Afganskar konur bíða þess að erlendar hjálparstofnanir útbýti ýmsum nauðþurftum í höfuðborginni Kabúl.
Afganskar konur bíða þess að erlendar hjálparstofnanir útbýti ýmsum nauðþurftum í höfuðborginni Kabúl.
GERT er ráð fyrir að bráðabirgðastjórn fyrir Afganistan taki við völdum í landinu 22. desember nk. skv. samningsdrögum milli fjögurra helstu þjóðarbrotanna en fulltrúar þeirra hafa fundað undanfarna átta daga í Bonn í Þýskalandi.
GERT er ráð fyrir að bráðabirgðastjórn fyrir Afganistan taki við völdum í landinu 22. desember nk. skv. samningsdrögum milli fjögurra helstu þjóðarbrotanna en fulltrúar þeirra hafa fundað undanfarna átta daga í Bonn í Þýskalandi. Vonast er til þess að hægt verði að skrifa undir samningana í dag en í gærkvöldi var verið að leiða til lykta ágreining um verkaskiptingu í stjórninni.

Fyrr um daginn höfðu vestrænir stjórnarerindrekar sagt að bráðabirgðastjórnin tæki til starfa í næstu viku en Ahmad Wali Masood, einn af aðalsamningamönnum Norðurbandalagsins, sagðist aðspurður telja að það yrði ekki fyrr en 22. desember.

Skv. samningsdrögunum mun bráðabirgðastjórnin verða skipuð 29 mönnum. Herma fréttir að Pastúninn Hamid Karzai fái veigamesta embættið en Mohammed Zahir Shah, fyrrverandi konungur Afganistans, mun hafa gert það að tillögu sinni í gær. Karzai er meðal þeirra sem stjórna nú atlögunni gegn vígi talibana í Kandahar.

Ennfremur er gert ráð fyrir að Abdullah Abdullah, talsmaður Norðurbandalagsins, verði þar í lykilhlutverki, t.d. sem utanríkisráðherra.

Fulltrúar fylkinga, sem andsnúnar eru talibönum, sögðust í gær hafa hörfað frá Kandahar-flugvelli enda héldu Bandaríkjamenn þá áfram að láta sprengjum rigna yfir skotmörk á svæðinu, en þar ráða talibanar enn ríkjum. Talsmaður Karzais sagði Pastúnaleiðtogann hins vegar hafa náð á sitt vald bæ sem aðeins er í um 15 km fjarlægð frá Kandahar.

Bonn, Kabúl. AFP.