Ef einhver bók á erindi til þeirra sem áhuga hafa á fjárfestingum í dag tel ég að það sé bókin "Manias, Panics, and Crashes, A History of Financial Crises", eftir Charles Kindleberger.
Ef einhver bók á erindi til þeirra sem áhuga hafa á fjárfestingum í dag tel ég að það sé bókin "Manias, Panics, and Crashes, A History of Financial Crises", eftir Charles Kindleberger.

Fall undanfarna 18 mánuði á gengi margra hlutabréfa fyrirtækja, sem flest öll áttu það sameiginlegt að koma til með að breyta framtíðinni svo um munar, ætti að vera mörgum umhugsunarefni. "Manias, Panics, and Crashes" útskýrir með líflegum hætti hvernig verðlagning eigna, aðallega hlutabréfa, getur í skjóli órökrænnar bjartsýni leitt til verðlagningar sem á sér litla stoð í hefðbundnu verðmati og áhrifa þess þegar slíkar spilaborgir láta undan. Þessi bók sýnir svo um munar að nýlegt ris og fall NASDAQ hlutabréfavísitölunnar er ekkert einsdæmi heldur fylgdi sígildum dæmum sögunnar um hrun verðgilda eigna. Eins og Kindleberger ítrekar í bókinni, því meira sem hlutirnir virðast breytast þeim mun meira eru þeir eins.

Fyrsta útgáfa bókarinnar var árið 1978. Tímasetningin var góð á þeim tíma, Dow Jones hlutabréfavísitalan hafði lækkað um 20% undanfarin tvö ár og var reyndar á svipuðum slóðum og hún var 13 árum áður. Spekin um að hlutabréf væru besta langtímafjárfestingin sem völ væri á var því á þeim tíma ekki nándar nærri jafn útbreidd og hún er í dag. Þó hafði ekkert beint hrun átt sér stað á hlutabréfamörkuðum síðustu árin, en vandræði vegna lána til landa í Suður-Ameríku voru þó ofarlega í huga margra.

Fyrri hluti bókarinnar lýsir sígildu atriðum varðandi uppbyggingu á bólum í verðlagningu eigna. Aukin bjartsýni fer almennt að eiga sér stað. Það leiðir til aukins vilja til áhættufjárfestinga og sumir fara að hagnast (á pappírnum í það minnsta) um töluverðar fjárhæðir á stuttum tíma. Margir kannast við þá reynslu að heyra einhverja manneskju tala í tíma og ótíma um gróðann sem hefur skapast áreynslulaust með kaupum í hlutabréfum. Flestir, sem hafa lent í því, vita að fátt hefur jafn slæm áhrif á sálartetrið og að sjá vini sína verða ríka án þess að svitna yfir því. Því miður hefur það einnig oft neikvæð áhrif á skynsemi fólks, eða eins og Kindleberger orðar það, "monkey see, monkey do!" Ég hef tvisvar sinnum upplifað slíkt á mínum ferli sem verðbréfamiðlari. Margir hafa líklegast gleymt því nú en hlutabréf fyrirtækja í uppsjávarfiski ruku upp með miklum látum vorið 1997. Í dag er verðgildi þeirra í besta falli um þriðjungur þess sem það var þegar gleðin stóð sem hæst. Það var í ljósi þess sem ég undraðist hversu almenningur og ekki síður kollegar mínir tóku mikinn þátt í þeirri bjartsýni sem náði tökum á fólki í uppsveiflunni á gengi tæknifyrirtækja fyrir u.þ.b. tveimur árum.

Veittar eru sögulegar lýsingar á aðdraganda helstu hruna fjármálasögunnar, m.a. hrunið árið 1929. Aðdragandinn virðist oftast vera svipaður, erfiðara hefur þó reynst að áætla með einhverri nákvæmni hvernig bólan springur. Eitt sem fylgir bólum er svindlstarfsemi, eins og sagt er í bókinni, "a sucker is born every minute". NASDAQ-bólan tengd veraldarvefnum var gott dæmi um slíkt. Ófáir á Íslandi lentu á "sucker"-lista í Bandaríkjunum með boð um gull og græna skóga. Til að gera slíka starfsemi trúlega var iðulega bent á vefsíðu "verðbréfafyrirtækisins", sem undantekningarlaust voru einfaldar síður með tengingar á viðurkenndum síðum. Vonandi létu ekki margir hér á landi glepjast.

Síðari hluti bókarinnar fjallar um hvort og hvernig seðlabankar ríkisstjórna geti, þ.e. auðvitað ef þær eru aflöguhæfar til þess, stuðlað að því að fyrirbyggja bólur í verðlagningu eigna og meðhöndla þær fjármálakreppur sem myndast þegar slíkar bólur springa. Þetta er e.t.v. ekki áhugaverð lesning fyrir þá sem einungis vilja spá í sínar eigin fjárfestingar. Aftur á móti er umræðan fyrir þá sem áhuga hafa á slíkum málum afar gagnleg, bæði út frá sögulegum jafnt sem heimspekilegum grunni. Ólík sjónarmið eru t.d. lögð fram varðandi fjármálakreppuna sem átti sér stað árin 1930-1932 og hvort hrunið árið 1929 hefði haft jafn mikil áhrif á þá kreppu og almennt er haldið.

mixa@sph.is