[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LJÓS VORU tendruð á Hamborgartrénu svokallaða á laugardaginn á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Það er Hamborgarhöfn í Þýskalandi sem gefur tréð og er þetta í 36. sinn sem Reykjavíkurhöfn þiggur tré að gjöf frá Hamborg.
LJÓS VORU tendruð á Hamborgartrénu svokallaða á laugardaginn á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Það er Hamborgarhöfn í Þýskalandi sem gefur tréð og er þetta í 36. sinn sem Reykjavíkurhöfn þiggur tré að gjöf frá Hamborg.

Ýmsir lögðu hönd á plóginn til að tréð kæmist á leiðarenda, fyrstan má nefna skógarhöggsmanninn Karl Konrad, en úr hans hendi tók þýski herinn við trénu og flutti það til hafnar í Hamborg og að lokum var það Eimskipafélag Íslands sem að venju flutti tréð endurgjaldslaust til Íslands. Dr. Jürgen Sorgenfrei, forstjóri markaðssviðs hafnarinnar í Hamborg, og dr. Henrik Dane, sendiherra Þýskalands á Íslandi, afhentu forsvarsmönnum Reykjavíkurhafnar tréð á laugardaginn.

Í ár eru liðin 36 ár frá því fyrsta Hamborgartréð kom til landsins. Árleg afhending trésins er þakklætisvottur til íslenskra sjómanna fyrir matargjafir til barna í Hamborg sem þeir færðu stríðshrjáðum börnum borgarinnar eftir síðari heimsstyrjöldina. Upphafsmenn þessarar hefðar voru Hermann Schlünz og Warner Hoenig sem minntust rausnarskapar Íslendinga og ákváðu árið 1965 að minnast hans með þessum hætti. Þeir stóðu að skipulagningu og undirbúningi við gjöfina frá upphafi en síðari ár hefur markaðssvið Hamborgarhafnar, Reykjavíkurhöfn og Þýsk-íslenska verslunarráðið tekið við því starfi.

Margmenni var á Miðbakka er kveikt var á jólaljósunum á trénu og Kór Kársnessskóla söng við athöfnina undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur.