25. nóvember 2001 | Sunnudagsblað | 3338 orð | 2 myndir

Bakkavör í leik og starfi

Forstjórinn Lýður, til vinstri, og stjórnarformaðurinn Ágúst Guðmyndssynir á æskuslóðunum við Bakkavör á Seltjarnarnesi.
Forstjórinn Lýður, til vinstri, og stjórnarformaðurinn Ágúst Guðmyndssynir á æskuslóðunum við Bakkavör á Seltjarnarnesi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tveir ungir menn stofnuðu fyrirtæki og fóru að verka þorskhrogn með föður sínum fyrir hálfum öðrum áratug. Skapti Hallgrímsson hitti Ágúst og Lýð Guðmundssyni sem stjórna fyrirtækinu enn og eru nú með nítján hundruð manns í vinnu í níu löndum við að framleiða og selja matvæli.
ÁGÚST og Lýður Guðmundssynir segjast mjög samrýmdir bræður. Slógust þó einsog hundur og köttur í æsku, segir annar og hinn bætir við: "Er það ekki einsog hjá öllum góðum systkinum?"

Þeir hlæja.

"En ég er hræddur um að pabbi gamli hafi verið orðinn þreyttur á að fara sífellt upp á slysavarðstofu með annan hvorn okkar, þann sem hafði fengið gat á hausinn í það skiptið í slagsmálum," segir hinn forvitnum blaðamanni, sem langar til að komast að því hverjir þeir eru eiginlega, þessir náungar sem í vikunni gengu frá stærstu fyrirtækjakaupum í íslenskri viðskiptasögu. Bakkavör - sem þeir stofnuðu ásamt föður sínum fyrir 16 árum - keypti þá breska matvælafyrirtækið Katsouris Fresh Foods (KFF) fyrir 15,6 milljarða króna.

Léku sér í Bakkavörinni

"Við erum Nesbúar," segir Lýður þegar bræðurnir eru spurðir að því úr hvaða jarðvegi þeir eru sprottnir og Ágúst bætir við: "Við ólumst upp í Bakkavörinni á Seltjarnarnesi. Þaðan er nafnið á fyrirtækinu komið. Við lékum okkur í þessari vör við sjóinn þegar við vorum litlir."

Ágúst, sem er 37 ára og stjórnarformaður Bakkavör Group og forstjórinn Lýður, 34 ára, segjast hafa verið ósköp venjulegir strákar á sínum tíma. "Við sinntum ýmsum hefðbundnum störfum; vorum í sveit á sumrin, bárum út Moggann og þess háttar."

Stofnun fyrirtækisins, 1986, má rekja til þess er þorskkvóti í Barentshafi var skorinn heil ósköp niður um miðjan níunda áratuginn. Lýður var enn í Verzlunarskólanum þegar þetta var en Ágúst í Frakklandi að læra tungumálið. "Faðir okkar, Guðmundur Lýðsson, er vélstjóri og hafði verið tengdur sjávarútveginum. Þetta byrjaði þannig að hann fékk beiðni um að útvega fyrirtæki í Svíþjóð þorskhrogn til framleiðslu á kavíar í túpum," segir Ágúst. "Niðurskurður kvótans hafði þau áhrif að hrogn vantaði á Norðurlöndunum og því sneri fyrirtækið sér hingað.

Við byrjuðum í þessu með karli föður okkar en leiðir skildi fljótt og við höfum rekið fyrirtækið alfarið síðan 1987. Fyrirtækið var náttúrlega stofnað með nánast engu hlutafé og stóð ekki undir neinni yfirbyggingu og segja má að fyrstu árin hafi farið í að koma undir okkur fótunum fjárhagslega."

Lýður segir þá bræður hafa unnið með skóla eins og algengt var meðal íslenskra unglinga á þeim árum "og ég vann í hrognunum með skólanum fyrsta árið".

Bakkavör leigði fyrst gamalt frystihús í Garðinum undir starfsemina. "Hálfgerðan skúr," segir Lýður.

