Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði Gísla S. Einarsson, þingmann Samfylkingarinnar, ýta undir fordóma í garð stjórnmálamanna.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði Gísla S. Einarsson, þingmann Samfylkingarinnar, ýta undir fordóma í garð stjórnmálamanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gísli S. Einarsson, þingmaður Samfylkingar, gagnrýndi í gær vöntun á upplýsingum um notkun flugvélar Flugmálastjórnar. Samgönguráðherra sagði Gísla gera eðlilega notkun vélarinnar tortryggilega.

GÍSLI S. Einarsson var málshefjandi í umræðunni og gagnrýndi harðlega að ekki fengjust upplýsingar um notkun flugvélarinnar sem hann sagði að ættu að vera sjálfsagðar. Sagði þingmaðurinn afgreiðslu málsins vera "klúður" og og vísaði til upplýsingaskyldu ráðuneyta sem fæli m.a. í sér þá skyldu, sbr. reglur um þjóðskjalasöfnun, að varðveita ætti farþegalista vélarinnar.

Þá lét Gísli í ljós þá afstöðu að eðlilegra væri að ríkið byði út ýmis verkefni sem vélinni væru ætluð, svo sem þau er vörðuðu öryggismál og flugvallaraðstæður og eðlilegra væri að leitað væri til starfandi flugfélaga um flutning á embættismönnum sem TF-FMS væri notuð til. Velti hann aukinheldur upp tryggingastöðu þeirra einstaklinga sem ferðuðust sem gestir í umræddri vél og hversu margir samstarfssamningar hefðu verið gerðir um notkun vélarinnar.

Flugvélin sinnir einungis vel skilgreindum verkefnum

Sturla Böðvarsson (D) sagði flugvélina einungis sinna vel skilgreindum verkefnum fyrir opinbera aðila, öðru ekki. Þar á meðal flutningum á æðstu embættismönnum ríkisins um landið. Sagði hann það hagkvæmt fyrir ríkið að nota vélina til slíkra hluta þegar hún væri ekki bundin í öðrum verkefnum og áætlunarflug dygði ekki til vegna anna ráðherra.

Sagði Sturla að einungis 12% árlegs flugtíma TF-FMS á árunum 1998-2001 hefði farið í flutninga með æðstu embættismenn þjóðarinnar. Varðandi þá skyldu að varðveita farþegalista vélarinnar sagði ráðherra sjálfsagt mál að flugmálastjóri færi yfir það með þjóðskjalaverði í hvaða farvegi það mál skyldi vera.

Sagði Sturla Böðvarsson að verið væri að semja í samgönguráðuneytinu frumvarp um mannflutninga í lofti og þar væri kveðið á um skyldu um varðveislu farþegalista. Það ætti þó ekkert skylt við umræðuna nú.

Óskiljanleg afstaða til verkefna og starfsskilyrða ráðherra

Samgönguráðherra sagði umræðuna bera öll einkenni þess að Gísli S. Einarsson gerði eðlilega notkun flugvélar Flugmálastofnunar tortryggilega. "Ég tel að það séu ekki miklar fréttir fyrir þingmenn að tími ráðherra er oft knappur til þeirra mörgu verkefna sem þeim eru ætluð vítt og breitt um landið. Þá skiptir verulega miklu máli að velja fararmáta sem sparar tíma og auðveldar ráðherrum að gegna störfum sínum," sagði Sturla og bætti því við að flugvél Flugmálastjórnar gæfi ráðherrum kost á að fara um landið, sinna erindum og verða við óskum um að mæta á mannamót sem væri hluti af starfsskyldum ráðherra. "Að þingmaðurinn skuli hafa leyft sér að tala um þægindaflug ráðherra, líkt og hann hefur látið hafa eftir sér, er óskiljanleg afstaða til verkefna ráðherra og starfsaðstöðu þeirra," sagði Sturla ennfremur og sagði það undarlegt hjá þingmanninum að höfða til þeirra "gamaldags viðhorfa" að flugferðir hljóti að vera munaður. Sagði hann allan málatilbúnað Gísla til þess fallinn að ýta undir fordóma í garð stjórnmálamanna, en fyrst og fremst lýsti hann þó málefnafátækt Samfylkingarinnar.

Augljóslega pottur brotinn

Auk málshefjanda og ráðherra tóku fjölmargir þingmenn þátt í umræðunni. Ögmundur Jónasson (Vg) sagði þannig hið besta mál að Flugmálastjórn ræki flugvél og að stjórnsýslan nýtti hana á stundum. "Frá sjónarhóli opins lýðræðissamfélags er augljóslega pottur brotinn," sagði Ögmundur og sagði ljóst að halda ætti farþegalista og þeim síðan haldið til haga. Þegar um þær væri beðið á Alþingi ætti að reiða þær fram.

Kristinn H. Gunnarsson (B) sagði ekki deilt um þörf fyrir vélina, að reglur um hana væru skýrar og að Ríkisendurskoðun fylgist með því að þeim sé fylgt. Sagði hann ekkert liggja fyrir um það að um misnotkun hafi verið að ræða og kvaðst treysta Ríkisendurskoðun til þess að skera úr um það. Sagði Kristinn það skoðun sína að málshefjandi gengi fulllangt í því að varpa rýrð á ráðherra í þessum efnum, en engu að síður væri það sín skoðun að upplýsingar um farþega vélarinnar ættu að liggja fyrir.

Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagðist ekki kannast við það að ríkisstjórnin hefði verið vænd um misnotkun. Ráðherra hefði að því er sér virtist tekist að klúðra þessu máli. Vísaði Sverrir, sem sjálfur var lengi ráðherra, að eins væri komið með samgönguráðherra og landbúnaðarráðherra um sölu ríkisjarða, að þeir neiti löggjafarsamkomunni um umbeðnar upplýsingar. Á hinn bóginn sagði Sverrir sjálfsagt að ríkisstjórnin nýtti sér flugvélina þegar þurfa þætti, en hér áður fyrr hefði það ekki verið svo að menn þyrftu að "vígja vegi nýja beggja megin eða klippa borða yfir brú".

Aðrir þingmenn, þau Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir gagnrýndu ekki notkun vélarinnar í sjálfu sér en töldu flestir sjálfsagt að skrá um farþega hennar yrði varðveitt og að upplýsingar um notkun vélarinnar yrðu veittar greiðlega svo ekki þyrfti að sá fræjum tortryggni um afnot ríkis og ráðuneyta af henni.

Sagði félagsmálaráðherra þó að kröfur um að Þjóðskjalasafn varðveiti farþegalista "væru út yfir allan þjófabálk", eins og hann orðaði það.

Að leyna upplýsingum skapar tortryggni

Í lok umræðunnar sagði Gísli þingumræðuna hafa kristallast í því að upplýsingum væri leynt og það skapaði tortryggni. Flugmálastjórn og síðar ráðuneyti hefði ekki veitt umbeðnar upplýsingar. Væri það sammerkt öllum opinberum stofnunum nema embætti forseta Íslands að veita ekki upplýsingar um ferðalög.

Sturla Böðvarsson átti lokaorðið og sagðist þakklátur fyrir umræðuna þar sem hún hefði leitt í ljós að ekki væri um þvílíkt stórmál að ræða sem látið hefði verið í veðri vaka og ástæðulaust hefði verið að reiða eins hátt til höggs og gerð hefði verið tilraun til.