Alfreð Þorsteinsson
Alfreð Þorsteinsson
Fjárhagsstaða Reykjavíkur, segir Alfreð Þorsteinsson, er afar sterk um þessar mundir.
ÞAÐ er hollt fyrir Reykvíkinga að rifja upp hvernig viðskilnaður sjálfstæðismanna var l994. Borgarsjóður átti hvorki fyrir rekstrargjöldum né fjárfestingum. Fyrirtækjum borgarinnar hafði verið att út í óarðbærar fjárfestingar eins og Perluna, sem kostaði á núvirði 2.500 milljónir króna og hefur síðan kostað Reykvíkinga þar að auki 100 milljónir á ári eða 1.000 milljónir síðan l991. Jafnvel varmaorkuverið á Nesjavöllum var óarðsöm framkvæmd, þótt nauðsynlegt hafi verið að reisa það.

Undir forystu Reykjavíkurlistans var ákveðið að reisa raforkuver á Nesjavöllum, sem skilar um 800 milljóna króna tekjum á þessu ári og þær munu vaxa síðan árlega uns þær verða tæplega 2.000 milljónir árlega eftir fáein ár. Þessi framkvæmd er því sannkölluð gullnáma, auk þess, sem hún var gífurleg lyftistöng fyrir atvinnulífið, því að hún gerði Norðuráli kleift að hefja starfsemi hér á landi.

Enn á ný er Orkuveita Reykjavíkur að undirbúa virkjun. Að þessu sinni á Hellisheiði. Sú virkjun kemur til með að efla atvinnulífið á nýjan leik og stuðla að áframhaldandi lágum orkugjöldum á höfuðborgarsvæðinu með sama hætti og Orkuveitan hefur stuðlað að lægra verði á fjarskiptamarkaðnum með starfsemi Línu.Nets.

Fjárhagsstaða Reykjavíkur er afar sterk um þessar mundir og skuldir á hvern Reykvíking lægri en almennt gerist hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma er verið að tryggja undirstöður atvinnulífsins með arðbærum fjárfestingum innanlands sem erlendis og má minna á í því sambandi útrásarverkefni Orkuveitunnar í Peking, þar sem ráðgert er að reisa hitaveitu í tengslum við Ólympíuleikana 2008.

Höfundur er borgarfulltrúi og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.