Ævintýrið byrjaði þannig að þeir bræður óku á milli fiskverkenda og keyptu af þeim óverkuð hrogn. "Áður hafði það ekki tíðkast; þetta var fyrir daga fiskmarkaðanna, menn fengu fiskinn óslægðan í hús og unnu allt sjálfir en þarna fórum við að kaupa hrognin og verka," segir Ágúst.

Fastir starfsmenn fyrirtækisins voru lengi vel aðeins þrír, bræðurnir og einn verkstjóri. Þeir stússuðu í öllu sjálfir og það var ekki fyrr en 1992 sem starfsmannahópurinn fór að stækka þegar þeir opnuðu reykhús í Kópavogi.

"Í nokkur ár vorum við bara með vertíðarfólk í vinnu, fyrir utan verkstjórann, þá fimm mánuði sem þorskhrognavertíðin stóð. Á þessum tíma sá Lýður um bókhaldið og fjármálin og kom svo í söltunina þegar hann var búinn með pappírsvinnuna," segir Ágúst og yngri bróðir hans botnar: "Þetta gerir það að verkum að við þekkjum hvert handtak innan fyrirtækisins."

Ágúst: "Þessi þekking er lykilatriði ásamt reynslunni. Þegar við vorum ungir fannst manni reynslan engu máli skipta; ungir-menn-geta-allt hugsunarhátturinn; en eftir því sem maður eldist gerir maður sér alltaf betur og betur grein fyrir því að það er nánast ekkert sem skiptir máli nema reynslan!"

París, Reykjanesbær, London...

Hvað skyldu Kaupmannahöfn, París, Gautaborg, Hamborg, Birmingham, London, Varsjá, Helsinki, Reykjanesbær og Valdivia í Chile eiga sameiginlegt?

Jú, þar rekur Bakkavör Group fyrirtæki.

Fyrirtækið átti eina verksmiðju í Birmingham og með kaupunum á KFF bætist önnur við í London. Ágúst: "Við erum komnir á þá hillu í matvælageiranum sem er mest spennandi; að framleiða ferskan þægindamat. Pöntun kemur til verksmiðjanna í Englandi klukkan níu að morgni, varan er afhent fyrir klukkan fimm, komin í búðina um kvöldið og fólk kaupir hana í síðasta lagi daginn eftir."

Í verksmiðjum þeirra bræðra í Bretlandi eru framleiddir fjórir vöruflokkar. Í fyrsta lagi ídýfur og salatsósur, annars vegar smáréttir ýmiss konar, í þriðja tilbúnar máltíðir og í fjórða lagi meðlæti af ýmsu tagi.

Mikið er um alls kyns konar þjóðarrétti; gríska, austurlenska og þar fram eftir götunum og er mikil áhersla lögð á ferskleikann.

"Í matvælagerð gerast hlutirnir fyrst í Bretlandi, þó einhverjum kunni að finnast það ótrúlegt. Fólk af mjög mörgu þjóðerni býr í Bretlandi og eftir að þar voru opnaðir veitingastaðir víða að úr heiminum komust Bretar upp á lag með að borða ýmislegt annað en breska matinn; nýrnabökurnar og annað sem þeir eru þekktir fyrir. Þeim finnst þessi framandi matur góður en fólk getur ekki búið hann til sjálft. Lausnin var því að gera því kleift að geta keypt matinn tilbúinn og ferskan í næstu búð."

Í Skandinavíu selja fyrirtæki bræðranna margvíslegt sjávarfang; síld, kavíar í túpum og grásleppukavíar svo eitthvað sé nefnt. Í Frakklandi eru þeir mikið í hrognavöru, laxakavíar, krabbakjöti, hörpuskel og fleiru sem þarlendir hrífast af og verksmiðjan í Chile vinnur krabbakjöt.

