SAMTÖKIN Jihad hétu því í gær að hefna loftárása Ísraelshers á borgir Palestínumanna á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu en árásunum var fram haldið í gær, annan daginn í röð. Féllu tveir í árásunum og um 150 særðust.
SAMTÖKIN Jihad hétu því í gær að hefna loftárása Ísraelshers á borgir Palestínumanna á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu en árásunum var fram haldið í gær, annan daginn í röð. Féllu tveir í árásunum og um 150 særðust. Nokkur flugskeyta Ísraelshers lentu á lögreglustöð við hliðina á vinnustað Yassers Arafats, forseta heimastjórnarinnar, í borginni Ramallah á Vesturbakkanum en talsmenn Ísraelsstjórnar vildu þó ekki kannast við að Arafat sjálfur hefði verið meðal skotmarka.

Arafat fordæmdi árásirnar og sagði að þær væru til marks um að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, vildi kippa fótunum undan tilraunum Arafats til að halda palestínskum hryðjuverkamönnum í skefjum.

Sagði Arafat að hann hefði látið handtaka marga helstu leiðtoga palestínskra öfgahópa í kjölfar sjálfsmorðsárása þeirra í Ísrael um helgina, þar sem 25 óbreyttir borgarar fórust. Góður árangur hefði því náðst í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þann árangur vildi Sharon hins vegar að engu gera enda væri staðreyndin sú að hann vildi ekki hefja viðræður um varanlegan frið í Miðausturlöndum.

"Hann vill ekki að aðgerðir mínar skili árangri og því hefur hann fyrirskipað aukinn hernað gegn borgum okkar og bæjum, auk helstu stofnana okkar," sagði Arafat.

Ekki einhugur um aðgerðirnar innan ísraelsku stjórnarinnar

Sharon hafði á mánudag sagt Arafat bera ábyrgð á sjálfsmorðsárásunum um helgina og í gær sagði sendiherra Ísraels í Bandaríkjunum að hugmyndir um viðræður fulltrúa Ísraelsstjórnar við Arafat að undangengnu sjö daga vopnahléi væru ekki lengur á borðinu. "Nú er spurningin aðeins sú hvort Arafat muni stöðva hryðjuverkin eða ekki," sagði sendiherrann, David Ivri.

Ekki er einhugur innan ísraelsku ríkisstjórnarinnar um aðgerðirnar og Shimon Peres, utanríkisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, gaf í skyn að flokkur sinn myndi hugsanlega hætta stjórnarsamstarfi við Likud-flokk Sharons. Peres hafði áður fordæmt það sem hann kallaði herferð Sharons gegn Arafat og hið sama gerði Hubert Vedrine, utanríkisráðherra Frakklands, sem sagði allt benda til að Sharon vildi losna við Arafat og heimastjórn hans af sjónarsviðinu.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti Arafat hins vegar til að beita sér enn frekar gegn harðlínumönnum í eigin röðum. "Arafat forseti getur gert meira. Mér finnst ekki að fullur hugur hafi fylgt máli hjá honum," sagði Powell. Ítrekaði Powell þá afstöðu sína að Ísraelsmenn hefðu fullan rétt til að verja sig. Þeir yrðu þó að gera sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Tilkynnti George W. Bush Bandaríkjaforseti að hann hygðist frysta allar eignir íslamskra samtaka í Bandaríkjunum sem grunuð eru um að styðja við bakið á Hamas-samtökunum, en þau stóðu fyrir sjálfsmorðsárásunum um helgina.

Jerúsalem, Gaza, Washington, Búkarest. AFP.