Lára Stefánsdóttir og Guðni Franzson í Lady Fish and Chips.
Lára Stefánsdóttir og Guðni Franzson í Lady Fish and Chips.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ í samvinnu við Pars Pro Toto stendur fyrir danssýningu í kvöld og annað kvöld kl. 20.00 á Stóra sviðinu. Sýnd verða þrjú dansverk eftir Láru Stefánsdóttur, Langbrók, Elsa og Lady Fish and Chips.

ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ í samvinnu við Pars Pro Toto stendur fyrir danssýningu í kvöld og annað kvöld kl. 20.00 á Stóra sviðinu. Sýnd verða þrjú dansverk eftir Láru Stefánsdóttur, Langbrók, Elsa og Lady Fish and Chips.

Lára Stefánsdóttir segir Langbrók orðna þriggja ára. "Við byrjuðum að sýna verkið í Gerðubergi sem tilraunaverk, en það er gjörbreytt í dag, þannig að þetta er Íslandsfrumsýning á verkinu."

Langbrók var frumsýnd á norrænni sólódanshátíð, KIT, í Kaupmannahöfn í ágúst 1999, en þar dönsuðu danshöfundar sín eigin verk og vakti Langbrók þar mikla athygli. Tónlistina samdi Guðni Franzson eiginmaður Láru.

Dramatísk átök

"Það er orðið mjög eftirsótt núna að fá dansara sem hafa með sér einn hljóðfæraleikara á sýningar og í keppnir, og það hentar okkur Guðna mjög vel. Fólki fannst merkilegt að við skyldum byggja verkið á sögu, því það hefur verið á undanhaldi að danshöfundar geri það. Okkur fannst bara svo tilvalið að taka þessa kvenpersónu úr Njálu, og Guðni tekur virkan þátt í verkinu, enda átti Hallgerður þrjá menn. Það eru dramatísk átök á milli okkar og sterkar tilfinningar allt verkið á enda, þannig að þetta krefst mikillar athygli áhorfenda. Þessi saga er líka þannig að hún gæti alveg eins átt við um sambönd í dag, því tilfinningar fólks breytast ekki og eru stór þáttur í lífi fólks allt til dauða. Það var umræðufundur á danshátíðinni í Danmörku þar sem verkið var frumflutt og þar var kona frá Indlandi sem átti líka verk á hátíðinni. Hún upplifði verkið mjög sterkt og fannst verkið hafa sterkar íslenskar rætur. Ég var mjög ánægð með það. Það er svo margt sem hefur áhrif á líf okkar í dag, að það er mikilvægt að gleyma ekki rótunum."

Leikmynd Langbrókar er hönnuð af Ragnhildi Stefánsdóttur myndlistarmanni.

Elsa var samin fyrir alþjóðlega danshöfundakeppni sem haldin var í Finnlandi í júní í sumar. Tónlistin við dansinn er eftir finnska dúóið Pan Sonic en Hlín Diego Hjálmarsdóttir og Guðmundur Elías Knudsen dönsuðu verkið þá og einnig nú í Þjóðleikhúsinu. Elsa vann til fyrstu verðlauna í keppninni og var sýnd tvisvar sinnum á stóra sviði Þjóðaróperuhússins í Helsinki.

"Það var mjög gaman að fá fyrstu verðlaunin. Við þurftum að nota finnska tónlist, og sú sem við völdum er mjög kraftmikil. Þarna er engin saga, þetta er bara dúett milli karls og konu en heilmiklar tilfinningar á ferðinni." Sýningin í Þjóðleikhúsinu nú er frumflutningur verksins á Íslandi.

Konan í tímans rás

Lady Fish and Chips var frumsýnd í fyrra á Álandseyjum, og í ágúst síðastliðnum var dansinn ásamt Langbrók sýndur á fyrstu listahátíð Færeyinga. Lady Fish and Chips er óður til fjallkonunnar íslensku, sem er "bjarteyg, brjóstafögur, beinvaxin, sviphrein, klædd hinum fegursta skautbúningi og fönguleg í augum guma heimsins".

Inn í dansinn fléttast kveðskapur tveggja genginna þjóðskálda, þeirra Jónasar Hallgrímssonar og Jónasar Árnasonar. Guðni Franzson syngur "La Belle" og "Ég bið að heilsa" eftir Jónas Hallgrímsson við eigin lög. Einnig er notast við hljóðritun frá tónleikum Jónasar Árnasonar og Kelta, sem haldnir voru á haustdögum árið 1995, en þar syngur Jónas kvæði sitt um "Lady Fish and Chips" við gamalt stríðsáralag, "Kiss the Boys Goodbye". Lára Stefánsdóttir dansar þetta verk, og segir að verkið lýsi þjóðlífsbreytingum á liðnum öldum.

Við byrjum þar sem konan er barn náttúrunnar og í sterkum tengslum við hana. Einangrun eyjunnar okkar kemur líka við sögu, og við sjáum hvernig konan breytist í tímans rás, verður villtari og kynnist nýjum erlendum straumum, þegar einangrunin rofnar, þar til við sjáum hvernig hún tekst á við léttfirrtan heiminn í dag. Þetta er mildasta og léttasta verkið af þessum þremur." Þau Lára Stefánsdóttir og Guðni Franzson hafa nú tvö tekið að sér dansleikhúsið Pars Pro Toto. "Pars Pro Toto dansleikhúsið var stofnað af mér og fleiri listamönnum árið 1985. Það var komin þörf fyrir frumsköpun og eitthvað nýtt, annað en það sem Íslenski dansflokkurinn var að gera, og þannig er það enn. Við settum upp nokkrar sýningar, en svo kom lægð í starfsemina þar til við Guðni kynntumst 1996, og við fórum að vinna saman. Mér var þá boðið á vegum Teater og Dans i Norden til Eystrasaltslandanna með sólóverk og mátti taka einn hljóðfæraleikara með mér, og upp úr því fórum við Guðni að vinna meira saman undir þessu nafni. Draumurinn er auðvitað að halda þessu áfram. Við erum að undirbúa verk þar sem rafsegulspúðar eru tengdir úr tölvu í mig, tölvan bregst við mínum hreyfingum, þannig að tónlistin er búin til af okkur þremur, mér, tölvunni og Guðna. Okkur langar líka að setja upp dansóperu sem Guðni myndi semja tónlist við; það er draumur sem ég vona að geti orðið að veruleika á næstu árum."

Meðal annarra aðstandenda danssýningar Pars Pro Toto í Þjóðleikhúsinu eru Páll Ragnarsson ljósahönnuður, Elín Edda Árnadóttir búningahönnuður og Páll S. Guðmundsson hljóðmaður. Hljómsveitin Rússíbanar mun leika lög af nýjum geisladiski sínum, Gullregninu, í Kristalsal á milli dansverkanna.