Velgengnin

"Við vorum fertugasta stærsta fyrirtæki landsins í fyrra, með 300 manns í vinnu og veltum fimm milljörðum. Við höfum hagnast vel undanfarin ár og eiginfjárstaðan er sterk; við erum með með 2,2 milljarða í eigið fé, græddum 247 milljónir fyrir skatta í fyrra og græddum 183 milljónir fyrir skatta árið á undan. Samt vita ekki margir af okkur hérlendis. Líklega vegna þess að hér heima hefur ekki farið fram nema um 10% af heildarstarfseminni, og fer niður í 2-3% eftir yfirtökuna á KFF," segir Lýður.

Bræðurnir eiga nú 44% af Bakkavör Group og er fyrirtækið skráð á Verðbréfaþingi Íslands. "Afgangurinn er í eigu lífeyrissjóða og almennings. Íslenskir hluthafar eru um 5.000, en í fyrra, þegar við vorum með hlutafjárútboð, skráðu sig um 10.000 manns fyrir hlut sem var eitt stærsta útboð sem hafði farið fram á einkafyrirtæki."

Fyrsta fullvinnsluverksmiðjan

"Við færðum starfsemina í Kópavoginn 1989 og vorum þar allt til 1996. Byggðum þá tvær verksmiðjur suður með sjó," segir Lýður; "annars vegar fullvinnsluverksmiðju í Reykjanesbæ, þá fyrstu hérlendis, og það var mikill áfangi fyrir okkur að koma fyrirtækinu úr skúrnum."

Áður en kaupin á KFF áttu sér stað í vikunni var Bakkavör Group með 120 manns við framleiðslu matvæla í Bretlandi, jafn marga í Svíþjóð, 50 í Frakklandi og 25 í Reykjanesbæ auk þess að eiga stærstan hluta fyrirtækis í Chile sem vinnur krabbakjöt. Þá er félagið með sölu- og dreifingarfyrirtæki í Póllandi, Finnlandi og Þýskalandi.

Blaðamaður stenst ekki mátið og stynur upp: Þetta hljómar eins og ævintýri!

"Já, þetta er líka búið að vera heilmikið ævintýri í sjálfu sér," svarar Ágúst. "Bakkavör er ekki spútnikfyrirtæki sem varð til í gær, við duttum ekki allt í einu í einhvern lukkupott. Fyrirtækið er svo gamalt að þegar það var stofnað held ég að hvergi hafi verið faxtæki á Íslandi nema í Eimskipafélaginu. Við fengum ekki telefax fyrr en 1989."

Hann segir fyrirtækið hafa byggst upp hægt, en örugglega. "Segja má að þegar Grandi gerðist hluthafi í fyrirtækinu 1995 komu í fyrsta sinn "alvöru" peningar í fyrirtækið. Grandi eignaðist 40% á móti 60% hlut okkar bræðra og Brynjólfur Bjarnason forstjóri Granda kom inn í stjórnina.

Þetta var mikilvægt því það gerði okkur kleift að standa í verksmiðjubyggingum suður með sjó og fara alveg yfir í fullvinnslu, sem voru mikil tímamót í sögu fyrirtækisins.

Kaupþing kom svo inn í fyrirtækið 1998 sem hluthafi og endurfjármagnaði fyrir okkur allar skuldir, sem var afar mikilvægt fyrir okkur á þessum tíma því við vorum í gamla frystihúsakerfinu, afurðalánakerfinu, sem hentaði okkur einstaklega illa vegna þess að við vorum með hrogn en ekki fisk. Ekki í hraðfrystingu eða söltun eða einhverju slíku."

Ágúst segir kaupin á sænska fyrirtækinu, sem nú er Bakkavör Sweden, hafa verið mikið stökk. "Það voru stærstu fyrirtækjakaupin okkar fram að því og Kaupþingsmenn voru þar með okkur. Það fyrirtæki var þá þrisvar sinnum stærra en Bakkavör; velti 18-1900 milljónum en við um 700. Starfsmenn sænska fyrirtækisins voru þá 120 en okkar 40."

