenskra þjóðernissinna. Á hinn bóginn yrði að taka tillit til þess að ummælin sjálf væru ekki gróf eða mjög alvarleg en auk þess væri ákærði ungur að aldri (fæddur 1978) og ætti ekki sakarferil að baki. Þá hefði hann ekki átt frumkvæði að viðtalinu.

Borgi hann ekki sektina, 30.000 krónur, verður honum gert að sæta varðhaldi í sex daga. Þá var honum gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 70.000 krónur.

Sigríður J. Friðjónsdóttir flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins.