1. desember 2001 | Jólablað | 1431 orð | 9 myndir

Ábætisréttina má búa til löngu fyrir jól

Jólalurkur.
Jólalurkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sex æskuvinkonur og saumaklúbbssystur frá Keflavík bjuggu til uppáhalds eftirréttina sína á jólahlaðborðið. Óhætt er að segja að borðið hafi svignað undan kræsingunum. Jóhanna Ingvarsdóttir lenti í veislunni. Fyrir þá sem vilja gera annað um jólin en að standa í eldhúsinu má taka fram að þessir réttir eru auðveldir og fljótlegir í meðförum.
HANDAVINNA er sjaldan ástunduð í þessum ágæta klúbbi, en okkur þykir hinsvegar mjög gott að borða góðan mat, segja þær sex saumaklúbbssystur, sem að þessu sinni bjóða í veglegt eftirréttahlaðborð í heimahúsi í Hafnarfirði. Reyndar má segja að þær séu í ágætri æfingu þar sem mikið hefur verið um veisluhöld í þessum ágæta hópi enda eru þær af árgerðinni 1961 og hafa því allar verið að fagna fertugsafmælum í ár. Þær eiga það sameiginlegt að vera æskuvinkonur úr Keflavík og hafa því þekkst frá blautu barnsbeini þó þær hafist misjafnt að í hinu daglega brauðstriti. Þær voru ekkert að tvínóna við hlutina þegar þær voru beðnar um að deila uppáhalds eftirréttunum með lesendum Morgunblaðsins enda virtist veisluborðið ætla að svigna undan kræsingum þegar mætt var til veislunnar.

Þrátt fyrir stíf fundahöld í gegnum tíðina hefur klúbburinn aldrei verið svo frægur að fá á sig formlegt nafn, en hefð er hinsvegar orðin fyrir því að gera eitthvað skemmtilegt með eiginmönnunum svona einu sinni til tvisvar á ári.

Gestgjafinn að þessu sinni er Kolbrún Davíðsdóttir hársnyrtir og verslunarmaður. Vinkonurnar eru: Helga Harðardóttir hárgreiðslumeistari, Helga Ragnarsdóttir fótaaðgerðafræðingur, María Hafsteinsdóttir sjálfstæður atvinnurekandi, Sigríður Rósa Víðisdóttir tannlæknir og Særún Lúðvíksdóttir starfsmaður á Stöð 2. Sjöunda vinkonan, sem tilheyrir hópnum, Hildur Nanna Jónsdóttir, var fjarri góðu gamni, enda búsett í Rotterdam í Hollandi.

Þær uppskriftir, sem hér fylgja, eru yfirleitt mjög auðveldar og fljótlegar, enda segjast þær ekki hafa mikinn tíma í eitthvert meiriháttar "dúllerí". Auk þess sé hér um að ræða góða eftirrétti, sem útbúa megi löngu fyrir jól og geyma í frysti. Það sé auðvitað kostur fyrir þær húsmæður sem vilja gera annað á jólum en að standa í eldhúsinu.

Þær eru að minnsta kosti sammála um að vilja njóta jólanna í ró og næði og án þess að þurfa mikið fyrir hlutunum að hafa yfir sjálfa hátíðisdagana.

Ómmuís með

Ódáðahrauni

Helga Harðardóttir

2 egg

100 g sykur

½ lítri rjómi

Toblerone

Egg og sykur þeytt vel saman. Rjóminn þeyttur sér og honum blandað saman við eggjahræruna ásamt smátt brytjuðu Toblerone eftir smekk.

Ódáðahraun

200 g suðusúkkulaði

10 g plöntufeiti

150 g salthnetur

125 g Nóa súkkulaðirúsínur

Suðusúkkulaði og plöntufeiti brætt saman. Salthnetur brytjaðar smátt og settar út í bráðið súkkulaðið ásamt súkkulaðirúsínunum. Sett í lítil konfektform og kælt. Ísinn skreyttur með þessum hraunmolum.

Tímahrak

Helga Ragnarsdóttir

1 Ragnars döðlubotn

1 Ragnars rísbotn

3 pelar rjómi

100 g suðusúkkulaði

½ dós sýrður rjómi 10%

frosin brómber eða einhver

önnur ber til skrauts

Botnarnir tveir rifnir niður út í þeyttan rjómann. Sett í skál, eina eða fleiri. Súkkulaðið brætt og sýrður rjómi settur út í og yfir réttinn. Skreytt með brómberjum eða öðru sem til fellur eftir smekk.