Lýður: "Kaup okkar á breska fyrirtækinu eru því ekki fyrsta risavaxna verkefnið sem við förum í en við erum auðvitað orðnir stærri sjálfur nú og það gefur okkur meira vogarafl til þess að ná lengra."

Þeir bræður bera starfsfólki Kaupþings vel söguna; það hafi stutt við bakið á Bakkavör í útrás fyrirtækisins "og nú nutum við fulltingis þeirra þegar við gerðum þennan stærsta lánasamning við erlenda banka sem íslenskt einkafyrirtæki hefur fengið fyrr og síðar," segir Lýður og eldri bróðirinn bætir við að gaman sé að sjá hve Íslendingar séu orðnir hæfir í samanburði við erlenda starfsbræður þeirra. "Hér hefur orðið til fólk með mikla hæfileika á þessu sviði. Það er líka gaman að hugsa til baka og velta því fyrir sér hve viðskiptaumhverfið hefur breyst síðan við vorum að byrja. Það sem við höfum verið að gera var einfaldlega ekki hægt 1986."

Þeir rifja upp að þá var bannað að taka lán erlendis og "öllum gjaldeyri sem kom inn í landið varð að gjöra svo vel að skila í Seðlabankann á því gengi sem honum datt í hug á hverjum tíma," segir Lýður.

Blaðamaður er ekki viss um að allir skilji hvernig í ósköpunum fyrirtæki eins og Bakkavör fer að því að kaupa mun stærra fyrirtæki erlendis. Skyldi það ekki vera mikið mál?

"Það er að minnsta kosti mögulegt ef nokkrir þættir eru í góðu lagi," svarar Lýður og bætir við: "Í okkar tilfelli er það meginatriði að bæði fyrirtækin eru mjög sterk; bæði eru með trausta eiginfjárstöðu og bæði hafa skilað miklum hagnaði undanfarin ár. Það er rétt að við erum miklu minni en KFF en við fáum stuðning fjármögnunaraðila við að taka fyrirtækið yfir."

KFF skuldar ekki krónu við yfirtökuna; því fylgja raunar um 800 milljónir króna í banka, bendir Lýður á, og það "auðveldar okkur að breyta fjármagnssamsetningu fyrirtækisins."

Hann segir Bakkavör færa KFF mjög mikilvæga þætti. "Þeir starfa bara í Bretlandi en við erum dreifðir og getum væntanlega fært þau "konsept" yfir á meginlandið í framtíðinni sem KFF hefur verið að vinna að í Bretlandi."

Bræðurnir segja það mikinn kost að daginn sem þeir taka yfir fyrirtækið þurfi ekki að byrja á því að taka til í rekstrinum. "Við mætum bara á staðinn, heilsum upp á starfsfólkið og fáum okkur kaffisopa."

Fyrirtækin tvö hafa verið í svipuðum rekstri og helstu viðskiptavinir þeir sömu; hinar ýmsu keðjur stórmarkaða í Evrópu.

Fyrrverandi eigendur KFF, gríska Katsouri-fjölskyldan, verða hluthafar í Bakkavör Group. Eignast þar hlut fyrir tvo milljarða og tveir aðalmenn þess setjast í stjórn. Ágúst segir það afar mikilvægt. "Þá höldum við þekkingunni. Þessir menn stofnuðu fyrirtækið og þekkja alla hluti út og inn. Þeir verða með okkur í áframhaldandi uppbyggingu og það léttir auðvitað af okkur ákveðinni pressu. Gerir okkur kleift að vera rólegri og minnkar líkurnar á því að við gerum mistök."

Lýður bætir við að miklu máli skipti að þarna sé um að ræða eina fjölskyldu. "Stundum koma fjárfestar inn í svona fyrirtæki í dag, reyna að græða strax á morgun og vilja svo selja sinn hlut hinn daginn. Hér er ekki um slíkt að ræða. Fjölskyldan fjárfestir í Bakkavör fyrir tvo milljarða og menn hafa nú lyft brúnum yfir minni erlendri fjárfestingu á Íslandi en það! Jafnvel beygt sig í duftið og gefið mönnum afslátt af hinu og þessu."

