FRAMKVÆMDASTJÓRN Evrópusambandsins (ESB) lagði í gær fram tillögur um frekari niðurskurð fiskveiðikvóta í efnahagslögsögu sambandsins vegna þverrandi fiskistofna. Þar á meðal er tillaga um að draga úr þorskveiðum í Kattegat um 60%.
FRAMKVÆMDASTJÓRN Evrópusambandsins (ESB) lagði í gær fram tillögur um frekari niðurskurð fiskveiðikvóta í efnahagslögsögu sambandsins vegna þverrandi fiskistofna. Þar á meðal er tillaga um að draga úr þorskveiðum í Kattegat um 60%.

Nái tillögurnar óbreyttar fram að ganga kemur minnkun aflaheimilda einna harðast niður á sjómönnum sem stunda veiðar á Kattegat. Í meginatriðum fela nýju tillögurnar í sér eftirfarandi samdrátt auk niðurskurðarins í Kattegat:

Ýsukvóti í Írlandshafi verði skertur um 52%, sólflúrukvóti í Norðursjónum verði skertur um 25%, rauðsprettukvóti við vesturströnd Skotlands verði skertur um 20% og þorskkvóti í Írlandshafi verði skertur um 10%.

Svartur dagur fyrir sjómenn

Síðar í þessum mánuði verða nýir þorsk- og lýsingskvótar í Norðursjó ákveðnir og er ekki búist við aukningu þeirra.

"Þetta er enn einn svartur dagur fyrir evrópska sjómenn," sagði Franz Fischler, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB en bætti við að kvótaskerðingin væri ill nauðsyn. Stofnar flestra fiskitegunda, þar á meðal þorsks og ýsu, væru "við hættumörk". Án aðgerða yrðu sumir fiskistofnar með öllu útdauðir í Norðursjó eftir tvö ár. Fram kom á netsíðu BBC að Fischler hefði sagt að vandinn væri í aðalatriðum sá að alltof stór floti væri að keppa um of fáa fiska. Afkastageta fiskveiðiflota ESB-ríkjanna væri "langt umfram" þörf.