Amarettóbragð

Helga Ragnarsdóttir

2 Ragnars Amarettobotnar

Amarettolíkjör eða einhver

annar líkjör að eigin vali

1 l rjómi

Litlir amarettobotnar skornir út með glasi og settir í skál fyrir hvern og einn. Bleyttir upp með líkjörnum. Þeyttur rjómi settur yfir botnana í skálunum og skreytt með valhnetukjörnum að hætti Hildar Nönnu Jónsdóttur, saumaklúbbsvinkonu í Hollandi.

1 eggjahvíta

1 msk vatn

½ kg valhnetukjarnar

1 bolli sykur

1 tsk kanill

½ tsk salt

Eggjahvíta og vatn þeytt stíft. Valhnetukjarnar settir út í. Sykri, kanil og salti blandað saman og bætt út í blönduna. Sett í form og bakað í ofni við 180°Celsíus í 30 mínútur, en snúið við eftir 15 mínútur.

Jólalurkur

Sigríður Rósa Víðisdóttir

4 stór egg

1 bolli sykur

1 tsk vanilludropar

1/3 bolli volgt vatn

1 bolli hveiti

1 msk kakó

1 tsk lyftiduft

¼ tsk salt

flórsykur til að sigta

yfir kökuna

1 peli rjómi

minnsta dós af ananaskurli

Þeytið eggin vel saman og bætið svo sykrinum út í smátt og smátt. Hrærið í um það bil fimm mínútur eða þar til soppan er orðin ljós og þykk. Hrærið vanilludropum og vatni rólega út í. Sigtið þurrefnin varlega út í. Setjið deigið í smurt og smjörpappírslagt rúllutertuform eða á ofnplötu, um það bil 25 x 40 cm, og bakið í um 12 mínútur við 170°C. Stráið flórsykri á smjörpappír og hvolfið yfir. Þeytið rjómann, bætið síuðu ananaskurli út í, setjið inn í kökuna og rúllið henni upp á löngu hliðinni. Snyrtið endana báðum megin með því að skera um það bil 6 cm af í skáa beggja vegna og bætið endunum við rúllutertuna miðja þannig að þeir myndi eins og afskornar greinar. Búið til kremið.

Krem

1 eggjahvíta

1½ bolli sykur

½ bolli sjóðandi vatn

1 tsk vanilludropar

½ tsk cream of tartar

2 msk sýróp

salt

Allt þeytt saman í um 10 mínútur. Kreminu smurt á kökuna. Súkkulaði brætt og sett utan á kremið eins og rendur í trjádrumbi. Athugið að nota má hvaða rúllutertu sem er í lurkinn og hvaða krem sem er, allt eftir smekk hvers og eins.

Dömuhringur

Sigríður Rósa Víðisdóttir

50 g möndlur, afhýddar

og heilar

50 g heslihnetur, heilar

6 msk möndlulíkjör,

t.d. Amaretto

1-2 dl kælt kaffi

300 g lady fingers kex

150 g dökkt súkkulaði

½ lítri rjómi

100 g sykur

flórsykur og súkkulaði

til skreytingar

Möndlur og hnetur settar í 200°C heitan ofn í um 5 mínútur. Kældar og hýðið burstað af heslihnetunum. Saxað smátt. Olía borin inn í eins lítra ísform úr plasti eða í skál. Kaffi og líkjör blandað saman og lady fingers kexið vökvað með því eftir þörfum. Lady fingers kexinu er síðan raðað innan í formið, en smáhluti geymdur til að setja ofan á. Helmingurinn af súkkulaðinu er saxaður smátt. Rjóminn er þeyttur með sykrinum og brytjaða súkkulaðið, hnetur og möndlur sett út í rjómann. Helmingurinn af rjómablöndunni er smurt jafnt á lady fingers lagið í skálinni. Síðan er afgangurinn af súkkulaðinu bræddur í vatnsbaði, kælt örlítið og sett út í það sem eftir var af rjómanum. Fyllt upp í formið með súkkulaðirjómanum. Jafnið botninn og raðið restinni af lady fingers kexi ofan á. Snyrtið og setjið plast yfir. Formið sett í kæli í um það bil 12 klukkustundir. Hvolfið úr forminu. Sigtið flórsykri yfir og skreytið með rifnu súkkulaði.