Bræðurnir segja breytinguna sem orðið hefur á viðskiptaumhverfinu hérlendis undanfarin ár mjög þýðingarmikla. "Ríkisstjórnin hefur gert umhverfið miklu betra og meira aðlaðandi. Tillögur að breytingum á lögum um gerð ársreikninga sem liggja fyrir, að við megum gefa upp í erlendri mynt og fáum líka vonandi að færa hlutafé okkar í erlendri mynt, eru til dæmis mjög mikilvægar."

Þeir nefna einnig verðbólgureikningsskil "sem er nánast ómögulegt að útskýra fyrir Íslendingum hvað þá útlendingum". Og svo fjármagnstekjuskatt. "Hér borga menn hvorki of lágan né háan fjármagnstekjuskatt. Hann er sanngjarn. Þess vegna er undarlegt að sumir vaði fram á sviðið og heimti að skattleggja eigi fjármagnstekjur um 40%, hvort sem menn búa hér á landi eða ekki. Það erlenda fólk sem á í Bakkavör borgar skatta af arði sínum á Íslandi því hann er greiddur út hér. En ef menn eiga að fara að borga 40% skatt, eins og þeir búi í landinu og njóti allrar þjónustu, mun aldrei neinum detta í hug að fjárfesta hérlendis," segir Lýður.

Hvaða kreppa?

Þeir bræður undrast krepputalið á Íslandi um þessar mundir. "Menn geta talað sig inn og út úr kreppu," segir Ágúst og bætir við: "Í dag eru verðmæti í sjávarafla meiri en nokkru sinni; þetta er aðalatvinnugrein þjóðarinnar. Hér er metár í ferðaþjónustu - að vísu bara til 11. september, og álver hafa aldrei skilað meiri hagnaði."

Lýður botnar: "Norðurálsmenn bíða eftir að fá að fjárfesta meira," og þeir spyrja nánast einum rómi: "Af hverju erum við að fara inn í kreppu? Þetta er bara spurning um tilfinningu! Það er búið að segja mönnum að það eigi að vera kreppa."

Þeir nefna að þó ýmsir hafi tapað á hlutabréfamörkuðunum sé efnahagur á Íslandi alveg glimrandi góður í grundvallaratriðum. "Hér var ofsaleg bjartsýni, menn græddu ekki eins og þeir ætluðu og hafa tapað á hlutabréfum. En menn verða bara að læra af þessu.

Vissulega hefur hér verið viðskiptahalli, háir vextir, krónan veik og of mikil verðbólga, en samt sem áður eru undirstöðuatriðin góð. Þetta er ekki eins og 1967 þegar síldarstofninn hrundi. Þá hvarf grunnurinn; fiskurinn fór," segir Ágúst.

Samningurinn sem þeir voru að gera um kaup á KFF byggist á gömlum, góðum gildum eins og þeir orða það: "Að framleiða vöru og selja hana á hærra verði en það kostar að framleiða hana."

Þær raddir hafa heyrst í þjóðfélaginu síðustu daga að fall krónunnar tengist samningi bræðranna um kaup á KFF en þeir vísa því á bug. "Við sverjum allt slíkt gjörsamlega af okkur. Við vorum búnir að verja okkur og selja krónur fyrir pund áður en við sögðum frá þessum samningi," segir Lýður og Ágúst ítrekar að þetta sé á misskilningi byggt: "Á föstudeginum vorum við búnir að ganga frá öllum gjaldeyrisviðskiptum út af þessum kaupum og það var áður en nokkur hafði spurnir af þessu. Það var einmitt gert til þess að þetta myndi síður koma krónunni við. Við viljum ekki verða til þess að fella hana."

50% fjölgun í höfuðstöðvunum!

Höfuðstöðvar Bakkavör Group eru í Kaupmannahöfn og búa þeir bræður þar og í Reykjavík en kusu að hafa aðsetur í Kaupmannahöfn því það er landfræðilega hentugt. "Það að fara að morgni frá Íslandi og koma aftur að kvöldi er frekar erfitt en þarna náum við að keyra til Svíþjóðar og Hamborgar eða fljúga til Parísar og koma heim aftur sama dag," segir Lýður og þeir eru sammála um að þetta fyrirkomulag sé gott fyrir fjölskyldulífið.

Fjórir starfsmenn hafa til þessa verið í höfuðstöðvum Bakkavör Group í Kaupmannahöfn, að bræðrunum meðtöldum. Því er vart hægt að segja að yfirbyggingin hafi verið mikil, en Lýður upplýsir að nú hyggist þeir fjölga um heil 50% á skrifstofunni. Starfsmönnum muni fjölga úr fjórum í sex! "Það er aðallega vegna þess hve erlendu bankarnir, sem við sömdum við vegna kaupanna á KFF, gera miklar kröfur til upplýsingagjafar."

Bankarnir sem hér um ræðir eru tveir þeir stærstu í Evrópu, HSBC og Royal Bank of Scotland, auk Bank of Scotland, sem ku vera sá sjöundi stærsti í álfunni. Þeir lána Bakkavör Group alls 12,3 milljarða króna og endurfjármagna jafnframt allar skuldir fyrirtækisins, hvar sem er í heiminum. "Við segjum þar með upp viðskiptum við alla banka á Íslandi, nema hvað Bakkavör Ísland verður vitaskuld áfram í viðskiptum hér. Dótturfélögin eru í viðskiptum við banka hvert í sínu heimalandi."

Þeir bræður segjast mjög stoltir af því að hafa náð samningum við umrædda banka. "Það eru að sjálfsögðu engin veð eða fasteignir til fyrir þessum lánum en bankarnir sjá bara að reksturinn gefur vel af sér; þess vegna treysta þeir sér til að lána okkur þessa 12,3 milljarða til sjö ára," segir Ágúst.

Þeir telja það merkilegan áfanga að íslenskt fyrirtæki hafi náð að semja við þessa banka. "Þegar við viljum gera eitthvað meira ættum við að njóta trausts bankanna. Núna löbbuðum við inn - einhverjir tveir guttar - og enginn þekkti okkur neitt! Enda var nánast farið í persónunjósnir um okkar hagi til að kanna hverjir við værum!"

Skömmu fyrir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september voru þeir nálægt því að ganga frá samningi við Commerzbank í Þýskalandi um fjármögnun kaupanna á KFF. Það var í gegnum útibú bankans í London, en Þjóðverjarnir drógu sig algjörlega út úr verkefninu eftir tíðindin hörmulegu vestan hafs. "Þeir voru með 300 starfsmenn í turnunum og lokuðu Lundúnaútibúinu sínu í kjölfarið. Við vorum þar með aftur á byrjunarreit."

Samrýndir

Þeim finnst starfið mjög skemmtilegt og segja raunar að annars gengi dæmið ekki upp hjá þeim. "Þetta er þess eðlis að menn verða að gefa sig alla í verkefnið til að reksturinn gangi. Annaðhvort eru menn á fullu í þessu eða alls ekki," segir Ágúst og segir viðskiptin ekki frábrugðin öðru þar sem menn vilja ná árangri. "Annaðhvort setja menn sér markmið til langs tíma eða verða aldrei í fyrsta sæti. Þetta er alveg eins og í íþróttunum. Menn verða aldrei í toppformi ef þeir leggja ekki hart að sér."

Blaðamaður lýsir þeirri skoðun sinni að bræðurnir virðist í toppformi!

"Já, við eigum svo góðar fjölskyldur, sem leyfa okkur að standa í öllu þessu brölti," segir Lýður. Eiginkona hans er Guðrún Eyjólfsdóttir og eiga þau soninn Alexander, sem varð tveggja ára í fyrradag. Eiginkona Ágústar er Þuríður Reynisdóttir og eru þau barnlaus.

Hvað með frístundir; þekkja þeir bræður það orð?