Konfektterta

Kolbrún Davíðsdóttir

3 egg

100 g sykur

100 g heslihnetur

2 msk hveiti

¼ tsk lyftiduft

100 g suðusúkkulaði

Egg og sykur stífþeytt. Hnetum, hveiti, lyftidufti og súkkulaði bætt út í eggjahræruna og jafnað saman við. Bakað við 200°C í 20 mínútur. Botninn bleyttur upp með 2-3 msk. af sérríi og hann síðan smurður með 1 lítilli krukku af apríkósumarmelaði. Því næst er botninn hjúpaður með 250 g af konfektmarsípani og loks 100-150 g af bræddu suðusúkkulaði. Skreytt með ferskum ávöxtum, til dæmis kíví og jarðarberjum. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma.

Gauja jólaís

Kolbrún Davíðsdóttir

6 egg

1 bolli púðursykur

1 tsk vanilludropar

½ l þeyttur rjómi

½-1 dl líkjör, t.d. Bailey's

eða Grand Marnier

Egg og púðursykur þeytt vel saman. Vanillu blandað saman við og loks líkjör og rjóma varlega með sleif. Sett í form og fryst. Ísinn er borinn fram með heitri Mars súkkulaðisósu, sem búa má til með því að bræða saman í örbylgjuofni þrjú stykki af Mars súkkulaði og 2 dl af óþeyttum rjóma. Hrært í nokkrum sinnum á meðan þetta er brætt saman.

Kókosterta með

frystum rjóma

Særún Lúðvíksdóttir

4 eggjahvítur

200 g sykur

200 g kókosmjöl

Eggjahvítur og sykur stífþeytt. Kókosmjölið jafnað út í með sleif. Bakað sem einn botn við 170°C í 20 mínútur.

Kremið

4 eggjarauður

60 g flórsykur

100 g suðusúkkulaði

50 g smjör

Eggjarauður og flórsykur hrært vel saman. Suðusúkkulaðið brætt í vatnsbaði og smjörið jafnað út í. Kælt í 10 mínútur og kreminu smurt á botninn. Hálfur lítri af rjóma þeyttur og hann settur í jafn stórt form og kakan var bökuð í. Rjóminn frystur í forminu og settur á kökuna rétt áður en hún er borin fram.

Fryst sítrónukaka

með kívísósu

María Hafsteinsdóttir

1 sítróna

100 g flysjaðar möndlur

2 eggjarauður

1 dl sykur

½ tsk vanillusykur

2 eggjahvítur

3 dl rjómi

2 dl sýrður rjómi

Burstið sítrónuna í heitu vatni og rífið börkinn. Pressið 2 matskeiðar af safa úr sítrónunni. Fínsaxið möndlur. Þeytið eggjarauður, sykur og vanillusykur í ljósa, létta hræru. Bætið í rifnum sítrónuberki, sítrónusafa og möndlum. Stífþeytið eggjahvíturnar og rjómann, sitt í hvoru lagi. Hrærið sýrða rjómanum í eggjarauðublönduna, blandið svo hvítunum og helmingi rjómans í. Hellið hrærunni í springform. Látið afgang rjómans ofan á. Þekið formið plasti og stingið í frysti í a.m.k. 2 klukkustundir. Skerið kökuna úr forminu með hníf (dýft í heitt vatn) og setjið hana á fat. Borin fram með kívísósu.

Kívísósa

2 dl vatn,

½ dl sykur

4 kívíávextir

Sjóðið vatn og sykur við vægan hita í 10 mínútur. Kælið. Flysjið og kremjið ávextina í sigti. Blandið maukinu í sykurlöginn. Geymið í kæli uns borið er fram. Gott er að laga sósuna deginum áður og hana skal geyma í dós með þéttu loki í kæliskápnum. Ekki má frysta sósuna.

Ananasfrauð

María Hafsteinsdóttir

1-2 dósir kurlaður ananas

eða um 500 g

3 stórar eggjahvítur

3 msk flórsykur

25 g möndlur

Hellið ananas ásamt safa í skál, byrgið hana og geymið í frysti uns massinn verður grautkenndur. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið flórsykri. Blandið rösklega saman frystum ananas og eggjahvítum og stingið frauðinu aftur í frysti. Hrærið í öðru hvoru alveg þar til borið er á borð. Frauðið er tilbúið um 2 klst. eftir að eggjahvítunum er bætt í. Flysjið möndlurnar, hlutið þær í flögur og gyllið þær á þurri pönnu. Setjið sneiðar af ananasfrauði í há, köld glös. Stráið ristuðum möndluflögum yfir. Borið fram strax.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.