Ágúst segist hafa verið mikið til fjalla, var leiðsögumaður "í gamla daga" og fer reyndar ennþá eina bakpokaferð á ári sem slíkur fyrir vini sína sem reka fyrirtæki, "til þess að fá loft í lungun."

Þau Þurí, eins og hann kallar konuna sína, hafa auk þess talsvert verið á gönguskíðum og stundað fjallamennsku.

Lýður nefnir einnig ferðalög þegar frístundir ber á góma, "en við konan mín höfum frekar lagt land undir fót og ferðast um framandi álfur; Suður-Ameríku og Asíu.

Enda segjum við það stundum bræður að þegar við eigum frí er gott að vera langt hvor frá öðrum! Við bjuggum í sömu blokkinni í Grafarvogi í sex ár, alveg þar til við fluttum til Danmerkur fyrr á þessu ári."

Bræðurnir hafa forðast sviðsljósið til þessa. Segjast hafa lítinn áhuga á að vera áberandi - kjósi þess í stað að láta verkin tala. "Eftir samninginn í vikunni verður fyrirtækið okkar meðal fimm stærstu á landinu, hvort sem litið er á hagnað, veltu eða starfsmannafjölda, og því fylgir að vera í umræðunni núna en það sem skiptir mestu máli er að ég tel samninginn koma sér mjög vel fyrir Ísland," segir Lýður.

Íslenska starfsmenn Bakkavör Group erlendis má telja á fingrum annarrar handar; það eru bræðurnir, skrifstofustúlka í Danmörku og tveir starfsmenn í Svíþjóð. Stefna þeirra er nefnilega að reka staðbundin fyrirtæki á hverjum stað, lókal-fyrirtæki eins og það er kallað á útlensku. "Bakkavör France er ofboðslega franskt fyrirtæki, og Bakkavör Sweden svakalega sænskt." Mikilvægt sé að fyrirtækin séu staðbundin, því viðskiptamenningin sé svo misjöfn milli landa.

Í lagi fyrst Íslendingar stjórna

Bræðurnir funda með stjórnendum allra dótturfyrirtækja Bakkavör Group fjórum sinnum á ári. "Kannastu við brandarana um Bandaríkjamanninn, Rússann og svo framvegis? Fundirnir eru nokkurn veginn svoleiðis! Rígurinn á milli landanna er mikill og við segjum stundum að eina ástæðan fyrir því að dæmið gangi sé að Íslendingar stjórni. Það væri vonlaust ef Frakki ætti að stjórna Þjóðverja og Breta," segir Ágúst en Lýður segir að þrátt fyrir þetta fljúgi brandarar á fundunum og stemmningin sé góð.

Þannig að íbúum stórra þjóða á borð við Þýskaland, Frakkland, Pólland og Bretland finnst ekkert athugavert við að tveir ungir menn frá Íslandi skuli vera að stjórna þeim?

"Maður þarf að sanna sig í þessu eins og öllu öðru," segir Ágúst. "Þegar við keyptum fyrirtækið í Svíþjóð, sem var miklu stærra en okkar, mættum við heilmikilli tortryggni; fólk skildi ekki hvernig einhverjir jólasveinar ofan af Íslandi ætluðu að fara að stjórna þarna. Svo ávinnur maður sér bara traust."

Bræðurnir sem slógust sem hundur og köttur í æsku standa nú eins og klettar saman í fyrirtækinu. "Við kláruðum slagsmálin vel fyrir tvítugt og samstarfið hefur verið einstaklega gott síðan. Við lærðum að tala út um hlutina á sínum tíma og gerum það enn," segir annar bróðirinn. Þeir leggja áherslu á að stundum greini þá á um leiðir en aldrei um markmið. "Velgengni okkar byggist ekki á göldrum, ekki á tilviljunum og ekki á heppni. Hún byggist á seiglu, góðu starfsfólki, því að hafa markmiðin í lagi og á mikilli vinnu," segir Ágúst.

skapti@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.